Dagur - 06.03.1990, Blaðsíða 14

Dagur - 06.03.1990, Blaðsíða 14
14 - DAGUR - Þriðjudagur 6. mars 1990 Minning: Jóhann Frímann fyrrverandi skólastjóri Fæddur 27. nóvember 1906 - Dáinn 28. febrúar 1990 Hann haföi ekki gert mikil boð á undan sér, maðurinn með ljáinn, þegar hann kvaddi dyra hjá Jóhanni Frímann, fyrrum skóla- stjóra, aðfaranótt öskudags. Að vísu var aldur Jóhanns orðinn nokkuð hár og því ailra veðra von úr þessu, en heilsan bærileg og andlegt fjör óskert með öllu. Þess vegna kom andlátsfregn hans óvænt. Banalegan var stutt, aðeins ein næturvaka, og honum var hlíft við langvinnum kvölum eða kararlegu. Þetta mun hafa verið honum mjög að skapi, að fá að kveðja á þennan hátt, standa uppréttur til síðasta dags. En mikill er sjónarsviptirinn, mikill er söknuður þeirra, sem eftir standa á ströndinni og horfa á eftir honum sigla þöndum seglum út á djúpið mikla, sveipaður aft- anbjarma, og taka örugga stefnu á sólgylltar eilífðarlendur. Mikil er aðdáun þeirra, því að hér fór vaskur maður og vitur, og mikið er þakklæti þeirra, því að þeir kveðja nú góðan dreng og vin- fastan með stórt og heitt hjarta. Jóhann Frímann fæddist í Hvammi í Langadal 27. nóvem- ber 1906 og var Austur-Húnvetn- ingur í báðar ættir. Foreldrar hans voru Valgerður Guðmunds- dóttir frá Sneis og Guðmundur Frímann Björnsson frá Mjóadal. Þau höfðu bæði verið gift áður og misst maka sína, áður en þau gengu saman í hjónaband, svo að Jóhann átti fimm hálfsystkin samfeðra, sem komust af barns- aldri, og einn hálfbróður sam- mæðra, en alsystkini hans voru sex. Hann var yngstur þeirra og kvaddi síðastur, en þó er ekki nema um hálft ár, frá því er Guð- mundur skáld, bróðir hans, andaðist. Þeir bræður voru alla tíð mjög samrýmdir og miklir félagar, og skemmtilegt var að heyra þá rifja upp saman ævintýri æskudaganna heima í Langadal, sem liðu með gný og galsa, ærsl- um og yrkingum. A Hvamms- heimilinu var mikið lesið af blöð- um og góðum bókum, ekki síst skáldsögur og ljóð, og Ijóðagerð var þar einnig mikið um hönd höfð. Hinum megin við fjallið bjó Sveinn í Élivogum og fylgd- ist með „Hvamms-strákunum" álengdar. Á unglingsaldri fór Jóhann í Gagnfræðaskólann á Akureyri, sem svo hét þá, og varð gagn- fræðingur 1923. Veturinn 1924/1925 sat hann í 4. bekk nýstofnaðrar menntadeildar skólans, en hvarf þaðan undir vor vegna mikils óyndis. Hins vegar tók hann sig upp um sumarið og hélt til Danmerkur, settist í lýð- háskólann í Askov um haustið og var þar í tvö ár. Hann fór víða um Evrópu næstu sumur og kynntist löndum og þjóðum sér til menntunar, dvaldist t.a.m. í klausturskólanum í Clervaux í Luxemburg sumarið 1927. Á næstu árum fór hann nokkrar kynnisferðir til Evrópu, m.a. til Sovétríkjanna árið 1933, en það þótti tæpast heiglum hent á þeim árum. Hann naut þess að láta mennta- og menningarstrauma samtímans leika um sig, haldinn ríkri þrá eftir frjórri og heil- brigðri lífsnautn. Hann var alla tíð hrifnæmur og jákvæður gagn- vart stefnum, hugmyndum og hugsjónum, en beitti þó jafnan á þær skarpri dómgreind sinni. Hann gleypti ekkert hrátt eða heilt, játaði engu óséðu, heldur lagði á það mat eigin skynsemi, valdi síðan eða hafnaði. Haustið 1927 kom Jóhann aft- ur heim til íslands, og atvikin höguðu því svo, að hann settist að á Akureyri. Iðnaðarmenn á Akureyri undir forystu eldhugans Sveinbjarnar Jónssonar fengu hann til liðs við sig með því að gerast kennari við Iðnskóla Akureyrar, en skólinn var um þær mundir að flytjast af hrak- hólum inn í nýtt hús, sem Iðnað- armannafélagið hafði reist yfir hann við Lundargötu. Næsta haust, 1928, varð Jóhann svo skólastjóri Iðnskólans og hélt þeirri stöðu til 1955, að undan- teknum tveimur árum, þegar hann var skólastjóri Reykholts- skóla í Borgarfirði, eða í aldar- fjórðung. Hann kom á festu í starfi Iðnskólans og hóf hann til vegs og virðingar með víðsýni, hjartahlýju og skörungsskap, til ómældra hagsbóta fyrir iðnað og iðnaðarmenn á Akureyri, hinum hraðvaxandi iðnaðarbæ. Jafn- framt vann hann mikið að stéttar- legum málefnum iðnaðarmanna, var t.a.m. kosinn í bæjarstjórn af sérstökum lista þeirra árið 1934 og var bæjarfulltrúi til 1938. Iðn- aðarmannafélag Akureyrar kaus Jóhann heiðursfélaga sinn árið 1956. Þegar Gagnfræðaskóli Akur- eyrar var stofnaður árið 1930, fékk hann húsnæði í húsi Iðnað- armannafélagsins og nýtti kennslustofur Iðnskólans á daginn, en á þeim árum og lengi síðan var Iðnskólinn kvöldskóli. Skólarnir höfðu ekki aðeins sam- eiginlegar kennslustofur og sam- eiginlega kennarastofu, heldur höfðu þeir að nokkru leyti sama kennaralið. Hélst sú skipan á Lundargötuárunum og lengi eftir að skólarnir fluttust í nýreista hús Gagnfræðaskólans við Laugar- götu árið 1943. Jóhann Frímann varð fyrsti fastakennari Gagn- fræðaskólans við stofnun hans, og nokkur fyrstu árin sá eini, og þeirri stöðu hélt hann, þar til hann tók þar við skólastjórn. Þó ber þess að geta, að haustið 1939 bauðst honum skólastjórastaða Héraðsskólans í Reykholti. Hann tók því boði, en fékk stöðu sína á Akureyri geymda, ef hann kynni að vilja snúa þangað aftur, sem varð haustið 1941. Jóhann varð fyrsti yfirkennari Gagnfræðaskóla Akureyrar 1952 og studdi skólastjóra sinn, Þor- stein M. Jónsson, með ráðum og dáð í þeirri miklu hagsmuna- og réttindabaráttu, sem skólinn háði á þeim árum. Það fengu margir að reyna, eins og oft bæði fyrr og síðar, bæði samherjar og and- stæðingar, að það munaði um stuðning og atfylgi Jóhanns, því að hann var í senn fljúgandi mælskur og ritfær baráttumaður og hygginn og skapheitur mála- fylgjumaður. Kennslugreinar Jóhanns voru einkum stærðfræði og danska, og var hann jafnvígur á báðar og þótt fleiri væru. Dönskunemend- ur Jóhanns þóttu jafnan bera af öðrum um kunnáttu, þegar þeir komu í framhaldsskóla. Það var engin tilviijun, því að Jóhann var kennari af guðs náð, laginn og skilningsríkur eða eftirgangssam- ur og kröfuharður, allt eftir því, hvernig í pottinn var búið hjá ein- stökum nemendum. í kennslu- stundum hans ríkti röð og regla, vinnusemi og vinnugleði. Árang- ur kennslu og náms varð líka eftir því. Þó að sumum nemendum stæði stuggur af honum við fyrstu sýn, því að vissulega sópaði oft að honum í kennslustofu, leið ekki á löngu, þangað til þeim fór að þykja innilega vænt um hann. Hann varð nefnilega fljótt vinur nemenda sinna og þeir hans. Kunnátta hans og tök á námsefn- inu, góð yfirsýn og glögg fram- setning hans vöktu líka traust nemenda á kennaranum og sjálf- um sér um leið. Skólaárið 1953/1954 var Jó- hann í ársleyfi frá skólunum og fór þá námsferð til Bandaríkj- anna. Þar stundaði hann m.a. nám í ensku og uppeidis- og sál- fræði við háskólana í Syracuse og Washington D.C., auk þess sem hann kynnti sér skóla og skóla- rekstur á ýmsum stöðum vestra. Þegar Þorsteinn M. Jónsson lét af skólastjórn fyrir aldurs sakir haustið 1955, var Jóhann Frí- mann sjálfkjörinn og óumdeildur eftirmaður hans. Hann var rögg- samur og réttlátur skólastjórn- andi, virtur og dáður af nemend- um og kennurum. Nemendum fjölgaði ört á skólastjórnarárum hans, og húsnæðisþörf skólans óx að sama skapi. Hann sá allra manna best, hvar skórinn kreppti, og hóf strax baráttu fyrir stækkun skólahússins, svo að um munaði. Með hyggindum, þolin- mæði og snerpu tókst honum að tvöfalda húsnæði skólans og vel það í linnulausri höggorrustu við fjárveitingavald og skrifstofu- vald. Þetta var ef tii vill stærsti sigur Jóhanns f þágu Gagnfræða- skóla Akureyrar, enda býr skól- inn enn að þeim sigri. Án þessara bættu og stækkuðu húsakynna hefði skólinn verið alls ófær um að sinna skyldum sínum við nemendur sína og bráða hags- muni þeirra. Jóhann lét af skóla- stjórn vegna heilsubrests haustið 1963. Jóhann Frímann var víðlesinn og vel heima í íslenskum bók- menntum, fornum og nýjum, og bókmenntum frændþjóða okkar og hafði tilvitnanir í þær á hrað- bergi. Hann var ritsnjall og flug- mælskur, og það gustaði af hon- um í ræðustól. Ef til vill verður hann nemendum sínum og okkur samkennurum hans minnisstæð- astur, þegar hann talaði blaðlaust af hita andagiftar og innblásturs. Hann fór þá oftar en ekki á kost- um myndauðugs og glæsilegs máls og hreif þá áheyrendur sína með sér á fluginu yfir heim og himin. Ekki varð hjá því komist, að slíkur maður yrði kallaður til ýmissa trúnaðarstarfa auk þeirra, sem áður voru nefnd. Til dæmis sat hann lengi í skólanefnd Húsmæðraskóla Akureyrar, stjórn Sjúkrasamlags Akureyrar, Sparisjóðs Akureyrar og Fram- sóknarfélags Akureyrar. Þá var hann ritstjóri Dags á Akureyri í tæp 3 ár 1941-1943 og skrifaði mikið í það blað árum saman. Jóhann var skáld gott, þótt hann sinnti því ekki sem skyldi og léti önnur verk sitja fyrir lengst af. Tvær Ijóðabækur sendi hann þó frá sér, Mansöngva til miðalda (1929) og Nökkva og ný skip (1934). Sæg söngtexta samdi hann við kórlög. Leikrit hans, Fróðá, kom út 1938, en það var sýnt á sviði bæði hjá Leikfélagi Ákureyrar og Leikfélagi Reykja- víkur og var þar að auki flutt í útvarp. Þá fékkst Jóhann nokkuð við þýðingar á sögum og ljóðum úr erlendum málum. Hinn 27. júlí 1929 gekk Jóhann að eiga tvítuga stúlku, Sigurjónu Pálsdóttur, f. 17. júní 1909, sem var ein hinna glæsilegu og list- hneigðu Staðarhólssystkina á Akureyri. Foreldrar hennar voru Guðlaug Þórðardóttir frá Hnjúki og Páll Jónsson, trésmiður og bóndi. Þau Sigurjóna og Jóhann bjuggu árum saman í húsinu nr. 6 við Hamarsstíg í nábýli við systur Sigurjónu, Lovísu, og mann hennar Kristin Þorsteinsson, deildarstjóra hjá KEA og annál- aðan söngmann. Mikil vinátta var jafnan milli heimilanna. En 1957-1958 byggðu Sigurjóna og Jóhann sér einbýlishús við Ásveg, einmitt þar sem æsku- heimili Sigurjónu, Staðarhóll, hafði staðið. Þar áttu þau heima, þar til Sigurjóna féll frá, en hún andaðist 24. maí 1981. Börn þeirra eru þrjú: Valgarður Frímann, rafvirkjameistari, f. 1930, var kvæntur Kolbrúnu Ásgeirsdóttur, sem nú er látin, Guðlaug Sigyn Frfmann, f. 1934, gift Gunnari Randverssyni, lög- regluvarðstjóra, og Bergljót Sif Frfmann, f. 1944, gift Þorsteini Gunnarssyni, klæðskerameist- ara. Eftir lát Sigurjónu fluttist Jóhann í Kristneshæli, þar sem hann dvaldist eftir það við góða aðhlynningu og gott atlæti. „Blessuð sykursýkin, ég á það henni að þakka, að ég fæ að vera hér,“ sagði hann í gamni við okk- ur hjónin í haust, því að hann kunni ágæta vel að gera að gamni sínu og koma auga á skástu hlið- ar allra mála. En þarna fékk hann að vera sér í herbergi með myndum sínum og minjum frá góðum gömlum dögum og með bókum sínum, sem honum þótti vænt um og átti að hljóðlátum, ófrömum, en nærtækum sálu- félögum. Hann átti úrvalsbækur einar og umgekkst þær með var- færnum höndum og umhyggju eins og aðra vini sína. Jóhann Frímann var hávaxinn maður og svaraði sér vel, svip- mikill og sviphreinn. Það var eftir honum tekið, hvar sem hann fór eða kom á mannamót. Hann var snemma bráðger og sennilega aldrei unglingslegur, en hann varð heldur aldrei ellilegur. Hann var listahagur, eins og hann átti kyn til, og rithönd hans var forkunnarfögur. Hann hafði gáman af góðum pennum rétt eins og hestamaður af gæðingum. En það verður manngerðin og manngildið, sem við vinir hans og samverkamenn munum best, virðum mest og þykir vænst um. Vinátta hans var föst og einlæg og entist ófölskvuð ævilangt. Hann var óvenju-hlýr maður og hjartagóður, hugsanlega ekki fjarska fljóttekinn, en trölltrygg- ur þeim, sem hann batt vináttu við. Það getur gamli hópurinn af kennarastofu G.A. vottað. Handtak hans var hlýtt og fast. Hann var skapheitur, skapríkur og tilfinningaríkur, hrifnæmur og hugsær eins og allir góðir lista- menn, því að hann var einn þeirra. Þó að hann væri í aðra röndina alvörumaður, sem sótti fast eftir svörum við æðstu ráð- gátum, var hann í hina kátur og glaður í góðra vina hópi, gerði þá að gamni sínu, hló og lék á als oddi. Spaugyrði flugu, og gamlar gamansögur og fyndnar lausavís- ur spruttu fram, ekki síst úr átt- högunum. En eftirlætisumræðu- efni hans voru þó bókmenntir, ekki síst ljóð góðskálda, kveðin af list og gegnheil að efni og formi. Þá fór hann ekki leynt með aðdáun sína, en lét sér fátt um finnast óljóð og efnisleysur. Þegar Jóhann varð áttræður, var honum boðið í morgunkaffi á kennarastofu Gagnfræðaskólans. Þar flutti hann yfir borðum eina af sínum glæsilegu tækifærisræð- um, leiftrandi af mannviti, mælsku og andagift, og hún verð- ur lengi í minnum höfð þeirra, er á hlýddu. Álengdar fylgdist hann alltaf af áhuga með málefnuin skólans og skólastarfinu í stórum dráttum, og ævinlega sótti hann árshátíðir hans, þegar hann fékk því við komið. Oft nutum við hjónin góðra stunda á heimili Sigurjónu og Jóhanns og eftir lát hennar heima hjá dætrum hans og tengdason- um. Öll börn hans, tengda- og barnabörn létu sér mjög annt um hann, svo að til fagurrar fyrir- myndar var, enda kunni hann vel að meta það og þakka. Síðasta endurminning okkar Ellenar um Jóhann vin okkar er frá heiðríkum sunnudegi snemma á þessum vetri, þegar hann gerði okkur þá ánægju að koma með okkur í ökuferð um framsveitir Eyjafjarðar. Sólin skein á fannhvíta jörðina, og brött og sviptigin fjöllin luktu um héraðið eins og óvinnandi kastalaveggir. Loftið var hreint og tært í frostkyrrunni, og landið var blikandi fagurt. Og við hrif- umst öll af þessari kyrru fegurð undir lækkandi nóvembersól og nutum hennar í sameiningu. Þannig er gott að minnast góðs vinar, sem aldrei sýndi okkur annað en hlýju, vinarþel og elskusemi, föðurlega og bróður- lega í senn, svo að hvergi ber skugga á eftir rúmlega fjögurra áratuga kynni. Svo vildi til, að fyrstu kennslu- stund mína í því skólahúsi, sem síðan hefir verið vinnustaður minn, kenndi ég í Iðnskóla Akur- eyrar. Þá var Jóhann skólastjóri þar. Við höfðum ekki hist áður. Hann beið mín efst í stiganum framan við kennarastofuna, þrýsti hönd mína þétt, fagnaði mér innilega og bauð mig vel- kominn til starfa. Feimnum og hikandi byrjanda þótti vænt um þessar viðtökur, og þær gáfu hon- um kjark og styrk, sem entust lengi. Hver veit, nema Jóhann bíði mín aftur á skörinni, þegar ég kem lallandi upp stigann á nýjum og ókunnum vinnustað einhvern tíma seinna? Sverrir Pálsson. í dag verður Jóhann Frímann f.v. skólastjóri jarðsettur. Hann starfaði að uppeldis- og kennslu- málum öll sín manndómsár. Það er mikið happ fyrir hvert byggð- arlag að fá til starfa fullhuga eins og Jóhann, sem var mikill að hverju sem hann gekk. Árið 1928 var Jóhann ráðinn skólastjóri Iðnskólans á Akureyri en þar sem sá skóli starfaði aðal- lega á kvöldin réðst Jóhann einnig að Gagnfræðaskóla Akureyrar sem fyrsti og raunar eini fastráðni kennarinn fyrsta árið. Það var haustið 1930 en þá hófst starf- semi Gagnfræðaskólans undir stjórn Sigfúsar Halldórs frá Höfnum. Ugglaust hefur þessi tími verið erfiður starfsmönnum skólans því þá var mikið atvinnu- leysi á Ákureyri og kreppa í öllu mannlífi. Það hefur því verið ærinn starfi að vinna skólanum tilverurétt en það tókst með elju og þrautseigju. Arið 1939-1941 var Jóhann Frímann skólastjóri héraðsskól- i

x

Dagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagur
https://timarit.is/publication/256

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.