Morgunblaðið - 08.12.1991, Blaðsíða 13

Morgunblaðið - 08.12.1991, Blaðsíða 13
MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 8. DESEMBER 1991 c ía Kaldársel, eins og það var á þeim tíma sem Ómar var þar í sumardvöl. Það er endalaust hægt að leika sér við ána, sem fellur í flúðum við selið. Hún er alveg einstök og ólík öllum ám á íslandi því að hún endar allt í einu nokkru fyrir vestan selið. Þar fellur hún niður í jörðina og sést ekkert meira. í grösugri hraunkvos, alllangt fyr- ir vestan selið, rís drangur, sem heit- ir Álfakirkja. Fyrir norðan selið liggur opinn tréstokkur, sem flytur vatn úr Kald- árbotnum alla leið niður í Hafnar- fjörð, sjö kílómetra leið. Ég hef skoðað það á kortinu af Kaldárseli og nágrenni, sem hangir uppi í foringjaherberginu og sýnir öll ijöllin í kring. Á einum stað liggur vatnsstokkur- inn yfir djúpa kvos eða gjá ofan á háum, hlöðnum garði. Oklyjr finnst skemmtilegt að fara að stokknum og teygja forvitin and- litin upp á hann til að skoða vatnið, sem rennur í stríðum straumi til Ilafnarfjarðar. Einn prakkarinn í hópnum tók sig einu sinni til og klifraði upp á stokk- inn og pissaði í hann. Og aumingja fólkið í Hafnarfirði grunaði ekki neitt og hélt að það væri svo hreint og gott vatn, sem kæmi alltaf úr krönunum! Annar strákur skrifaði á bréfmiða kveðju til pabba og mömmu og lét það í stokkinn. Miðinn flaut á fleygiferð í burtu. „Af hveiju ertu að gera þetta?” spurðum við. „Kannski fá pabbi og mamma min bréfið frá mér þegar þau skrúfa næst frá krananum,” sagði hann. „En vitlaus!” sagði ég. „Kannski kemur bréfið út um kranann hjá löggunni og þá vita þeir hver sendi það og hveijir eru að pissa í stokkinn.” Strákurinn fölnaði og leit ofan í stokkinn. En það var of seint. Bréfið var horfið og komið á fulla ferð niður í Hafnarfjörð. En mest var spennandi að fara að skoða trölikerlingarnar þijár. Strax fyrsta daginn hér í selinu í fyrra sá ég hvar þær stóðu uppi á Valahnúkum eins og þær væru að bíða eftir strætó. Valahnúkar eru svolítið dularfullir, séðir úr selinu. Þeir sjást í fjarska á milli Sand- fellsins og Kaldárhnúka og kerling- arnar þijár sjást greinilega uppi á þeim. Jóhannes, sem var foringinn okkar í fyrra, sagði okkur þjóðsöguna um tröllkerlingarnar. Þær höfðu stolið fiski í Selvogi og voru á leið með hann heim til sín í Búrfell, sem sést vel héðan úr selinu. Þær gerðu þetta að næturþeli svo að enginn yrði var við þær. En í þetta skipti urðu þær seinar fyrir og sólin kom upp þegar þær voru staddar uppi á Valahnúkum. Þá urðu þær að steini og hafa staðið þarna síðan. Ég hef hugsað mikið um tröllkerl- ingarnar alveg síðan í fyrra. Hvað þær hljóta að vera hrikalega stórar úr því að þær sjást svona vel uppi á hnúkunum. I vetur las ég þjóðsöguna um Giss- ur í Lækjarbotnum og tröllkerling- arnar í Búrfelli og Bjólfelli í Þjóðsög- um Jóns Árnasonar hjá honum afa Ebba. Ég veit, að síðan heitir fossinn í Þjórsá, þar sem tröllkerlingin hljóp í ána, Tröllkonuhlaup. Úr því að tröllkerlingar eru svo rosalega stórar að geta hlaupið yfir stórar ár, hljóta kerlingarnar uppi á Valahnúkum að vera mjög stórar. Skyldi vera hægt að labba upprétt- ur undir pilsið á þeim? Ég hef ekki þorað að spytja Benna að því vegna þess að honum gæti kannski fundist það dónalegt og þess vegna er ég svo óskaplega forvitinn þegar við stefnum inn með Sandfell- inu í átt að Valahnúkum. Eftir því sem við nálgumst þær sýnast þær stærri og hrikalegri. Mér finnst þær hrollvekjandi því að þær eru steinrunnin lík af ókristi- legum verum. Mér verður hugsað til þess hvað líkamar fólks hljóta mismunandi ör- lög eftir dauðann. Flestir láta setja líkamann í kistu og grafa hann, en afi Ebbi segist ætla að láta brenna sig í nýju kapell- unni í Fossvogi, sem búið er að gera sérstaklega fyrir bálfarir. Þegar fólkið heima var að tala við hann um kapelluna sagði afi, að sér fyndist jarðneskar leifar eiga að vera sem minnstar eftir hvern mann og talaði um muninn á því hvemig ann- ars vegar Indveijar létu brenna sig og dreifa öskunni af sér í einhveija heilaga á og svo hins vegar hvernig íslenskir fornmenn létu setja sig inn í stóra hauga með skipum sínum og alls kyns glingri. „Þetta á að vera sem einfaldast og fyrirferðarminnst,”. sagði afi. „Maður fer hvort eð er ekki með neitt héðan af jörðinni.” Það fór hrollur um mig, þegar afi talaði um þetta. Ég stóð framan við dyrnar og fólk- ið yissi ekki að ég var að hlusta. í bakaríinu hans afa hafði ég horft hugfanginn inn í sjóðheitan baka- rofninn þegar hann setti plöturnar með brauðdeiginu inn í eldrautt og brennheitt holið. Nú sá ég fyrir mér hann elsku afa minn vera settan inn í eldrautt og sjóðandi holið í Fossvogskapellu til að brenna til ösku, hann sem var svo snyrtilegur og huggulegur og ilmaði alltaf af rakspíra. Allt þetta kemur upp í hugann þegar við röltum í áttina að Vala- hnúkum og þessar kolsvörtu og skuggalegu tröllkerlingar rísa alltaf stærri og stærri fyrir fráman okkur upfii á fjallsbrúninni framundan. Á sínum tíma höfðu þær stiknað í stein í morgunsólinni. Þær höfðu verið svo stórar að þær gátu ekki brunnið til ösku heldur urðu eins og tröllvaxin, viðbrennd franskbrauð, sem stóðu þtjú, hlið við hlið, upp á endann og bar við himin. Þegar við göngum upp hallann í áttina að þeim líður mér eins og land- könnuði, sem er að nálgast hinn ótta- lega leyndardóm, sem hann hefur bæði hlákkað til og kviðið fyrir að komast í návígi við og laðast að með ómótstæðilegu afli þótt hann langi mest að flýja eins og fætur toga. Hvað ef tröllkerlingarnar reynast nú vera lifandi? Hvað ef þær lifnuðu nú allt í einu við? Æ, æ, héðan af myndi það litlu breyta, því að litlir strákar eins og við ættum enga möguleika til þess að hlaupa undan þessum flykkjum, sem gnæfa hér hátt yfir okkur. Ég er ákaflega hrifnæmur á þessu augnabliki þegar ég nálgast pilsfald tröllkerlingarinnar í miðið og sé að það er ekki hægt að ganga undir hann. Þá veit ég það. Ég geng með lotningu inn og upp með innstu tröllkerlingunni, sem er svo ógnarstór, að ég er eins og lítill hænuungi í samanburði. Svona risastór tröllkerling gæti tekið peð eins og mig í aðra krumlu sína og falið mig inni í henni! Sett mig ofan í tunnu, fulla af vatni og iátið mig reyna að synda! Það er einkennilegt, hvað hún hallar aftur á bak. Nei, nei! Hvað er nú þetta? Þegar ég fikra mig á hlið við hana sé ég, að í stað þess að vera sívöl og sver tröllkerling er hún þunn eins og fjöl og hallar aftur á bak út yfir brattann á bak við. Hvílík vonbrigði! Þær eru þá alls ekki eins og tröll- kerlingar í laginu, heldur líkast því sem skuggamynd af þremur tröll- kerlingum hafi verið skröpuð af risa- stóru tjaldi og sett hér upp og látin halla aftur. Það liggur við að ég óski mér þess að hafa aldrei komið hingað upp heldur fengið að dvelja áfram við alls konar hrollvekjandi og mögnuð ævintýri, sem ég hef verið að búa til í huganum um steinrunnin tröll og forynjur. Á leiðinni til baka er eins og létti af mér dapurlegum og dimmum hugsunum og á kvöldvökunni finn ég svölun í að syngja hærra og hressilegar en nokkru sinni fyrr KFUM-söngvana um fagnaðarerind- ið: „Kristnir drengir, áfram allir! Aldrei vílg'a megið þér! Sálu styrkja sðngvar snjallir. Sigur þar til fenginn er. Guði hjá, himnum á. Hittumst glaðir allir þá!" Ó, hann Hilmar við hliðina á mér er svo yndislega kvefaður og nef- mæltur, þegar hann syngur laglín- urnar með öllum n-un-um og m- unum: „Ótal englatungur undir taka í söng: Dýr§ og lof sé drottni, dýro í sæld og þröng!” Áfram kristmenn, krossmenn! Á morgun verður gaman. Annað kvöld verður kvöldvaka og ég er að hamast við að gera vísur um strákana, sem ég ætla að fara með á kvöldvökunni. Ég hef aldrei gert neitt svona lag- að síðan ég söng fyrir gestina í tveggja ára afmælinu mínu. Á morgun fáum við tertur og kök- ur í fyrsta og eina skiptið í sumar, því að það verður síðasti dagurinn okkar í Kaldárseli á þessu sumri. Þegar það rigndi mest um daginn, strukum við einu sinni. Við fórum allir af stað labbandi og vorum harðákveðnir að stijúka niður í Hafnarfjörð. Margir okkar voru svo óánægðir með hvað það var einhæfur matur alla daga að þeir sögðu að við ættum að gera uppreisn út af því. Einhvern veginn urðum við atlir dálítið spenntir og æstir. Það var dálítið spennandi að gera uppreisn gegn sjálfum foringjanum. Mér leið samt dálítið illa inni í mér af því að mér fannst Benni ágæt- ur foringi og Marta elskuleg elda- buska. Ekki gat hún gert að því, þótt hún fengi ekki að elda neitt nema saltfisk flesta daga. Þar að auki var ég ekki óánægður með matinn eins og hinir strákarnir. Mér fannst svo gaman að borða skyrhræring, hafragraut, rúgbrauð og skonrok. Ég hafði líka lært það mikið um kristindóm og Guð hér í selinu að ég þóttist vita að það væri kristilegt og Guði þóknanlegt að borða einfald- an og ódýran mat hér á jörðinni af því að það voru svo margir hungrað- ir í fátæku löndunum úti í heimi og jafnvel í Kamp Knox og Höfðaborg- inni. Ef maður lifði sparlega og borðaði sem mést skonrok yrði manni ábyggilega launað fyrir það í himna- ríki með stórum ijómatertum og súkkulaði með ijóma eins og maður gæti í sig látið. En ég lagði ekki í það að segja þetta úr því að strákarnir áttu svona erfítt með að vera kristilegir í matar- æði og þótti skonrok leiðinlegt og þeir höfðu ekki verið veikir eins og ég og hlustað með tárin í augunum á Elsu Sigfúss syngja ljóð eftir Dav- íð Stefánsson um vesalings fátæka fólkið í verkamannsins kofa, þar sem „börnin fá mat en foreldrarnir svelta”. Ég labbaði því þegjandi með þeim áfram eftir veginum yfír djúpu hraungjána fýrir norðan selið, fram hjá Álfakirkju og alla leið upp á hæðina og melana fyrir norðan hrau- nið. Brátt myndum við sjá niður í Sléttuhlíð. En þarna uppi á brúninni var miklu hvassara heldur en í hrauninu og rigningin fór vaxandi. Við vorum að byija að blotna og verða kaldir og svangir. Þeir, sem höfðu kvartað mest yfír matnum, voru nú orðnir þögulir og áður en við vissum af höfðu allir stansað. Rigningin lamdist upp í nefíð á okkur. Það var komið rok. Algert skon- rok. Við litum hver á annan. Mér sýnd- ist á hinum strákunum að þeir væru farnir að efast en það þyrði bara enginn að segja það sem hann væri að hugsa. Enginn vildi vera huglaus og eyði- leggja svona stórkostlega og glæsi- lega uppreisn, sem við höfðum verið svo samtaka um núna rétt áðan. Þarna stóðum við þögulir drykk- langa stund og urðum blautari og blautari og kalt á hnjánum og eyrun- um þar sem við hölluðum okkur upp í vindinn og ískalda rigninguna. Mér fannst ég þurfa að segja eitt- hvað en þó án þess að gefast upp og hætta uppreisninni. „Ætli það sé ekki betra að stijúka strax eftir hádegismat í góðu veðri?” sagði ég lágt. „Þá erum við saddir og þurrir og miklu skemmtilegra að labba niður í Hafnarfjöi-ð. Ég bara segi svona. Ég vil alveg eins halda áfram.” Ég beið milli vonar og ótta eftir svari strákanna og hálf sá eftir að hafa sagt þetta. Þeir höfðu sumir verið svo æstir og sárir þegar við lögðum af stað að kannski myndu þeir taka mig í bakaríið. En enginn sagði neitt og áður en við vissum af vorum við á hraðri leið, án þess að mæla orð frá vörum, til baka undan rigningunni og flýttum okkur eins og við gátum, svo að við næðum heim í sel fyrir kvöldmat og það kæmist ekki upp, að við hefðum byijað að stijúka. Það komst ekki upp, Guði sé lof. Nema Guð vissi það allan tímann og veit það enn. En Guð er góður og hann kjaftar ekki frá.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.