Morgunblaðið - 17.11.1982, Page 37

Morgunblaðið - 17.11.1982, Page 37
MORGUNBLAÐIÐ, MIÐVIKUDAGUR 17. NÓVEMBER 1982 37 Af íslenskum taóistum Taóisti forðast allar öfgar eða reynir að þræða hinn gullna veg milli þeirra. En þótt öfgaflokkar í pólitík séu honum ekki að skapi gerir hann sér grein fyrir því að menn eru ólíkir innbyrðis. Ef svo væri ekki væri hægt að gera alla íbúa jarðarinnar að taóistum á einum mánuði. Aðferðin til þess er - einfaldlega svona: Gerum ráð fyrir að þú viljir gera sem flesta að taóistum. Allt sem þú þarft að gera er að sann- færa tvær manneskjur; aðra í ná- lægð en hina í fjarlægð (t.d. í fjar- lægu landi). Þetta verðurðu að gera strax í dag. Síðan segirðu manneskjunum tveim að þær verði að sannfæra aðrar tvær á sama hátt og með sömu skilyrð- um, strax á morgun. Þessar tvær manneskjur sannfæra síðan fjór- ar, sem sannfæra átta, sem sann- færa sextán — og þannig koll af kolli þar til mánuðurinn er liðinn, en þá á að vera búið að snúa rúm- lega 4 milljörðum manna til taó- trúar. Þú getur reiknað þetta út ef þú vilt. Auðvitað sýnist þetta mjög ein- falt — a.m.k. á pappírnum — en í reynd er þetta óframkvæmanlegt, eins og oft vill verða með „súp- ersnjallar" kenningar. Fólk lætur ekki sannfærast á einum degi, sumir láta alls ekki sannfærast og svo hlýtur fjöldi manns óhjá- kvæmilega að lenda í mörgum trú- boðum. Auk þess breiða taóistar ekki út kenningar sínar. Það er að mörgu leyti andstætt eðli þeirra. Taótrú verður ekki boðuð — hún verður að innrætast af frjálsum vilja. Hún er í and- stöðu við öfgarnar í trúarbrögðum múslíma og baháía (að maður ta!i nú ekki um moonistana) en á ým- islegt sameiginlegt með kristni og búddadómi, enda hafa búddatrú- armenn fengið margt að láni frá Plata með Jin/Jang-merkinu í miðju. Umhverfis eru tákn höfuð- skepnanna 8 sem tákna líka ýmis- legt annað, s.s. áttir. taóistum og taóistar hafa notað ýmislegt úr búddatrú — eins og t.d. þessa fleygu setningu Gaut- ama Buddha: „Hugaðu að eigin málum,“ eða eins og sagt er á ensku: „Mind your own business." Ýmislegt á taóisminn líka sameig- inlegt rr'>ð kristindómi — eins og t.d. þessa kennisetningu: „Það sem þér viljið að aðrir menn gjöri yð- ur, það skulið þér og þeim gjöra.“ Taóistum er yfirleytt lítið um meting og múgæsingar gefið og finnst meira til um einlægt bros en góðverk sem er unnið af skyldurækni. Sennilega hafa margir ósviknir taóistar verið uppi hér á landi og í skáldverkum Halldórs Laxness eru nokkrir, t.d. Jón Prímus (Kristnihald undir Jökli) og pressarinn í Dúfnaveisl- unni. Merki taóista er hringur með tveim dropalaga formum sem falla þétt hvort að öðru. Annað er dökkt en hitt ljóst (eða rautt og blátt eins og í þjóðfána og skjald- armerki Suður-Kóreu) og nefnast þau Jin og Jang. Þau eiga að tákna tvíeðli allra hluta; jákvætt/nei- kvætt, vatn/eld, himin/jörð o.s.frv. og er markmið þeirra að sameinast. Þá þarf líklega ekki að taka fram að kynlíf er talið mjög mikilvægt meðal taóista en kyn- villa samrýmist ekki trúarbrögð- unum. Spenna og óþolinmæði samrýmast þeim ekki heldur. Allt er þegar þrennt er og samruni tveggja einstaklinga getur af sér þriðja einstaklinginn. Náttúru- dýrkun er taóistum í blóð borin. Þegar haft er í huga að Kínverjar eru nú rösklega einn milljarður talsins, þrátt fyrir tíðar náttúru- hamfarir í landi þeirra, má gera ráð fyrir að þeir séu miklir trú- menn. „ Eins grass byltingin Vellauðugur bóndi gerði athygl- isverða uppgötvun fyrir nokkrum árum. Hann hefur átt stóran landskika árum saman og ræktað ýmislegt á honum s.s. hveiti og hrísgrjón. Honum hefur alla tíð þótt vænt um jörðina og ekkert sparað til að hún gæti verið sem glæsilegust og skilað sem mestri uppskeru. Þvíhefur hann keypt sér alls kyns tæki og vinnuvélar, til- búinn áburð af bestu tegundum, fóðurbæti, skordýraeitur og hvað- eina sem gæti komið henni að gagni enda hefur hann fylgst vel með öllum nýjungum á sviði jarð- ræktar. Svo var það einn daginn að hon- um datt í hug að breyta til. í stað þess að velta fyrir sér hverju hann ætti að bæta við til að fá sem besta uppskeru fór hann að brjóta heilann um hverju hann gæti sleppt. Hann strikaði út ýmislegt af listanum sem hann hafði gert yfir helstu nauðsynjar varðandi bú- skapinn. Árið leið og í ljós kom að árangurinn varð síst verri en árið áður. Hann strikaði því út fleiri „nauðsynjar" og allt fór á sömu leið. Hann fór að nota frumstæð tæki við jarðræktina, hætti alveg að nota tilbúinn áburð, skordýra- eitur o.s.frv. — og tapaði engu á því. Hann heldur því jafnvel fram að uppskeran hafi aldrei verið betri og meiri en eftir að jörðin komst í sitt náttúrulega ástand aftur. Hann ræktaði hveiti og hrís- grjón á víxl. Úrgangsgrösin af hrísgrjónauppskerunni notaði hann sem áburð, þ.e.a.s. hann dreifði þeim á jörðina og sáði hveitifræjum í þau — og hlið- stæða aðferð notaði hann við hrísgrjónaræktunina. Ekki leið á löngu uns japönsk stjórnvöld fóru að veita manninum og ræktunar- aðferðum hans verulega athygli. Að síðustu skrifaði hann bók sem nefndist Eins grass byltingin og skömmu síðar var honum boðið í fyrirlestraferð til Bandaríkjanna til að kynna þessar sérkennilegu ræktunaraðferðir. En þegar hann kom aftur til Japans brá honum heldur en ekki í brún: Jörðin hans var komin í mestu órækt og niðurniðslu. Hvað hafði gerst? Einfaldlega það að hann hafði farið að heiman. Vinnumenn hans höfðu fylgt fyrirmælum hans út í æsar, en það var ekki nóg. Hann komst að þeirri niðurstöðu að að- ferðin, sem slík skipti ekki mestu máli, heldur hugarfarið sem beitt var. Nú á örtölvuöld má ýmsan lær- dóm draga af ræktunaraðferðum þessa japanska bónda — og þær eiga að sjálfsögðu við um fleira en jarðrækt. Heimur nútímamanns- ins er orðinn æði flókinn og menn eru farnir að spenna bogann til hins ýtrasta með allskyns kröfum, hvort sem þær eru nú fjárhagsleg- ar, félagslegar eða bara fánýtar á einhvern hátt. Ef boginn er spenntur mikið meira getur annað tveggja gerst: hann spennist ekki lengra eða þá að strengurinn slitnar. Það er auðvelt að sogast inní hringiðu hraðans í velferðarþjóð- félaginu og með tímanum fer að verða æ erfiðara að fylgjast með öllum þeim nýjungum sem boðið er uppá. Innan nokkurra ára gæti það orðið hreinasta púl. Þú sérð ekki heiminn eins og heimurinn er. Mundu að öll þín skynjun hrær- ist innra með þér. Það er því kominn tími til að við leitum uppi sanneðli okkar sjálfra og reynum að beina því inn á ein- hverja afleggjara sem liggja að hinum gullna meðalvegi. I leiðinni ættum við að nota tímann til að kynnast okkur sjálfum ögn nánar. Her og lögregla I E1 Salvador hafa þegar myrt 36 þús. manns Viðtal við Manuelu Garvia Villas, varaforseta Mannréttindanefndar E1 Salvador Manuela Garcia Villas, lögfræö- ingur og fyrrverandi þingmaður í El Salvador, en nú varaforseti Mannréttindanefndar El Salvador, var hér á ferð til að kynna á fs- landi og öllum Norðurlöndum störf mannréttindanefndarinnar og ástandið í El Salvador síðan nýlegar kosningar fóru þar fram. Hún sagði í samtali við Mbl., að hún væri þegar búin að hitta for- menn allra íslenzku stjórnmála- fiokkanna, hefði útskýrt málið fyrir þeim og þeir lýst samúð sinni með þjóð hennar, enda styðji ís- lendingar mannréttindi á alþjóða- vettvangi, eins og hún sagði. Hún hafði hitt biskupinn yfir Islandi og kaþólska biskupinn hér, verkalýðs- leiðtoga, formenn lækna-, lögfræð- inga- og kennarafélaga o.fi. Hún var á leið áfram til Finnlands til að kynna mál El Salvador þar. — í E1 Salvador er sam- steypustjórn með óverulegri þátttöku kristinna demókrata, og alger harðstjórn, sagði Manu- ela Garcia Villas. Eftir kosn- ingarnar 24. mars, hefur ástand- ið síður en svo lagast og ekki dregið úr hryðjuverkum hers og lögreglu. Það er erfitt fyrir ykk- ur, sem ekki þekkið slíkt, að skilja ástandið. í San Salvador finnur maður að morgni á göt- unni lík þeirra, sem drepnir hafa verið yfir nóttina. Her eða lögreglumenn hafa komið, fengið fólkið út úr húsunum og skotið það á staðnum. Við í mannrétt- indanefndinni reynum að hjálpa fátækum, skrásetja líkin og að- stoða þá við að jarða þau. Og söfnum umfram allt sönnunar- gögnum um það sem er að ger- ast, skráum engan drepinn, sem við höfum ekki sannanir um eða vitni að atburðinum. Og það sem af er þessu ári eru þetta 5.008 manns, sem þannig hafa misst lífið. Það er heldur lægri tala en á öllu árinu í fyrra, en þetta ár er heldur ekki liðið. Frá 15. október 1979 til 15. október 1982 eru á listanum 36.027 manneskj- ur. Við fáum tilkynningar for- eldra og ættingja um það hve- nær fólk hverfur og tökum myndir af líkunum, enda sjást oft á þeim áverkar er sýna hvaða meðferð fólkið hlaut, og komum sönnunum á framfæri hjá Rauða krossinum, Amnesty Internat- ional og alþjóðasamtökum, sem berjast fyrir mannréttindum. Með allar þessar sannanir, sem við höfum staðfest, getum við með réttu sagt, að ástandið hafi ekki batnað eftir kosningarnar. Við erum með lista yfir þá sem drepnir hafa verið frá því í janú- ar og fram í september í ár og það eru 4.308 manns. Áður en við höldum lengra í samtalinu er rétt að gera ofurlít- ið nánari grein fyrir Manuelu Garcia Villas og hvernig staða hennar er nú. Hún var þingmað- ur í flokki kristilegra demókrata eftir 1970, en gekk úr flokknum 1977, þar sem hún gat ekki sætt sig við að flokkur hennar hefði nokkra samvinnu við herinn. Hún er lögfræðingur að mennt, hefur starfað sem fréttamaður, og er nú varaforseti mannrétt- indanefndar E1 Salvador, sem er undir verndarvæng erkibiskups- ins í landinu, Riviera Y Damas. Yfirvöld flokka starf nefndar- innar þó undir pólitík og hefur nefndin aðsetur í Mexíkó. Þar er gefið út blað um mannréttinda- brotin, sem flytur allar upplýs- ingar. En hvernig kemst hún þá inn í landið? — „Ég get að sjálfsögðu ekki skýrt frá því,“ svarar hún, „en það er erfitt fyrir mig. Stjórn- völd vilja ekki að ég komi og kynni svo erlendis hvað er að gerast. Því get ég ekki komið beint um flugvöllinn með mitt vegabréf, en það tekst samt. Stjórnvöld hafa gert sér lista með 224 nöfnum af óæskilegu fólki. Á honum eru mörg nöfn presta og trúaðs fólks, og mitt nafn er á þeim lista, svo og fjög- urra annarra samstarfsmanna minna." Við lítum á lista sem hún er með, þar sem flokkað hefur verið eftir stéttum fólkið sem lögregla og her hafa drepið. Það vekur athygli að bændur eru lang- stærsti hópurinn, miklu stærri en verkamenn t.d., þótt flestar stéttir megi þar finna. Einnig á lista, þar sem flokkað er eftir aldri, að langstærsti hópurinn er 21—30 ára, og sá næsti börn og unglingar frá 1 árs upp í tvítugt. Og við spyrjum hver sé skýring- in á þessu. — „Kannski erfitt að segja það nákvæmlega. Við höfum herstjórn og fasíska stjórn. Alls staðar er fólk bælt niður. Það er geysileg fátækt í landinu. Fólk vinnur frá kl. 6 að morgni til kl. 6 að kvöldi fyrir 2 dollara laun- um á dag, og það sem ríður baggamuninn er, að það fær ekki vinnu nema að meðaltali 90 daga á ári. Svo ástandið er ægilegt. Er bændurnir t.d. koma og krefjast örlítið hærri launa, af því að þeir geta hreint ekki lifað af því sem þeir hafa, þá eru þeir með upp- steyt og eru hreinlega skotnir. Og þar sem bændur eru stærsta stéttin í landinu, eru flestir úr þeirra hópi. Vegna fátæktar lifir fólk ekki lengi, lífslíkur í E1 Salvador eru 40 ár. Ungbarna- dauði er mjög mikill. Við höfum lítið af öldruðu fólki, því fólk lif- ir svo stutt. Og alltaf er það svo að æskan er djörfúst við að veita viðnám. Þess vegna er það æsku- fólk á þrítugsaldri sem mest verður fyrir barðinu á stjórn- völdum, svo og börn og ungl- ingar innan við tvítugt. Og þegar líkin eru skilin eftir úti á götum, koma ættingjar þá bara að þeim og jarða þau? — Oft hefur fólk fundið lík sinna, en í raun miklu oftar en tilkynnt er. Fólk er hrætt. Oft er hægt að taka þau og jarða. En fyrir kemur líka að þeir sem koma til að hirða líkin eða eru að jarða þau, eru handteknir. Þá leitar þetta fólk til okkar, til- kynnir hvar lík er að finna og biður okkur um að reyna að fá því gröf. Við reynum það, en það er erfitt. Og oft kemur lögreglan á vettvang. Gerið þið í mannréttinda- nefndinni ykkur enn vonir um að ástandið lagist? — Sem kristið fólk höfum við vitanlega von um að það lagist. Og það hefur glætt vonina, að í síðustu viku bar formaður stjórnarandstöðunnar, þ.e. sósí- aldemókratanna, fram á blaða- mannafundi óskir um að stjórn- in og stjórnarandstaðan hefji umræður og samningatilraunir. Erkibiskupinn hefur lýst sig fylgjandi því. Og flestar er- lendar þjóðir eru fylgjandi slíkri friðsamlegri lausn, ef það mætti bæta. En stjórnvöld í E1 Salva- dor hafa ekkert sagt um þetta enn. Formaður ARENA-flokks- ins, sem er sá harðasti í stjórn- inni, hefur þó lýst sig andvígan slíkum sáttatilraunum. En hann er svo slæmur, að hann hefur látið hafa eftir sér í New York Times ummæli, sem við létum endurprenta í okkar blaði, Le Monde, að hann sé reiðubúinn að nota napalm gegn fólkinu ef nauðsyn krefji. En við vonum samt að stjórnin muni fyrir þrýsting frá stjórnum kristinna þjóða í Evrópu og fyrir áhrif frá Bandaríkjastjórn, neyðast til að taka Upp slíkar viðræður. Þar með kvöddum við þessa lágvöxnu, dökkhærðu konu með dapra svipinn, sem raunar er ekki að undra, og óskuðum henni góðrar ferðar til hinna Norður- landanna og velgengni í starfi. - E.Pá. I

x

Morgunblaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.