Morgunblaðið - 23.03.1983, Blaðsíða 10

Morgunblaðið - 23.03.1983, Blaðsíða 10
58 MORGUNBLAÐIÐ, MIÐVIKUDAGUR 23. MARZ 1983 Vatnasvæði Laxár í Dölum Sólheimafoss í Laxá í Dölum. (I.jósm. Ein»r Hannesson — 1981) — eftir Einar Hannesson í hinu söguríka héraði Dala- sýslu eru mörg straumvötn. Þau eiga flest ós í Hvammsfirði; firð- inum sem er í laginu eins og stíg- vél og einnig má líkja firðinum við sjávarföll svo af verður röst mikil, sem kunnugt er. Laxá í Dölum er besta laxveiðiáin á þessu svæði og þó víðar væri farið, enda er hún ein af betri laxveiðiám landsins. Laxastofn hefur vafalaust verið í Laxá alla tíð og veiði hefur að líkindum verið stunduð þar allt frá landnámi. í máldaga frá 14. öld er getið um hylinn Papa, sem er einn besti veiðistaður árinnar. Ekki verður farið nánar út í að ræða eldri tíðar veiðimál Laxár þar sem ætlunin er að þessu sinni að fjalla um ána og félagsmál við hana frá þeim tíma að samtök veiðieigenda, er taka til allrar ár- innar, voru sett á laggirnar skömmu fyrir seinní heimsstyrj- öldina og til þessa. Þó má geta þess að fyrir stofnun félagsins, hafði veiði verið stunduð í ánni bæði með neti og stöng, eins og víðast hvar annars staðar í lax- veiðiám hér á landi, t.d. stunduðu enskir stangveiðimenn veiði í hluta árinnar um skeið. Auk lax- ins eru bæði urriði og bleikja í ánni. 22 km veiðisvæði Laxá í Dölum er tæplega 30 km að lengd, frá ósi hennar úr Lax- árvatni, sem er 0,7 kmz að flat- armáli í 150 metra hæð yfir sjó, og að ósi í sjó skammt frá Búðardal. Áin er fiskgeng 22 km að Sól- heimafossi. Aðrennslissvæði Lax- ár er 256 km2. Til samanburðar má geta þess, að aðrennslissvæði Lax- ár í Leirársveit er 142 km2 og Haukadalsár 239 km2. Efstu drög árinnar eru í Fýlingjavötnum, sem eru lítil vötn, 36 km frá sjó, sunnan undir Hjarðarfelli, sem er norður af Hólmavatnsheiði. Marg- ar smáár og lækir falla í Laxá á leið hennar niður Laxárdalinn, er upptök eiga í hálsunum beggja megin dalsins. Flest þessi smáu vatnsföll koma í ána að sunnan- verðu. Auk fyrrgreindra stöðu- vatna í vatnakerfi Laxár eru Hólmavatn, 0,8 km2, Þrándarvatn og Hnúksvatn, en þau síðast- nefndu eru mun minni en Hólma- vatn, og fleiri smávötn og tjarnir. Til fróðleiks má geta þess, að að- eins eru 9 km (loftlína) frá Lax- árvatni á Laxárdalsheiði og til sjávar í Hrútafirði. Stofnun veiðifélags Fiskræktar- og veiðifélag Lax- dæla var stofnað 23. júní 1935, en tveir undirbúningsfundir höfðu áður verið haldnir, 19. maí og 16. júní. Það var Guðmundur Guð- brandsson, bóndi á Leiðólfsstöð- um, sem boðaði fundinn 19. maí „til að stofna fiskræktar- og veiði- félag", eins og segir í fundargerð, en leyfi ráðuneytis til félagsstofn- unar lá fyrir. Stofnun félagsins varð að veruleika, sem fyrr grein- ir, á fundi sem haldinn var að Dönustöðum 23. júní 1935, en þar var samþykkt einróma að stofna félagið. Gengið var frá lögum þess og arðskrá og kosin stjórn: í stjórn voru kjörnir: Guðmundur Guðbrandsson, Leiðólfsstöðum, formaður, Daði Halldórsson, Dönustöðum, og Árni L. Tómas- son, Lambastöðum, en þeir höfðu átt sæti í undirbúningsnefnd ásamt Jóhannesi Benediktssyni, Saurum, og Jóni Ólafssyni, Hömr- um. Auk nefndra jarða voru eftir- taldar jarðir í félaginu, allar í Laxárdalshreppi: Spágilsstaðir, Goddastaðir, Gillastaðir, Sáms- staðir, Sólheimar, Svalhöfði, Pálssel, Gröf, Svarfhóll, Þránd- arkot, Hornsstaðir, Höskuldsstað- ir, Hjarðarholt, Sauðhús, Fjósar og Hrappsstaðir. Alls 21 jörð. Veiðiréttindi þriggja síðastnefndu jarðanna og Saura voru á þessum tíma í höndum eiganda Hjarðar- holts, en þau voru leyst inn til jarðanna nokkrum árum síðar. Markmiö félagsins í samþykktinni frá 1935 segir, að markmið félagsins sé að auka laxveiði á félagssvæðinu og arð af henni með því að stunda laxaklak og að reka laxveiði fyrir alla fé- lagsmenn sameiginlega á einum stað eða fleirum, ef henta þykir og aðalfundur samþykkir. — Lög fé- lagsins voru endurskoðuð 1971, m.a. til samræmis við breytingar á lögum um lax- og silungsveiði og með tilliti til nýrra viðhorfa í þessum efnum. Nafn félagsins varð þá Veiðifélag Laxdæla. Um markmið þess segir, auk ráðstöf- unar veiði og seiðasleppinga, að þau séu að vinna að umbótum á veiði, t.d. með gerð fiskvega, fjölg- un veiðistaða, vatnsmiðlun, vega- lagningu að veiðistöðum o.fl. — Við gildistöku samþykktar félags- ins 1972 voru 28 jarðir innan þess og hafði þeim því fjölgað um 7 frá stofnun þess. Eru þetta allt ný- býli, sem reist hafa verið í landi gömlu jarðanna. í fjórum tilvikum ber býlið sama nafn og höfuðbólið, en hin þrjú býlin heita: Ás, Lamb- eyrar og Engihlíð. Jóhann Sæmundsson, Ási, formaður Fimm menn hafa gegnt starfi formanns þau rösklega 47 ár, sem félagið hefur starfað. Fyrsti for- maður var, sem fyrr greinir, Guð- mundur Guðbrandsson, Leið- ólfsstöðum, og var hann formaður til ársins 1950, eða samfleytt í 15 ár. Þá varð formaður Skúli Jó- hannesson, Dönustöðum, og er hann í sjö ár, en árið 1957 verður Aðalsteinn Skúlason, Hornsstöð- um, formaður og gegnir for- mennsku næstu þrjú árin. Árið 1960 varð formaður Þórður Eyj- ólfsson, Goddastöðum, og er hann formaður til ársins 1969, eða í 9 ár, og Jóhann'Sæmundsson, Ási, tók við og hefur haldið um stjórn- artaumana í félaginu allt til þessa dags, eða í 13 ár samfleytt. f stjórn eiga nú sæti, auk Jóhanns, þeir Einar Ólafsson, Lambeyrum, Ólafur Pálmason, Engihlíð, Egill Benediktsson, Sauðhúsum, og Elís G. Þorsteinsson, Hrappsstöðum. — Þriggja manna stjórn hefur verið lengst af í félaginu, en árið 1968 var samþykkt að fjölga þeim í fimm. Fyrirkomulag og ráð- stöfun veiði Á stofnfundi félagsins var ákveðið að veiði sumarið 1935 yrði netaveiði, auk stangveiði, lögum samkvæmt. Hins vegar samþykkti aðalfundur 1936, að einungis skyldi veitt með stöng á félags- svæðinu og hefur svo verið allar götur síðan. Fyrirkomulag og ráðstöfun veiði í Laxá í Dölum má skipta í tvö tímabil, 1935-1951 og 1952-1982. Fyrra tímabilið var veiðin í ánni aðskilin í neðri og efri hluta. Seld voru veiðileyfi til einstaklinga og hópa eða félaga og hver veiðieig- andi hafði, sérstaklega framan af tímabilinu, sjálfur veiði sína að hluta eða öllu leyti sum árin. Stangveiðifélag Reykjavíkur hafði t.d. neðri hluta Laxár á leigu í nokkur ár, 1939—1944. Um seinna tímabilið, 1952— 1982, má segja, að allt hafi þá ver- ið í fastari skorðum en áður, enda góð reynsla fengin af útleigu veið- innar. Umsvif veiðifélagsins fóru jafnt og þétt vaxandi um miðjan sjöunda áratuginn þegar aðstaða fyrir veiðimenn var stórbætt af hálfu félagsins með byggingu veiðimannahúss og síðar kom til sögunnar aukinn rekstur í tengsl- um við dvöl veiðimanna og veiði- skap þeirra. Allt tímabilið var veiðin í ánni leigð út í einu lagi og aðeins þrír leigutakar þessi rúm- lega 30 ár. Árið 1952 kom til framkvæmda samningur, sem veiðifélagið hafði gert við Stangveiðifélagið Papa í Reykjavík um leigu á veiði í allri ánni og gilti samningurinn fyrst til 10 ára og var síðan framlengd- ur um nokkur ár eða til 1964. Fé- lagsmenn „Papa“ voru gamal- kunnir ánni, því þeir höfðu veitt í henni mörg undanfarin ár. Stangveiðifélagið Kvörn í Reykja- vík tók Laxá á leigu árið 1965 og hafði veiðina í henni til 1973. Árið 1974 varð hópur bandarískra sportveiðimanna leigutaki árinnar og hefur verið það síðan. Veiðieig- endur áttu á seinna tímabilinu lengst af þess kost að nota sjálfir stangveiði í ánni síðustu 7—10 daga veiðitímans árlega. Stangafjöldi Á grundvelli laga frá 1957 var. ákveðið að hafa mætti mest 5 stengur við veiðar samtímis í Laxá. Árið 1970 var stöngum fjölgað í 6 og 1972 urðu stengurnar 7 talsins og svo er enn. — Um 30 veiðistaðir eru í ánni. Laxveiðin Árið 1946-1982, eða í 37 ár, veiddust árléga að meðaltali 654 laxar á stöng í Laxá í Dölum. Hliðstæð tala fyrir tímabilið 1961—1980 er 761 lax. Þá fengust 1.018 laxar að meðaltali árlega 1964—1973. Mesta árlega veiði í ánni var 1972 þegar veiddust 1.820 laxar. Árlegt meðaltal síðustu 9 ára er hins vegar um 500 laxar. Það er opinbert leyndarmál, að áin hefur verið vanveidd þau ár, sem núverandi leigutaki hefur haft veiðina. Tölur fyrrgreind 9 ár um veiði gefa því engan veginn rétta mynd af hversu gjöful lax- veiðin er í Laxá í Dölum. Fiskræktin Vel hefur verið staðið að fisk- rækt alla tíð á vatnasvæði Laxár. Flest atriði fiskræktar hafa komið þar til framkvæmda, að vísu í mis- miklum mæli, svo sem seiðaslepp- ing; smærri og stærri seiði, lag- færing gönguleiða laxins, vatns- miðlun og veiðieftirlit. — Þess má geta hér til fróðleiks, að skömmu fyrir seinustu aldamót reisti Gutt- ormur, sonur séra Jóns Gutt- ormssonar í Hjarðarholti, klakhús við ána í landi Hjarðarholts. Megináhersla var lögð á klak- starfsemi í upphafi sem Guð- mundur Guðbrandsson, formaður félagsins, hafði mikinn áhuga fyrir og sinnti af dugnaði. Fyrst í stað voru höfð not af klakhúsi við Haukadalsá til að klekja út hrogn- um úr Laxárlaxi, sem veiddur var til klaksins að haustinu. En 1939 var reist klakhús við lind í Þránd- argili í landi Leiðólfsstaða og var húsið 32 m2 að flatarmáli og var þar rými fyrir rúmlega lk millj. hrogna. Klakaðstaða þessi var enn bætt 1941. Umsjónarmaður klaks- ins var, sem fyrr greinir, Guð- mundur á Leiðólfsstöðum og starfsemin stóð í 10—12 ár, en þá var henni hætt. Verulegum fjölda kviðpokaseiða var á þessum árum sleppt í ána. Eftir þetta voru keypt seiði í ána, leigutaki skuld- batt sig til að klekja út hrognum úr Laxárstofni og setja seiðin í ána eða félagið sjálft annaðist þessi mál. Fyrst voru þetta sumar- alin seiði, síðan gönguseiði af laxi ásamt sumaröldum seiðum. Mjög miklum fjölda seiða hefur þannig verið sleppt í vatnakerfið. Síðustu árin hefur verið gert gott átak með að setja smáseiði í svæðið ofan ófiskgengra fossa eða aðrar hindranir, þar á meðal stöðuvötn, sem virðist hafa gefið góða raun. Vatnsmiðlunarstífla var byggð í útrennsli Laxárvatns 1939. Þá var sprengd renna neðst í ánni 1946 til að greiða fyrir fiskför og aðrar minniháttar umbætur hafa verið gerðar í ánni í sama skyni. Síðustu ár hefur göngulaxi verið lyft upp fyrir ófiskgenga fossa til að láta hann hrygna þar. Kannaður hefur verið möguleiki til þess að gera Sólheimafoss fiskgengan, en það hefur ekki verið talið hagkvæmt. Veiðieftirlit hefur verið fram- kvæmt af heimamönnum sjálfum og í vissum tilvikum hafa verið gerðar virkari aðgerðir til aðhalds Veiðimannahús við Laxá í Dölum hjá Þrándargili. Neðsti hluti Laxár í Dölum. Veiðistaðurinn Papi sést hægra megin á mynd- mni. (LjÓ8m. Kinar HannetMon) (Ljósm. Kinar llannesson)

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.