Morgunblaðið - 16.11.1980, Qupperneq 1

Morgunblaðið - 16.11.1980, Qupperneq 1
Sunnudagur 16. nóvember Bls. 49—80 Skuggsjá hefur gefið út ljóð Einars Benediktsson- ar i umsjá Kristjáns Karlssonar. Nú er von á lausu máli Einars, einnig í útgáfu Kristjáns, og hefur Morgunblaðið fengið leyfi til að birta inngang hans að fyrra bindi þess, sem er sögur Einars. Einar Benediktsson gaf út blaðið Dagskrá í Reykjavík á árunum 1896—98 og var bæði eigandi og ritstjóri blaðsins þessi ár. Tvær hinar lengri smásögur sínar, Valshreiðrið og Farmanninn birti hann í Dagskrá; þær komu síðan á ný í bók hans Sögur og kvæði 1897. Hér má geta þess til fróðleiks að Sögur og kvæði komu ekki fyrir almenningssjónir fyrr en á útmánuðum 1898, þó að hitt ártalið standi á titilblaðinu. Dagskrá er fyrsta dagblað á íslandi; hún kom út daglega á tímabilinu frá 16. júní til 13. ágúst 1897. En aðra tíma kom hún nokkuð óreglulega, stundum annan hvern dag, stundum miklu sjaldnar. Einar seldi Dagskrá haustið 1898. Sagnagerð Einars er nátengd blaðamennsku hans og að sumu leyti beinn farvegur hennar. í fyrsta lagi er það, að Valshreiðrið og Farmaðurinn gegndu hlutverki sem í þá daga var algengt í blöðum: þær voru framhaldssögur. Flestir þeir stuttu þættir, sem valdir hafa verið í þetta safn, komu einnig fyrst í Dagskrá, með höfundarnafn- inu Hörður. Fyrsti þátturinn, sem hér er tekinn upp, kom að vísu í Sunnanfara, en allt um það er ljóst, að Einar tekur fyrst að ráði að iðka þetta frásagnarform eftir að Dagskrá fer að koma út á hverjum degi. Seinna skrifaði hann nokkrar sögur af þessu sama tagi á víð og .dreif í blöð og tímarit, bæði sín eigin og annarra (Þjóðstefna, Skírnir, o.s.frv.). Ekki þarf að orðlengja mikið um það að þessir þættir eru eðlilegt blaðaefni: stuttir, tímabærir, at- vikskenndir. Oft eru þeir að miklu leyti hugleiðing eða jafnvel rök- ræða. Geta þeir sem það hentar betur með góðri samvizku kallað suma þeirra ritgerðir. Þeir eru afsprengi raunsæisstefnunnar. Þó að Einar sé um þessar mundir í Dagskrá, í ritgerðum sínum um skáldskap, að gera upp sakir við raunsæisstefnuna, „hinn hlut- heimska skóla“ eins og hann nefndi hana, þá bera þættirnir líkt og ýmis kvæði hans á þessum árum um og fyrir aldamót ótvíræð einkenni þessarar stefnu. Hin skarpa athug- un í þessum þáttum og sársauki tilfinningarinnar er Einars sjálfs, en dæmin, atvikin, sviðið úr veröld raunsæisstefnunnar: „Einn napr- asta frostdaginn, sem komið hefur á þessum vetri, var ég staddur skammt frá „póstinum“.“ En með hvaða rétti eru þessir smáþættir skilyrðislaust nefndir sögur í titli þessa safns? Víst getum vér látið liggja milli hluta þann fróðleik bókmenntasögulegrar skilgreiningar að þættirnir tilheyra alþjóðlegu formi blaðamennsku, sem í þá daga var kallað feuilleton, skissa og skilgreind er eitthvað á þessa leið: stuttur listrænn þáttur, óhátíðlegur, minning eða lýsing á atviki sem fyrir augu bar, játning, sjálfsprófun, dæmi úr dýraríkinu, táknræn frásögn af eigin vanda eða samfélagsins, og svo framvegis. Allt um það er sanngjarnt að veljandi gefi skýringu á því, að hann gerir ekki formlegan grein- armun á þáttum Einars og smásög- um. Engin hætta er á því, að þrjár lengri sögurnar í Sögum og kvæð- um villi á sér heimildir, þó að ef til vill mætti segja að Farmaðurinn væri í eðli sínu ágrip af langri skáldsögu. Gullský sker sig úr. Þegar Sögur og kvæði komu út bryddi á því í sumum ritdómum, að menn vissu ekki hvernig ætti að flokka hana og brugðust illa við. Sú ^taðreynd að Einar sjálfur flokkar Gullský með venjulegum smásög- um er útaf fyrir sig söguleg for- senda þess að líta beri á þætti hans yfirleitt sem smásögur. Raunveru- leg forsenda þess að skoða flesta þeirra svo er eftirfarandi sjónar- mið sem ég leyfði mér að hafa, þegar ég valdi úr þáttunum: ef tvær eða fleiri persónur koma fram og eiga einhver skipti, lít ég á þáttinn sem smásögu. Um sumar sögurnar, eins og dýrasögurnar Móra og Kisa, fer þetta ekki milli mála. I öðrum sögum finnum vér aðeins vissa aðgreiningu höfundar, sem ræður stílnum, og sögumanns, sem tekur þátt í atvikum og opnar lesanda vistarverur sögunnar. Lengst geng- ur þessi aðskilnaður í Nýir menn, þar sem ekki verður betur séð en höfundur, það er að segja Einar sjálfur, sé fjarlægari persónan af tveimur og eigi orðaskipti við andstæðing sinn í sögumanninum. En til að einfalda mál mitt: þegar gamla konan birtist í Gullskýi og segir: „Það er komið kvöld og farið að verða kalt,“ breytist Gullský í smásögu. Um síðustu söguna í þessu safni, skáldsögubrotið Undan krossinum er ekki úr vegi að taka þetta fram: Einar lét prenta hana, eins og hún Kristján Karlsson kemur hér fyrir, í Prentsmiðju Dagskrár veturinn 1898. Engar heimildir eru nú fyrir því, að sagan hafi verið lengri en þetta frá hans hendi, né heldur hvers vegna hann lét farga upplaginu, svo að sagan varðveittist í einu stöku eintaki, þrjár prentaðar arkir. Hún var síðar prentuð í ritsafni Einars, Laust mál, 1952. Af hinum lengri smásögum Ein- ars er Svikagreifinn sízt vel skrif- uð, en hún er merkileg engu að síður vegna þess hve skýrar tvær persónurnar eru: Sara og „greif- inn“. Sérkennilegust er hún fyrir það hvernig höfundurinn vekur manni þvert ofan í allar líkur eins konar samúð með greifanum. Vals- hreiðrið er á hinn bóginn svo vel skrifuð, að merking hennar liggur í sjálfum stílnum; hún er meðal allra beztu smásagna tungunnar; líkt og öll í dumbrauðum lit.

x

Morgunblaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.