Dagur


Dagur - 27.11.1991, Qupperneq 6

Dagur - 27.11.1991, Qupperneq 6
6 - DAGUR - Miðvikudagur 27. nóvember 1991 „Hrein og klár andúö virðist aðallega stjórna afstöðu fólks til hettumáfa,“ segir Ævar m.a. í grein sinni. Ævar Petersen: Á hettumáfur að vera réttdræpur? Á undanförnum mánuöum hefur oft veriö fjallað um hettumáfinn í Degi (t.d. 19. júlí, 25. júlí, 14. sept. og 9. okt. sl.). Þar kemur m.a. fram, að Æðarræktarfélagi Eyjafjarðar og Skjálfanda og Heilbrigðisnefnd Akureyrar finn- ist hettumáfum hafa fjölgað það mikið, að breyta verði ákvæðum um friðun þeirra. í fréttinni 25. júlí er staðhæft, að „vargfuglum“ (óskilgreindum) sé ekki eytt nógu kappsamlega við Eyjafjörð. Hér virðist átt við hettumáfa, því strax eftir þá fullyrðingu, að erfitt sé um vik að eyða „vargfuglum", er sagt að hettumáfarséu friðaðir á sumrin. Hver er skaðsemin? f ofannefndum greinum er ekkert getið um hver sé sú mikla skað- semi hettumáfa sem snertir beint hagsmuni æðarræktarfélags eða heilbrigðisnefndar, nema hvað setningunni „...ætla má að það sé töluverð Salmonellu-hætta af öll- um þessum máfum“ (Dagur 25. júlí) er skotið inn eins og í fram- hjáhlaupi. Á einum stað er einnig kvartað yfir því, að hettumáfar éti svo mikið að kríuungum, en á öðrum að þeir séu „vandamál", þótt ekkert sé nánar greint frá að hvaða leyti. Sumir virðast líta á það nánast sem sjálfgefið, að hettumáfar séu svo mikil óþurftardýr, að ástæðu- laust sé að velta vöngum yfir því ógagni sem þeim er kennt um. Eftir pistlum í Degi í sumar og haust að dæma, virðast menn einkum finna hettumáfum tvennt til foráttu; (1) að þeir standi æðarvarpi fyrir þrifum og (2) að þeir leiti inn í Akureyrarbæ á sumrin. Skoðum þessi atriði nánar, þótt hér sé ekki gefin nein endanleg svör við öllum spurn- ingum. Hettumáfur og æðarrækt Það vekur furðu, að æðarrækt- endur skuli leggja kapp á að mega drepa hettumáfa á sumrin, því þeir taka hvorki æðaregg né æðarunga. Vissulega næla þeir sé í egg eða unga kríu eða mófugla endrum og eins, en hvað hefur það með æðarrækt að gera? Hettumáfar verja varplönd sín af harðfylgi gegn öðrum máfum, hröfnum og fleiri ræningjum, mun betur en kríur. Æðarrækt- endur ættu því frekar að vera ánægðir með að hettumáfar verpi í æðarvörpum. Þótt hettumáfar taki stundum egg eða unga mófugla er alls óvíst og órökstutt, að þeir hafi einhver afgerandi áhrif á stofn- ana svo fuglum fækki. Það eitt, að hettumáfar éti kríuunga eða mófugla, er í sjálfu sér engin sönnun þess, að þessum fuglum hljóti að fækka. Það er sama og segja, að fuglum sem ekki eru étnir fjölgi jafnt og þétt. Vegir lífríkisins eru vissulega flóknari en það. Þótt sumum kunni að þykja ótrúlegt, sækjast ýmsir vaðfuglar og endur beinlínis eftir að verpa innan um hettumáfa. Ástæðan er sú vernd sem máfarn- ir veita þeim gegn ræningjum, bæði fljúgandi og ferfættum. Hettumáfar virðast því hafa jákvæð áhrif á suma fuglastofna en ekki öfugt. í Degi 20. júní í sumar kom fram að æðarvarpið á Laxamýri (þar sem formaður æðarræktar- félags Eyjafjarðar og Skjálfanda býr) hefur aukist undanfarin ár. Laxamýrarvarpið hefur raunar nær þrefaldast síðasta áratug. Á sama tíma hafa mörg önnur æðarvörp víða á Norður- og Vesturlandi stækkað verulega. Ættu æðarvörp ekki að dragast saman, ef hettumáfar hafa afger- andi áhrif á þau í kjölfar þess, að máfunum hafi fjölgað? Hettumáfar á Akureyri Mörg undanfarin ár hafa hettu- máfar sótt inn í Akureyrarbæ á sumrin, og kvörtunum til bæjar- yfirvalda mun hafa farið fjölg- andi. Þetta varð til þess árið 1988, að Umhverfisnefnd bæjar- ins óskaði eftir, að friðun hettu- máfa yrði aflétt á sumrin, bæði svo skjóta mætti fuglana og eitra fyrir þeim. Ekki var minnst einu orði á það tjón sem fuglarnir ollu né í hverju kvartanir voru fólgnar. Fuglafriðunarnefnd óskaði eftir frekari upplýsingum þaraðlút- andi, en svar barst aidrei. Það er útbreiddur misskilning- ur, að hettumáfar séu einkum að leita eftir eggjum og ungum þeg- ar þeir spássera um tún og garða. Þótt hettumáfar taki einn og einn unga, eru þeir fyrst og fremst að leita eftir ormum eða öðrum hryggleysingjum. Ástæðan er einfaldlega sú, að smádýr eru í mun meira mæli á ræktuðu landi en óræktuðu. Þess vegna er ofur eðiilegt, að fuglarnir leiti á gras- flatir, þar sem ríkulegt æti er að hafa. Hvað er á móti því? Margir sætta sig hreinlega ekki við, að hettumáfar komi inn í bæ þar eð þetta er fremur nýlegt hátterni. Sumir veiðimenn telja þá vera keppinauta um ána- maðka í görðum. Einhvern tím- ann mun hettumáfur hafa opnað maðkabox veiðimanns og étið alla maðkana, og annar hefur stolið steik af grilli. Þá setja ýms- ir það fyrir sig, að hettumáfar hafi svo Ijót hljóð. Vega þessi atriði virkilega svo þungt, að þau réttlæti að fuglunum sé úthúðað og að herja eigi á þá með skotum og eitri? Rúmrusk á tjaldstæði Akureyrar Sumum gestum á tjaldstæði Akureyrar verður ekki svefnrótt fyrir gargandi hettumáfum. Er það svo algengt, að forsvaranlegt er að leggja út í herferð gegn fuglunum? Er ekki snöggtum oft- ar sem menn verða andvaka vegna hávaða frá drukknu fólki? Ýmsir eiga erfitt með svefn vegna þrastasöngs, en ekki minnist ég þess, að menn hafi viljað skera upp herör gegn þröstum. Mun raunhæfara er að leita annarra ráða en að drepa máfana, t.d. koma í veg fyrir að fólk fleygi til þeirra æti. Matargjafir tíðkast víða á tjaldstæöum, svo menn þurfa ekki að undrast, að fugl- arnir leiti í góðgætið. Sorphaugarnir Um árabil drógu sorphaugar Akureyringa á Glerárdal að sér máfa, hrafna og önnur dýr sem nýta úrgang frá manninum. Nú mun betur gengið frá haugunum, svo dýr nái þar ekki í æti. Hettu- máfar eru samt naskir að næla sér í lífrænan úrgang. Það er vel þekkt, að þeir laðast að íþrótta- leikvangi Akureyringa þegar leikir fara fram, enda nóg af pylsubrauðum, poppkorni og öðru girnilegu, sem menn fleygja frá sér. Stundum dregur fólk vilj- andi fugla að með matargjöfum, t.a.m. á göngugötu Akureyrar (sjá t.d. Ijósmyndir í Degi 26. og 30. júlí sl.). Væri ekki ráð að hafa betri hemil á því sem við hendum frá okkur, ef það er svona slæmt að hettumáfar leiti inn í bæ á annað borð? Kvíða sáð í huga fólks Hætta á Salmonella-smiti hefur verið nefnd sem rök fyrir að eyða hettumáfum. Salmonella- bakteríur eru hluti af hinum náttúrulega lífheimi landsins, og líklega hefur svo verið alla tíð. Salmonella fannst t.d. í kríum hér á landi fyrir tæpum 30 árum. Á að ganga milli bols og höfuðs á kríum af þeim sökum? Salmon- ella-tegundir eru af margvísleg- um toga, sumar hættulegar mönnum, aðrar hættulausar með öllu. Málið á að skoða af kunn- áttumönnum áður en hettumáf- um er borið á brýn að vera hættu- legir smitberar og sá þannig kvíða í huga fólks. Hrein og klár andúð Hrein og klár andúð virðist aðal- lega stjórna afstöðu fólks til hettumáfa. Hvernig sem á því stendur, ber einna mest á slíku viðhorfi á Norðurlandi. Dæmi er um, að menn hafi farið í hettu- máfsbyggð fjarri eigin landareign og eytt henni með skotum, þrátt fyrir friðunarákvæði. Hettumáf- um er oft lýst sem „frekum“, „ágengum" eða „leiðinlegum". Hvað þýða þessar lýsingar í raun? Bara það^ið fuglarnir lað- ist að þéttbýli og sveitabæjum? Er það ekki allt í lagi, ef þeir gera engan skaða? Hví ekki að gleðj- ast yfir nýrri fuglategund í umhverfinu? „Góðir og vondir“ fuglar Fuglar eru sífellt dregnir í dilka eftir því hvort þeir eru taldir „góðir“ eða „vondir“. Hvar hinar ýmsu fuglategundir lenda, stjórn- ast mikið af því umburðarlyndi sem fólk er reiðubúið að sýna þeim. Hettumáfum er jafnan sýnd lítil þolinmæði, oft af engri sérstakri ástæðu, og hafna þeir því yfirleitt meðal „vondu“ fugl- anna. Þann stimpil fá hettumáfar stundum einungis af því þeir eru máfar, sem hljóti þar með að vera skaðvaldar. Slíkt viðhorf er máski skiljanlegt hjá þeim sem telja sig eiga eitthvað sökótt við máfa, eins og t.d. æðarbændur. Það er hins vegar óskiljanlegt hjá þeim sem hafa lítið sem ekkert af hettumáfum að segja. Niðurlag Oftast er erfitt að henda reiður á hvað fólki finnst hettumáfar gera sem réttlæti fækkunaraðgerðir. Mismunandi fuglategundum og órökstuddum fullyrðingum er sífellt blandað saman í hræri- graut. Heiti eins og „vargfugl", „hettumáfur", „svartbakur" og „sílamáfur“ eru notuð á víxl. Þannig er hreint ekki ljóst hvaða fuglategundir átt er við hverju sinni, og meint skaðsemi einnar tegundar er hikstalaust heim- færð upp á aðrar. Æði oft virðist neikvæð afstaða fólks til hettumáfa einungis vera huglæg. Flestir eiga engra fjár- hagslegra hagsmuna að gæta né geta bent á raunverulegan skaða. Samt eru menn tilbúnir að taka undir sögusagnir máli sínu til stuðnings. Það virðist einfaldlega vera orðinn vani að úthúða sum- um fuglategundum gagnrýnis- laust. Drápsherferð á röngum forsendum Huglægt mat getur engan veginn legið til grundvallar því að hefja drápsherferð. Gild rök um skað- semi er það eina sem réttlætir að fara með ófriði gegn einhverri dýrategund. Sú staða getur kom- ið upp, að maðurinn þurfi að grípa í taumana gegn fuglum, en það er grundvallaratriði, að raun- veruleg skaðsemi sé könnuð og skilgreind, áður en ákveðið er að fara á stað með aðgerðir. Hettumáfar eru tiltölulega nýir í lífríki landsins. Þeir hafa breiðst út frá því fyrsta hreiðrið fannst hér árið 1910. Hettumáfur nýtur góðs af tilvist manna vegna hirðuleysis þeirra með lífrænan úrgang. Sökin er því oft okkar sjálfra, þegar hettumáfar laðast að mannvirkjum, þ.á.m. fiskeldi og loðdýrabúum. Oft eru allir máfar seldir undir sömu þök, þrátt fyrir að lífshættir tegundanna séu breytilegir. Það er óverjandi að fuglar séu dæmd- ir til dauða fyrir þá sök eina, að þeir séu máfar. 1 því sambandi má benda á, að sumar máfateg- undir eru alfriðaðar, t.d. storm- máfur, svo og erlendar máfateg- undir sem flækjast hingað. Friðhelgunarlög Einn af hornsteinum íslenskra fuglafriðunarlaga er, að fuglar njóti friðar til þess að koma afkvæmum sínum á legg. ísland er reyndar bundið alþjóðasamn- ingi þar að lútandi. Eins og flestir íslenskir fuglar, eru hettumáfar friðaðir um varptímann, en heimilt er að veiða þá á tímabil- inu 1. september til 31. mars. Nú er þess krafist, að hettumáfar verði einnig ófriðhelgir yfir sumarmánuðina. Engin gild rök fyrir því að aflétta friðun f fyrirsögn er spurt „Á hettumáf- ur að vera réttdræpur?" Ég sé engin gild rök fyrir því að aflétta friðun á hettumáfum á sumrin né leggja út í kostnaðarsamar aðgerðir gegn þeim á þessu stigi. Það er alls óvíst, að slíkar aðgerðir svari kostnaði, auk þess sem fyrst er að skilgreina, hvort fuglarnir geri raunverulegan skaða, í hverju hann er fólginn og hvaða leiðir séu helstar til úrbóta. Staðbundnar aðgerðir gegn fuglum kunna að vera réttlætan- legar eftir að einstök tilvik hafa verið skoðuð gaumgæfilega. í því sambandi má þó aldrei gleyma mannúðarhliðinni og þeirri hættu sem er samfara því að eitra fyrir fugla inn í þéttbýli. Það eitt að hettumáfum hafi fjölgað eða þeir séu „leiðinlegir“, réttlætir alls ekki að friðun þeirra sé rift. Það sorglega er, að menn eru oft búnir að stimpla hettu- máfa sem óþurftarfugla og dæma þá til dauða fyrirfram. Stundum bera mennirnir ábyrgð á þeim aðstæðum sem fuglar eins og hettumáfár þrífast við. Því er nær að koma í veg fyrir að fuglar geti hagnýtt sér þær aðstæður, - ef það er þá nokkur raunveruleg ástæða til að amast við því. Ævar Petersen. Höfundur er deildarstjóri dýrafræöi- deildar Náttúrufræðistofnunar íslands.

x

Dagur

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Dagur
https://timarit.is/publication/256

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.