Morgunblaðið - 10.09.1980, Blaðsíða 12

Morgunblaðið - 10.09.1980, Blaðsíða 12
12 MORGUNBLAÐIÐ, MIÐVIKUDAGUR 10. SEPTEMBER 1980 Niræðisafmæli: Daniel Eggertsson fv. bóndi Hvallátrum Níræður er í dag Daníel Egg- ertsson. Hann er fæddur að Hval- látrum við Látrabjarg 10. sept. 1890. Foreldrar hans voru hjónin Halldóra Gísladóttir og Eggert Eggertsson, er bjuggu að Heima- bæ, einni af jörðum Hvallátra. Eggert og Halldóra áttu fjögur börn: Ólöfu, Daníel, Önnu og Sigríði. Auk þess átti Eggert son, Sigurð að nafni, áður en hann kvæntist, er var nokkru eldri en systkini hans. ÖIl voru börn Egg- erts alin upp á heimili hans og Halldóru að Hvallátrum. Kært var með þeim systkinum öllum. Börn Eggerts og Halldóru bjuggu öll að Hvallátrum. Hins vegar fluttist Sigurður, sem var skip- stjóri, til Snæfellsness. Daníel fór til náms í Verzlun- arskóla íslands og lauk þaðan burtfararprófi árið 1912. Fyrstu árin eftir að Daníel lauk prófi frá Verzlunarskólanum, vann hann við skrifstofustörf í Reykjavík á veturna. Hins vegar vann hann á vorin við sjóróðra með föður sínum og þeim öðrum, er með honum réru. Vann hann einnig með foreldrum sínum að heyskap á sumrin. Mér segir svo hugur um, að löngun Daníels hafi á þessum árum stefnt að því að gera verzlun og viðskipti að sínu ævistarfi, enda hafði hann með námi sínu búið sig undir þau störf og þau verið mjög við hans hæfi. Hitt er mér fullkunnugt um, að enda þótt Daníel hafi alltaf haft mjög fast- mótaðar skoðanir og lítið verið fyrir skoðanaskipti, þá tók hann á lífsleiðinni mikið tillit til sinna nánustu skyldmenna. Afstaða til foreldra sinna, að tryggja þeim afkomu á efri árum, mun að verulegu leyti hafa ráðið því, að Daníel gerðist bóndi að Hvallátr- um. Honum fórst vel búskapurinn þar. Hann bjó eins og allir þar við lítinn landbúskap, enda jarðnæði lítið. Hins vegar sótti hann sjóinn af kappi, fyrst á opnum árabátum, en síðar opnum vélbátum. Aðstaða fyrir stærri báta en „trillur" var ekki möguleg þar vegna hafnleys- is. Daníel þekkti vel til allra þátta í störfum Látrabænda. Hann fór um fermingu að taka þátt í sigi í Látrabjarg. Fugla- og eggjatekja úr bjarginu var mikil tekjubót Látrabænda fram á miðjan þriðja áratug þessarar aldar, en lagðist þá niður í þeirri mynd, sem áður hafði verið, vegna slyss í bjarginu, þegar tveir ungir menn frá Látr- um hröpuðu, er þeir voru við sig í Látrabjargi og dóu báðir. Daníel hafði verið með færustu mönnum, er þá tóku þátt í bjargsiginu. Daníel reyndist farsæll í bú- skapnum sem og öðrum þeim störfum, er hann lagði gjörva hönd á. Skilyrði til tekjuöflunar voru erfið á Hvallátrum, þó mörg væri þar matarholan. Landið var lítið og þröngt setið, en heimilis- fast fólk var þar 60—70 manns, svo sem lengi var fram eftir ævi Daníels. Sjósókn var erfið, þar sem víkin er fyrir opnu hafi og brimasamt mjög, en aflasælt gat þar oft verið. Látrabjargið bauð upp á verulega fljótfengnar tekj- ur, en jafnframt miklar hættur. Samgöngurnar voru sá þáttur í byggðasögu Hvallátra, er ekki var hvað beztur. Patreksfjörður var þeirra eini verzlunarstaður. A sumrin var farin sjóleiðin til aðdrátta á opnum bátum. Sú leið var löng og mjög áhættusöm. Landleiðin var einnig löng og yfirleitt yfir órudda fjallvegi að fara, þar til nú síðustu áratugina, eftir að vegur var ruddur og lagður yfir víkur og hálsa. Þrátt fyrir það að búskaparsaga Hval- látra væri erfið, hafa þar að verki verið margir manndómsmenn eins og þau hjónin Daníel og Anna, þó ekki verði nafngreindir hér aðrir. Daníel tók að sjálfsögðu þátt í margvíslegum störfum sveitunga sinna á sviði félagsmála. Oftast voru þau tengd fjármálasviðinu. Skal nokkurra þeirra getið hér: Endurskoðandi reikninga Spari- sjóðs Rauðasandshrepps var hann um fjóra áratugi. Hreppsreikning Rauðasandshrepps endurskoðaði hann í nær þrjá áratugi. Formað- ur sóknarnefndar Breiðuvíkur- kirkju var hann einnig í nokkra áratugi. Á þeim árum beitti hann sér fyrir byggingu nýrrar kirkju í Breiðuvík. Kirkjubyggingin var honum mikið áhugamál. í sam- bandi við kirkjubygginguna minntist hann með sérstöku þakklæti sr. Ásmundar Guð- mundssonar, er þá var biskup, og sr. Ólafs Skúlasonar dómprófasts, en báðir lögðu þeir honum veru- legt lið við fjárútvegun. Áður en Daníel fluttist frá Hvallátrum, skilaði hann ■ sóknarnefndarstörf- um af sér sem öðrum félagsstörf- um. Voru þá kirkjubyggingarlánin uppgreidd að fullu, og nokkur fjárhæð var í sjóði að auki. Á Hvallátrum var og er veður- athugunarstöð. Daníel annaðist þá starfsemi í um aldarfjórðung. Gjaldkeri slysavarnardeildar og sjúkrasamlags var hann álíka langan tíma. Ekki mun ofsagt, að öll þau störf, sem hann tók að sér á sviði félagsmála, leysti hann af hendi með samvizkusemi og vand- virkni. Daníel beitti sér mjög fyrir því, að talsími yrði lagður að Hvallátr- um. Það varð að veruleika á fjórða áratugnum. Það varð þessari vest- ustu byggð landsins ekki síður en öðrum mikils virði. Daníel minnt- ist Magnúsar Guðmundssonar fv. ráðherra með sérstöku þakklæti í sambandi við símamálið. Daníel var stöðvarstjóri lands- símastöðvarinnar á Hvallátrum frá upphafi, þar til stöðin var lögð niður og Hvallátur gerð númer frá Patreksfirði. Einn af meiri háttar viðburðum í lífi Daníels var þátttaka hans í björgunarafrekinu við Látrabjarg. Þar var tólf skipverjum af enska togaranum „Dhoon“ bjargað við hinar erfiðustu aðstæður. Björg- unin var mikið þrekvirki, sem tók björgunarmennina þrjá sólar- hringa og þrjár klukkustundir. Frásögn af björgunarafreki þessu barst víða um lönd. Daníel Eggertsson kvæntist Önnu Jónsdóttur, ættaðri úr Dýrafirði. Anna er mikil mannkostakona, vel gefin og vel menntuð, með burtfararpróf úr Kvennaskólanum í Reykjavík. Henni farast allir hlutir vel úr hendi. Árið 1924 byggðu þau sér timb- urhús ágætlega vandað. Heimili þeirra að Hvallátrum bar smekk- vísi og snyrtimennsku þeirra hjóna fagurt vitni. Þau Anna og Daníel eignuðust ekki afkomendur. Hins vegar ólu þau upp dreng, Guðmund Jón Óskarsson, efnilegan myndar- mann, er reyndist þeim sem góður sonur. Hann var loftskeytamaður að námi og starfi. Guðmundur fórst með togaranum Jóni Ólafs- syni, en sá togari var skotinn í hafið, er hann var á heimleið frá Bretlandi 1942. Þeim var fráfall Guðmundar mikil sorg. Árið 1948 tóku þau kornabarn, Gyðu Guðmundsdóttur frá Breiðuvík, og ólu hana að öllu leyti upp. Gyða er nú búsett í Reykja- vík, gift Maríasi Sveinssyni verzl- unarmanni. Eiga þau tvær dætur. Þau Daníel og Anna hafa reynzt Gyðu svo sem væri hún þeirra dóttir. Það sama má um hana segja, hún hefur reynzt þeim sem slík. Þau dveljast nú á heimili hennar og Maríasar. Ég gat þess fyrr í grein þessari, að Daníel hefði gert sér far um að frygffla afkomu foreldra sinna á þeirra efri árum. Samstarfið á milli hans og systra hans og mága var með ágætum að því leyti, sem ég kynntist því. Það sem mér er þó efst í huga, þegar ég minnist afmælis þessa aldna föðurbróður míns, er tryggðin og vinsemd sú, sem hann sýndi móður minni og okkur börnum hennar og Sigurðar bróður hans við fráfall hans á bezta aldri frá sex ungum börnum, með bréfaskriftum sínum til okkar og annarri umhyggju. Ég naut þeirrar ánægju að dveljast á heimili þeirra Daníels og Önnu einn vetur, þá tólf ára gamall. Minnist ég þess vetrar með gleði og þakklæti. Tvö af systkinum mínum dvöldust síðar á heimili Daníels og Önnu, Margrét systir mín þrjá vetur, Þorkell þrjá mán- uði. Þau minnast veru sinnar á Hvallátrum eins og ég með gleði og þakklæti. Daníel tók ungur þá ákvörðun að reynast styrk stoð sínu nánasta skylduliði. Níræður getur hann litið yfir sína löngu ævi og sér, að sannarlega hefur honum vel tekizt að styðja að velgengni sinna og þess byggðarlags, sem fæddi hann og fóstraði. Skyldulið hugsar til hans á þessum merkisdegi með hlýju og þakklæti. Svo mun einnig með samferðamenn hans yfirleitt svo sem hann minnist þeirra með þakklátum huga. Daníel hætti búskap á Hvallátr- um, 1972 og fluttist til Reykjavík- ur. Þar hafa þau dvalizt síðan. Daníel og Anna bera bæði aldur vel. Daníel heldur gleði sinni og glettni svo sem verið hefur á lífsleið hans. Við bróðurbörn hans og makar okkar færum honum innilegar þakkir fyrir ánægjulega frændsemi. Hjartans hamingju- óskir með níræðisafmælið og ævi- kvöldið. Halldór E. Sigurðsson. Daníel verður i dag staddur að Bakkaflöt 4 í Garðabæ og þar ætlar hann að taka á móti afmæl- isgestum sínum eftir kl. 4. síðd. Minning: Þórður Jasonarson tæknifræðingur Fæddur 11. maí 1907. Dáinn 1. september 1980. Þórður Jasonarson lézt mánu- daginn 1. september sl. á Landa- kotsspítala. Hér skulu honum færðar alúðarþakkir fyrir óeigin- gjarnt og frábært starf fyrir Stangaveiðifélag Reykjavíkur. Þórður gekk í SVFR árið 1966 og þrátt fyrir að þá væri hann orðinn nokkuð fullorðinn tók hann fljótlega mikinn þátt í starfsemi félagsins. Hann var kosinn í stjórn þess 1972 og starfar sem ritari fyrsta árið, en allt frá árinu 1973 var hann gjaldkeri stjórnar og gegndi þeim störfum til dauða- dags. Það að hann var endurkjör- inn fjórum sinnum, sýnir það traust, sem félagsmenn báru til hans. Þórður sá um og stjórnaði ýmsum framkvæmdum fyrir fé- lagið, svo sem byggingu laxastiga og veiðihúsa og stækkanir og breytingar á þeim. Enn fremur var ávallt leitað til hans ef endurmeta þurfti eignir félagsins og nutum við þar mikillar og víðtækrar starfsreynslu hans. Þórður var margsinnis í samn- inganefndum SVFR um árleigu og naut félagið þar réttsýni hans og lipurðar, en þó gat hann verið fastur fyrir ef honum þótti órétt- mætar kröfur koma fram. Á síðastliðnu vori annaðist hann, ásamt framkvæmdastjóra félags- ins, samninga um tvö ný veiði- svæði, sem SVFR tók á leigu og var þá sem endranær viljugur og fús að ferðast hvort heldur var vestur á Snæfellsnes eða austur fyrir fja.ll. Þannig naut félagið og við í stjórninni greindar hans, áhuga, dugnaðar og vinnuþreks, sem má telja einstakt af manni á hans aldri. Góðir vinir verða betri vinir þegar þeir fara saman í veiðiferðir og eru veiðifélagar. Þórður var góður og eftirminnilegur veiðifé- lagi. Hann var alltaf hógvær og kurteis, lofaði veiðifélaga sínum að velja hvar hann vildi hefja veiðar og gladdist jafnmikið þegar veiðifélaginn fékk fisk eins og þegar hann sjálfur fiskaði. Þegar búið var að landa var sjálfsagt að leggjast upp í brekku, njóta veiði- gleðinnar og náttúrunnar, spjalla um heima og geima. SVFR þakkar Þórði mikið og óeigingjarnt starf og þakkar hon- um og Jonínu, konu hans, góðan stuðning og ógleymanlegar sam- verustundir og sendir henni og fjölskyldunni innilegar samúðar- kveðjur. Genginn er góður dreng- ur, minningin um hann er dýr- mæt. F.h. stjórnar SVFR Karl ómar Jónsson. Þórður Jasonarson, tæknifræð- ingur, lést eftir skamma sjúk- dómslegu 1. september, 73 ára. Hefur Stangaveiðifélag Reykja- víkur þar misst einn sinna mæt- ustu manna. Fundum okkar Þórðar bar fyrst saman haustið 1974 eða fyrir réttum 6 árum, er ég tók að mér störf framkvæmdastjóra félags- ins. Hann var þá tiltöluiega ný- kominn í stjórn SVFR sem gjald- keri stjórnar og ekki var bjart yfir fjárreiðum þess. Mátti lítið út af bera svo félagsskútan fengi staðist öldurót og stórsjóa með blindsker á bæði borð. Þurfti þá lipurð, lagni og ráðsnilld til lausnar daglegra fjárhagslegra vandamála. Þessa kosti hafði Þórður í ríkum mæli. Er mér vel kunnugt um það, því samstarf okkar var allnáið öll árin. Hann stóð jafnan sem klett- ur og æðraðist aldrei, skrifaði undir skuldbindingar, sem hefðu getað valdið honum fjárhagslegu tjóni ef féiagið hefði steytt á blindskeri. Ekki hvað síst er það Þórði Jasonarsyni að þakka að vel tókst til við að rétta félagið af á tiltölulega skömmum tíma. En þar lét Þórður ekki við sitja. öll lognmolla var honum á móti skapi, því eftir að félaginu var borgið og siglt mildari sjó, beind- ist áhugi hans mjög að því, að félagið færði út kvíarnar. Átti hann manna mestan þátt í því, að tekið var til við að afla félags- mönnum SVFR nýrra veiðisvæða. Eru ófáar ferðirnar með Þórði út um land til samninga um leigu vatnasvæða. Var gjarna lagt upp í ferðir þessar fyrri hluta dags og oftast komið niðamyrkur á baka- leið. Oft var þetta á haustin eða jafnvel kominn vetur. Munu mér seint gleymast þessar ökuferðir með Þórði, því margt var rætt og hann hafsjór fróðleiks og reynslu á mörgum sviðum. Reynslan var jafnvel ekki ætíð bundin hinu jarðneska sviði, því oft taldi hann sig séð hafa nokkuð út fyrir það svið. Slík reynsla er ekki mörgum gefin. Tilurð hennar kann að vera bundin kjörum þeim, sem hann og samtíðarmenn hans nærðust á, enda var líf hans bundið einum mestu umbrotatímum í sögu þjóð- arinnar, allt frá sárustu örbirgð á fyrstu áratugum þessarar aldar til ofgnægtar nútíma þjóðfélags með allt önnur vandamál. Þórður var hamhleypa til allra verka og ætlaði sér hvergi af. Stundum fannst mér hann ekki maður einhamur. Athafnasemin einkenndi öll störf hans og sú athafnasemi var ekki, eins og oft vill verða, tengd því að afla sjálfum sér veraldlegra gæða, heldur beindist hún að því öllu fremur, að starfa í þágu annarra, enda var Þórður félagslyndur maður. Gaf hann stangaveiðimál- um drjúgan hluta af tíma sínum. Minnist ég þess ekki, að Þórður hafi nokkru sinni neitað, væri hann beðinn að taka að sér ákveðið verkefni fyrir SVFR. Slík- ur var áhuginn og eljan eftir því. Um leið var hann einn ábyggi- legasti maður sem ég hefi komist í kynni við. Hjá honum stóð allt sem stafur á bók. Ég mun ætíð vera þakklátur því, að hafa eignast vináttu Þórðar. Hún óx með hverju ári og hann verður mér ætíð gott dæmi um einstakan kostamann. Ég sakna hans mjög. Þórður átti því láni að fagna að eiga elskulegan lífsförunaut, Jón- ínu, sem stóð við hlið hans og deildi með honum lífi sínu í gleði og sorg. Henni, sem og ættingjum og vinum, eru færðar dýpstu samúðarkveðjur. Friðrik D. Stefánsson. Birting afmœlis- og minningar- greina. ATHYGLI skal vakin á því, að afmælis og minningargreinar verða að berast blaðinu með góðum fyrirvara. Þannig verður grein, sem birtast á í miðvikudagshlaði. að berast i siðasta lagi fyrir hádegi á mánudag og hliðstætt með greinar aðra daga. Greinar mega ekki vera i sendibréfs- formi. Þess skal einnig getið af marggefnu tilefni að frum- ort ljóð um hinn látna eru ekki birt á minningarorðasið- um Morgunblaðsins. Handrit þurfa að vera vélrituð og með góðu linubili.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.