Dagur - 21.12.1978, Blaðsíða 11

Dagur - 21.12.1978, Blaðsíða 11
„Kátt er á jólunum“ Engin hátíð er meiri fagnaðarhátíð en jólahátíðin. Hún er móðir allra annarra hátíða, því hún er haldin í minningu þess, sem er upphaf hins mikla gleðiboð- Skapar, — í minningu þess, að frelsari mannanna fæddist í heiminn. Á engri hátíð er eins mikið um dýrðir og á jólunum. Allir fagna komu jólanna og allir kosta kapps um að hafa þá svo mikla viðhöfn og svo mikinn fögnuð, sem föng eru á. En einkum eru það bömin, sem hlakka til jólanna. „Kátt er á jólunum, — koma þau senn,“ segja bömin, þegar jólin nálgast. Löngu, löngu áður en jólin koma, spyrja börnin, hvort nú sé langt til jólanna, og ef illa liggur á þeim, þegar jólin eru í nánd, þarf oft eigi annað en kveða við þau þessa gömlu vísu: Það skal gefa börnum brauð að bíta í á jólunum, kertaljós og klæðin rauð, svo komist þau úr bólunum, væna flís af feitum sauð, sem fjalla gekk á hólunum. Nú er hún gamla Grýla dauð; gafst hún upp á rólunum. Dagana fyrir jólin hafa allir nóg að starfa, að búa allt sem bezt undir hátíðahaldið. Þá er allur bærinn þveginn og öll húsgögn og fatnaður. í gamla daga var miklu minna fengizt við þvotta en nú á tímum. Það var eigi sjaldgæft, að bærinn var sjaldan eða aldrei þveginn nema fyrir jólin, — en þá þótti sjálfsagt að gera það. Sumir gamlir menn vildu aldrei láta þvo askinn sinn nema fyrir jólin. Þeir trúðu því, að það spillti auðsæld þeirra, ef askurinn væri þveginn, — kölluðu þeir það að þvo af sér auðinn. En ávallt létu þeir þvo askinn fyrir jólin, því að það þótti óhæfa að eta úr óþvegnum aski á svo dýrðlegri hátíð, sem jóla- hátíðin er. Oft voru menn í sömu flíkinni allt árið og létu aldrei þvo hana nema fyrir jóiin, en það þótti ósæmilegt, að nokkur hlutur væri óþveginn á jólun- um, — þá varð allt að vera hreint. Einu sinni var kerling, sem hafði gengið með sama faldinn á hverjum degi allt árið og aldrei þvegið hann. En þegar hún sauð hangiketið til jólanna, tók hún sig til og þvoði faldinn upp úr hangiketssoðinu, þurrkaði hann síðan og setti hann svo upp á jólunum. Þegar karlinn, bóndi hennar, sá hana með faldinn nýþveginn, sagði hann: „Já, já! Mér þykir þú vera farin að halda þér til, kelli mín! Satt er það, einatt er munur að sjá það, sem hreint er!“ Nokkru fyrir jólin eru jólakertin steypt. Á Þorláks- messu er soðið hangiket til jólanna. Þá er gamall og góður siður í sveitinni að gera ósköpin öll af lummum fyrir jólin. Það er gamall siður að skera kind á að- fangadaginn, til þess að fólkið skuli fá nýtt ket á jóla- nóttina. Er venjulega valin til þess feit og fönguleg ær, og kölluð jólaœrin. Einkum eru allir mjög önnum kafnir á aðfanga- daginn. Allt þarf að vera undirbúið, áður en hátíðin kemur. Fyrir dagsetur verða allir að hafa þvegið sér og kembt hár sitt. Þá verða og allir að hafa klæðzt sínum besta búningi. Þegar rökkva tekur fara klukkurnar að hljóma við hverja kirkju og kalia til aftansöngs, — kalla, að allir komi í hús drottins til þess að heyra hinn himneska jólaboðskap um „frið á jörðu og velþóknun yfir mönnunum." Hafa þá allir ærinn að starfa, því nú er þess skammt að bíða, að dagurinn renni undir og hin helga nótt birtist í allri sinni dýrð. Við þessa síðustu undirbúningsstund á hin foma vísa: Hátíð fer að höndum ein, hana vér allir prýðum. Lýðurinn tendri ljósin hrein, líður að tíðum, líður að helgum tíðum. Og svo koma jólin. „Gleðileg jól! gleðilega hátíð!“ hljómar þá á hvers manns vörum. Og þá er fagurt um að litast í híbýlum mannanna. Allt er sópað og prýtt, allir eru prúðbúnir. Allt er bjart, því alstaðar loga hátíðaljósin. Það var siður í gamla daga, að alstaðar voru sett ljós í hvern afkima um allan bæinn, svo hvergi skyldi bera skugga á. Þessi ljós voru látin brenna alla nóttina. Það hefur tíðkazt til skamms tima að láta ljós lifa í baðstofunni alla jólanóttina, og það er jafnvel siður enn í sumum sveitum. Eftir að ljósin eru kveikt og allt hefur fengið þann hátíðasvip, sem kostar er á, þá er lesinn húslestur. Eftir lestur er drukkið sætt kaffi með lummum. Síðan hefur húsmóðirin hverjum manni á heimilinu kerti, — það heita jólakerti Þá er mikið um dýrðir hjá börn- unum, þegar þau ganga um gólfið í hátíðabúningnum með jólakertin í höndum og eru ýmist að slökkva á þeim eða kveikja á þeim aftur. Þegar á kveldið líður, er matur borinn fram, — er það venjulega súpa með nýju keti. Aðaijólamaturinn er venjulega eigi skammtaður fyrr en á jóladagsmorguninn, en það er hangiket, brauð og flot og allskonar sælgæti. Var það venja, og er sumstaðar enn, að hver maður fengi þá svo ríflegan skammt, að honum entist hann með öðr- um mat fram yfir nýjár. Þessi skammtur heitir jóla- refur. Þótt mikil glaðværð sé um jólin og spil og ýmis- konar leikir hafi þá mjög tíðkazt, hefur það ávallt þótt ósæmilegt að hafa mikinn gáska og glaðværð á sjálfa jólanóttina. Þá er sem einhver ólýsanleg og óendanleg helgi hafi gagntekið allt. Jólanóttin er því kölluð nóttin helga, svo sem hún ein sé heilög framar öllum öðrum helgum nóttum. Um miðnætti er helgin mest, því þá ætluðu menn, að frelsarinn væri fæddur. Eftir almennri trú verða ótal tákn og stórmerki í það mund, sem frelsari mannanna fæddist. Það er sem öll nátt- úran fái þá nýtt líf. Þá fá mállaus dýrin mál og jafnvel hinir dauðu rísa úr gröfunum. Það er sem allt losni úr fjötrum og allt verði lifandi, fagna og gleðjist. Á einu augnabliki breytist þá allt vatn í vín. I öðrum löndum er það víða almenn trú, að ýmis dýr fái mál á jóla- nóttina, en hér á landi er sú trú almennust um kýrnar, að þær tali á Þrettándanótt, — hina síðustu jólanótt. Á jólanóttina er það, að kirkjugarður rís, en það er í því falið, að allir hinir dauðu í kirkjugarðinum rísa úr gröfunum og koma saman í kirkjunni og halda þar guðsþjónustu. Á jólanóttina verða selirnir að mönn- um, svo sem þeir voru upphaflega, því þeir eru allir komnir af Faraó og hans liði, er varð að selum í Hafinu rauða. Á jólanóttina eru allskonar vættir á ferðinni, illar og góðar. Ein af þeim er jólakötturinn. Hann gerir eng- um mein, sem fær einhverja flík fyrir jólin, en hinir fara íjólaköttinn, en það er í því falið, að jólakötturinn tekur þá, eða að minnsta kosti jólarefinn þeirra. Sumir segja og, að þeir, sem fari í jólaköttinn, eigi að bera hrútshorn í hendinni þangað, sem þeir eru fæddir. Þykir sú skrift bæði hörð og óvirðuleg, sem von er. Þess vegna leitast allir við að gera sig þess maklega af foreldrum sínum og húsbændum, að þeir fái einhverja nýja flík fyrir jólin, svo að þeir fari ekki í bannsettan jólaköttinn. Á jólanóttina koma jólasveinarnir ofan af fjöllunum. Þeir vilja fá sinn skerf af jólamatnum og öðru því, sem til fagnaðar er haft. Kertasníkir vill fá kerti. Ketkrókur vill fá ket, Pottasleikir vill fá að sleikja innan pottana o.s. frv. Jólasveinarnir geta verið viðsjálsgripir, eins og sjá má af vísunni: Jólasveinar einn og átta. Þá er huldufólkið á ferðinni. Það fer inn í bæina og heldur þar dansa og veizlur. Það þarf margs að gæta til þess að styggja ekki huldufólkið, því það er illt viður- eignar, ef þvi mislíkar, og má þá við öllu illu búast af því. Það var því ekkert gaman að vera einn heima á jólanóttina í gamla daga, þegar annað fólk var farið til tíða. Margt var gert til þess að fagna huldufólkinu sem bezt að forðast reiði þess. Húsbóndinn eða húsmóð- irin gekk þrisvar sinnum sólarsinnis kringum bæinn og bauð huldufólkinu heim með þessum orðum: „Komi þeir, sem koma vilja, veri þeir, sem vera vilja, fari þeir, sem fara vilja, mér og mínum að meina- lausu.“ Þegar huldufólkið kemur og sér, að allt er þvegið og hreint og allur bærinn svo vel lýstur, að hvergi ber skugga á, þá hýrnar yfir því, og þá segir það: „Hér er bjart og hér er hreint, og hér er gott að leika sér.“ En ef það sér einhver óhreinindi, eða að einhverstaðar er skuggsýnt, segir það: „Hér er ekki bjart og hér er ekki hreint, og hér er ekki gott að leika sér.“ Má þá jafnan búast við einhverju illu af því. Margs konar illar og óhreinar vættir eru á ferðinni á jólanóttina aðrar en jólakötturinn, jólasveinamir og huldufólkið, — eru þær allar mjög viðsjárverðar. Þó gera þær ekki mein, ef allt er hreint og bjart og þær verða eigi varar við neinn gáska eða léttúð, og sér- staklega ef þeir, sem heima eru, sitja við að lesa í einhverri góðri guðsorðabók. Engin ill vættur þolir að heyra nafn Jesú nefnt, og ekkert nafn guðs. Ég skal segja eina stutta sögu, sem sýnir það. Einu sinni voru nokkur börn heima á jólanóttina, en allt fullorðna fóikið hafði farið til tíða. Þeim höfðu verið gefnir fagurrauðir sokkar. Þau léku á gólfinu með jólakertin sín í höndunum og lá nú heldur en ekki vel á þeim. Einkum fannst þeim mikið til um rauðu sokkana sína, og þótti hverju fyrir sig sínir sokkar vera fallegastir. „Sko minn fót, sko minn fót! sko minn rauða fót;“ sögðu þau. Þá er sagt á glugganum með ógurlega þungri, drynjandi rödd: „Sko minn fót, sko minn fót, sko minn gráa dingulfót." Öll börnin urðu dauðhrædd nema yngsta barnið; það var milli vita og kunni því ekki að hræðast eins og hin börnin. Það kallaði út i gluggann og sagði: „Ert þú Jesús Kristur, sem fæddist í nótt?“ Þá þagnaði þessi voðarödd á augabragði og bar eigi á henni framar. Hafði þetta verið einhver ill vættur, sem vildi taka bömin, en þoldi eigi að heyra nafn Jesú nefnt. Ef allt fer vel og siðsamlega fram á jólunum, þarf eigi að óttast, að illar vættir geti gert mein. Það er því eigi að undra, þótt allir hlakki til jólanna, — eigi að undra, þótt börnin segi, þegar jólin nálgast: „Kátt er á jólunum, koma þau senn,“ því að þá er meira um dýrðir en á nokkurri annarri hátíð. Það, sem þó sér- staklega einkennir jólin, er hreinleikinn á öllu og hinn mikli ljósaföldi, -— því eru jólin stundum kölluð hin mikla Ijóshátíð. Birtan af hinum mörgu ljósum verður svo einkennilega fögur og dýrðleg á jólanóttina, ein- mitt af þvi að náttmyrkrið er þá svo svart, því að þá er sá tími ársins, að nóttin er ailra lengst og dimmust. Þessi mikia ljósadýrð í náttmyrkrinu minnir þá ósjálfrátt á ljósið, sem skín í myrkrinu, — ljósið, sem skín í myrkri heimsins við komu frelsarans. Hversu allt er Ijósum lýst á jólunum, og hversu allt, sem þá mætir auganu, er þvegið og hreint, minnir ósjálfrátt á það, að í hjarta mannsins á allt að vera bjart og hreint, svo að frelsarinn geti einnig fæðzt þar og þar verði dýrðleg og gleðileg jól. Sœmundur Eyjólfsson. DAGUR.11

x

Dagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagur
https://timarit.is/publication/256

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.