Morgunblaðið - 14.04.1993, Síða 17
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 14. APRÍL 1993
17
Þjónusta við aldraða
- þáttur fjölskyldu og aðstandenda
eftir Sigurbjörgu
Sigurgeirsdóttur
Þjónusta við aldraða er vaxandi
þáttur í uppbyggingu og rekstri fé-
lags- og heilbrigðisþjónustu á ís-
landi. Svo er einnig í öllum ríkjum
hins vestræna heims. Með vaxandi
velferð aukast lífslíkur íbúanna og
lífaldur þeirra hækkar. Það er því
eðlileg þróun að samfélögin bregðist
við breyttri aldurssamsetningu íbú-
anna og byggi upp viðeigandi þjón-
ustu. í flestum svonefndum þróuðu
ríkjum veraldar er þessi þróun kom-
in nokkuð á veg en í mörgum þriðja
heims ríkjum má nú sjá ýmis teikn
sem benda til þess að sama þróun
sé þar í uppsiglingu.
Flestir þekkja þá félags- og efna-
hagslegu þróun sem breytti Islandi
úr bændasamfélagi í tæknivætt iðn-
ríki nútímans þar sem aðskilið heim-
ilishald sjálfstæðra einstaklinga eða
kjarnafjölskyldna kom í stað marg-
kynslóða framleiðslueininga bænda-
býlanna. Þá er öllum ljóst að íbúum
landsins sem náð hafa 65 ára aldri
fjölgar hratt hér sem annars staðar
í heiminum. Svo er árangri vaxandi
almennrar þekkingar á hreinlæti,
aukinnar heilbrigðisþjónustu og
fleiru að þakka. En það er ekki
aðeins flölgun í þessum aldurhópi
heldur hækkar jafnframt meðalald-
ur hans. Þeim öldruðu sem eru í
sambúð eða í hjónabandi fjölgar
einnig verulega, en sú staðreynd
skiptir miklu máli þegar uppbygging
og skipulag á þjónustu við aldraða
er annars vegar. Þó konur lifi reynd-
ar oftast menn sína og búi oft mörg
ár einar sem ekkjur þá hefur nú í
seinni tíð heldur dregið saman með
kynjunum hvað þetta áhrærir hér á
landi. Þó líflegt hafi verið á fæðing-
ardeildum sjúkrahúsanna undan-
farnar vikur þá hefur fæðingum
fækkað miðað við það sem áður
var, standa reyndar í stað í þróuðum
ríkjum en spáð er að verulega dragi
úr fæðingum í þriðja heiminum á
næstu 20-30 árum. Þetta þýðir rheð
öðrum orðum að þeim sem þurfa á
þjónustu að halda í heiminum fjölg-
ar meðan þeim sem hana veita
fækkar.
Hverjir veita umönnun?
Þáttur ættingja vina eða ná-
granna í aðstoð við gamalt fólk er
í flestum fræðiritum kallaður „hin
óformlega umönnun" (the informal
care) meðan þáttur hins opinbera
kallast „hin formlega umönnun"
(the formal care). Þetta hljómar
undarlega þegar haft er í huga að
þáttur fjölskyldunnar í þjónustunni
við aldraða hefur alla tíð verið og
er enn mjög stór. Þetta á sér þá
skýringu að þjónusta hins opinbera
er skipulögð og byggir á fyrirfram
ákveðnum verkefnum samkvæmt
skilgreindri þörf meðan aðstoð fjöl-
skyldunnar byggir á sameiginlegri
sögu, gagnkvæmum tilfinningum,
félagslegum þörfum og væntingum.
Það sem einkennir þó hvort
tveggja er að þeir sem eru í umönn-
unarhlutverkinu eru nánast undan-
tekningalaust konur. Konur sem
dætur, eiginkonur eða starfsmenn
opinberrar þjónustu. Um er að ræða
konur á miðjum aldri sem hugsa
um mæður sinar eða konur yfir sex-
tugt sem hugsa um eldri eiginmenn
sem þarfnast umönnunar.
Þetta er sérstakt umhugsunarefni
þegar haft er í huga að miðaldra
konum á hverja 1.000 aldraða fækk-
ar. Þannig voru 1.100 miðaldra kon-
ur í Svíþjóð á hveija 1.000 aldraða
árið 1920 en þær verða 630 árið
2000. Þessi sama þróun á sér stað
hér á landi. Samhliða þessu hefur
þátttaka kvenna á almennum vinnu-
markaði aukist og konur hafa í
auknu mæli aflað sér lengri mennt-
unar. Þannig hafa konur nú skyld-
um að gegna ekki aðeins gagnvart
eigin heimili, maka og börnum og
sem tengiliðurinn í stórfjölskyldunni
heldur einnig gagnvart vinnuveit-
enda. Flestum er ljóst að hér er
ekki alltaf um að ræða spurningu
um val, heldur byggir fjárhagsleg
afkoma heimilanna í sífellt vaxandi
mæli á atvinnuþátttöku tveggja ein-
staklinga þ.e. beggja foreldra þegar
um slíka fjölskyldugerð er að ræða.
Opinber þjónusta
Á undanförnum árum og áratug-
um hefur opinber þjónusta við aldr- •
aða í hinum vestræna heimi vaxið
hratt. Framan af var nánast ein-
göngu um stofnanaþjónustu að
ræða, þ.e. þjónustu á stofnun sem
kom og kemur að öllu leyti í staðinn
fyrir heimili hins aldraða og fer oft
stigvaxandi þar til umfang þjón-
ustunnar er orðið slíkt að stofnana-
vistun er talin óhjákvæmileg.
Veruleg áhersla hefur verið lögð
á þessa tegund þjónustu á undan-
förnum árum. Hefur sums staðar
verið gengið svo langt t.d. í Dan-
mörku og Svíþjóð að heimaþjónusta
hefur átt að koma alfarið í staðinn
fýrir stofnanir t.d. dvalarheimili
aldraðra. Óhætt er að segja að þær
tilraunir hafi mistekist, í það
minnsta reyndist kostnaður það
mikill og skipulagsvandi svo um-
fangsmikillar þjónustu svo mikill að
til vandræða horfði.
Þær raddir gerast nú stöðugt
háværari að fjölskyldan sé að bregð-
ast skyldu sinni gagnvart gamla
fólkinu. Aukin opinber þjónusta sé
að riðla fjölskylduböndum og brjóta
niður félagsleg tengsl.
Goðsögnin um, að gamla fólkið í
þriðja heiminum hafi það gott í
faðmi fjölskyldu sinnar, haldi áhrifa-
stöðu sinni þar og njóti félagslegs
öryggis hefur vakið upp vangaveltur
um það hvort stórijölskyldan sé
ekki rétta lausnin. Hvort fjölskyldan
eigi ekki að bera meiri ábyrgð á
umönnun og velferð gamalla ætt-
ingja sinna nú þegar öldruðum fjölg-
ar hratt og kostnaður hins opinbera
vegna öldrunarþjónustu margfald-
ast ár frá ári.
Er opinber þjónusta að reka
fleyg á milli aldraðra og
aðstandenda þeirra?
Á undanfömum árum hafa verið
gerðar ítarlegar rannsóknir beggja
vegna Atlantshafsins á sambandinu
milli fjölskyldutengsla og aukinnar
opinberrar þjónustu. Allar þessar
rannsóknir benda til hins sama:
Þáttur fjölskyldunnar í aðstoðinni
við aldraða er verulega stór, þrátt
fyrir aukið vinnuálag, vaxandi ytra
áreiti á kjarnafjölskyldunni, meiri
vegalengdir milli fjölskyldumeðlima,
færri börn á hverja aldraða foreldra
og aukna opinbera þjónustu.
Til dæmis má nefna að 80% ein-
staklinga 65 ára og eldri er nutu
aðstoðar í Matitoba í Kanada árið
1987 fengu aðstoðina frá fjölskyldu-
meðlimum. Rannsókn sem gerð var
í Svíþjóð árið 1985 sýndi að 42%
aðstoðarþega fengu eingöngu að-
stoð fjölskyldumeðlima, 35% ein-
göngu aðstoð hins opinbera og 22%
aðstoð frá hvorum tveggja.
Nokkrar ítarlegar athuganir hafa
verið gerðar í Noregi. Árið 1969 og
aftur árið 1981 voru gerðar sam-
bærilegar athuganir á eftirspurn
eftir opinberri þjónustu, en á þessu
tímabili margfaldast þjónustan við
aldraða, þá sérstaklega heimaþjón-
usta af ýmsu tagi. Þessar athuganir
leiddu eftirfarandi í ljós: Þrátt fyrir
verulega eftirspurn eftir opinberri
þjónustu fyrir aldraða fannst ekkert
í fyrirliggjandi athugunum sem
benti til þess að sambandið milli
hins aldraða og ijölskyldu hans hefði
minnkað. Áherslur höfðu hins vegar
breyst og það staðfesta ýmsar aðrar
kannanir. Fjölskyldan er virkari og
stærri þáttur aðstoðarinnar þegar
um er að ræða stutta eða tíma-
bundna aðstoð við heimilishald, við
lengri og varanlegri persónulegri
umönnun er þáttur hins opinbera
stærri.
Árið 1985-1986 var gerð við-
horfskönnun meðal 70 ára og eldri
AR ALDRAÐRA
i EVRÓPU 1993
í Ósló. Framangreind verkaskipting
milli fjölskyldunnar og hins opinbera
endurspeglar þau viðhorf sem þar
komu fram. Flestir leita fyrst til
bama sinna eftir aðstoð, ef þörfín
er tímabundin, léttari aðstoð við
heimilishald en um leið og kemur
að persónulegri umönnun vilja aldr-
aðir leita til hins opinbera.
Gallup stofnunin í Noregi gerði
nýlega viðhorfskönnun meðal Norð-
manna 18 ára og eldri. Um helming-
ur aðspurðra á öllum aldri taldi sig
bera skyldu til að annast foreldra
sína yrðu þeir veikir. Hins vegar
vildu einungis einn af hverjum fimm
að bömin sín myndu annast sig í
veikindum.
Foreldrar em mjög meðvitaðir um
að ofgera eða íþyngja ekki bömum
sínum. Það gildir hér eins og ann-
ars staðar meðal allra aldurshópa
að það er auðveldara að gefa en að
þiggja, auðveldara að vera óháður
gefandi en háður þiggjandi. Slík
staða hefur sjaldan leitt til góðra
fjölskyldutengsla, en í ofangreind-
um rannsóknum mátti fínna að
vemlega hafíð dregið úr togstreitu
og ágreiningi í fjölskyldunum og í
staðinn var komin svokölluð „nánd
í fjarlægð“.
Þannig hefur hin opinbera þjón-
usta stuðlað að sjálfstæði í daglegu
lífí hins aldraðra rétt eins og ellilíf-
eyrir stuðlaði að efnahagslegu sjálf-
stæði á sínum tíma. Fjölskyldu-
tengsl hafa breyst í þá átt að vera
meiri að gæðum, vera tilfinningaleg-
ur og félagslegur stuðningur er
byggir í meira mæli á gagnkvæmni
þess að heyra til fjölskyldu.
Öldrunarfræðin
Hin nýju fræði, „öldmnarfræðin“,
hafa verið skilgreind sem „þekking
um það að eldast“ eða á dönsku
„læring om normal ældring". I öldr-
unarfræðinni er gengið út frá hinu
eðlilega og heilbrigða við það að
eldast. Öldrunarfræðin nálgast
þetta viðfangsefni mannlegs lífs út
frá vísindum líffræðinnar, læknis-
fræðinnar, atferlis- og samfélags-
fræðinnar.
Oft hefur verið á það bent að sú
tilhneiging sé ríkjandi að líta á gam-
alt fólk sem mjög einlitan hóp, hinn
grái massi eins og hann hefur stund-
um verið kallaður. Ef til vill er
ástæðan fyrir þeirri tilhneigingu sú
að of mikil áhersla hefur verið lögð
á hinn líffræði- og læknisfræðilega
þátt öldmnarinnar en minna Q'allað
um atferlis- og samfélagslega þátt-
inn.
Þetta er sérstakt íhugunarefni
þegar tekið er tillit til þeirra öru
þjóðfélagsbreytinga sem orðið hafa
á þessari öld. Sú kynslóð sem telst
til aldraðra í dag hefur í ljósi at-
burða 20. aldarinnar, að geyma
ekki aðeins ólíka samfélagshópa
heldur einnig ólíka aldurshópa sem
hver og einn er barn síns tíma sem
hefur tekið með sér áhrif og sam-
spil hinnar opinberu sögu og eigin
sögu í viðmiðunum sínum, vænting-
um og viðhorfum. Það er talandi
dæmi um hinar ólíku kynslóðir sem
búa í þessu landi þar sem hraði er
ríkjandi og tækni virðist úreldast
fljótt, að þessi þáttur öldrunarfræð-
innar, þ.e. atferlis- og samfélags-
fræðin er afgreiddur með tveimur
orðum, „gamli skólinn" og verð-
mætamat hans er „gamaldags".
Signrbjörg Sigurgeirsdóttir
„ Aftur á móti hefur
reynslan sýnt að með
heimaþjónustu opnast
nýjar leiðir fyrir fjöl-
skylduna til að taka
þátt í aðstoð við aldraða
miðað við aðstæður
hveiju sinni og vera hið
félagslega og tilfinn-
ingalega akkeri sem
einstaklingurinn þarfn-
ast.“
Til að skilja betur ástæður þess
að gamalt fólk vill ekki vera undir
bömum sínum komið með langvar-
andi persónulega umönnun, en kýs
þá frekar aðstoð hins opinbera þá
verðum við að skoða sögu 20. aldar-
innar betur og sjá hvaða áhrif hún
hafði á daglegt líf og afkomu fólks
og hvaða tækifæri opnuðust sem
gerðu fjölskyldu betur kleift að að-
laga sig breyttum aðstæðum í sam-
félaginu. Við vitum í raun sáralítið
um afkomu og velferð gamals fólks
í stórfjölskyldusamfélaginu. Hversu
fús og gefandi var yngri kynslóðin
í því þrönga og lokaða samfélagi?
Hvernig var að vera háður og þiggja
þar? Síðari tíma rannsóknir sem ég
gat um hér áðan benda allar til
þess að gamalt fólk kjósi frekar
„nánd í ijarlægð" en að vera háður
þiggjandi á kostnað góðra fjöl-
skyldutengsla sem byggja á gagn-
kvæmum þörfum.
Möguleikar fjölskyldunnar í
ljósi nýrra leiða
Með tilkomu heimaþjónustu hefur
þáttur fjölskyldunnar í aðstoð við
aldraða stóraukist því heimaþjón-
usta er í eðli sínu þannig að hún
kemur á móti hinu svokallaða
óformlega hjálparkerfí hins aldraða
og tekur við þar sem getu þess
sleppir. Henni er ekki ætlað að koma
í staðinn fyrir fjölskyldu- eða stofn-
anaþjónstu og getur það reyndar
ekki. Meðan stofnanaþjónustan var
eina úrræðið sem þjónusta við aldr-
aða hafði hún mun meiri tilhneig-
ingu til að ijúfa fjölskyldutengsiin
en tilfellið er með heimaþjónustu
þar sem stofnanaþjónustan er í eðli
sínu þjónusta sem kemur í staðinn
fýrir eitthvað annað.
Heimaþjónustan byggir á nánu
samstarfi við aðstandendur og að-
stoðarþega og er nánast ófram-
kvæmanleg nema svo sé. Sú verka-
skipting sem verður til milli þessa
tveggja „kerfa“ kemur í kjölfar þess
samstarfs og er í eðlilegu samræmi
við aðstæður hveiju sinni. Reynslan
hefur sýnt að tiltrú og aðgengi al-
mennings að slíkri þjónustu skapar
öryggi hjá öldruðum og aðstandend-
um þeirra sem aftur er undirstaða
eðlilegra samskipta milli kynslóð-
anna.
Dæmi hafa sannað að engin ein
þjónusta getur komið í staðinn fyrir
aðra. Þannig getur heimaþjónusta
ekki komið alfarið í staðinn fyrir
stofnanaþjónustu. Þá getur fjöi-
skyldan í nútímaþjóðfélagi ekki
komið ein í staðinn fyrir heima- eða
stofnanaþjónustu og aftur ekkert
komið í staðinn fyrir fjölskylduna.
Hin lýðfræðilega þróun er ákveð-
in staðreynd. Okkur ber fyrst og
fremst siðferðisleg skylda til að líta
á afleiðingu slíkrar þróunar sem
eðlilegt viðfangsefni er kallar á sam-
starf og skipulagningu. Forsjár-
hyggja eða skyndilausnir sem ekki
eru í takti við heildaruppbyggingu
þjónustunnar, samspil ólíkra þjón-
ustuþátta og þær áherslur sem þar
ríkja hafa ekki gefíð góða raun.
Aftur á móti hefur reynslan sýnt
að með heimaþjónustu opnast nýjar
leiðir fyrir fjölskylduna til að taka
þátt í aðstoð við aldraða miðað við
aðstæður hveiju sinni og vera hið
félagslega og tilfinningalega akkeri
sem einstaklingurinn þarfnast.
Heimildir:
1. Svein Olav Daatland. (1990) What are
families for? Ageing and Society, 10, 1990.
Cambridge University Press.
2. Neena Chappel and Audrey Blandford.
(1990) Informal and formal care: Exploring
the complementarity. Ageing and Society,
11, 1991. Cambridge University Press.
3. H. Kendig, A. Hashimoto and L.C. Copp-
ard. (1991) Family Support for the Elderly.
The international experience. WHO. Oxford
University Press.
4. Lars Tomstan (1992). Den demografiska
bomben och de nya kraven pá den infor-
mella omsorgen - framtidshot eller myt?
5. Turid Noack og Inger Texmon (1991).
Dagens og morgendagens kvinner - en
demografísk beskivelse. Gamle kvinner i
Norden. Rapport 6 - 1991. Norsk gerontol-
igisk institutt.
Höfundur er félagsrádgjnfi og
yfirmaður
öldrunarþjónustudeildar hj&
Félagsmálastofnun
Reykjavíkurborgar.
Skýrsla Bifhjólasamtaka lýðveldisins
Umferðarátak Sniglanna
á síðasta ári gekk vel
BIFHJÓLASAMTÖK lýðveldisins hófu á síðastliðnu ári baráttu
gegn bifhjólaslysum undir nafninu „Umferðarátak snigla 1992“.
Umferðarátakið var rekið undir einkunnarorðunum: „Sérðu mót-
orhjól, líttu aftur“. Átakið fór þannig fram að innsksot voru á
báðum sjónvarpsstöðvum 9 sinnum á hvorri stöð, veggspjöld voru
hengd upp á bensínstöðvum og útvarpsinnskot voru send öllum
útvarpsstöðvum utan Rásar 2.
Frá þessu segir í skýrslu, sem
Morgunblaðinu hefur borist frá Um-
ferðarátaki snigla. Heildarkostnaður
við átakið var 2.3 milljónir króna. í
lokaorðum skýrslunnar segir svo:
„Markmið okkar með þessu umferð-
arátaki er að fækka bifhjólaslysum
um allt að 15% og minnka kostnað
þjóðarinnar af þeirra völdum. Til
hliðsjónar höfum við upplýsingar frá
umferðarátaki sem Umferðarráð og
Fararheill gengust fyrir 1988. Þeð
því átaki tókst að fækka slysum um
27%.
Miðað við kostnað tryggingafélag-
anna af bifhjólaslysum 1990 myndi
átakið spara þeim um 9.000.000 kr.
Miðað við kostnað heilbrigðisgeir-
ans fyrir sama ár myndu sparast um
55.000.000 kr.
Með kröftugu umferðarátaki sem
kostar tæpar 2.000.000 kr. er hægt
að spara þjóðarbúinu allt að
64.000.000 í beinhörðum peningum.
Okkur þykir þó meira um vert að
hlífa lífum og limum 30-40 ungra
manna og kvenna ár hvert.“