Morgunblaðið - 10.07.1983, Blaðsíða 1

Morgunblaðið - 10.07.1983, Blaðsíða 1
Sunnudagur 10. júlí - Bls. 49-80 ERSKINE CALDWELL Einkaviðtal Morgunblaðsins við hinn fræga höfund Dagsláttu Drottins og Tobacco Road Texti: Jakob F. Ásgeirsson Ég skal segja þér af hverju ég er ekki ríkur maður, segir Erskine Caldwell og skreppur í keng í stóln- um. Hugsum okkur að ég sé með epli hér í lófanum og aleiga mín sé þetta epli. Og ég skil við konuna og sit eftir með hálft epli. Nú, ég kvænist í annað sinn og skil og á þá ekki nema fjórða part úr epli. Ég geng í gegnum þetta allt í þriðja sinn og vakna þá upp við að það er ekki eftir nema áttundi partur úr epli! Ég átti þetta fína hús í Connecticut, ég missti það og annað í Main og það þriðja í Tucson, Arizona. Ég setti þetta hús á nafn Virginíu, núver- andi konu minnar, svo ég tapa aldrei meir! Erskine Caldwell Nei, ég get ekki kallað mig rík- an mann, segir Caldwell, en ég er heldur ekki fátækur. Ég gæti sjálfsagt skrapað saman milljón dollurum, en hvað ætti ég þá? Ekkert nema milljón dollara! Mér er illa við allan munað. Ég reyndi það, það vantar ekki, að lifa eins og fínn maður: ég keypti mér glæsibifreiðir og þar fram eftir götunum en þeir hlutir höfðu aldrei neina meiningu fyrir mig. Mér leið ekkert betur í kadilják en réttum og sléttum sjervólet. Og ég er miklu sælli núna, blessaður vertu, að búa í þessu litla húsi með eitt svefnherbergi og einn bíl. Ég er einfaldur maður og ég hef lifað einföldu lífi. Ég hef aldrei tekið þátt í neinu félagsstarfi; ævinlega viljað vera útaf fyrir mig við skriftirnar. En mér finnst gaman að ferðast. Það er mín fötl- un. Góður partur af lífi mínu hef- ur týnst í ferðalög. Ég fer héðan til Bangkok, Tókíó, Kaíró; hvert á land sem er, þegar ég finn það er kominn órói í skrokkinn. Ég hef komið í alla heimshluta, nema Afríku; ég hef aldrei komið til Afríku. Og alls staðar hefur mér liðið vel. Nema í Indlandi. Fátækt- in þar er svo mikil og hún er svo augljós að manni líður illa. Það er ekki hægt að horfa uppá slíka eymd án þess að finna til. Erskine Caldwell er einn af metsöluhöfundum heimsins. Bækur hans, fleiri en 50 að tölu, hafa selst í meir en 80 milljónum eintaka í nálægt 40 þjóðlöndum. Frægust bóka hans, og jafnframt sú besta, er Dagslátta Drottins (God’s Little Acre, 1933) sem kom- ið hefur út í tveimur útgáfum á íslandi í þýðingu Hjartar Hall- dórssonar. Caldwell skrifaði þá bók i einni lotu án þess að hnika til orði: blöðin duttu úr ritvélinni og urðu að bók. Já, ég var að flýta mér, segir Caldwell. Þetta var um vetur í Mount Vernon og það voru ógur- legir kuldar og ég í óupphituðu húsi. Ég hélt hita á fótunum með því að stinga þeim oní tvær rusla- fötur fullar af dagblaðapappír. Annars er það stórmerkilegt hvernig ég skrifaði þessa bók. Eg hef aldrei, hvorki fyrr né síðar, skrifað aðra bók með slíkum hætti. Leikgerðin að Tobacco Road (1932) sló öll met í bandarísku leikhúsi þegar hún var sýnd fyrir fullu húsi á Broadway í sjö og hálft ár. Aðrar frægar bækur Caldwells eru Georgia Boy (1943), Journeyman (1935), Trouble in July (1949), Tragic Ground (1944) og nú síðast Miss Mama Aimée (1967). Allt frá því Scott Fitzgerald vakti athygli Max Perkins, hins fræga ritstjóra Scribners, á smásögum Erskine Caldwells, hefur hann verið viðurkenndur meistari í smásagnagerð. Og í fyrra kom út gott safn smásagna hans, Stories of Life — North & South. Þá er blaðamennska hans mjög vönduð, svo og ferðaskrif hans og ritgerðir um líf í Bandaríkjunum. En eins og gefur að skilja, þá er ekki allt jafn gott sem höfundur 50 bóka hefur skrifað og í mörg ár var mikið reyfarabragð af bókargerð Erskine Caldwells, jafnvel svo að vafasöm útgáfufyrirtæki á íslandi gáfu út sögur hans í blaðaformi og prýddu þá berrassaðar konur for- síðuna! Ha, finnst þér heitt? spyr Caldwell. Nei, 28 gráður kall- ast ekki heitt í þessum heims- hluta. Hér fer hitinn, sjáðu, uppí 40 gráður á nóttum. Svo þú kemur á besta tíma; það er svalt. Caldwell býr nú í Scottsdale, Arizona, ásamt fjórðu eiginkonu sinni, Virginíu, sem er fyrrum feg- urðardrottning og málar myndir á meðan karl hennar skrifar bækur. Hús þeirra stendur í dalnum undir Múmíufjalli; það er snoturt ein- býlishús og enginn íburður þar, nema sundlaug í bakgarðinum. Já, ég er með sundlaug, segir Caldwell mæðulega. Ég hef ekkert með sundlaug að gera, en það er vandfundið hús á þessum stað án sundlaugar. Það er furðulegt því þetta er eyðimörk og vatnið dýr- mætt. Ég syndi tvisvar á ári: á þjóðhátíðardaginn og á frídegi verkamanna. Það er allt mitt sund. En konan hefur gaman af sundi; hún er mikið gefin fyrir lík- amsrækt. Scottsdale er einstaklega þrifa- legur bær; þar býr raunar ekkert nema efnafólk, aðallega ríkir gamlingjar og er Caldwell ekki fyllilega sáttur við það sambýli. Én það er fallegt í Scottsdale og Virginía, kona hans, hefur ekki fundið fyrir liðagigtinni sem kvaldi hana, frá því að þau fluttu sig í þurra loftslagið. Það lætur nærri að ég hafi búið í öllum ríkjum Bandaríkjanna, segir Caldwell. Og af því á ég nú hvergi heima; ég á, sérðu, ekkert heimaríkið. Og ég á nú ekki neinn grafreit heldur — (ég kæri mig ekki um að vera grafinn, ég vil vera brenndur). En ég hef ævin- lega viljað vera á ferðinni og hef aldrei ílendst á neinum stað. Margt fólk kærir sig ekki um að fara á ókunna staði, en það geri ég. Og einn daginn tek ég saman föggur mínar og flyt frá þessum stað. Annars er það svo sem ómögulegt að vita; ég er orðinn gamall og maður lifir nú ekki til eilífðarnóns. En er ekki heilsan góð? Jú, ég er ágætur til heilsunnar. En ég þarf stundum að taka mér hvíld miðstykkið úr deginum. Ég hef lifað tvær stórar skurðaðgerð- ir við krabba og núorðið geng ég um með tvö hálf lungu. Svo ég er ekki alveg í fullu fjöri og stundum finn ég það á mér að ég verð að fara á hálfum hraða. Ég reykti of mikið og af því náði nú krabbinn í mig. Ef ég hefði haft þrjú lungu, þá myndi ég vera með þrjú hálf lungu núna. Já, ég hætti að reykja. Læknir- inn sagði að ég yrði að hætta ef ég vildi lifa áfram, svo ég labbaði mig inná næstu krá og keypti mér í glas og leitaði í vasanum að síg- arettupakkanum. Ég átti tvær síg- arettur og stakk þeim báðum uppí mig og reykti þær báðar í einu. Síðan hef ég ekki reykt og það eru nú orðin ein átta ár. En ég er í ágætu líkamlegu formi, þó lungun séu aðeins hálf. Ég er hraustur, finnst mér, en ég get náttúrlega ekki lifað til eilífð- ar, eins og ég sagði. Núorðið lifi ég bara til eins árs í senn. Ef ég klára þetta ár, þá legg ég til við það næsta. En það er ekki til í dæminu að leggja árar í bát; ég vinn eins og áður uppá hvern dag. Núna er ég að vinna að ritgerð um sjálfan mig fyrir alfræðibók nokkra. Sú ritgerð á að vera 15 þúsund orð eða um 50 vélritaðar síður og ætla ég að reyna að hespa hana af á næstu vikum. Hvað þá tekur við, er ekki alveg ljóst, en ég er á ævi- sögualdrinum og sjálfsævisaga mín Call it Experience nær nú ein- ungis til ársins 1957 og það hefur mikið gerst eftir það. Þá er vel trúlegt að ég skrifi ritgerðir af ferðum mínum; ég er mikill ferða- langur, eins og ég sagði þér, og hef skrifað nokkrar ferðabækur, með- al annars frá Tékkóslóvakíu og Sovét og nokkrar líka frá mínu heimalandi. Konan mín og ég höf- um haft samvinnu um gerð tveggja bóka á seinni árum: Ar- ound about America og Afternoons in Mid-America — ég skrifa og hún myndskreytir. Við kunnum að skrifa þriðju bókina og hún-gæti jafnvel orðið næsta verkefni mitt. Síðasta skáldsaga mín var .4nn- ette (1973) og ég veit ekki hvort ég ræðst í aðra. Þegar maður er bú- inn að skrifa 50 bækur, þá liggur manni ekki svo á að skrifa fleiri; í 50 ár skrifaði ég bók á ári, svo mér liggur ekki lífið á lengur. En ég er alltaf með nýja sögu í huganum, það vantar ekki. SJÁ NÆSTU SÍÐU

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.