Dagur - 20.04.1991, Blaðsíða 14

Dagur - 20.04.1991, Blaðsíða 14
14 - DAGUR - Laugardagur 20. apríl 1991 Með hænsnakofa í kollimim Hefurðu einhvern tímann geng- ið úti í náttúrunni þar sem hún gerist fegurst og gert ekkert annað en að reyna að skynja umhverfið? Skynja tærleika loftsins og hve fjöllin eru undar- lega blá? Þegar hugsað er aftur til slíkra stunda þegar aftur er komið inn í skarkala mannlífs- ins þá eru viss atriði sem sitja föst í minningunni. Pögnin og víðáttan. Fjarri öllum vélum og þyti hins mannlega lífs er oft á tíðum hægt að heyra í þögninni. Sérstaklega verður sú skynjun sterk þegar víðáttan er mikil sem horft er yfir og þegar hlust- að er þá heyrist ekkert nema ómurinn af þögninni. Ekki einu sinni hvinur í vindinum. Þetta er megineinkenni þessa lands sem við búum á. Þögn. Á öræfum landsins eða uppi til sveita er þögnin alltaf það fyrsta sem tekið er eftir þegar komið er úr amstri mannlífsins. Það er einmitt í þessari þögn sem smámunasemi og þröngsýni hverfur af sjálfu sér niður í dýpi þagnarinnar. En sumir þola ekki þögn. Það kann að hljóma undarlega en svona er því samt sem áður farið. Ekki erum við heldur að tala um einhver sjaldgæf tilfelli því um er að ræða bróðurpart- inn af samfélagi okjcar. Þeir sem ekki þola þögn finnst þögnin yfirþyrmandi og að hún ætli að æra sig. Hin venjulega tilvera okkar er eins og gagg í hænsna- kofa. Sífellt nudd og hamagang- ur. Þegar það kemur síðan fyrir að þögn slær á umhverfi manns- ins þá þarf hann helst að vera símalandi til að þurfa ekki að finna fyrir þögninni og verða vandræðalegur. Annars hafa menn á tilfinningunni að þeir séu að týnast og jafnvel hætti að vera til. Það versta við þetta allt saman er hins vegar það að þetta er nánast ómeðvitað. Ekki alls kostar ómeðvitað en nánast ómeðvitað. Það er eins og undir niðri hvíli einhver ótti við þögnina. Fólk hittist til að tala og menn kannast sjálfsagt við það að lenda í vandræða- legri þögn meðal ókunnugs fólks. Þögnin verður þá til þess að sálartetrið fer að engjast og vill fá lausn frá því að þurfa að horfa á sjálft sig. Tómleikinn innra með sálinni hrópar á afþreyingu og að athyglinni sé beint annað. Nú er svo komið að á okkar dögum þykir eðlilegasti hlutur að hafa útvarp í gangi allan dag- inn þó ekki sé endilega verið að hlusta á það. Svokallaður bak- grunnshávaði. Ef ekki er hægt að hafa einhvern sjálfvirkan bakgrunnshávaða þá kemur upp þörfin til að láta kvörnina mala. Einhverjir kannast við dæmi um það að fólk virðist nærast á skvaldri og kjaftæði eins og blóm á vatni. Þetta er ef til vill stærri vítahringur en kann að virðast í fyrstu. Ef nán- ar er að gætt þá er um að ræða nokkuð óáþreifanlegan víta- hring. Ekki getur fólk komið saman öðruvísi en að vera símalandi eða með einhvers konar afþreyingu fyrir augum eða eyrum. Nú kynni einhver að spyrja: Hvaða máli skiptir þetta, ekki líður mér illa? Nú er býsna stórt spurt. En svarið liggur innra með hverjum og einum. Það er ekki hægt að lýsa þögn. Einnig eru til margar tegundir af þögn. En þegar sú stund rennur upp að hið daglega amstur, hnoð og skvaldur víkur eitt andartak fyr- ir þögninni þá fæst upplifun og slökun sem ekki er hægt að færa í hinn takmarkaða búning orð- anna. Þessi upplifun kann að lýsa sér í því að þegar í þögnina er komið sjá menn að þeir hafa í raun verið að hugsa með tal- færunum. Þeir segja allt sem þeir hugsa. Þannig hættir heil- inn að virka nema talfærin séu símalandi. Þess á milli gerist ekkert. En til eru þeir sem sækj- ast eftir þögn náttúrunnar. Það ná engin lýsingarorð yfir þá upplifun að finna fyrir sjálfum sér í þögninni. Það er fátt meira hressandi en að hlusta á þögn- ina sem ríkir við fjöll og jökla og hætta að lifa í heimi orða og hugsana. Hætta að vera eitt- hvað. Hætta að hafa fastmótað- ar hugmyndir um sjálfan sig. Hætta að vera forstjóri, bílstjóri eða pípulagningarmaður. Gleyma titlum og mannasetn- ingum og upplifa sjálfan sig eins og maður er. Fá tilfinninguna fyrir sjálfum sér. Til allrar lukku erum við ekki eintómar hænsnakofasálir. Þetta er það sem mætti kalla að ná jarðsambandi. Tengja sjálfan sig við umhverfi sitt og skynja allt á nýjan hátt. Hætta að vera eins og drukknandi maður í sífelldri afþreyingu hversdagsins. En nú kann ein- hver að segja: Það er ekki hægt að komast hjá sífelldum ys og þys eins og þjóðfélagið er í dag. Já, það er margt sem glepur, en þá er ágætt að hafa í huga að þögn er ekki alltaf þögn! Hægt er að vera í algerri þögn án þess að taka eftir henni. Hin ytri þögn skynjast ekki á sama hátt ef ekki er þögn hið innra. Þann- ig er hægt að standa úti í Guðs grænni náttúrunni með óravíð- áttu til allra handa og grafar- þögn en vera eins og símalandi hænsnakofi í koilinum. Tilgangur minn með þessum vangaveltum um þögnina er að sýna meðal annars fram á að ekki nægir að hafa hljóð í kring- um sig heldur verður einnig að hafa hljóðan huga. Hljóður hugur er hið eðlilega ástand mannsins. Ekki hið venjulega hænsnakofataut eins og áður var talað um. Þegar ástandi hljóðs hugar er hins vegar náð þá er hægt að hvíla í þögn og kyrrð þó hávaði og sífellt mal sé í umhverfinu. Þegar þögn og kyrrð er náð hið innra þá er hægt að fara að skyggnast inn á við og skoða sinn innri mann. Þá hefst hin mikla leit fyrir alvöru. Dulspeki Umsjón: Einar Guðmann. Kristinn G. Jóhannsson skrifar Bakþankar ~ Að borða kosninga- loforð með prjónum Það sæmir okkur ekki fram- sóknarmönnum að hafa uppi gáleysislegt hjal á þessum degi hinna örlagaríku blýantskrossa. Það hvarflar heldur ekki að okk- ur að fara meö neitt fleipur í bakþönkum kosningadags. Ég hef hins vegar starfað við það dálítið undanfarna daga að teikna krossa svona í æfingar- skyni og mátað þá við þá bók- stafi sem í boði eru en þeir eru blessunarlega margir. Þar sem ég hefi komist að niðurstöðu í þessum formrannsóknum höf- um við í hyggju við frú Guðbjörg að skunda á kjörstað og teikna svona kross. Það verður hins vegar að játast að ég óttast um krossinn hennar frú Guðbjargar og kemur hvroutveggja til að mér finnst hún hafa slegið slöku við að æfa sig í teikningunni og svo hitt að ég veit hreint ekki hvort hennar lendir á réttum stað á teikniblaðinu sem við fáum í hendur. Á þetta teikni- blað fáum við nefnilega að teikna krossamynd af næsta alþingi og er ekki svo lítið vandaverk. En nú er þar til máls að taka að rétt í þann mund sem kosn- ingabaráttan fór að verða dálít- ið flókin tókum við þann kost aö flýja land. Þess vegna var páskafríið varla hafið þegar við vorum komin í loft upp á leið til þess hluta Evrópu sem menn eru misjafnlega skotnir í um þessar mundir. Það varð nefni- lega að ráði að fara í vettvangs- ferð til Luxemborgar og Parísar auk allra hinna staðanna sem urðu á leiðinni. Við ætluðum hálfpartinn líka að fara á móti vorinu og bjóða því til íslands eftir kosningar. Við hittum það og það þekktist boðið. Þeir í París voru furöu rólegir yfir kosningunum okkar, virtust hreint ekki hafa neinar áhyggjur af þeim. Þeir voru í þess stað að byrja að flytja lífið út á gang- stéttirnar í tilefni vorkomunnar og uppi í Montmarte voru úti- listamenn komnir í ferða- mannaham og ekki sýnilegt að þeir hefðu teljandi áhyggjur af kosningamálum okkar eins og niðurskurði sauðfjár. Bílstjór- arnir sem komnir voru í ólýsan- legt öngþveiti á torgum höfðu ekki heldur sýnilegar áhyggjur af fiskveiðistefnunni okkar né virtust glaðbeittar gengilbeinur láta byggðaröskun og flótta kvenna af landsbyggðinni hjá okkur fipa sig í framreiðslunni. Mér fannst þetta furðulegt kæruleysi. Hótelstýran á Hotel De La Poste í Verdun kvaddi okkur með handabandi og blessunar- óskum án þess að hafa hug- mynd um hvernig ástandið er á ríkissjóði og yfirdrætti í seðla- bankanum og ferðamennirnir sem voru farnir að þyrpast til Mosel-dalsins höfðu ekki grun um hvernig fór um húsnæðis- kerfið okkar. Verkamennirnir í Mercier kampavínsjarðgöngum í Epernay létu sig engu skipta hvar skattleysismörkin eru uppi á íslandi og þegar ég fór að skoða Chagall gluggana í dóm- kirkjunni í Metz var ekki að sjá á nokkru andliti áhyggjusvip vegna launakjara fiskvinnslu- fólks. Marglit hjörðin sem rangl- aði um Pompidou safnið í París sýndi lagasetningu á laun há- skólamenntaðra ríkisstarfs- manna algjört áhugaleysi og smásalar við Notre Dame virt- ust ekki vita hvernig háttað er með virðisaukaskattinn á nauðsynjar. Mér þótti ekki til- komumikið heldur hvernig afgreiðslufólkið í kaupfélaginu í Chateau-Thierry hristi höfuðið þegar ég rétti því kosninga- stefnuskrá flokksins okkar. Þegar ég viðraði misréttið í raf- orkukostnaði við píramídagesti við Louvre létu þeir eins og ekk- ert væri sjálfsagðara. Þetta var í stuttu máli ekki árangursríkt kosningaferðalag hjá mér og ég sá þann kost grænstan að enda ferðalagið hjá munkunum uppi í Clervaux ef vera kynni mér yrði hugar- hægra. Það dugði ekki til enda sögðu þeir mér þar að æðsta markmið lífsins væri dauðinn. Þegar ég að lokum var sestur við gluggann heima hjá syni mínum í Luxemborg og horfði niður í Grundina og við blasti þar að auki Centre Europeen var ekki laust við að mér fyndist ég dálítið umkomulaus þarna í miðju Evrópusamlaginu sem allt í einu var orðið að kosn- ingamáli heima á Akureyri þar sem enginn veit fremur en aðrir landsmenn um hvað málið fjallar. Baksvipurinn á banka- mönnum í Lux gaf heldur ekki til kynna að fyrirhuguð skattlagn- ing á „fjármagnstekjur" héldi fyrir þeim vöku. Þeir skildu held- ur ekki þegar ég sagði þeim að ég væri óspart hvattur til að kaupa alls konar spariskírteini ríkissjóðs til þess nú að koma í veg fyrir að við þyrftum að taka bankalán í útlöndum, helst mánaðarlega á ég að kaupa svona, gegn loforðum um góða ávöxtun en síðan segist ráðs- maður þessa sama sjóðs nú gera tilkall til vaxtanna sem ég hefði af þessu og héti nú „fjár- magnstekjur" og væru siðspillt afkvæmi frjálshyggjunnar. Svona geta menn orðið rang- eygir til munns og handa, í hita kosningabaráttunnar. Þegar við svo eitt kvöldið vor- um sest að snæðingi á japönsku veitingahúsi niðri í Grund og ég sat með tvo prjóna að vopni og átti með þeim að vinna á heil- miklum kuðungi sem fyrir mig var borinn í forréttarskyni fannst mér það svipað verkefni eins og það sem nú bíður okkar að gera skil kosningaloforðum flokka sem bjóðast en til þess er okkur sem fyrr sagði fenginn blýantur í hendur. Mér gekk ykkur að segja afleitlega að koma upp í mig innihaldi kuð- ungsins með prjónaskap og þótti ekki mikið til bragðsins koma heldur né veit ég hvernig gengur með krossinn góða eða hvort það sem ég uppsker með blýantinum verði betri kostur eða Ijúfara að kyngja því. En þar sem ég má ekki, eins og fyrr er getið, tala um pólitík eða fara með ómerkilegan áróður á þessum viðkvæma degi ætla ég að hætta hérna og drífa mig á kjörstað að leita að framsóknarkassanum eins og kerlingin forðum. Kr. G. Jóh.

x

Dagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagur
https://timarit.is/publication/256

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.