Morgunblaðið - 04.11.1966, Blaðsíða 10

Morgunblaðið - 04.11.1966, Blaðsíða 10
V 10 MORCU N B LAÐIÐ ’ Föstudagur 4. nóv. 1966 HÉR á eftir fer hluti úr samtali sem Matthías Joh- annessen hefur skrifað við Halldór Laxness, en það birt ist í nýútkomnu hefti af Iceland Review. Hefur Morgunblaðið fengið leyfi ritstjóra tímaritsins til að birfc i hluta úr samtalinu: ins: Halldór Laxness Menn fara ekki í leikhús með logaritma — segir Halldór Laxness í snmtali „Við stóðum við gluggann og horfðum út. Það var sólbráð í fjöllum og vor í lofti, og áin sem venjulega er lítil spræna, valt kolmórauð um farveg sinn. Sólin var að taka völd uppi á heiðinni og skrofanálin frá því í fyrra að leysast úr læðingi. „Vorið kom í dag“, sagði skáldið og bætti við að hann væri ánægður með litinn á ánni. „Hún er eins og kaffið sem við erum að drekka", sagði hann, og settist í djúpan stól í einu horninu, og við snerum okkur að umræðuefninu. „Ég hef frá því fyrsta haft leikritagerð í huga“, sagði hann, „en ekki lagt stund á hana fyrr en síðustu árin. Þetta er tilraun af minni hálfu; ég er avantgard- isti án þess að virða neinar af þeim formúlum sern Frakkar, ítalir eða Bandaríkjamenn gefa út. Ég reyni sjálfur að finna eigin formúlu, en ætla ekki að troða henni upp á neinn. Meðal stórþjóðanna eru einstaklingar og hópar, svokallaðir framúr- stefnumenn, sem alltaf eru að finna upp formúlur í listinni og vilja svo fyrir hvern mun fá aðra til að kyngja þeim; troða sem sagt sinni formúlu upp á okkur hina, í því skyni að frelsa heiminn. Ég upplifði súrrealismann, sem var einhvers konar mam- fest á sínum tíma, eins og ég hef rætt um í Skáldatíma, já ekki ósvipað manifesti kommún ista — gert í því skyni að frelsa heiminn. Ég hef haft áhuga á þessum formúlum eða stefnum vegna þess eins, að ég tel mér skylt að skoða hvað í þeim býr, en ekki til að gleypa þær með húð og hári“. Og skáldið kreppir hnefana eins og til að léggja áherzlu á sjálfstæða og persónulega af- gtöðu til leikritagerðar eins og skáldsögunnar. Hann nefndi nokkrar af formúlunum, til dæmis existensíalismann og sós íalrealismann í Sovétríkjunum, og gat þess ennfremur að leik- rit Breehts hefðu orðið að svona formúlu, meðan hann lifði, en allt benti til þess að raunveru- leg stefna hans mundi smám saman gleymast, eða að minnsta kosti breytast frá því sem höfundur hennai vildi, með an hann var og hét, enda mark- aði hann stefnuna sjálfur með sterkri - leikstjórn. Þá minntist Halldór Laxness á enn eina íor- múluna ,,le nouveau roman“ — eða nýju skáldsöguna, „Þessi stefna hefur sprottið upp kringum París, og mér hef ur þótt hún þess verð að gefa henni gaum, ekki til að læra af henni, heldur til að fylgjast með því sem verið er að gera. En maður getur lítið lært af henni. Það er leiðinlegt að horfa upp á að þeir sem fyrstir taka við þessum formúlum, eru bókmenntamenn smáríkja. Þeir taka við diktatinu. Og nú eru Danmörk og Svíþjóð, svo dæmi séu nefnd yfirfull af „le nou- veau roman" — og blaðamenn taka inn'þetta nýmeti í stórum skömmtum — og gleypa það hrátt. Margt er skrifað um þessa stefnu til dæmis í löndum eins og Júgóslavíu og stórveldum eins og Bandaríkjunum. En ég læt ekki þröngva upp á mig bókmenntateoríum, sem fundn- ar eru upp af einhverju fólki, sem mér kemur ekkert við. Mað ur verður samt að þekkja þetta allt, annars þreifar maður fyrir sér í myrkri — og þá gæti líka farið svo að maður fyndi þetta upp sjálfur, eins og þegar ís- lenzki bóndinn fann upp raf- magnið. En það var 100 árum of seint“. Við hvíldum okkur nú stutta stund frá samtalinu og ég spyr um mynd af fullorðinni, grá- hærðri konu á íslenzkum peysu fötum, hún stendur á skrifborð- inu. Hann segir að það sé móð- ir hans. Og hann talar af virð- ingu og hlýhug um konuna á myndinni, og segir eins og hann sé stoltur af því: „É'g er að líkj- ast henni æ meir með aldrin- um“. Svo bætti hann því við að hún hafi verið hlédræg kona og bundin sínu heimili: „Hún var nánast huldukona", sagði hann og brosti. „Hún hafði alltaf sterka þrá til Reykjavíkur, og vildi ekki búa í sveit", — að sínu leyti eins og Halldór Sjálf ur: huldumaður meðal heims- borgara; og þó kannski meiri heimsborgari en flestir aðrir úti í þeirri stóru veröld. En lík- lega hefur hann sótt verklagn- ina til föður síns, sem var rómað ur vegavinnuverkstjóri og í hópi dugmestu bænda í sinni sveit og þó víðar væri leitað. Á stórri hillu í bókaskápnum var fjölskrúðugt safn af brúð- um, postulínsdýrum og alls kyns leikföngum, sem kynlegt var að sjá í vinnustofu rithöf- undar. Halldór Laxness sagðist hafa safnað þessu frá dætrum sínum. „Nú eru þær ánægðar með að ég skyldi hafa varðveitt þetta“, sagði hann, „annars hefði það líklega allt farið forgörðum. Hérna er manneskja frá Dan- mörk, önnur frá Rússlandi, og enn önnur frá Hollandi. Og hér er hvítstjörnóttur hestur. Ég kalla þetta þjóðina mína. Og stundum koma dætur mínar með nýja manneskju eða nýtt dýr og segja: „Má ekki bæta við þjóðina þína?“ — Táknrænt safn fyrir rithöfund sem á stóra „þjóð“ lesenda um víða veröld. Og alltaf bætist við „þjóðina" hans. Frú Auður kom með meira kaffi og við tókum upp þráðinn, þar sem frá var horfið. Ég spurði skáldið hvort ýmsum mundi ekki þykja hann hafa lært af Brecht í leikfitagerð. Hann hristi höfuðið, svaraði: „Ef þú átt við, að það séu söngvar í leikritum mínum, þá eru þeir ekkert frekar komnir frá Brecht né öðrum. Ég veit ekki betur en það sé sungið í gömlum íslenzkum leikritum eins og Skuggasveini, já, það er eiginlega sungið í flestum leikritum, nema kannski ekki hjá Ibsen. Þó Brecht sé for- múla, veit ég eiginlega ekki, hvort hann hefur ætlazt til að allir tækju upp hans stefnu og skrifuðu samkvæmt þeirri epísku línu, sem hann lagði. Ég er ekki viss um það. Hann var mjög gáfaður rithöfundur, en ég skil ekki að hann hafi ætlazt til að öll heimsbyggðin skrifaði eins og hann. „En mundir þú ekki hafa lært mest af honum?" „Nei, akkúrat ekkert. Ég sé ekkert iíkt með mínum verk- um og hans — kannski við get um sagt að þessi leikrit mín standi nær fyrstu leikritum hans en þeim síðari, dýpra mundi ég nú ekki taka í árinni. Brecht hóf ritmennsku sína sem anarkisti, en fór æ lengra í átt- ina til marxisma — og er talinn marxistískur leikritahöfundur í sínum síðustu verkum, þó Rúss- ar vilji ekki viðurkenna hann sem slíkan. Þeir halda í 19. ald- ar leikhúsið, sem var mótað af Stanislavsky og er í anda Ib- sens. Þeir kunna að setja upp mjög vandaðar klassískar leik- sýningar, til dæmis á Shake- speare". „Það er enginn marxismi í þínum leikritum?" „Nei, síður en svo“. „Þú telur þig ekki marxista?" „Nei, það hef ég aldrei gert. Á tímabili var ég vinstrisinnað- ur, eins og sagt var — án þess þó að vera nokkurn tíma orþó- dox; ég hékk þó í íslenzka sósíal istaflokknum fyrir stríð, vegna þess ég þurfti og vildi vinna með þeim að vissum þjóðfélags- umbótum, sem ég hafði áhuga á og barðist fyrir sem hugsjóna- maður. Nú tel ég mig hvergi í flokki. Þó mætti kannski segja að ég hafi vinstri tilhneigingar, byggðar á lýðræðislegum grund velli. Einræði og alræðisvald eru eitur í mínum beinum, ég hef enga trú á því. Ég held að allir íslenzkir stjórnmálaflokk- ar byggi að meira eða minna leyti á lýðræðishugmyndinni. Lýðræðishyggja er að vissu leyti vinstri stefna eins og hún birtist í velferðarríki líku því íslenzka og ég veit ekki bet- ur en allir íslenzkir stjórn- málaflokkar hafi velferðarríkið á stefnuskrá sinni. Og þessi ís- lenzka lýðræðishyggja er angi af vinstri stefnu, nefnilega þeirri að skírskota til fólksins. Rússneska kerfið byggir ekki á lýðræðisstefnu í þeim skilningi okkar að ríkisstjórn og valdhaf ar séu fulltrúar almennings. Þar situr ríkisstjórn, sem stjórn ar ekki í umboði almennings, heldur eftir bókum sem voru skrifaðar af meisturum með sítt, hvítt skegg. Þessir valdhaf ar stjórna sem sagt í umboði Bókar. Þeir, sem vilja afnema lýðræði, eru allt aðrir menn en þeir, sem við höfum hér heima á íslandi. fslenzkir valdhafar stjórna þannig með vinstri lýð- ræðisstefnu sem eins konar bak hjarl, því ekki eru þeir hægri sinnaðir kapítalistar, heldur vel ferðarríkismenn, eins og ég sagði áðan“. Nú þótti mér rétt að spyrja, hvort ekki mundi vera til að- dreifa þjóðfélagsádeilu í leik- ritum skáldsins. „Ég gæti ímyndað mér að margt í mínum leikritum falli undir satíru — er það ekki heimsádeila? En tilgangur verk anna, að minnsta kosti sá ytri tilgangur, er að veita fólki hugvekjandi skemmtun. En þá gerist það, eins og þú hefur tekið eftir, að margir íslendingar viðast ekki þola þessa fomúlu eða stefnu í vekum mínum, þeir þola ekki hvað ég legg mikla áherzlu á teater í verkum mín- um. Ég hef áhuga á öllu sem heitir teater, og reyni að gera mér mat úr því. Sumir gagn- rýnendur segja: þetta og hitt á að strika út. Það er vitleysa. En sannleikurinn er sá, að þeir hafa engan áhuga á teater og skilja það ekki. Teater er fyrir utan líf þeirra og hugsana- gang. En teater er mér aðal- atrið. í skáldsögunni er skírskot að til lesandans með því að segja sögu sem sennilegasta, annars hættir hann að trúa. En leikrit er sjónleikur, sérstakur heimur, sannur eða ósannur eft ir at'-U '; n, það fer eftir því hvt maður skilgreinir satt og ósatt. Óskaplega lygin leik- hússena getur haft að geyma mikinn sannleika, þó hún sé óhugsandi í veruleikanum. Leik rit á að vekja skemmtun með áhorfandanum og veita honura forvitnilega kvöldstund. Það er ekki ætlazt til að hann komi í leikhúsið með logaritma — töfl ur upp á vasann til að fá botn í það, sem gerist á sviðinu. Hann verður að koma eins og krakki og þykja annaðhvort gaman eða ekki gaman. Það er ekki hægt að koma í leikhúsið eins og sumir bókmenntagagnrýnendur, svo gegnlærður, að maður nýt- ur einskis sem fyrir augu ber. Menn sem koma í leikhús klyfj aðir hleypidómum, verða bara reiðir og hafa ekki annað upp úr krafsinu en illsku og ónot. Mörgum bókmenntasiðuðum menntamönnum og jafnvel leik dómurum hættir til að leita í leikritum að einhverju sem alls ekki er þar, og átti alls ekki að vera þar. Og vegna þessar- ar leitar að því, sem ekki er hægt að finna, sjá þeir ekkert af því, sem er að gerast á sen- unni — og fara svo ólukkulegir heim til sín“. Halldór Laxness hefur ein- hverntíma sagt að hann hafi lítinn áhuga á bandarískri leik- ritun. Ég ymti að þessu atriði, og hann svaraði: „Ég horfi á þessi lelkrit með vissri athygli, en þau eru byggð á svo gamalli evrópskri erfð. að Evrópumenn sem leita nýrra leiða í leikritagerð geta lítið $ótt til þeirra. Aftur á móti hafa þessi leikrit miklar al- mennar vinsældir, kannski meiri í Evrópu sjálfri en Bandaríkjunum. En mér leiðist eitt af höfuðatrið- um bandarískrar leikritagerð- ar — þessi skelfilega ame- ríska sálarþjáning, sem á ræt- ur sínar í verkum O’Neils. Þessi yfirþyrmandi sálarþjáning þyk- ir mér hvimleið, og ég hef ekki áhuga á henni. En hún á sér vafalaust forsendur í einhver '- um veruleika, sem þeir eiga við að glíma, en við þekkjum ekki. Slík sálarþjáning fer því fyrir ofan garð og neðan hjá mér. Ég mundi ekki vilja byggja mína leiklist á Ibsen og Strindberg. Ég viðurkenni samt óumdeilan- legt gildi þeirra fyrir leikbók- menntirnar, og dáist að ýmsum verkum Ibsens, en mér mundi aldrei detta í hug að taka þau til fyrirmyndar". Að síðustu töluðum við dá- litla stund um skáldsagnagerð og Halldór Laxness sagði, að í síðustu skáldsögum hans hefði bilið raunverulega verið brúað milli skáldsagnagerðar og leik- listar. „Það mætti vel leika hpjla kafla í síðustu skáldsögum m;n- um óbreytta", sagði hann. . En þegar ég sneri mér að leikrita- gerð komu ný vandamál í liós — vandamál leikhússins. Og nú hef ég um nóg að hugsa, næsta áratuginn að minnsta kosti. Margir, sem hafa skrifað um leikrit mín, halda að ég rubbi þeim upp í planleysi og kasti til þeirra höndunum — og þar af leiðandi séu þau einber vit- leysa. En vel gæti ég ímyndað mér, að það eigi eftir að koma á daginn, ef einhver léti svo lít- ið að skoða í saumana á þeim, að þau eru ekki hrist fram úr erminni“. Og svo púaði Nóbelsskáldið vindlareyknum út í loftið og hló upphátt, og ég gerði mér þess grein að hann var að hlæja að ýmsu, sem gagnrýnendur höfðu sagt um leikritin hans“. M. | fgum ordUip Sa<H

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.