Morgunblaðið - 02.10.1983, Blaðsíða 9

Morgunblaðið - 02.10.1983, Blaðsíða 9
MORGUNBLAÐIÐ, SUNNUDAGUR 2. OKTÓBER 1983 57 Þad er gott að hvfla lúin bein þegar ellin og mæðin sækja að. íslenski hundurinn þykir um margt sérstakur, bæði hvað varðar útlit og eðliseiginleika. Gulur labradorhundur. Blóðhundurinn „Stretch" í hvfldarstellingu. Karolína prinsessa af Monaco ásamt varðhundi sínum, Oenix. Þeir gengu upp á hólinn. Þar settist Kári litli með Lappa við hlið sér. Svo fór hann að tala við Lappa. „Þú mátt ekki elta fuglana, Lappi minn,“ sagði hann alvar- lega. „Þeir eru að æfa ungana sína áður en þeir fara til heitu land- anna. Þú veist að haustið er að koma, og þá fljúga fuglarnir burt til heitu landanna. Þar er enginn vetur. Þar er nógur matur handa þeim. Þar líður þeim vel meðan frostið og snjórinn er hér hjá okkur. Þú veist að fuglarnir sem eru hjá okkur allan veturinn eru stundum svangir. Þess vegna skul- um við alltaf gefa þeim að borða í vetur.“ Lappi hlustaði nú ekki meira en svo vel á Kára litla. Allt í einu tók hann viðbragð og sperrti eyrun. Fuglahópurinn var að fljúga upp. Kári litli og Lappi horfðu á eftir honum þangað til hann var horf- inn. „Já, nú fara fuglarnir, Lappi minn,“ sagði Kári litli alvarlega. „Nú deyja líka blómin og grasið, og sólin skín ekki eins mikið. Þetta er nú ósköp leiðinlegt, Lappi minn, en svona er nú haustið." Kári litli stóð og horfði út á sjó- inn, lengi, lengi. En allt í einu sneri hann sér að Lappa, tók um báða kjálka hans og sagði fjörlega: „En bráðum byrjar líka skólinn, Lappi, og þá verður nú gaman." Svo fóru þeir í gönguferð út í hraunið." Hið ferfætta tryggðatröll Margar sögur hafa verið sagðar um tryggð hunda. Ein hin þekkt- ari er af fjárhundi einum í Banda- ríkjunum, sem í sex ár beið á járnbrautarpalli eftir húsbónda sínum. Húsbóndi hans, sem var fjármaður, hafði látist i hjáset- unni og var hundur hans hjá hon- um þegar að var komið. Lík fjár- mannsins var síðan sent með járnbrautarlest austur á bóginn, þangað sem ættingjar hans höfðu kosið honum legstað. Hundurinn hafði fengið að fylgja líkinu og hafði séð það kistulagt, og þegar kistan var látin inn í járnbraut- arvagn, stóð hann á brautarpallin- um og horfði á eftir henni. Síðan horfði hann á eftir lestinni er hún rann af stað, og stóð þar lengi. Síðan fór hann upp á hæð eina þar skammt frá og lagðist niður, en horfði sífellt í þá átt, sem lestin hafði farið. Þarna lá hann og starði og starði á milli þess sem hann stóð upp og teygði úr sér. í fyrstu leit hann ekki við mat eða drykk, sem brautarþjónarnir báru honum, en loks kom þar að, að hann neytti þess, sem honum var fært. Það var í ágústmánuði 1936, sem skildi með hundinum og hús- bónda hans og þangað til í janúar 1942 hélt hann vöku sinni við stöð- ina, stóð á brautarpallinum í hvert skipti sem þar stöðvaðist farþegalest. í fyrstu fór hann allt- af á brautarpallinn, þegar lest bar að garði. En brátt lærði hann að gera mun á farþegalestum og hin- um, vék ekki af varðhæð sinni, þegar flutningalestir komu, en þegar farþegalest rann inn á stöð- ina, stóð hann ævinlega á stöðv- arpallinum og dillaði rófunni. Hann virti fyrir sér hvern einasta farþega sem út kom, en aldrei kom húsbóndi hans. Brátt fór sagan af tryggð hundsins að breiðast út og fólk tók sér far með lestinni gagngert til að líta augum tryggðatröllið fer- fætta. Hundurinn stóð þar í öllum veðrum, vetur sem sumar, og þar kom að hann fór að láta á sjá, enda orðinn gamall. Hann varð stirðfættur og sjón og heyrn tóku að dofna. Svo var það kalda janú- arnótt, að hann ætlaði að venju að hlaupa yfir brautarteinana, þegar farþegalest bar að garði, en mis- reiknaði sig á fjarlægð lestarinnar svo að hún ók yfir hann. Þar með var hans löngu bið og varðgæslu lokið. Hundinum var valinn legstaður á hæðinni, sem hafði verið varð- stöð hans og fór greftrun hans fram að viðstöddu miklu fjöl- menni og skátar báru kistuna til grafar. Presturinn á staðnum las hinn kunna pistil öldungadeildar- þingmannsins Georgs Grahams West, „Lofræða um hundinn", sem jafnframt var letrað á leiði hans og hljóðar svo: „í þessum heimi sjálfselskunnar er hundurinn sá eini vinur manns- ins, sem er algerlega laus við eig- ingirni, sá eini vinur, sem aldrei er vanþakklátur og aldrei svíkur. Hann kyssir þá hönd, sem ekkert getur fært honum matarkyns, hann sleikir þau sár, sem maður- inn hlýtur í baráttu sinni í vondri veröld. Að enginn raski svefnró sárfátæks húsbónda hans, þess gætir hann jafnvandlega og hús- bóndinn væri konungborinn. Þeg- ar allir aðrir vinir yfirgefa mann- inn, heldur hundurinn hans tryggð við hann. Þegar maðurinn glatar öllu sínu fé og nýtur ekki lengur virðingar samborgara sinna, þá getur hann verið jafn- viss um, að hundurinn hans víkur ekki frá honum, og að sólin hverf- ur ekki af braut sinni á festingu himinsins." Ferfætt gáfnaljós Ýmsar kynjasögur hafa einnig verið sagðar um hunda og er sjálfsagt vissara að taka sumar þeirra með fyrirvara eins og þessa, sem birtist í Klausturpóst- inum árið 1824: „í Harlems stað í Hollandi er nú sérlegt afbragð hunds, sem heitir Múnító; var hann sýndur Frakka, Englands og Hollands konungum og mörgum stjórnendum öðrum af eiganda hans. Hann getur ferðug- lega spilað og unnið dómínóspil, reiknað út hvað sem fyrir hann er lagt að samanleggja, frádraga og margfalda, æft margar náttúru- listir, skrifað eftir honum fyrir- lögðu letri, aðgreint og sýnt alla liti og skilið vel hvað til hans er talað á vallenska, franska og þýska tungu. — Eftir Inda, Egyptalands og Grikkja, einkum Pythagóras og Platós, spekinga kenningu, hefðu þeirra trúmenn nú haldið sálu einhvers vitrings komna í hund þennan, máske Pythagóras sjálfs, nú í 5ta eða kannske l.OOOasta sinni ..." Þessi saga er eflaust orðum auk- in enda komin um langan veg á tímum stopulla samgangna. Hins vegar er engin ástæða til annars en að taka trúanlega eftirfarandi frásögn prófessors Konrad Z. Lor- enz, eins þekktasta dýrasálfræð- ings heims: „Sérhver maður, sem þekkir hunda vel, veit að tryggur hundur getur séð það á húsbónda sínum með næstum því óhugnanlegri vissu, hvort hann ætlar út úr u°rberginu af einhverri ástæðu, sem hundurinn hefur ekki áhuga á, eða hvort hann á í vændum hina langþráðu gönguför. Sumir hund- ar eru ennþá snjallari á þessu sviði. Þannig vissi Elsass-hundur- inn minn, hún Tító, með „dul- skynjun", hvaða menn mér væri lítið um gefið og hvenær þeir fóru að þreyta mig. ómögulegt var að koma í veg fyrir, að hún biti slíka menn rólega en ákveðið í bakhlut- ann. Sérstaklega var varasamt fyrir mér eldri menn að þykjast upp yfir mig hafnir í samtali við mig, gefa í skyn, að ég væri ungur og óreyndur og því ekki von, að ég hefði vit á hlutunum. Þegar ein- hver ókunnugur lét þvílíkt á sér skilja, leið ekki á löngu, áður en hann þreifaði skelfdur um þann stað bakhlutans, þar sem Tító hafði refsað honum. Mér var alveg óskiljanlegt, að þetta andsvar hennar brást aldrei, jafnvel þegar hún lá undir borðinu og gat ekki séð andlit mannanna og látæði. Hvernig gat hún þá vitað við hvern ég talaði og hver andmælti skoðun minni eða féll mér ekki í geð?“ — Og prófessor Lorenz gefur þá skýringu, að hundur, sem ber það mest fyrir brjósti að gera hús- bónda sínum allt til geðs, verði mjög leikinn í að skynja fíngerðar hreyfingar og viðbrögð húsbónd- ans og dýrið sjái það á honum hvenær nóg sé komið jafnvel þótt mannlegt auga veiti því ekki at- hygli. Að auki mætti svo nefna fjöl- margar sögur um hunda sem virð- ast hafa skilið mannamál. í tíma- ritinu „Dýraverndarinn" frá því í marz 1964 er t.d. frásögn eftir Jón Guðbrandsson, bónda í Saurbæ í Fljótum í Skagafirði, af hundi ein- um, sem uppi var í Skagafirði um 1880, sem þótti með afbrigðum vit- ur. Segir sagan að hundurinn hafi eitt sinn móðgast við bónda einn, sem hafði hann að láni, og farið í verkfall eftir að bóndi hafði sagt við hann'. „Nú gef ég þér ekkert, því það vantaði hjá þér eina ána, karl minn.“ Lokaorð Jóns Guð- brandssonar í greininni eru þessi: „Þessi frásögn er ekki lengri, en hún sýnir ljóslega, að þessi hund- ur hefur skilið mannamál. Það gera og flestir hundar, sem fá að vera félagar mannsins og vinir. Er því næsta furðulegt, hvað sumt fólk getur verið sljótt og hirðu- laust um þá tryggu vini, sem mað- urinn getur eignast.“ Spangól á undanhaldi Þess var áður getið að hundar hafa í aldanna rás aðlagað sig breyttum lifnaðarháttum og sjálfsagt er þessi eiginleiki þeim enn nauðsynlegri nú í hinu tækni- vædda borgarsamfélagi nútímans. Dýrafræðingar telja sig hafa tekið eftir, og sannað með tilraunum, að hundar séu að fjarlægjast hið frumstæða eðli sitt á margan hátt. Eitt, sem bent hefur verið á, er sú staðreynd, að mjög sjaldgæft er nú orðið, að hundar setjist niður og spangóli að tunglinu, en það er eðlislægt bæði villihundum og úlf- um og hefur til skamms tíma loð- að við tamda hunda. Allir fjár- menn og smalar hér á landi fyrr á árum munu hafa séð hund góla að tungli, og sjálfsagt minnast þeir þess einnig, að hafi aðrir hundar verið í nánd, hafa þeir strax komið og tekið þátt í athöfninni. Raunar hafa hundar spangólað þótt ekkert tungl sé á lofti. Ef hundi leiðist á nýjum verustað, setur hann sig gjarnan niður í ein- rúmi undir beru lofti og svalar sér í spangóli, og sama gerir hundur sem týnt hefur húsbónda sínum. Hér á landi, og reyndar víðar, var það haft fyrir satt, að hundar spangóluðu, ef í vændum væri dauðsfall í nágrenninu, eða skammt yrði til þess, að lík fynd- ist á nálægum slóðum. Vísast er hér um að ræða eitt af hindurvitn- um skammdegissálsýkinnar, en hitt er athyglisvert, ef satt reyn- ist, að hundar séu hættir að spangóla. Og með spangólinu ljúk- um við þessu spjalli. Samantekt: Sv.G.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.