Morgunblaðið - 16.03.1983, Qupperneq 20
20 MORGUNBLAÐIÐ, MIÐVIKUDAGUR 16. MARZ 1983
Riddarar sannleikans
— eftir Þórarin
Sigþórsson,
tannlækni
Á undanförnum árum hefur á
Islandi risið upp ný stétt blaða-
manna. Þetta eru blaðamenn sem
lýsa því yfir sjálfir, að þeir séu
frjálsir. Þeir segjast ekki vinna
við þær sömu aðstæður, sem aðrir
blaðamenn hafi þurft að vinna við
á undan þeim, að vera háðir hags-
munaaðilum á sviði stjórnmála
eða öðrum sviðum. Þessir nýju
blaðamenn hafa þannig barið sér
á brjóst og þeyst fram á ritvöllinn
með sannleikann einan að vopni.
Þeir segjast stunda „rannsóknar-
blaðamennsku" og slá þar með
sjálfa sig til riddara sem siðgæðis-
verðir hins spillta samfélags. Þeir
eru riddarar sannleikans.
Meðal þeirra blaðamanna sem
hafa viljað lýsa sjálfum sér á
framangreindan hátt eru blaða-
menn „Helgarpóstsins". Þeir gefa
ekki svo út blað að ekki birtist
einhver afkvæmi „rannsóknar-
blaðamennskunnar". Yfirleitt er
þá sá háttur á hafður, að megin-
rannsóknarefni í hvert sinn er
slegið upp á forsíðu með viðeig-
andi „dramatík" um niðurstöður
rannsóknar.
Uppsláttargrein
Helgarpóstsins
Þann 4. marz sl. kom út Helg-
arpóstur. Á forsíðunni var slegið
upp í stóru letri með viðeigandi
myndskreytingu: „Allt að 500%
munur á verðlagningu tann-
lækna“. Þetta var niðurstaða, sem
einn af rannsóknarblaðamönnun-
um hafði komizt að, eftir rann-
sókn á verðlagningu fyrir tann-
viðgerðir. Inni I blaðinu var grein
um rannsóknina, sem lá til
grundvallar. Skal nú litið örlítið
nánar á framkvæmd hennar.
f grein sinni segir blaðamaður-
inn frá því, að hann hafi gert
könnun á, hvað kosta myndi að
„gera við eina litla holu framan á
miðri framtönn í efri gómi“. Hefði
verið hringt á nokkrar tannlækna-
stofur til að spyrja um þetta og
hefði þá komið í ljós, að viðgerð
þessi kostaði frá um 300,00 kr. og
upp í 1.630,00 krónur. Það væri því
meira en 500% munur á hæstu og
lægstu tölu.
I inngangi greinarinnar sagði
síðan svo: „A stofu Björgvins
Jónssonar var giskað á að þessi
viðgerð kostaði 300,00 krónur. Á
stofu Þórarins Sigþórssonar var
sagt að verðið væri allt að 1.630,00
krónumr, það færi eftir hvort not-
uð væri fylling sem kostaði 869,00
krónur eða 538,00 krónur en um
þessar tvær fyllingar væri að
ræða. Á þremur stofum var farið
beint í gjaldskrá tannlækna og
þar er verðið 321,00 króna og 61,00
krónur fyrir deyfingu, og er þá
innifalinn efniskostnaður."
Niðurstaða blaðamannsins var
samkvæmt þessu sú, að viðgerð
hjá mér væri allt að 500% dýrari
en hjá öðrum tannlæknum.
Mismunandi læknis-
aðgerðir bornar saman
Nú er það svo að ég fer alfarið í
starfi mínu eftir lágmarkstaxta
Tannlæknafélags íslands. Og
reyndar er það svo, að verðin sem
blaðamaðurinn nefnir er öll að
finna í lágmarkstaxtanum. Þetta
eru bara verð fyrir mismunandi að-
gerðir. Og verðin eru því alls ekki
sambærileg. Þegar blaðamaðurinn
ber saman verðin 321,00 króna og
1.630,00 kr. úr gjaldskránni, er það
svipað eins og að bera saman verð
á saltfiski og laxfiski, svo dæmi sé
tekið af sviði sem ég þekki. Verðið
1.630,00 krónur er fyrir uppbygg-
ingu á brotinni tönn með sérstök-
um ljósherðandi efnum. Verðið
321,00 króna er fyrir allt annað,
þ.e. venjulega framtannarfyllingu.
Og verðin 869,00 krónur og 538,00
koma líka fyrir í gjaldskránni, og
eru fyrir enn annars konar að-
gerðir. Það er því ljóst að saman-
burður blaðamannsins á verðun-
um og ályktun hans um 500%
verðmun milli tannlækna er ein-
faldlega rangur.
Fyrirfram mátti
búast við
misskilningi
Eftir að mér hafði verið bent á
þessa risafrétt um svívirðilega
verðlagningu mína í blaðinu, fór
ég að aðgæta hverju þetta sætti.
Ég kannaðist ekkert við að hafa
rætt við manninn. í ljós kom að
blaðamaðurinn hafði hringt á
stofu mína og talað þar við
starfsstúlku mína. Ekki kynnti
hann sig og taldi stúlkan að hún
væri að raeða við einhvern við-
skiptamann stofunnar. Ég var
ekki við sjálfur.
Stúlkan hefur tjáð mér, að hún
hafi svarað manninum á þá lund,
að ekki væri unnt að gefa honum
óyggjandi svör um kostnaðinn í
gegnum síma. Til þess þyrfti skoð-
„Nú er það svo að ég
fer alfarið í starfi mínu
eftir Iágmarkstaxta
Tannlæknafélags ís-
lands. Og reyndar er
það svo, að verðin sem
blaðamaðurinn nefnir
er öll að finna í lág-
markstaxtanum. Þetta
eru bara verð fyrir mis-
munandi aðgerðir. Og
verðin eru því alls ekki
sambærileg.
un læknisins, greiningu á
skemmdinni og ákvörðun um við-
eigandi viðgerð. Síðan hefði hún
fyrir þrábeiðni mannsins reynt að
gera honum grein fyrir helztu lið-
um í þeim kafla lágmarks-
gjaldskrárinnar, sem fjallar um
tannfyllingar. í þeim kafla eru all-
ar fyrrgreindar tölur.
í ljós er komið, að blaðamaður-
inn hefur náð niður réttum fjár-
hæðum í krónum talið, en hins
vegar hefur hann alveg ruglazt í
því, fyrir hvers kyns aðgerðir ein-
stakar fjárhæðir voru. Finnst mér
mun líklegra, að ófróður blaða-
maðurinn hafi ruglazt heldur en
starfsstúlka mín, sem veit tölu-
vert mikið af starfsreynslu sinni,
hvað hún talar um, þegar lág-
marksgjaldskrá tannlækna er
annars vegar. Mestu máli skiptir
þó, þegar þetta er athugað, að
vinnubrögð blaðamannsins voru
með þeim hætti, að fyrirfram
mátti búast við misskilningi og
rangfærslum (kannski hefur hon-
um þótt það allt í lagi — bara ef
hann fengi uppsláttarfrétt). Eða
hverjum er það ekki ljóst, að úti-
lokað er að hringja og spyrja um
verð á læknisþjónustu, eins og um
dós af grænum baunum væri að
ræða? Læknir þarf að skoða sjúkl-
ing og sjúkdómsgreina, áður en
hann ákveður um læknisaðgerð.
Sú starfsemi fer ekki fram í gegn-
um síma, og auðvitað enn síður ef
alls ekki er verið að tala við lækn-
inn sjálfan.
Riddararnir játa
mistökin
Blaðagreinin og uppslátturinn
var auðvitað eins og hnefahögg í
andlit mitt. Því var haldið fram og
slegið upp í blaðinu að verð fyrir
mín störf væri 500% hærra en
verð fyrir störf annarra tann-
lækna. Ég hafði þvi samband við
lögmann minn og óskaði eftir að-
stoð hans við að reyna að ná fram
leiðréttingu mála minna í blaðinu.
Hófst nú annar kafli í samskipt-
um mínum við sannleiksriddar-
ana.
Eftir að lögmaður minn hafði
skýrt málið fyrir blaðamanninum
og ritstjórum hans, gátu þeir auð-
vitað ekki annað en játað, að meg-
inályktun greinarinnar um 500%
verðmuninn væri einfaldlega
röng. Þeir sáu auðvitað það sem
augljóst var, að bornir voru saman
mismunandi liðir í gjaldskránni.
Riddararnir reyndu auðvitað að
skella skuldinni af rangfærslun-
um á starfsstúlku mína, og voru
lítt fúsir til að viðurkenna, að for-
kastanlegum vinnubrögðum
þeirra sjálfra var um að kenna.
Einnig lýstu þeir yfir því siðavið-
horfi sínu, að ekkert væri athuga-
vert við að afla upplýsinga frá
mönnum og hafa eftir þeim
nafngreindum, þó að viðmæland-
anum væri aldrei ljóst að hann
talaði við blaðamann, sem ætlaði
að birta svörin. Látum þetta kyrrt
Iiggja. Eins og málinu var komið
var aðalatriðið fyrir mig, að
mennirnir viðurkenndu sjálfir, að
meginuppslátturinn í greininni
væri rangur.
Sannleiksást
og siðaviðhorf
í viðræðum sínum við blaða-
mennina höfðaði lögmaður minn
til sannleiksástar þeirra og svo
hins, að miðað við þau siðaviðhorf,
sem þeir sjálfir þættust hafa, væri
Þórarinn Sigþórsson
það brýn skylda þeirra að leið-
rétta með áberandi hætti í blaðinu
áburðinn á mig. Sannleiksriddari
hlyti að hafa það meginviðhorf,
eftir að hann hefði ranglega níðzt
á æru annars manns, að vilja gera
allt sem hann gæti til að rétta
hlut hans.
Einhver tregða var í viðbrögð-
um riddaranna. Þeir höfðu jú sleg-
ið þessu upp sem aðalefni með
miklum „bravör". Illt var að þurfa
sjálfir að kokgleypa stóru orðin.
Það kynni auðvitað að hafa þær
afleiðingar, að staðhæfingar
þeirra í framtíðinni yrðu aðeins
skoðaðar sem eins konar tilgátur
eða uppástungur um staðreyndir.
Niðurstaðan varð svo sú að þeir
kynntu lögmanni mínum leiðrétt-
ingargrein, sem að vísu var skrif-
uð með hálfgerðum semingi, en fól
þó í sér efnislega, að þeir viður-
kenndu að hafa borið saman
ósambærilegar tölur og að hafa
haft mig fyrir rangri sök. Úr því
sem komið var þótti þetta betra en
ekkert. Rík áherzla var svo lögð á
að leiðréttingin yrði birt strax í
næsta blaði, þ.e. þvi sem kæmi út
11. marz. Samþykktu þeir það.
Þeir féllu
á prófinu
Blað þeirra kom svo út þann
dag, en ekki var þar að finna eitt
einasta orð um málið. Þeir höfðu
fengið tækifæri til að sýna að í
þeim fælist einhver manndóms-
vottur, og að minnsta kosti hálfur
sannleikur (þ.e. ósannindi, sem
síðar eru dregin til baka) væri
þeirra skjaldarmerki. Þeir féllu á
þessu prófi. Og eftir stendur það
sem raunar margir hafa lengi
haldið fram: Gömlu blöðin eru ær-
legri, fyrst og fremst af því að þau
þykjast ekki vera betri en þau eru.
Og líklega líka vegna þess að þau
þurfa ekki að skrökva æruna af
mönnum til að seljast.
Við Ásvallagötu
eða Löngulínu
— í göngutúr framhjá húsinu
Kvíkmyndir
Ólafur M. Jóhannesson
Hér er ekki ætlunin að skrifa
gagnrýni um nýjustu íslensku
kvikmyndina Húsið, því það verk
hefir þegar verið innt af hendi
hér í blaðinu. En því er nú bara
þannig varið að mér varð reikað
vestur í bæ að lokinni frumsýn-
ingu myndarinnar. Ég veit ekki
hvort það voru hin duldu öfl sem
leidd voru til öndvegis í mynd-
inni er stýrðu mér á þessar slóð-
ir — en skyndilega horfðist ég í
„augu“ við Húsið. Ég segi ekki að
það hafi verið vorangan í lofti
þessa stund en gróðurilmur
barst með gráleitum rakaslæð-
um er sópuðust frá kirkjugarðin-
um gamla. Tréð fyrir framan
Húsið hallaði undir flatt líkt og
gamall maður sem gáir til veð-
urs. Fuglar sátu kyrrir í lofti og
bílar liðu hljóðlaust eftir göt-
unni einsog marglitar pöddur á
hjólum. Ég hafði á tilfinning-
unni að blómin væru í viðbragðs-
stöðu millimeter oní moldinni;
að á hverju augnabliki spryttu
þau upp brosandi framan í heim-
inn. En þá hvarf þessi sýn.
Ég er staddur á Ásvallagötu í
sudda, að berja augum fremur
snoturt reykvískt hús, svona frá
því um aldamót. Hvernig í and-
skotanum datt mönnunum í hug
að gera mynd um þetta hús, um
fólk sem stendur þar í miðils-
kukii? Ha — ég spyr bara? Og
við sem eigum allar þessar stór-
fenglegu bókmenntir ófilmaðar
— að gera mynd um hús á Ás-
vallagötunni. Hvað varðar fólk í
Stokkhólmi, í Kjöben, í New
York um líf og örlög fólks er býr
í snotru húsi sem hefir verið
plantað á suðvesturhorn eyju
nokkurrar í miðju N-Atlants-
hafi? En þá má eins spyrja; hvað
varðar fólk sem býr í Reykjavík
um líf og örlög fólks í húsi sem
stendur við Löngulínu eða 42.
götu. Tja — erum við ekki ár og
síð og alla tíð að hnýsast í líf
þesskonar fólks? Hvarfla ekki
kvikmyndaaugu heimsins stöð-
ugt um innviði húsa sem standa
við Lóngulínu eða fertugustu og
aðra götu? Er fólkið eitthvað
merkilegra í þessum húsum en
húsunum við Ásvallagötu? Er
það ekki skapað í kross eins og
við hér?
Auðvitað er fólk bara fólk
hvar sem því er plantað á jarð-
arkringluna. Það sem skiptir
máli er hvernig sagt er frá fólki
— lífi þess og örlögum. Húsið við
Ásvallagötu gæti þess vegna
staðið við Löngulínu eða 42.
götu, svo skilmerkilega er sagt
frá örlögum íbúa þess að á erindi
til allra þeirra sem hafa áhuga á
samborgurum sínum. En því
miður er ég hræddur um að fólk-
ið við Löngulínu og fertugustu
og aðra götu fái ekki tækifæri til
að kynnast nágrönnunum í Ás-
vallagötunni. Fólkið í Húsinu
talar nefnilega undarlega tungu
af germönskum stofni, sem sam-
kvæmt eðlilegri málþróun ætti
fyrir löngu að vera runnin sam-
an við tungu þeirra sem búa við
Löngulínu. Máski gerir þetta
undarlega tungutak fólkið í Hús-
inu enn dularfyllra og girnilegra
til fróðleiks fyrir nágrannana
handan hafsins?
En í fyllstu alvöru; veitum fé
til þess að fólkið í Húsinu fái mál
sem hljóma má út á meðal þjóð-
anna. Húsið við Ásvallagötuna er
nefnilega ekki neitt venjulegt
hús — eða sitja fuglar kyrrir í
lofti kringum venjulegt hús og
líða bílar þar framhjá hljóð-
laust? Það er ekki oft að við
fáum að sjá slík Hús — kannski
rákumst við á þau í gömlu
ævintýrabókunum eða villtumst
inn í þau á einhverju skeiði
ævinnar? Mér er nær að halda
að á vissan hátt búum við í slíku
Húsi meiripart æviskeiðsins. Að
festa slíkt Hús á filmu er afrek.
Þetta varð mér ljóst þegar ég
reikaði í suddanum fram hjá
húsi númer 8 við Ásvallagötu í
Reykjavík, hvekktur af slettum
rymjandi bílanna.