Morgunblaðið - 16.01.1994, Page 2
2 B
MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 16. JANÚAR 1994
HETJUTENOR
HUGARFLUGI
Afrek Islendinga á erlendri
grundu eru ósjaldan mögnuð
upp í íslenskum fjölmiðlum.
Doðrantar eru skráðir um ís-
lendinga, sem standa á götuhomum í New
York og dreifa auglýsingum um ítalskt flat-
brauð og afsláttarmiðum í efnalaugar, og
ekki vekja þeir, sem standa á þröskuldi
frægðarinnar minni athygli. Garðar Hólm
er frummynd íslendingsins í útlöndum, sem
verður heimsfrægur á íslandi. Enn þann
dag í dag má enginn íslendingur geta sér
gott orð erlendis að ekki komi fram efa-
semdisraddir um frama hans. Um leið má
enginn íslendingur hreyfa sig erlendis án
þess að íslenskir fjölmiðlar geri sér mat úr.
Það ke'mur því í opna skjöldu þegar allt í
einu verður á vegi manns íslendingur, sem
hefur gefið út tíu bækur í Bandaríkjunum
án þess að verða orðinn heimsfrægur á ís-
landi.
Þórarinn Gunnarsson hefur unnið við rit-
störf í Bandaríkjunum undanfarin ár. Skáld-
sögur hans eru á þeim meiði bókmennta,
sem kenndar eru við heilaspuna og hugar-
flúg og á útlensku nefnast fantasíur og
verða kallaðar það hér þar sem hinn kostur
orðabókarinnar, furðusögur, er full þröngur
að merkingu. Hins vegar ætti sennilega
rétt eins vel við að tala um ævintýri.
Leið Þórarins í skáldsagnagerð hefur
verið æði krókótt og legið um háskóla í
Dallas, og óperusvið í Evrópu. Hann fór til
Danmerkur í gervi Sherlocks Holmes og
Suðurheimskautslandsins uppábúinn sem
Amundsen landkönnuður. Segja má að
hrakandi heyrn hafi þvingað Þórarin til rit-
starfa en nú hefur hann landað stóra samn-
ingnum, sem fyrirheitum um dijúga sölu
og tryggingu fyrir þýðingum á japönsku og
þýsku.
Evrópsk áhrif
Þegar viðtalið fór fram var Þórarinn ný-
kominn af ráðstefnu um ævintýraskáldsög-
ur þar sem hann tók tvisvar þátt í pall-
borðsumræðum. í öðrum þeirra var spurt
hvort bandarískir rithöfundar, sem róa á
þessi mið skáldsagnaritunar, leituðu um of
í evrópsk ævintýri og goðsagnir og var það
við hæfi því að þau hafa reynst Þórarni
drjúgur efniviður.
„Mér er sagt að ég hafi það fram yfir
aðra að ég get skrifað ævintýri með evr-
ópskum hætti þannig að það hljómi evr-
ópskt,“ segir Þórarinn. „Það er alltaf hægt
að sjá muninn á Bandaríkjamanni, sem
skrifar evrópskar fantasíur, og Evrópu-
manni, sem leggur það fyrir sig. Ég get
komið til skila tilfinningunni um gamla
heiminn og það er það, sem útgefendur
vilja. Það er reyndar athyglisvert að nánast
allir þeir rithöfundar, sem notið hafa vel-
gengni í fantasíuskrifum, eru frá Evrópu.
Þar ber vitaskuld hæst J. R. R. Tolkien,
höfund Hringadróttinssögu."
„Fyrir daga Tolkiens var fantasían á refil-
stigum. Helsta skáldsagnapersónan, sem
rekja má til þeirra tíma hér í Bandaríkjunum
er Conan villimaður. Robert E. Howard
skrifaði um hann á miðjum þriðja áratugn-
um,“ sagði Þórarinn og bætti við að á ráð-
stefnunni hefði hann hitt hjón, sem nú ráð-
stöfuðu réttinum á sköpunarverki Howards
heitins. „Þau eru að hugsa um að gera þriðju
Conan-myndina. Þau sögðu að Arnold
Schwarzenegger vildi ekki leika í mynd-
inni, en væri í sjálfsheldu vegna þess að
hann vildi heldun ekki að neinn annar gerði
það.“
Ein og hálf bók á ári
Ekki verður annað sagt en að Þórarinn sé
afkastamikill. Hann hefur nú skrifað tíu
bækur á sex árum og er með trílógíu í
vinnslu.
„Mér fínnst þægilegt að skrifa þijár
bækur á tveimur árum,“ segir hann. „Ég
verð hins vegar að viðurkenna að þær bæk-
ur, sem ég hef skrifað til þessa hafa verið
stuttar, um 90 þúsund orð hver. Hver bók
í ritröðinni, sem ég er að vinna að nú verð-
ur nokkurn veginn tvöfalt lengri. Ég var
að vonast til að fá meiri tíma til skrifta,
en þeir vildu láta vinna verkið með hraði.“
Hann átti að skila handriti að fyrstu
bókinni um jólin til þess að hún gæti kom-
ið út í sumar, en gat ekki hafist handa
fyrr en í ágúst á síðasta ári. Þá þurfti hann
að leggja drög að öllum bókunum þremur,
gera rannsóknir og draga að sér heimildir.
„Ég gat í raun ekki farið að skrifa fyrr
en í byijun september þannig að ég hef
fjóra mánuði til að skrifa bók, sem er helm-
ingi lengri en allt sem ég hef skrifað til
þessa,“ segir hann. „Þannig að ég er ekki
verklaus."
Fyrir um fimmtán árum kom fram á
sjónarsviðið leikur, sem heitir Dýflissur og
drekar (Dungeons and Dragons) og jafn-
framt honum var gefin úr ritröð þriggja
skáldsagna. Nú hyggst sama fyrirtæki,
TSR, gefa út nýjan leik og Þórarinn var
ráðinn til að skrifa þijár bækur sem eiga
að fylgja honum. Fyrri bækurnar seldust í
nokkrum milljónum eintaka þannig að þessi
samningur hans gefur fyrirheit um gull og
græna skóga.
Fyrri leikurinn var í því fólginn að þátt-
takendur léku hlutverk ákveðinna persóna
þar sem meistari dýflissunar er æðstur,
leggur drög að ævintýri týri og leiðir því
næst aðra í gegnum það.
„Þessir leikir geta tekið mánuði og jafn-
vel ár,“ segir Þórarinn. „Nú vilja þeir gera
leik, sem verður bæði einfaldari til þess að
auðvelda byijendum hann og flóknari fyrir
þá, sem lengra eru komnir. Vegur fyrirtæk-
isins í bókaútgáfu hefur farið vaxandi og
nú vilja þeir gefa út bækur um leið og leik-
inn.
„Bókunum er ætlað að höfða ekki aðeins
til þeirra, sem hafa gaman af leiknum, held-
ur eiga þær að geta staðið sjálfstæðar og
verið við hæfi unnenda fantasíubókmennta.
Að öðrum kosti hefði ég líka hikað við að
taka þetta að mér. En mér var sagt að ég
mætti skrifa þetta eftir eigin höfði.“
Gróðavonin hlýtur einnig að hafa haft
einhver áhrif á ákvörðun rithöfundarins:
„Fyrirtækið gerði síðast eitthvað þessu líkt
þegar þyngri útgáfa af Dýflissum og drek-
um var gefin út árið 1987,“ segir Þórarinn.
„Þá gáfu þeir út trílógíu, sem var prentuð
í 15 milljónum eintaka á þremur árum.
Þannig að þetta selst vel og nái bækurnar
út fyrir áhangendur leiksins má búast við
enn meiri velgengni.“
Fyrsta bókin verður seld með leiknum
auk þess að vera í hillum bókaverslana og
gert er ráð fyrir að næstu tvær bækur komi
út með átta til níu mánaða millibili.
Þótt Þórarinn hafi gefið út tíu bækur
væru ýkjur að segja að nafn hans væri á
hvers manns vörum. Þær eru vandfundnar
í bókabúðum og þarf að leita í sérhæfar
verslanir eða beint til þeirra forlaga sem
gefið hafa Þórarinn út til þess að koma
höndum yfír þær. Útsendari Morgunblaðs-
ins rakst á eintak af einni þeirra í verslun,
sem er með bókamarkað allt árið, og rak
upp stór augu. Þórami hefur þó tekist að
skapað sér nafn, sem sannast meðal annars
á því að farið er að bjóða honum að taka
til máls á ráðstefnum. Hann kveðst enn fá
sendar prósentur fyrir fyrstu bækurnar sín-
ar, þannig að einhver hreyfmg hljóti að
vera á þeim enn. Af svörum hans má ráða
að bækur hans seljist í um 15 þúsundum
eintaka. Hann kveðst hafa fyrir satt að þær
seljist sæmilega á íslandi, þótt íslenskir
aðdáendur hafí ekki sýnileg áhrif á heildar-
sölu.
Með bók þeirri, sem nú er í vændum,
gæti orðið talsverð breyting þar á heildar-
sölu.
Með bók þeirri, sen nú er í vændum,
gæti orðið talsverð breyting þar á. Milljóna-
sala er ekki á hvers manns færi og ekki
örgrannt um að margur penninn fyllist öf-
und að vita kollega sinn hreppa slíkt hnoss.
Er. hvernig fara menn að því að fá slík
tækifæri?
Reynsla og líkamsvöxtur Arnolds
Schwarzeneggers
„Mér fínnst ég að vissu léyti hafa verið
heppinn," kveður Þórarinn við. „Ritstjórinn,
sem stjórnar verkinu, setti saman lista yfir
vænlega rithöfunda og ég lenti efst á þess-
um lista. Þegar hann hringdi í umboðsmann
minn sagði hann, svo notuð séu hans orð,
að hann hefði valið mig vegna þess að ég
væri „karlmannlegur“.
Þórarinn er hávaxinn og ljóshærður og
hefur að auki stundað vaxtarrækt undanfar-
ið tvö og hálft ár.
„Ég er vanur að koma fram opinberlega,
á litríkan feril að baki og hef næstum því
líkamsvöxt Amolds Schwarzeneggers. Ég
held að honum hafí fundist að það myndi
vekja athygli og laða að yngri lesendur,"
segir Þórarinn. „Hann sagði að flestir rithöf-
undar á þessu sviði litu út eins og miðaldra
hippar með bjórvambir en ég væri enn ung-
ur og tiltölulega vel á mig kominn. Þetta
átti stóran þátt í því að ég var fenginn til
að skrifa."
Þórarinn skrifaði sína fyrstu skáldsögu á
táningsaldri, en síðan leið langur tími þar
til hann aftur drap penna á blað. Þess á
milli hafði hann viðkomu í óperusöng og í
leiklist. Hann kveðst hins vegar alltaf hafa
haft gaman af að segja frá.
„Ég er sagnaþulur,“ segir Þórarinn. „Mér
er sagt að ég eigi auðvelt með að skapa
trúverðugt sögusvið og ef til vill kemur
reynslan af óperu- og leiksviðinu mér þar
til góða.“
I upphafí var það óperusöngurinn, sem
lokkaði Þórarin til Bandaríkjanna. Hingað
kom hann sextán ára. Ferðalagið hófst í
Vestmannaeyjum kaldan janúardag og átti
gosið árið 1973 þátt í því að hann fór vest-
ur um haf. Ferðinni lauk í Dallas í Texas
þar sem tók á móti honum hitamolla sem
í engu minnti á kaldasta mánuð ársins. Og
síst grunaði hann að eftirleiðis yrði hann
sjaldséður gestur á íslandi.
Frá óperu í leiklist
Þórarinn hljóp upp um bekk á íslandi og
þegar hann kom til Bandaríkjanna fór hann
beint í háskóla, Meadow School of Arts, í
Dallas, og hefur þá verið tveimur árum
yngri en flestir samstúdentar hans á fyrsta
ári. Að söngnáminu loknu var förinni heitið
til Evrópu.
„Ég gat ekki stundað óperusöng lengi,
ekki nema í fjögur ár. Heyrn mín var það
slæm að hún leyfði mér ekki að halda áfram
lengur,“ segir Þórarinn. „Ég var hetjute-
nór. Ég hafði mikið raddsvið, gat farið allt
ofan úr því að vera lýrískur tenór niður í
baritón bassa, en kjarni raddarinnar lá í
hetjutenórnum."
Þórarinn kveðst mest hafa sungið í
Þýskalandi og á Norðurlöndunum á árum
sínum í Evrópu. Hann hafí sungið í Hollend-
ingnum fljúgandi, Lohengrin og Niflunga-
hringnum eftir Wagner auk Turandots eftir
Puccini
Þegar heyrnin brást tók hann að þreifa
fyrir sér í leiklist. Hann fluttist aftur til
Dallas og kom þar nálægt handritagerð,
en enn beið hans yinna í Evrópu.
„Svo fór að ég var farinn að leika í
spennumyndum. Eg lék Sherlock Holmes
fyrir danska sjónvarpið. Undanfarin tvö
sumur lék ég í tveimur stórum breskum
myndum, sem eru mjög í anda Agöthu
Christie, en gerast á tímum Artúrs kon-
ungs. Og í janúar á síðasta ári lék ég norska
landkönnuðinn Roald Amundsen í mynd,
sem tekin var upp á Suðurheimskautsland-
inu.“
Síðastnefndu myndina framleiddi Anglia
og átti að frumsýna hana í desember.
Þórarinn hefur ekki langt að sækja list-
fengina:
„Móðir mín var leikkona," segir hann.
„Hún starfaði einnig erlendis og ég ólst því
að miklu leyti upp í útlöndum, bæði í Dan-
mörku og Noregi, og því tala ég dönsku
og norsku álíka vel og ensku. Umboðsmað-
ur móður minnar gaf henni listamannsnafn-
ið Kjera Arnarsdóttir."
Nú á Þórarinn ekki nema eina systur á
íslandi og það eru um fjögur ár frá því
hann síðast hafði þar viðkomu.
„Ég hef haft svo mikið að gera,“ segir
Þórarinn og hugsar sig um: „Mér finnst ég
vera einangraður á íslandi og ég er tregur
til að fara aft-
ur þar sem ég
verð nú ~~ að miklu leyti
að treysta á vara- lestur og kann
ekki að lesa íslensku af vörum. Það er erf-
itt að koma heim og eiga í vandræðum með
sitt eigið móðurmál. Ég myndi sennilega
vera fljótur að ná valdi á henni en það
tæki þó margar vikur.“
Þess má geta að Þórarinn kaus fremur
að láta þetta samtal fara fram á ensku en
íslensku. Það var þó ekki vegna þess að
hann þyrfti að lesa varir þar sem viðtalið
var tekið gegnum síma, spyijandinn í Bos-
ton, en Þórarinn í Nýju Mexíkó þar sem
hann hefur búið sér heimili.
Hann hefur fengið tæknina í lið með sér
til þess að geta talað í síma, eða öllu held-
ur hlustað.
„Ég hef magnara,“ segir hann og beinir
orðum sínum til blaðamanns: „Ég get þrengt
raddsvið þitt og fært rödd þína þangað, sem
ég heyri best í henni. Þessu fylgja stór og
þung heyrnartól. í raun og veru heyri ég
ekki röddina í þér og gæti ekki þekkt hana
á tónfallinu. En ég skil það sem þú segir.“
Skyndilega skjóta upp kollinum hugsanir
um það hvaða strákapör má fremja á þeim,
sem ekki þekkja raddir í síma, en þær
staldra stutt við.
Ahrif upprunans
Þótt leiðir Þórarins liggi sjaldan til íslands
núorðið býr hann enn að uppruna sínum.
Útlitið er norrænt, en eldfjallaeyjan hefur
einnig áhrif á skrif hans, þótt óbeint sé.
Einnig kveðst hann vera heima í íslendinga-
sögunum.
„Þótt ég sé viss um að íslenskar bók-
menntir og íslandúiafi áhrif á skrif mín
get ég ekki rakið þau áhrif í smáatriðum,"
segir hann. „Þetta eru áhrif frá barnæsku,
nokkuð, sem hefur alltaf fylgt mér, ákveðin
meðferð málsins."
Þórarinn sendi síðast frá sér bók í fyrra-
sumar og nefnist hún Dragon’s Domain
(Veldi drekans). Hann kallar hana fyrstu
alvarlegu bók sína.
„Hún gerist í Noregi upp úr 1880 og
virðist ætla að ganga nokkuð vel. Mér
finnast Bandarfkjamenn lítt kunnugir Norð-
urlöndunum milli víkingaaldar og okkar
daga. Því fannst mér við hæfí að láta bók-
ina gerast um þetta leyti, sem Noregur var
að ganga inn í nútímann. Þar takast á tveir
tímar, sá gamli, sem er að líða undir lok,
og sá nýi, sem er að taka við. Drekinn er
tákn gamla tímans og hið sama gildir um
söguhetjuna."
Þórarinn hóf rithöfundarferil sinn á tán-
ingsaldri. Hann kveðst hafa gleymt titli
bókarinnar, en rifjar hins vegar upp efni
hennar: „Hún var mjög steypt í mót banda-
rískra vísindaskáldsagna þótt greina mætti
norræna þætti. Hún gerðist í öðrum heimi
þar sem erfðafræðingar höfðu ræktað kyn
nokkurs konar kantára til að þræla í land-
búnaði, en skapararnir höfðu orðið að hverfa
á braut og skilja þrælkunardýrin ein eftir
á plánetunni.
„Þessi bók var svo vond að síðan hef ég
gert allt hvað ég get til að gleyma henni,“
segir Þórarinn. „Ég gerði mér ekki grein
fyrir því fyrr en síðar hvað ég var lélegur
rithöfundur í þá daga. Hins vegar stóð þann-
ig á því að bókin var gefih út að það spurð-
ist að ég væri að skrifa skáldsögu og var
handrit að henni sent útgefanda án þess
að ég vissi af því. Hann ákvað að gefa
hana út þar sem svo lítið hafði verið skrifað
af þessu tagi áður. Það var eiginlega skort-
ur á samkeppni, sem réði útgáfunni.“
Þórarinn líður ekki lengur fyrir skort á
samkeppni. Undir voldugum himni Nýju
Mexíkó keppist hann nú við að uppfylla
samninginn, sem gefur honum fyrirheit um
gull og græna skóga. Hann segir sjálfur að
í Bandaríkjunum séu aðeins höfundar sem
seljast í meðallagi og þaðan af verr og síð-
an metsöluhöfundar en ekkert þar á milli.
Annað hvort séu bækur þeirra prentaðar í
30 þúsund eintökum eða 100 þúsund. Hann
er búinn að tryggja sér upplagið. Nú er að
sjá með söluna.