Morgunblaðið - 22.10.1978, Blaðsíða 31

Morgunblaðið - 22.10.1978, Blaðsíða 31
NETWORK — vitahringur NETWORK, Am. 1976. Leikstjóri. Sidney Lumet. Handriti Paddy Chayeísky (Oscar) Kvikmyndatakai Owen Roizman. Leikenduri Peter Finch (Oscar). Faye Dunaway (Oscar), William Holden. Robert Duvall. Beatrice Straight (Oscar). Ned Beatty o.fl. Network er fyrir ýmsar sakir athyglisverð mynd, m.a. vegna þess, að hún fjallar um sjónvarpið sem leiðandi afl í lífi milljóna einstaklinga, og þá jafn- framt vegna þess, hvernig farið er með þetta efni í myndinni. Þegar ég fór að velta Network fyrir mér, skaut upp í huga mér óþægilegri minningu frá æskuárunum. I þann tíma voru nokkur algeng vöru- merki hönnuð þannig, að til grundvallar var lögð ákveð- in mynd, og sama myndin í smækkuðu formi síðan lögð inn í fyrri myndina og þannig koll af kolli uns myndin endaði í punkti. Þetta olli mér talsverðum heilabrotum, líkt og eilífð- in, þar sem útilokað var að sjá fyrir endann á þessu. Og hugurinn réð ekki almenni- lega við það að fara í hina áttina, þ.e. að stækka myndina út fyrir vöru- merkið, því þá var maður sjálfur orðinn hluti af þessu vörumerki. Network og efni myndariimar vekja hjá mér mjög svipaða til- finningu, vegna þess að í myndinni er ekki tekist á við þann vanda, sem þar er settur fram og flestir munu hafa þekkt, áður en þeir sáu myndina, heldur er vanda- málunum svarað með öðr- um vandamálum. I út- færslu þeirra Chayefskys og Lumets verður sjón- varpsfyrirbærið eins og köttur, sem eltir skottið á sér, vítahringur, sem við hvern snúnirtg hleður utan á sig sí ómanneskjulegri aðferðum. Sjónvarpsstöðin UBS (United Broadcasting Systém) hefur fallið í vin- sældum og eftir eigenda- skipti á stöðinni er ákveðið að hreinsa til. Howard Beale (Peter Fir\fh), sem hefur verið fréttaþulur þeirra í fjölmörg ár er rekinn; en áður en hann hættir, lýsir hann því yfir í fréttaútsendingu, að eftir viku muni hann, í síðustu útsendingu sinni, fremja sjálfsmorð fyrir framan áhorfendur. Eftir nokkrar vangaveltur er honum hleypt að kvöldið eftir með afsökunarbeiðni fyrir til- stuðlan yfirmanns frétta- deildarinnar, sem er gamall vinur Beale, Max Schumacher (William Holden). Max er sjálfur orðinn dauðþreyttur á valdabraskinu og óheilind- unum innan stjórnar UBS og þegar afsökunarbeiðni Howards snýst í skammar- ræðu á sjónvarpið, beitir hann valdi sínu til að halda sendingunni áfram. Þeir eru að sjálfsögðu báðir reknir á stundinni en þegar það kemur í ljós daginn eftir, að Howard er orðinn aðalumræðuefnið í Banda- ríkjunum og að vinsældir stöðvarinnar hafa tekið kipp upp á við eru þeir teknir í sátt og Howard leyft að leika lausum hala enn um stund, a.m.k. meðan hann dregur að áhorfendur. Sú persóna, sem uppgötvar þetta tækifæri, er ungur en framagjarn dagskrárstjóri, Diana Christenson (Fay Dunaway), persóna, sem er einskonar táknmynd hins harða, óvægna og um leið tilfinningalausa fyrirbæris, sem sjónvarpið er. Faye Dunaway leikur þessa per- sónu hér af slíkri innlifun og krafti, að það vekur manni óhug. Á meðan tog- streitan um völd og vin- sældir einstaklinga innan stöðvarinnar geisa á fullu, er Howard að falla í trans i sínu nýja hlutverki. Ef ætlast er til að litið sé á Network í einhverju sam- hengi við raunveruleikann, sem höfundarnir virðast ætlast til, hlýtur Howard, og skoðanir hans, að vera meginþungi verksins,' þar sem hann er hinn óvefengjanlegi tengiliður stöðvarinnar við áhorfend- ur. En það er einmitt með honum, sem vítahringurinn lokast. Howard byrjar á því að segja áhorfendum, hvað hann sé orðinn leiður á því að sitja þarna fyrir framan þá kvöld eftir kvöld og þylja upp gagnslausar og niðursoðnar fréttir af manndrápum og ofbeldi úr öllum heimshornum. Eftir að hafa opnað umræðuna á þessari gagnlegu athuga- semd færir Howard sig smám saman upp á skaftið og fer að úthúða sjónvarp- inu sem fyrirbæri, sem geri ekki annað en að stela tíma fólks og geri það um leið og einskonar eiturlyfja- neytendum upploginna skáldsagna með „happy end“. Howard grátbiður áhorfendur að snúa af þessari braut og fara að lifa eigin lífi. Við vitum, og allir sjónvarpsáhorfendur vita, að það sem Howard hefur sagt hingað tii er satt, en áhrifin eru aðeins þau, að fleiri og fleiri fara að horfa á skerminn, til að hlýða á Howard lýsa þeirra eigin blekkingavef. Það sem Howard gerir næst, rekur smiðshöggið á vítahring- inn. Hann gengur svo upp í vinsældum sínum sem „re;ður spámaður", að hann fer nú að stjórna áhorfend- um í múgæsingu („Standið upp frá tækjunum og gang- ið út að glugga, opnið hann og öskrið út: „Ég er ofsa- lega reiður og ég þoli þetta ekki lengur““, eða þá að hann segir þeim að senda símskeyti í Hvíta húsið til að mótmæla viðskipta- samningi við Araba og áhorfendur hlaupa fúsir upp til handa og fóta og gera hvort tveggja). Með því að fara raunverulega að stjórna lífi fólks og gerðum með áhrifavaldi sjónvarpsins er Howard kominn í heilan hring frá því, að hann byrjaði að vara áhorfendur við áhrifamætti sjónvarpsins og bað þá um að slökkva á tækinu. Chayefksy er þeirrar skoð- unar, og sennilega rétti- lega, að það verður ekki svo einfaldlega slökkt á þessari hrikalegu uppfinningu mannsins, jafnvel þótt allir sjái hættuna í því að gerast þrælar þessa áhrifavalds. Lendi þessi miðill í höndum óprúttinna aðila, með verslunarsjónarmiðin ein að leiðarljósi, eins og UBS (sem að sjálfsögðu á að vera táknræn fyrir hinar ýmsu stöðvar í Banda- ríkjunum, en við skulum vona að ástandið sé í raun ekki eins slæmt innan þeirra og í UBS), er voðinn vís, án þess að áhorfendur kæri sig um eða geti áttað sig á því. Stærsti gallinn við Network er að mínu mati sá, að Chayefsky gerir perscnu Howards engin skil í myndinni. Þetta er sú persóna, sem í upphafi leiðir okkur til nýs skiln- ings, til mannlegra við- horfa, en Chayefsky gerir hann einfaldlega að brjálæðingi, eins konar sirkusdýri, sem við eigum að hlæja að og hrífast af á sama hátt og hinir ímyrfd- uðu sjónvarpsáhorfendur. Ræður Howards hætta því fljótlega að hafa áhrif, vegna þess að þær hafa engan bakgrunn í mannleg- um tilfinningum þessarar persónu. Eftir að upphafi myndarinnar sleppir bregð- ur honum varla fyrir nema sem „spámanninum á skerminum". Það er að vísu ein vísbending í átt til hins jákvæðá í myndinni. Eftir að Howard hefur æst gegn viðskiptasamningum við Araba, sem eigandi sjón- varpsstöðvarinnar er viðriðinn, kallar eigandinn hann á fund, og heldur yfir honum þrumuræðu, í stíl við ræður Howards sjálfs. Hann skammar Howard blóðugum skömmum fyrir | að dirfast að skipta sér af „frumafli náttúrunnar", viðskiptum, og kennir hon- um lexíu í trúarbrögðum viðskiptanna. (Uppfærslan á þessu atriði hjá Lumet er frábær). I stað þess að | Howard, sem hefur verið að prédika mikilvægi ein- staklingsins gegn peninga- valdinu, notfæri sér þessa lexíu gegn auðvaldi, heillast hann svo af þessari nýju kenningu, að hann byrjar að lofsyngja auðhringana, sem munu veita öllum gnægð þess, er þeir óska og þurrka um leið út allan ótta og alla þjáningu, — og einstaklinginn sem mann- veru. Það jákvæða við þetta er, að áhorfendur sýna þann nianndóm í sér, að vinsældum Howards fer nú síhrakandi, sem bendir til nokkurs ákvörðunarvalds þeirra sem einstaklinga og hugsandi vera. Um aðra þætti Network er óþarfi að fjalla ítarlega, því eins og áður sagði er baksviðið valdatogstreita og persónurnar aðéins leik- brúður, vel þekktar tákn- myndir úr fjölda mynda og yfirleitt einhæfar. Chayefsky gerir sér nokk- urn mat úr þeirri lýsingu á Diönu, að eina ástríöa hennar er vinnan, en einka- lífið eins og lélegt handrit að þriðja flokks drama. Líkt og hún blandar saman sínum eigin raunveruleika og „raunveruleika" sjón- varpsskermsins heldur hún ótrauð út á þá braut í dagskrárgerð sinni, að byrja nýjan þátt, seríu, á þeirri nýjung, að upphaf hvers þáttar eru raunveru- leg hryðjuverk, en síðan tekur starfsfólk stöðvarinn- ar við og semur framhaldið. Markmið hennar virðist vera að flétta svo þétt saman raunveruleika og óraunveruleika, að engin fái lengur á milli greint. Og ef til vill er það þangað, sem sjónvarpið stefnir. Að lokum aðeins þetta. Network er á yfirborðinu vel gerð mynd, leikararnir gera hlutverkunum eins góð skil og handritið leyfir þeim og myndin hristir ábyggilega upp í hugum margra. En vekur hún okkur til meðvitundar um að hrista Network til? Ég hef það eftir einum gagn- rýnanda, sem sá myndina nokkrum sinnum í Banda- ríkjunum, að áhorfendur hefðu hvað eftir annað svarað kalli Howards um að öskra og öskrað með honum. Sem virðist benda til þess, að ef Chayefsky hefur ætlað myndinni aö vera gagnrýni á áhrifamátt sjónvarpsins, hafi honum mistekist og hann hafi aðeins snúið dæminu við og sannað þennan áhrifamátt. Vegna þess að í myndinni er beitt nákvæmlega sömu múgæsingarbrögðum, sömu tækni til að ná til áhorfandans, og sjónvarpið beitir. Myndin verður því einskonar naflaskoðun á skemmtiiðnaðinum í heild, hún. er sjálf þátttakandi í kapphlaupinu um vinsældir áhorfenda og vílar ekki fyrir sér, að beita þeim brögðum, sem hún er að gagnrýna. Sá ljóti grunur læðist að mér, að þeir sem völdu handrit Chayefskys til Oscarsverðlauna, hafi sjálfir verið blindaðir af þessari naflaskoðun og lát- ið efnið, fremur en úr- vinnsluna á efninu, ráða vali sínu. Hins vegar er óhikað hægt að mæla með mynd- inni, því að hún hlýtur að vekja umræður um sjón- varp sem rökfræðilegt vandamál, ef ekki annað. Hins vegar verð ég að taka undir bréfið í Velvakanda í dag (föstudag), þar sem kvartað er yfir hinni lélegu kópiu, sem kvikmyndahúsið sýnir af myndinni (fyrir utan þýðingarvitleysurnar). Það er gagnslítið að baða sig í ljómanum af fjórum Oscarsverðlaunum, en sýna svo handbragð þessara listamanna í gegnum rispur og skít á sundurslitinni kópíu. SSP. Howard Bealo (Peter Finch) fréttamaður UBS, á tkerminum auk fréttapula hinna sjónvarpsstöðvanna, John Chancellor, Howard K. Smith og Walter Cronkite.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.