Morgunblaðið - 14.12.1979, Blaðsíða 7

Morgunblaðið - 14.12.1979, Blaðsíða 7
MORGUNBLAÐIÐ, FÖSTUDAGUR 14. DESEMBER 1979 39 Það munaði ekki miklu að hann færi inn í vélina. — Markið er þarna! kallaði Árni hlæjandi til hennar og benti á mark sitt. — Eins og ég viti það ekki, kallaði Una á móti. Þetta er ómögulegur bolti. Hann er svo harður. Hann er glerharður. Það er ekki hægt að sparka í svona harða bolta. Hún gerði sér upp meiðsli í fætinum. Hún hafði oft séð fót- boltamenn í sjónvarpinu haltra um og bera sig aumlega, en á næsta andartaki voru þeir orðnir spræk- ari en nokkru sinni fyrr. Þetta var ágætt bragð til að vekja samúð. Stelpurnar brostu að henni, en engin þorði að hlæja upphátt. Una var fyrirliði í öllum leikjum þeirra. Þær höfðu aldrei heyrt nokkurn standa uppi í hárinu á henni. Dísa, sem hafði fundið til svo mikillar ábyrgðartilfinningar þeg- ar Una hafði falið henni hlutverk markvarðar, leit ekki lengur eins alvarlegum augum á stöðu sína. Hún settist og fór að krota í mölina. Una haltraði um og skipaði einum pollanum að sækja þennan bolta sem að hennar dómi var algerlega misheppnaður. — Þetta er alvörufótbolti, sagði Árni og fór ekki leynt með það að honum var skemmt. Þú verður bara að hitta rétt á hann. Það er málið. Una leit á þessi ummæli sem freklega móðgun, en hún sat á sér að svara. Það var innkast. Einn af yngstu liðsmönnum Árna bjó sig undir að kasta inn. Eftir undirbúning, sem Unu fannst taka allt of langan tíma, fleygði hann boltanum inn á völlinn. Þótt Una væri ekki sleip í fótboltafræð- um var hún sannfærð um að svona ætti ekki að fara að. — Stoppið! kallaði hún. Þetta var ógilt innkast. Það á ekki að kasta svona inn. Markvörðurinn í liði Árna kall- aði til hennar. — Ert þú dómari eða hvað? — Það þarf engan dómara, kall- aði Una á móti. Ef það er kastað vitlaust inn, þá á hitt liðið að fá boltann. — Þetta er rétt, sagði Árni. Hann kallaði á samherja sinn sem hafði ekki farið eftir kúnstarinnar reglum og sýndi honum hvernig hann ætti að bera sig að. Una fylgdist vel með öllu. Þegar hún tók við boltanum vissi hún upp á hár hvernig hún átti að kasta honum. Hún kastaði til Bínu og hrópaði til hennar að sparka boltanum aftur til sín. Það dugði því miður ekki til, því að Árni var kominn á milli þeirra. Hann náði boltanum og brunaði að markinu, þar sem Dísa sat í mestu makindum og átti sér einskis ills von. — Stattu upp, manneskja! kall- aði Una til hennar. Það var um seinan. Boltinn var kominn í mark áður en Dísa áttaði sig. Una kom hlaupandi til hennar. Henni sárnaði að Dísa skyldi hafa sofnað á verðinum. — Af. hverju gerirðu þetta, manneskja? Af hverju sestu svona niður? Þú hefðir alveg getað varið þetta. Dísa fékk ekki tóm til að svara. Una tók í handlegg hennar og ýtti henni fram á völlinn. — Eg ætla að vera í marki, sagði hún. — Hvar á ég að vera? spurði Dísa. — Reyndu að gera mark, sagði Una. Sparkaðu bara eins fast og þú getur í boltann. Náðu í hann. Þú átt að byrja leikinn. Dísa hljóp á eftir boltanum og stillti honum upp á miðjum vellin- um. í þessum svifum var kallað til hennar. — Þú þarna ... stelpa! Hún leit við. Maðurinn, sem þoldi ekki að bolta væri sparkað hjá bílunum, var mættur á staðinn. Hann beindi orðum sínum til Dísu einsog hún bæri ábyrgð á öllu. — Það er margbúið að segja ykkur að þetta er ekki staður til að verá í fótbolta. Dísu féllust hendur. Hún leit í kringum sig á krakkana. Allir voru skömmustulegir og niðurlútir. Nema Una. — Hvar eigum við þá eiginlega að vera? kallaði hún til hans. — Þið verðið að finna einhvern annan stað. — Hvar? — Það er ykkar mál. Það nær ekki nokkurri átt að vera að sparka bolta hérna upp við bílana. Ef þessu héldur svona áfram verður að fara að gera eitthvað í málinu. Hann útskýrði ekki nánar hvað hann átti við. Hann var reiður. Þegar hann var farinn hófst umræða um það hvort halda ætti leiknum áfram eða ekki. Árni hallaðist að því að þau ættu að finna annan stað, en Una benti honum á að það væri hvergi hægt að leika sér annars staðar. Hún var ákveðið þeirrar skoðunar að þau ættu að halda áfram leiknum. — Við eigum alveg eins mikinn rétt og bílarnir, sagði hún með miklum sannfæringarkrafti. Við skulum annars bæta við einni reglu. — Hvaða reglu? spurði Árni. — Það má ekki sparka fast! Leikurinn hélt áfram. Una þoldi ekki lengi við í marki. Hún átti erfitt með að standa lengi kyrr á ímyndaðri marklínunni og átti það til að gleyma hlutverki sinu sem markmaður og hlaupa fram á miðjan völlinn til þess að taka þátt í leiknum. í fyrsta skipti sem hún gerði það heppnaðist framrásin og henni tókst að skora mark frá miðju vallarins. Hún reyndi tvisvar að leika þennan leik aftur en tókst ekki. Árni komst fram hjá henni i bæði skiptin og skoraði. Þá fannst henni tími til kominn að setja einhvern annan í markið. Hún samdi við Árna um það að fá að hafa tvo polla. Sú ráðstöfun bar ekki heldur árangur. Þegar leikur- inn barst næst að markinu voru þeir farnir að slást og boltinn rann inn í markið fram hjá þeim. — Útaf! kallaði Una til þeirra. Þið eruð ómögulegir. Þeir hlýddu. Frænkurnar Lóa og Didda voru orðnar þreyttar á leiknum, enda höfðu þær lítið fengið að koma við boltann. Þær sögðust vera hættar. — Af hverju? kallaði Una til þeirra vonsvikin. — Bara, svaraði Lóa, og svo fóru þær. — Eigum við ekki að fara að hætta? spurði Árni. Unu fannst það fráleitt. — Það vantar einhvern í markið, sagði hún. Hún leit í kringum sig. Það var ekki um marga að ræða. — Dísa! sagði hún. Þú verður í marki. Dísa hristi höfuðið. Mig langar ekkert til þess, sagði hún. — Þú verður, sagði Una ákveðin og horfði stingandi augnaráði á Dísu. — Ég ætla samt ekki að gera það, sagði Dísa. — Ef hún vill ekki vera í marki, þá á ekki að neyða hana til þess, sagði Árni. Una lét sem hún heyrði það ekki. Dísa var orðin sjóðandi heit í framan. Roðinn var kominn í kinnarnar rétt einu sinni. Það ríkti þögn á knattspyrnuvellinum. Hún leit undan augnaráði Unu. Pollarnir, sem Una hafði rekið út af með harðri hendi, höfðu ekki tekið það nærri sér. Þeir höfðu náð í boltann og voru farnir að slást um hann. Dísa sá að leikur þeirra barst að hjólinu hennar. Allt i einu lá annar þeirra kylliflatur ofan á innkaupapokanum, sem hún hafði lagt á hjólið. Hún hljóp til þeirra. Hún var orðin reið. Öskureið. Hún þreif í pollann og ýtti honum frá. Hún sá að mjólkin seytlaði úr pokanum. Þegar hún leit ofan í hann sá hún að báðar mjólkurfernurnar höfðu sprungið og að mjólkin var búin að eyðileggja alít annað sem hún hafði keypt. Það tók hana nokkra stund að átta sig á því, hvað gerst hafði. Krakkarnir hópuðust í kringum hana. Pollarnir voru hættir að kljást. Þeir horfðu til skiptis á Dísu og hvítan mjólkurpollinn sem myndaðist hjá pokanum og stækk- aði óðum. Áður en Dísa vissi af var hún farin að gráta. Hún réð ekki við tárin sem komu í augun og runnu niður heitar kinnarnar. — Ég ætlaði ekki að gera neitt, sagði sá sem hafði dottið á hjólið. Þetta var óvart. Hann horfði skömmustulegur á Dísu. Það var einsog hann ætti erfitt með að trúa að tíu ára stelpa gæti farið að gráta út af svona löguðu. Dísa tók hjólið sitt og leiddi það heim á leið. Mjólkin seytlaði úr einu horni pokans. Hún fann augnaráð krakkanna stingast í bakið á sér. En hún leit ekki við. Á þessari stundu vildi hún vera ein. Teikningar í bókinni Lyklabarn aru eftir Harald Guðbergaaon. skyndilega kvað við skerandi ískur. Hurðin að hrörlegri viðbyggingu gamla pakkhússins opnaðist til hálfs. Ég þreif í Geira og dró hann inn í ruslatunnuskot þar sem skugga bar á. Ekkert ljós var sjáanlegt í skúrnum, skyldi innbrotsþjófur vera þarna á ferðinni? í næstu andrá opnaðist hurðin upp á gátt og tröllaukinn maður klöngraðist út. Hann var í kulda- úlpu með loðhúfu á höfði. Andlits- fall mannsins sást ekki greinilega en hann var með sítt alskegg. Þetta er Berti bergrisi, hvíslaði ég- Sjáðu, Bergur, karlinn er með eitthvað ílangt í höndunum. Það er áreiðanlega byssa, Berti á það til að skjóta á óboðna gesti. Geiri beygði sig á bak við eina ruslatunnuna. Karlinn ber hníf við beltið. Ég sá að Geiri var bleikur í framan, að minnsta kosti sýndist hann vera það í birtunni frá daufu skini götuljóssins. Berti bergrisi var nokkra stund að dunda eitthvað hálfboginn við dyrnar á skúrnum. Síðan rétti hann úr sér, brá hendinni á loft eins og hann væri að gá til veðurs og skimaði í kring um sig. Skyldi hann hafa orðið okkar var? Við fylgdumst vandlega með hverri hreyfingu karlsins. Berti bergrisi fór sér að engu óðslega, tók upp tóbaksdósir og snússaði sig. Síðan dró hann upp rauðan klút og snýtti sér svo að söng í. Loks lokaði Berti dyrunum og kom skálmandi í áttina til okkar. Snöggvast datt mér í hug að hlaupa, en hætti við það. Ég tók í Geira og við grúfðum okkur niður á bak við tunnurnar. Skóhljóð Berta bergrisa nálgaðist. Við gættum þess vandlega að hreyfa hvorki legg né lið, en hjartað hamaðist í brjóstinu. Ég ímyndaði mér að Berti hlyti að heyra það. En viti menn! Karlinn fór fram hjá án þess að verða okkar Geira var. Við hinkruðum við litla stund Teikningar i bókinni Mamma i upp- sveiflu eru eftir Friðriku Geirsdóttur. Hér eru aðalsöguhetjurnar, Bergur og Geiri, ásamt Berta bergrisa, sem raunar heitir Dagóbert Dagóbertsson. áður en við þorðum að yfirgefa skúmaskotið. Púff, þetta er eins og að losna úr álögum, sagði Geiri. Það þorir enginn að abbast upp á bergrisann, ansaði ég. Berti er betri en nokkur lögga hér í hverf- inu. Þegar við vorum um það bil að leggja af stað heyrðum við einhver kynleg hljóð frá skúrnum þar sem Berti hafði verið að bogra. Þetta var grunsamlegt. Við ákváðum að athuga það nánar. í Ijós kom að nokkrar ýsuspyrður héngu utan á skúrnum og slógust við vegginn í gjóstinum. Við gátum ekki annað en brosað, vorum við orðnir eitthvað taugaóstyrkir? Skyndilega tók Geiri viðbragð og beygði sig. Sjáðu, sagði hann og rétti fram höndina. I lófa hans lágu tóbaks- dósir. Þessu hefur karlinn glutrað niður áðan. Það var enginn vafi að Berti bergrisi átti þessar dósir. Á lokið var grafið D.D., upphafsstafir nafnsins Dagóbert Dagóbertsson. Þetta virðast vera silfurdósir, sagði Geiri og hampaði gripnum. Er ekki óskilamunum skilað til lögreglunnar? Jú, en þessar dósir eru merktar svo að þær eru í rauninni ekki óskilamunir. Við ráðguðumst um hvað gera skyldi. Ég þekkti húsið þar sem Berti átti heima. Það var aðeins steinsnar í burtu. Annars var ómögulegt að giska á hvaða mót- tökur við fengjum hjá karlinum ef við gerðumst svo djarfir að berja uppá. Reyndar hlaut hann að verða glaður að fá dósirnar sínar aftur. Litlu síðar stóðum við Geiri á tröppum tvílyfts timburhúss með útskornum vindskeiðum og hvítmáluðum gluggum. Þótt það væri gamalt var því auðsjáanlega mjög vel við haldið, það mátti jafnvel spegla sig í látúninu á útidyrahurðinni. Ég svipaðist um eftir dyrabjöllu en hana var hvergi að sjá. Á hurðinni hékk aftur á móti helj- arstór koparskeifa, sem átti víst að gegna sama hlutverki. Ég hreyfði skeifuna og þá glumdu við hljóm- mikil högg. Við Geiri biðum í ofvæni. Litlu síðar opnaðist hurðin og miðaldra kona birtist í gættinni. Hún var góðleg á svip og virtist vera eins og fólk er flest. Við heilsuðum og spurðum eftir Dagóbert. Hann er ekki heima, svaraði konan, en hann kemur bráðlega. Ég fann tóbaksdósir hérna skammt frá, sagði Geiri. Þær eru merktar D.D. Augu konunnar urðu stór og kringlótt af undrun. Oh, þetta eru silfurdósirnar hans Berta míns. Ég er alltaf að segja honum að hann eigi ekki að nota þær hvunndags. Gerðu svo vel, sagði Geiri hof- mannlega og rétti konunni tóbaks- dósirnar. Þakka þér fyrir. Konan tók í hönd Geira. Ég vildi að Berti hefði verið heima, hann gekk niður að höfn að huga að bátnum. Það er víst spáð roki. Ég gaf Geira merki um að við skyldum ekkert minnast á að við hefðum áðan séð Berta bergrisa. Kannski var það tóm vitleysa eða missýning þetta með byssuna. Konan bauð okkur inn. Við afþökkuðum og sögðumst vera að flýta okkur. Það er kalt að standa hérna í dyrunum, sagði konan. Komið snöggvast inn fyrir, það tefur ykkur ekkert. Áður en ég vissi af var Geiri kominn inn. Jæja, hugsaði ég og fór að dæmi félaga míns. Það var forvitnilegt að sjá hvernig þessi margumtalaða fjölskylda í Steinahverfinu bjó. Við fylgdum konunni eftir inn í stofu. I rauninni var ekki rétt að kalla þetta stássstofu heldur verk- stæði eða vinnustofu. Á miðju gólfinu stóð vefstóll og málara- trönur nokkuð til hliðar. Allir veggir voru þaktir litlum og stórum myndum, ^mist saumuðum eða máluðum. I gömlum, snjáðum leð- urstól úti í horni sat ung stúlka og hélt á kornabarni. Hún reis á fætur þegar við komum inn og hneigði sig lítillega. Þetta er Blómdís, dóttir okkar og sonur hennar óskírður, sagði kon- an. Sjálf heiti ég Sveiney. Mér varð starsýnt á Blómdísi. Hún var ákaflega grönn, brúneygð og dökk yfirlitum. Hún minnti mig á mynd sem ég hafði séð af huldukonu. Er hérna málverkasýning? spurði Geiri undi andi. Ne-hei, þetta er smádót, sem fjölskyldan gerir sér til dægra- styttingar, svaraði Sveiney hógvær eins og hún vildi sem minnst gera úr þessu. Ég virti lauslega fyrir mér myndirnar. Þær voru margar sér- kennilegar og fallegar. Sveiney ítrekaði enn hvort við vildum ekki þiggja góðgerðir. Þeg- ar við Geiri neituðum því afdrátt- arlaust kvaðst hún vilja sýna okkur ofurlítinn þakklætisvott. Við skyld- um velja okkur sína myndina hvor. Við Geiri mölduðum í móinn, en hún vildi ekki hlusta á slíkt. Að lokum valdi ég mér málverk sem hét „Olafur reið með björgum fram", en Geiri kaus sér mynd sem bar nafnið „Dansmær". Við þökk- uðum konunni höfðinglegar gjafir. Hver vissi nema þær væru mörg hundruð þúsund króna virði. Litlu seinna kvöddum við. Blóm- dís sagði ekki neitt en lét sér nægja að kinka til okkar kolli. Skyldi hún vera mállaus, hugsaði ég. Sveiney fylgdi okkur til dyra. Enn minntist hún á að það hefði verið leiðinlegt að Berti skyldi ekki vera heima. Kannski litum við inn seinna ef við ættum leið fram hjá. Ég jánkaði því og við Geiri hröðuðum okkur niður stíginn með málverkin undir hendinni. Ég ætla að gefa mömmu mynd- ina, sagði Geiri. Þykir henni gaman að málverk- um? Ekki sérstaklega. En ég veit að henni þykir gaman að þessari mynd. Við gengum þegjandi um stund. Skyndilega spurði Geiri upp úr þurru. Getur fullorðið fólk haldið áfram að vera börn alla ævi? Mér fannst þetta skrýtin spurn- ing. Af hverju spyrðu? Æ, mér datt þetta bara svona í hug, sagði Geiri og vildi ekki meira um þetta tala. Á heimleiðinni bar ekkert sér- stakt til tíðinda. Ég bauð Geira inn. Hann afþakk- aði og kvaðst verða að flýta sér. Samt held ég að hann hafi ekkert verið að fýta sér. Ég spurði hvort hann vildi að ég fylgdi honum alla leið. Það er óþarfi, ég rata. Við kvöddumst við garðshliðið. Þakka þér fyrir að koma með mér til kennarans. Ekkert að þakka. Þetta hefur verið að mörgu leyti óvenjulegt kvöld. Ég stóð og horfði á eftir Geira þar sem hann lötraði niður götuna með máiverkið undir hendinni. Síðan var hann horfinn fyrir næsta húshorn.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.