Morgunblaðið - 29.11.1998, Blaðsíða 16
16 B SUNNUDAGUR 29. NÓVEMBER 1998
MORGUNBLAÐIÐ
BJAR6
f* 'Í8
ÞARSEM
TÍMINN
HVERFUR
Þar sem tíminn hverfur er ný bók eftir
Ingólf Margeirsson. I bókinni lýsir hann
upplifun sinni af Hrísey í máli og penna-
teikningum; segir frá kynnum sínum af
forvitnilegu fólki og ferðum um eyjuna þar
sem sagan býr við hvert fótmál. Þannig
veitir hann lesendum hlutdeild í minnis-
blöðum sínum um sérstakt mannlíf í eyj-
unni. Ingólfur rifjar upp atburði frá gam-
alli tíð sem varpa ljósi á íslenskt samfélag
en spjallar líka við samferðamenn sem oft
hafa aðra sýn á lífíð en annað fólk. I bók-
inni er brugðið ljósi á líf fólksins í lífhöfn
Hákarla-Jörundar þar sem þorskar koma
af himni ofan, menn segja „samheimsk-
unni“ stríð á hendur - og tíminn hverfur.
INGÓLFUR Margeirsson er
lesendum einkum kunnur
fyrir ritun ævisagna, m.a.
um Maríu Guðmundsdóttur
og Árna Tryggvason. í bók-
inni Þar sem tíminn hverfur, sem
gefin er út af Vöku-Helgafelli, sýn-
ir hann á sér nýja hlið með ljúfum
texta um litskrúðugt mannlíf og
lýsandi teikningum sem gefa bók-
inni viðbótarvídd. Morgunblaðið
birtir nú með leyfi kaflann Þorskar
af himni ofan.
Sólþurrkaður
saltfiskur
Þorsteinn stendur á tröppunum
á Bjargi.
Punturinn í garðinum bylgjast
glaðlega undan hafgolunni og utar
skoppa sólargeislarnir á bláum og
gáróttum haffleti. Hjólið hans Þor-
steins haliast upp að lúinni girðing-
unni sem afmarkar frjálslegan vöxt
lóðarinnar þar sem biðukollur
brosa í kapp við njóla og skarfakál.
Bjarg stendur á sunnanverðri
eyjunni, utarlega á klettanös, og
vekur iðulega eftirtekt ferðalanga:
Hvítmálað, tvílyft en mjótt hús
með sérkennilegum stofuglugga
sem gengur út úr vesturveggnum
líkt og tíðkast á breskum óðalssetr-
um.
- Hvað er að frétta? spyr Þor-
steinn að venju og brosir brúnum
augum sem eru síung þrátt fyrir þá
staðreynd að hann er kominn á ní-
ræðisaldur. Þorsteinn hefur alla tíð
verið farfugl í Hrísey, en farfuglar
kallast allir þeir íbúar eyjunnar
sem dveljast aðeins sumarlangt í
Hrísey en flýja suður yfir veturinn.
Eg eyði spurningunni enda ekk-
eit að frétta hjá mönnum sem loka
sig inni við skriftir allan guðslang-
an daginn. Eg rek augun í tréstiga
sem reistur er upp við húsendann.
- Ég er að sólþurrka saltfisk,
segir Þorsteinn og bendir mér á
verkaða þorska sem ílatmaga á
tröppum stigans.
Kría gargar meðan hún berst
gegn harðri hafgolunni. Loks nær
fuglinn hæð og steypir sér aftur
niður að fjöruborðinu. Það er
einmitt þessi eilífa hafgola, viðloð-
andi úrkomuleysi og samfelldir sól-
dagar sem hafa öldum saman gert
Hrísey að sælureit fiskverkunar. A
árum áður voru klappir og sand-
strendur þaktar flöttum þorskum
sem brennandi sólin og látlaus
vindurinn breytti í hertan fisk fyrir
heimsmarkað; saltfisk fyrir Spán
og Portúgal eða stokkhertan fisk
fyrir Brasilíu. En nú eru allir löngu
hættir að sólþurrka saltfisk nema
einstaka sérvitringur eins og Þor-
steinn á Bjargi.
Ósködduð hugsjón
Sérviska Þorsteins er meira í
ætt við heimspekilega fastheldni
en fordild eða tiktúrur. Honum er
meinilla við prjál og tildur enda er
lífsstíll hans einfaldur og tímalaus.
Þaðan af síður lýtur Þorsteinn
feykivindum tískunnar, hvorki í
klæðaburði né hugsun. Ekkert er
fjær honum en að eltast við henti-
stefnur nútímans; Þorsteinn er
trúr æskuhugsjónum sínum allt
frá því að hann gerðist ungur
kommúnisti í Vestmannaeyjum
þar sem hann er fæddur og uppal-
inn. Engar breytingar í veröld-
inni, hvorki hrun Ráðstjórnarríkj-
anna né endalok kommúnismans í
Austur- og Mið-Evrópu, hafa
haggað trú Þorsteins á alræði ör-
eiganna. Hugsjónin dvelur enn
ósködduð í brjósti hans. Hann
kynntist ungur helstu boðberum
sósíalismans á Islandi og talar um
Einar og Brynjólf eins og þeir
væru enn á meðal vor. Og á svefn-
borðinu hans á Bjargi liggja
ódauðlegar bókmenntir eftir sós-
íalíska höfunda eins og Þórberg
og Halldór í stöflum og gjarnan
einnig nokkur eintök af Rétti sem
komin eru til ára sinna þótt efnið
sé síungt eins og augun hans Þor-
steins.
Með hjartað
á réttum stað
Þorsteinn er einn af þeim mönn-
um sem láta framfarir og
tækninýjungar ekki glepja sig.
Hann er rennismiður að mennt og
galdrar enn fram hvern kjörgrip-
inn á fætur öðrum með ótrúlegri
verkkunnáttu og hugmyndaauðgi í
stað þess að fylla hús sitt af gervi-
þörfum eins og fólk nútildags ger-
ir gjarnan. Þegar Jóhanna kvart-
aði yfir því í upphafi búskapar
okkar í Hrísey að sig vantaði far-
artæki undir vöruna úr kaupfélag-
inu kom Þorsteinn gangandi
skömmu síðar með innkaupakerru
sem hann hafði smíðað úr gömlum
barnavagni. I stað vagnsins hafði
hann fest þéttriðið net og þannig
ókum við heim varningnum úr
samvinnuversluninni fyrsta sum-
arið okkar í eyjunni. Þegar ég
hafði eitt sinn á orði að ég þyrfti
að kaupa mér öskutunnu birtist
Þorsteinn örfáum dögum síðar
með sérhannaða öskutunnu sem
hann hafði endurskapað úr olíu-
fati.
An þess að segja aukatekið orð,
aðeins með afsakandi bros á vör-
um, afhenti hann gripina. Þor-
steinn er nefnilega ekki blóðheitur
byltingarmaður með háværar
kröfugerðir heldur hljóðlátur sósí-
alisti með hjartað á réttum stað.
Ef sósílalisminn hefði verið
praktíseraður af mönnum eins og
Þorsteini stæðu Ráðstjórnarríkin
enn og saga þeirra væri mun fal-
legi-i.
Hugvit í þorskveiðum
Og nú þegar við stöndum í
stinnri norðangolunni með sól í
augun er áhugi minn vakinn líkt og
ávallt þegar veiðiaðferðir og fisk-
vinnslu Þorsteins ber á góma. Þor-
steinn er nefnilega ekki aðeins
bókaormur, rennismiður af guðs
náð, hugsandi sósíalisti og síforvit-
inn mannúðarsinni, heldur frum-
kvöðull og uppfinningamaður í
fiskútgerð.
Fyrstu kynni okkar Þorsteins
voru einmitt tengd hugviti í þorsk-
veiðum.
Kvöld eitt í kulda og strekkingi,
skömmu eftir að við höfðum flutt
hafurtask okkar í húsið, sá ég há-
vöxnum og grannholda manni
bregða fyrir; gráhærður með six-
pensara á höfði stóð hann íhugull
á klettanösinni fyrir sunnan
Stekkjarnef og var að leika sér að
litlum seglbáti sem hann hafði
klambrað saman og sent í línu út á
sundið. Ég dró upp kíkinn og
gerðist svo frakkur að beina sjón-
um mínum að þessum undarlega
manni. Þegar betur var að gáð var
fiskilína fest við leikfangið. Þegar
veiðimaðurinn dró bátinn aftur að
landi var talsvert af þorski á öngl-
unum.
Hlógu sig sadda
Þetta þóttu mér athyglisverðar
veiðiaðferðir. Síðar átti ég eftir að
skilja að útgerðin var í anda Þor-
steins; hófleg í umsvifum en frum-
leg og umfram allt spameytin. Þor-
steinn stóð næstu kvöld á sömu
klettanös þegai- degi tók að halla
og hélt í línuna meðan litla, klunna-
lega trébátinn, sem var varla meira
en tilsagaður timburbútur, rak fyr-
ir straumi og vindi út á sundið uns
öldurnar og fleyið urðu eitt. Þegar
báturinn var horfinn úr augsýn hóf
Þorsteinn að draga í land og að
lokum kom fjöiin aftur í ljós úr bár-
unum; hægt og bítandi hlýddi tré-
klunninn toginu og þegar Þor-
steinn lyfti loks upp bátnum og dró
inn línuna með önglunum fylgdu
nokkrir spriklandi þorskar sem
létu lífið á klöppunum.
Eitt kvöldið staldraði hann við
og kynnti sig lágróma með ívið
hásri röddu, Þorsteinn Guðlaugs-
son, og gaf okkur hæversklega af
afla sínum. Það voru fyrstu þorsk-
arnir sem við snæddum í Hrísey.
Hríseyingar voru eiginlega búnir
að hlæja sig sadda af þessari veiði-
aðferð Þorsteins þegar næstu tíð-
indi fóru sem eldur í sinu um
byggðina.
Fiugdreki við fískveiðar
Það hafði sést til Þorsteins þar
sem hann stóð á bjargbrúninni fyr-
ir framan litla afgirta garðinn sinn
með stóra handfærarúllu sem hann
hafði fest í klöppina. Línan og
krókarnir gengu ekki niður í sjó-
inn, enda ófært að veiða í briminu.
Nei, línan stóð strekkt upp í loftið,
í átt að sólu. Þorsteinn hafði skotið
heljarstórum flugdreka á loft og
þar dingluðu krókarnir eins og
englar á flugi upp til himinhæða
Drottins. Þegar flugdrekinn var
kominn langleiðina að Arskógs-
sandi, sleppti Þorsteinn öllu loft-
farinu í sjóinn; línunni, önglunum
og drekanum. Nú fór Þorsteinn að
snúa rúllunni. Eftir ótalmarga
hringi á vafningshjóli handfær-
arúllunnar á bjarginu komu fyrstu
þorskarnir í ljós. Þeir stigu upp úr
djúpinu og áfram upp í loftið, upp
bjargið í skáhallri línu frá sjávar-
borði eins og prestar í prósessíu að
loknu kirkjuþingi, spriklandi á leið
til veiðimannsins mikla sem fangað
hafði þá af hyggjuviti sínu og frum-
leik. Þegar halarófu þorskanna
loks lauk fylgdi flugdrekinn í end-
ann eins og amen á eftir bæninni.
Þorskur af himni ofan
Mér verður ósjálfrátt hugsað til
flugdrekaveiða Þorsteins þegar ég
virði fyrir mér sólþurrkaða þorsk-
ana á stiganum sem teygja sig
flattir eins og hvítir skildir upp að
mæni hússins í guðdómlegri upp-
hafningu. - Því miður er sumri
farið að halla, segir Þorsteinn, svo
ég get ekki kennt þér allan verk-
unarferilinn við saltfisk. En ég
skal sýna þér aðferðina á næsta
sumri.
Ég bið hann fyrir alla muni að
gleyma ekki loforðinu. Svo kveð
ég Þorstein nági-anna minn, sem
hefur hafið fiskveiðar í guðdóm-
legar hæðir og breytt þorskinum í
fiugfisk og gott ef ekki í eilífar
verur - að minnsta kosti tíma-
bundið.
Alla vega hefur Þorsteinn sann-
að að þorskurinn getur komið af
himnum ofan og hugsjónin ber ár-
angur, sé henni aðeins fylgt eftir.
• BókíiriitiII er Þar sem tíminn
hvcrfur. Höfundur er Ingólfur Mar-
geirsson. Utgefandi er Vaka-Helga-
fell. Bókin er 184 bls., prentuð í Odda
hf. Lciðbeinandi verð: 3.980 kr.