Morgunblaðið - 16.12.1982, Qupperneq 48
26
MORGUNBLAÐIÐ, FIMMTUDAGUR 16. DESEMBER 1982
Fæddur 20. maí 1893
Dáinn 9. desember 1982
Það var sumarið fyrir ragna-
rökin miklu í Evrópu, er ég kynnt-
ist Ásmundi Sveinssyni fyrst.
Hann var þá að „leira" líkt og
börn nefna það — nánar tiltekið
var hann að rannsaka leirinn
kringum litla hverinn við Laug-
arvatn og var með leirhnullunga í
lúkunum við hótelið, brosti breitt
við ungum forvitnum smápollum.
Okkur þótti hann vægast sagt
undarlegur og dularfullur í hátt
og mér varð þessi hægláti og
trausti maður minnisstæður.
Þarna var ég staddur fyrir
sérkennilega skikkan forlaganna,
því að faðir minn varð fyrir miklu
slysi í Osló og fékk bætur til að
dvelja á heilsuhæli og eyddi þeim
á svo fagran hátt að láta fjöl-
skylduna njóta þess, aðra en þá
sem þegar voru komnir í vega-
vinnu. Síst af öllu datt mér þá í
hug, að ég ætti eftir að feta svip-
aða braut og Ásmundur og löngu
seinna, er ég var að taka út
þroska, lét ég oft hugann reika til
þessara dásamlegu daga á Laug-
arvatni þar sem mér fannst ég lík-
astur kotungi í konungsríki. Jafn-
an var þá þessi síbrosandi maður
mér í fersku minni, og mér fannst
ylurinn frá honum, þessi mann-
lega hlýja, lýsa mér veginn fram,
þá er mest blés á móti.
Og nú er hann allur, var lengi að
skilja við lífið og kom þar fram sú
mikla seigla, er einkenndi líf hans
allt og gerði hann að einum snjall-
asta listamanni, er íslenzk þjóð
hefur eignast.
Ætti ég mér eina ósk, væri hún
sú, að þessum línum fylgdi mynd
af höndum Ásmundar, þar sem
hann handlék ástúðlega leirinn við
Laugarvatn, og úr minni mínu
hverfur aldrei.
Aðra minningu á ég frá öðru
löngu liðnu sumri, og hún er frá
því er ég hafði vinnuaðstöðu í
gagnfræðaskóla verknáms við
Selsvör. Á björtum sumarnóttum
átti ég erfitt með að slíta mig frá
þeim síkvikulu litbrigðum náttúr-
unnar, sem alstaðar voru þar í
sjónmáli og ég reyndi af alefli að
festa á léreft. Svo var gengið heim
á Laugarásinn, og það var löng
ganga, en ávallt fór ég framhjá
kúlunni hans Ásmundar og horfði
heillaður drjúga stund á þetta sig-
urverk eins manns.
Ég játa það hreint út sagt, að
stundum fann ég tárin streyma
niður vanga mína, en það voru
gleðitár yfir allri þessari himn-
esku fegurð og þakklæti til for-
sjónarinnar yfir því að vera sam-
landi Ásmundar. Og þá voru spor-
in létt, það sem eftir var á Laugar-
ásinn, og betur hef ég sjaldan sof-
ið né hressari vaknað til nýs dags.
Með eigin höndum byggði Ás-
mundur sér tvö hús, og bæði eru
þau einstök listaverk og íslenskum
húsagerðarmönnum til umhugs-
unar, enda hafa félagssamtök
þeirra aðsetur í öðru þeirra.
Hugvitssemi hans átti sér engin
takmörk og hann glæddi erlend
áhrif rammíslenskri vitund.
Því var líkast, sem þessi maður
væri sprottinn upp úr íslenzkum
þjóðsögum og nú er svefninn langi
hefur breiðst yfir ásjónu hans, er
þakklætið efst í huga. Þakklæti
fyrir þá miklu list og heilladrjúga
fordæmi, er hann gaf okkur hinum
yngri, að láta ekki deigan síga, en
halda rólegir veginn fram með
sannfæringu okkar í malnum.
Ásmundur Sveinsson frá Kolstöð-
um í Miðdölum í Dalasýslu mun
ávallt lifa með sinni þjóð, vera
henni ljósgjafi og afl með list
sinni.
Bragi Ásgeirsson
Tugir ára eru liðnir frá því að ég
gerðist svo djarfur að taka lista-
manninn Ásmund Sveinsson
myndhöggvara tali. Það var á
málverkasýningu einni hér í borg-
inni. Mig hafði lengi dreymt um
að fá að sjá einhver verka hans —
en hann var þá nýfluttur í vinnu-
stofu sína við Freyjugötu — hafði
áður búið á Laugarnesspítala, og
enda þótt það hús væri nærri mín-
um bernskuslóðum, hvíldi viss
bannhelgi yfir þeim stað, þannig
að þangað fór enginn, sem ekki
átti þangað brýnt erindi.
Þessi stutta viðkynning varð
mér ógleymanleg, eitthvað í fari
listamannsins heillaði mig strax,
góðlátleg kímni og velvilji, en um
leið krafa til listamanna.
Árin liðu og leiðir okkar lágu
saman með ýmsum hætti, t.d. átt-
um við saman sæti í safnráði
Listasafns íslands, á fyrstu árum
eftir að sú stofnun hafði verið
lögfest, og þar lagði hann jafnan
gott til málanna. Seinna naut ég
þeirrar ánægju að vera lögmaður
hans og átti þátt í því, að Arki-
tektafélag íslands keypti Ás-
mundarsal við Freyjugötu. Hann
hafði gaman af því, að einmitt
samtök arkitekta skyldu eignast
húsið.
Sem leiðsögumaður erlendra
ferðamanna um höfuðborgina átti
ég iðulega erindi í listaverka-
skemmu hans við Sigtún.
Mér fannst það hluti af kynn-
ingu á Reykjavík að leiða erlenda
ferðamenn til listamannsins.
Hann var þarna eins og persónuJ
gervingur söguritunar, forneskju
og framúrstefnu í senn og bauð
milljónamæringum í nefið. —
Nokkrum þeirra datt í hug að
spyrja, hvort verkin væru föl, ein-
staka, svo sem olíukóngar frá
Houston í Texas, vildu kaupa allt
safnið. Nei, þetta safn var eign
þjóðarinnar — eign Reykjavíkur
— verkin voru ekki föl.
Einn skugga bar á í þessum
ferðum, en það var, að verkin voru
úr gifsi en ekki steypt í eir. Ein-
hvern tíma barst það í tal á milli
okkar, að það væri gaman, ef hægt
væri að sýna verkin í réttu efni.
Það atvikaðist líka svo, að rneð
okkur tókst samstarf um það að
láta steypa nokkur verka hans er-
lendis, m.a. „Eva yfirgefur Para-
dís“, „Eva talar", „Galdramaður",
„Gaídrahjallur" o.fl.
Það var alltaf ánægja að hitta
þau í listaverkaskemmunni,
Ingrid eiginkonu Ásmundar og
listamanninn í skemmunni. Ingrid
kvaddi þennan heim 1976. Hún var
honum mikil stoð. — Voru leið-
sögumenn erlendra ferðamanna
þéim ávallt aufúsugestir.
Fyrri kona Ásmundar var
Gunnfríður Jónsdóttir mynd-
höggvari, mikill kvenskörungur.
Auðvitað átti ég allt of fáar
stundir með listamanninum, en
þær voru ógleymanlegar. — Mér
er t.d. minnisstætt, þegar í undir-
búningi var að steypa verkið „Eva
yfirgefur Paradís", hvernig lista-
maðprinn hugleiddi um verkið.
Hann vildi láta það koma fram, að
Eva hefði yfirgefið Paradís með
reisn, því hún vissi, hvað Jiún átti
í vændum. Þótt hún væri rekin úr
Paradís, þá kímdi hún við. Slíkur
var húmor Ásmundar. Eða fögn-
uður Evu, þegar hún, hin fyrsta
kona, gerir sér ljóst, að hún getur
talað — og dansar af gleði.
Ef hægt er að segja að einstakl-
ingur sé ímynd íslenskrar þjóðar-
sálar, þá var það Ásmundur
Sveinsson. Hann var óvenjulegur
persónuleiki og stór í öllu, sem
hann gerði, — fjölkunnugur af-
reksmaður. I honum voru sumir
bestu þættir íslenskra sveita-
manna, svo sem hin þrotlausa at-
orka og hrjúfa hlýja — að öðru
leyti var hann heimsborgari og
kemur það fram í list hans.
Fyrir mörgum árum sátum við
Jóhannes Sv. Kjarval saman yfir
kaffibolla á veitingastað. Kjarval
var mikið niðri fyrir. Hann las
fyrir mig brot úr umsögn gagn-
rýnanda um verk listamanns, sem
kvatt hafði þennan heim. Hann
býsnaðist mikið yfir orðinu „heit-
inn“ og sagði: „Enginn listamaður
getur verið heitinn, því hann lifir
áfram í list sinni. Myndirðu nokk-
urn tíma segja Shakespeare heit-
inn eða Grettir heitinn.“
Auðvitað var þessi athugasemd
réttmæt — Ásmundur Sveinsson
lifir áfram í verkum sínum — í
sinnl miklu gjöf til íslensku þjóð-
arinnar.
Við erum stórum ríkari að eiga
Ásmund Sveinsson.
Ég votta dóttur hans, Ásdísi, og
tengdasyni, Helga E. Helgasyni,
og dóttursonunum, Ásmundi og
Helga Sæmundi, virðingu mína og
þakklæti.
Listin er óendanleg en lífið
stutt.
Gunnlaugur Þórðarson
Vestur á Seltjarnarnesi stendur
myndin Trú eftir Ásmund
Sveinsson og mér er nær að halda
að þessi mynd hafi verið honum
kærust allra verka, er hann vann á
löngum listamannsferli sínum.
Upphafið að gerð þessarar mynd-
ar var hugmynd er hann lagði
fram að skjaldarmerki fyrir
Reykjavík um 1955, og eru súlurn-
ar sem nú bera verkið uppi það
eina sem eftir varð frá frumhug-
myndinni, en næsta þróun mynd-
arinnar varð svo skírnarfonturinn
í kirkju Óháða safnaðarins og var
þá reyndar endanleg gerð mynd-
arinnar fullmótuð.
Um þessa einu mynd Ásmundar
mætti skrifa langan fyrirlestur
um trúarviðhorf Islendinga í
gegnum aldirnar og fá umræðu-
efni voru honum hugstæðari en
gildi trúarinnar fyrir mannlífið.
Strax á námsárunum í París verð-
ur honum rík í huga þjóðsagan um
Sæmund og heimsiglinguin á seln-
um. Aðeins hin helga bók gat
bjargað frá eilífri glötun. En þeg-
ar á allt er litið, var manninum
það mikilvægast að trúa á Móður
jörð og geisla sólarinnar, sem gáfu
öllu líf. Þann sannleika túlkaði
Ásmundur í fjölmörgum verka
sinna. Sjálfum var honum það
nauðsyn að stinga upp garðinn
sinn og setja niður útsæði til að
komast í snertingu við vorið. Upp-
runinn sagði glöggt til sín og hug-
ur Ásmundar var oft bundinn við
minningar frá æskustöðvunum
vestur í Miðdölum, einkum hin
síðari ár eftir að hann hóf mótun
tröllamyndanna, sem hann kallaði
svo, en þá vöktu fyrir hugskoti
hans minningar frá dögum hjáset-
unnar í Geldingadal, þegar dimm-
viðri og þoka mögnuðu kletta-
borgir og fjalladranga og hann sá
þær furðumyndir fyrir sér alla tíð
sem meistarasmíð sköpunarinnar.
Mörgum sinnum höfðum við
áformað heimsókn í dalinn hans,
en það varð aldrei annað en ráða-
gerðin. Sjálfum finnst mér þó, að
dalnum hans megi ég til með að
kynnast af eigin sjón, svo margt
var Ásmundur búinn að segja mér
frá honum, og ef af þeirri för verð-
ur einhvern daginn, þá trúi ég því,
að vinur minn verði mér nálægur
og bendi mér á markverðustu
tröllamyndirnar, sem þar eru
geymdar, myndirnar sem vöktu
hjá honum þrá til að fara út í
heim og kynnast handbragði
fornra meistara á sviði
höggmyndalistar. En hvar sem
hann fór, gleymdi hann ekki daln-
um sínum né fólkinu sem bjó þar
við erfið kjör og hreggviðri, sögu
þessa lands og landvættum.
Myndir hans fjalla um Island og
eru í takt við það líf sem landið
býður upp á. Verk hans munu
standa um ókomin ár, þótt sjálfur
hafi hann kvatt eftir langan
starfsaldur.
Hafliöi Jónsson
Daginn sem ég frétti lát Ás-
mundar Sveinssonar, sagði ég við
vin minn: „Ásmundur er dáinn" og
hann svafáði: „Þar fór mikill öðl-
ingur". Það eru orð að sönnu, því
öðru eins ljúfmenni hef ég ekki
kynnst og ég býst við því að öllum
sem kynntust Ásmundi sé það
sama í huga.
Ég man fyrst eftir honum þar
sem hann var að brasa við að
koma stórri mynd út úr Ásmund-
arsal, þar sem hann hafði vinnu-
stofu. Við vorum þrír skólabræð-
ur, sem gengum gjarnan framhjá
húsi Ásmundar þegar við fórum
heim úr skóla og við stóðum þarna
og horfðum á. Asmundur fór strax
að ráðgast við okkur um það
hvernig best væri að koma mynd-
inni út og auðvitað var mikið
spekúlerað og málin rædd frá öll-
um hliðum. Ég minnist aðeins á
þetta atvik vegna þess að Ás-
mundi var svo létt að tala við
hvern sem var, það var sama
hvort það var ellefu ára strákur úr
barnaskólanum eða þjóðhöfðingi.
Hann talaði alltaf um högg-
myndir eða aðrar listir og talaði
ávallt máli listarinnar. Eg man
svo vel eftir þegar hann var að
hamra á því að list ætti að vera úti
en ekki inni í stofum, því að úti
njóta fleiri og það var aðalmálið
fyrir Ásmundi að sem flestir gætu
notið listarinnar, vegna þess að
list er mannbætandi.
Ásmundur var frumkvöðull að
stofnun Myndlistarskólans í
Reykjavík og kenndi þar í mörg
ár. Þessi skóli var fyrsti skólinn á
íslandi sem kenndi skúlptúr.
Þegar hann var að kenna, þá var
hann alltaf svolítið forvitinn og
spenntur að sjá hvað nemendurnir
væru að gera og hann hafði ótrú-
lega góð og jákvæð áhrif á alla.
Nú eru mörg ár síðan Ásmund-
ur fékkst við kennslu en verk hans
eru og munu verða ómetanlegur
þáttur myndlistarkennslu hér á
landi og um ókomna framtíð.
í máli hans kom ávallt fram ást
og virðing fyrir listinni og því að
búa til og gera eitthvað fallegt.
Hann talaði um fegurð, list, list-
amenn og stefnur og hann var
alltaf jákvæður. Jafnvel fáránleg-
ustu hugmyndir sem um var rætt
hverju sinni fengu umfjöllun, og
alltaf var þetta ljúfa jákvæða
viðhorf fyrir hendi.
Ásmundur var að sjálfsögðu
maður hins þrívíða forms, gerði
myndir sem hægt var að ganga í
kringum og skoða frá öllum hlið-
um. Myndir hans eru ótrúlega þrí-
víðar og þótt sumar séu smáar í
sniðum, þá eru þær yfirleitt hugs-
aðar mjög stórt. Og þegar við
skoðum verkin hans sjáum við að
þau eru ekki bara framhlið og
bakhlið, heldur virka þau sem
heild forma sem veita okkur gleði
og undrun. En við nánari skoðun
sjáum við að formin geyma í sér
skoðanir og lífsviðhorf lista-
mannsins.
Og skoðandinn uppgötvar þessa
fallegu trú Ásmundar á lífið og
tilveruna, þessa trú sem við sjáum
í myndum eins og Móður Jörð og
Sonatorreki og fleiri höggmyndum
sem hann hefur auðgað samfélag
okkar með.
Verk hans munu standa um
ókominn tíma sem minnisvarði
um þann myndhöggvara íslenskan
sem hvað mest hefur stuðlað að
því að gera myndlist aðgengilega
fyrir almenning, og um leið að
fegra umhverfið.
Reykjavíkurborg hefur á undan-
förnum árum eignast margar
myndir eftir Ásmund en þó er
mest, að hann hefur nú arfleitt
Reykjavíkurborg að öllum verkum
sínum, bæði úti og inni, og hef ég
ekki heyrt af annarri gjöf jafn
stórri. Að gefa lífsstarf sitt er
ótrúlega fallegt. Lífsstarf hans
var þrotlaus vinna að myndlist
þann tíma sem kraftar hans ent-
ust. Hann hefur auðgað líf okkar
með því sem aldrei verður metið
til fjár, en það er trúin á lífið og
listina.
Við kveðjum þennan mikla öðl-
ing með djúpri virðingu og þökk.
Myndhöggvarafélag Islands
Jón Gunnar Árnason
Einn af merkustu samtíðar-
mönnum okkar er látinn og verður
til moldar borinn í dag.
Ásmundur Sveinsson var einn
þeirra manna, sem skilja eftir sig
verðmæti, sem ekki verða metin
til peninga. Okkur, sem umgöng-
umst verk Ásmundar svo til dag-
lega í þessari borg, er hollt að
minnast þess, að þessi verk skóp
Ásmundur, þrátt fyrir andstreymi
og erfiðar aðstæður um langan
tíma. Framan af var Ásmundur
allt að því einn á báti með nýjung
í listum, sem ekki átti sér marga
stuðningsmenn hérlendis, enda
þótt höggmyndalistin, í þeim bún-
ingi, sem Ásmundi var nærtæk-
astur, hefði þegar fest rætur í evr-
ópskri menningu og breiðzt ört út
um lönd með margvíslegum stíl-
brögðum og ýmsum hliðarsporum.
Lífið og listin tóku örum breyting-
um á fyrstu tugum aldarinnar, og
hræringar þær, sem þá áttu sér
stað, fóru ekki fram hjá bóndasyn-
inum úr Dölum vestur. Ásmundur
Sveinsson var einn þeirra manna,
sem skópu islenzka menningu
tuttugustu aldarinnar. Hann stóð
föstum fótum í því hefðbundna, en
var jafnframt boðberi þess nýja í
höggmyndalist, og um það vitna
verk hans bezt.
Maðurinn Ásmundur Sveinsson
var ógleymanlegur öllum þeim, er
urðu þeirrar ánægju aðnjótandi
að kynnast honum. Hann var
sérkennilegur persónuleiki, sem
kom mönnum á óvart með vits-
munum sínum og skarpskyggni.
Hann var margslunginn listamað-
ur, sem gekk ótrauður nýjar slóð-
ir, sem stundum nutu lítillar hylli
meðborgaranna. Margir munu
minnast þess úlfaþyts, sem varð
hér í sambandi við Vatnsberann,
en öll sú saga er nú fyrnd og
næsta ótrúleg í augum yngra
fólks. Og Vatnsberinn var ekki
einasta verk Ásmundar, sem kom
samtíð hans í opna skjöldu; orð
hans og athafnir gátu líka orðið til
þess.
Þegar Ásmundur Sveinsson
varð sextugur, en síðan eru liðin
29 ár, fór hann í reisu með konu
sinni til Parísar, en þar hafði
hann dvalið fyrir mörgum árum
við nám hjá sjálfum Bourdelle.
Svo bar við, að einmitt á sama
tíma og þau hjón komu til Parísar,
var ég staddur þar í borg, og leiðir
okkar lágu nokkuð saman. Þeir
dagar standa mér ljóst í minni.
Mér er sérstaklega minnisstæð
heimsókn, sem ég fór í með Ás-
mundi, til hins fræga myndhöggv-
ara Zadkins. Sú heimsókn var
meira en einnar messu virði. Ég
rifja þetta upp hér, vegna þess að
hún gefur dálitla innsýn í per-
sónuleika þessara tveggja manna.
Ásmundur hafði setið á kaffihúsi
með okkur nokkrum Islendingum,
þegar Zadkin bar þar að, eins og
hans var vani. Hann staldraði
svolítið við, horfði á hópinn, og
síðan var hann horfinn fyrir horn.
Daginn eftir bar fundum okkar
Zadkins saman. Hann spurði mig,
hver sá maður hefði verið, sem sat
með okkur í gær. Ég gat frætt
meistarann um það og það tók
engum togum, að hann vildi
clmur, að ég kæmi með Ásmund í
vinnustofu sína daginn eftir. „Ég
hef áhuga á þessum rnanni," sagði
hann. Það var engum vanköntum
bundið af hálfu Ásmundar, og við
fórum. Zadkin tók vel á móti
okkur, og þeir meistararnir tók
strax tal saman. Zadkin var Rússi,
en talaði ensku. Ásmundur var ís-
lendingur og talaði sænsku. Hóf-
ust nú upp einar merkilegustu
samræður, sem ég hef heyrt , en
verða þær ekki raktar hér. Báðir
töluðu erlent mál, en þó ekki það
sama, en ekki var annað að
merkja en að þeir skildu hvor ann-
an til fullnustu. Þarna varð til
mikitl vinskapur og gagnkvæm
virðing, er entist báðum frá þeim
degi. Slíkri uppákomu gleymir
maður ekki.
Annar atburður er mér minn-
isstæður frá þessari Parísardvöl.
Ásmundur vildi endilega sýna
konu sinni, hvar hann hefði gengið
í læri á sínum tíma. Hann gerði
sér því ferð með henni að skóla-
húsinu, þar sem hann hafði lært
að móta í leir. Þegar þangað kom,
lá leið þeirra hjóna um gang, er lá
frá götu inn í stórt port að húsa-
baki. Þar í ganginum var gömul
kona að bjástra við að skúra
tröppur. Það voru eitthvað um
þrjátíu ár síðan Ásmundur hafði
verið þarna seinast á ferð. Þegar
þau hjón ganga þarna framhjá,
lítur sú gamla upp andartak og
segir við Ásmund: „Nei, ert þú nú
kominn aftur." „Þarna getur þú
séð,“ sagði Ásmundur, „svona eru
Frakkarnir. Tryggðatröll, ef þeir
taka manni á annað borð.“ Þetta
litla atvik segir einnig sína sögu.
Nú þegar Ásmundur Sveinsson,
sem var orðinn heil stofnun í lif-
anda lífi, er kvaddur í hinsta sinn,
er það ekki með söknuði, heldur
með gleði yfir, að slíkur maður
skuli hafa verið til á þessu landi.
Ég læt það verða mín síðustu orð
hér, sem Ásmundur sjálfur sagði
um Rodin: „Höggmyndin hefði
aldrei náð eins langt og raun ber
vitni í nútímabúningi sínum, ef
Rodin hefði ekki notið við.“ Ég tek
mér það bessaleyfi að breyta þess-
ari setningu og segja „ef Ásmund-
ur hefði ekki verið“.
Valtýr Pétursson