Þjóðviljinn - 31.03.1985, Blaðsíða 2

Þjóðviljinn - 31.03.1985, Blaðsíða 2
FLOSI af formála Það er æði oft, þegar ég hef ákveðið að skrifa um tiltekið efni, að formálinn verður svo langur að greinin er komin í fulla lengd áður en ég kem að því sem ég ætlaði upphaflega að fjalla um. Þessir formálar eru náttúrlega svona upp og niður eins og gengur og gerist með formála. Nú, ég get svosem játað það hér, þó ég kæri mig ekki um að það verði á allra vitorði, að stundum hafa slíkir formálar, án eftirmáls, birst eftir mig, en þá hef ég líka verið kominn í verulega tíma- þröng og hugsað sem svo: - Oft er forleikurinn að Rakaranum frá Sevilla fluttur einn, eða Leónóru-forleikurinn og prólógusinn að Gullna hliðinu. Hversvegna skyldi mér ekki vera leyfi- legt að birta forleik líka? Nú ætla ég ekki að hafa þennan formála lengri en snúa mér beint að efninu. Ég ætla að skrifa um dularfullan miðaldra mann, sem undanfarna daga hefur sést á vappi hérna í Vest- urbænum. Þessi maður er dökkur yfirlitum með svart alskegg, hár, grannur og hinn vörpulegasti, gengur í dökkbrúnum leðurfrakka og fer jafnan einn. Eitthvað er það í fari mannsins, sem vekur meiri athygli en góðu hófi gegnir og kem ég nú að því. Við heiðurshjónin vorum semsagt í gær að aka hérna vestur Hringbrautina í fína bílnum okkar nýbón- uðum og búin að borga bæði rafmagnið og símann. Sem við komum að horninu á Hofsvallagötunni og Hringbraut, hrópar konan mín, viltu hægja á þér. Við- brögðin hjá mér verða þau sömu og venjulega, þegar ég held að hún sé að blanda sér í ökulagið hjá mér. Ég stíg bensínið í botn. Og þá er það að ég er hérumbil búinn að aka yfir hávaxinn, vörpulegan mann í dökk- brúnum leðurfrakka. Ég klossbremsa og konan mín segir, einsog í svolítilli geðshræringu: - Hver er hann eiginlega þessi? Þetta fer einhver ósköp í taugarnar á mér og ég hugsa sem svo: - Hvurn djöfulinn er hún að góna á Pétur og Pál. Auðvitað get ég ekkert sagt, því þetta hefur alla tíð verið einn af mínum veikustu blettum, einsog það er kallað, semsagt að góna á eftir fallegum konum. Sannleikurinn er sá, að þegar ég sé fallegri konu bregða fyrir, beiti ég mig hörðu til að verða mér ekki til skammar. Þá fer ég í lás, fæ störu og verð einsog vankaður bolakálfur sem fengið hefur slaghamars- högg í ennið. Þá segir konan mín stundum eitthvað si sona: - Þú ert bara einsog slefandi vanviti. Hvað heldurðu að manneskjan haldi? Og ég svara afskaplega skemmtilega og spontant, eitthvað á þessa leið: - Ef ég hefði ekki auga fyrir fögrum konum, þá hefði ég ekki fallið fyrir þér. Þessu fellur hún ekki fyrir - ekki lengur, en segir: - Ég veit ekki hvort þú ert líkari aflóga hrúti um fengitímann eða gömlum vagnhesti, sem lent hefur innanum nýkastaðar folaldsmerar. Og ég hugsa með mér: - Hún er bara sjellú greyið og ekkert við því að gera. Og nú erum við komin vestur í Vörumarkað, en þangað var förinni heitið. Þessar ferðir okkar í Vörumarkaðinn byrja venju- lega á því að við týnum hvort öðru. Ég vil fara einn hring og kaupa það sem til þarf, borga við kassann og fara svo út. Hinsvegar er engu líkara en hún sé komin í kokteilpartí í einhverju sendiráðinu um leið og hún kemur inn fyrir dyrnar á þessu vöruhúsi. Allir eru teknir tali og samræður hafnar á því plani sem ég nenni ekki að tíunda hér. Það er í grænmetinu sem hún týnist fyrst. Gengur bókstaflega amok í púrrum og persíli, radísum og rófum, kálum og spínötum, grasi og gulrótum og hvað allar þessar fóðurblöndur nú heita. Tapar sér í græn- metinu. Það er einsog hún viti það ekki enn, eftir meira en þrjátíu ár, að ég vil ekki annað en ket, kartöflur og sósu._ Þegar ég er svo orðinn leiður á að bíða eftir henni, veit ég svosem fullvel, hvar hana er að finna. Þær eru að sjálfsögðu að segja hvor annari ævisögu sína, hún og konan í kálinu. Ég veit að eina leiðin til að laða konuna mína úr kálinu, er að ná af henni hjólagrindinni og aka burt. Þetta virkar. Hún kemur hlaupandi á eftir mér með fangið fullt af grænmeti, skellir því í körfuna og segir: - Ég held þú sért ekki almennilegur. Og ég svara eins stillilega og mér er unnt: - Ég hélt að þú yrðir ellidauð í þessari djöfulsins súrheysgryfju. Eða er konan í kálinu svona ómót- stæðileg? - Æ, hún er svo indæl. Nú erum við komin að fiskborðinu. Þar liggur meters langur þorskur, einsog til skrauts. Ég sé strax að þetta er sami þorskurinn og var þarna í gær og hef orð á því og segi: - Þetta er sami þorskurinn og var hér í gær. Þá segir hún: - Þú ert nú svo ómannglöggur að þú þekkir ekki einu sinni hestana þína í sundur. Mér þykir þú orðinn þorskglöggur. Þessu svara ég ekki. Svo förum við að kassanum. Þeirri för stjórnar hún jafnan og gætir þess að við lendum alltaf við þann kassann sem ómótstæðilegasta stúlkan er við, því hún veit að ég pexa ekki um peninga í viðurvist fegurð- ardísa. Þegar við erum svo að ganga útúr þessari dæma- lausu stórverslun lít ég á hana og sé að hún er orðin á svipinn einsog hún hafi fengið slaghamarshögg í enn- ið. Ég lít í kringum mig til að athuga hverju svipurinn sæti. Er þá ekki dularfulli maðurinn í dökkbrúna leður- jakkanum að ganga inní Vörumarkaðinn, einmitt mað- urinn, sem ég ætlaði að skrifa þennan Vikuskammt um. Það verður sýnilega að bíða betri tíma. Ólafur Laufdal kaupir Vörumarkaðinn Haft er fyrir satt að Ólafur Laufdal veitingamaður hafi eða sé að ganga frá kaupum á húsnæði Vörumarkaðarins við Ármúla. Ólafur rekur sem kunnugt er Broadway og Hollywood með það góðum árangri að hann telur sig geta keypt þetta stóra verslunar- húsnæði. Um leið hyggst hann ekki hverfa frá fyrirætl- unum um byggingu risastórs skemmti- og ráðstefnuhúss í Breiðholti. I Vörumarkaðnum hyggst Ólafur hins vegar reka diskótek á jarðhæð en ekki vitum vér hvaöa starfsemi á að fara fram á efri hæðum hússins... ■ Kukl á uppleið Fyrir röskri viku áttu Björk og Sigtryggur úr Kuklinu feyki- góða spretti á gjörningakvöldi í Safarí, raunar með ágætri ásláttaraðstoð Abdús, kroppatemjara úr Kramhús- inu. Nýjast af Kuklinu er ann- ars það að í maí munu þau halda til Englands og halda tónleika með hinni þekktu „underground" rokksveit Psychic TV, sem hingað kom sællarminningar. Tónleikarn- ir verða í Hammersmith Pal- ace, og gjörvöll breska popppressan verður að sjálf- sögðu viðstödd. Um svipað leyti mun koma út breiðskífa með Kuklinu sem verður gefin út af annarri þekktri rokkgrúppu í Bret- landi, Crass. Skömmu síðar mun svo Kuklið koma fram á Roskilde festivalinu í Dan- mörku sem er að verða með þekktari rokkhátíðum Evrópu. Kuklið er því svo sannarlega á hraðri leið uppá sumarhimin- inn...B Nú fáiði frí Ragnhildur Helgadóttir er sem kunnugt er mikill áhuga- maður um framgang skóla- starfs í landinu. Að vísu átti hún nokkurn þátt í allmiklu vorfríi í framhaldsskólum fyrir nokkru, en ráðherrann hefur líka sýnt að hann kann að bregðast við kvabbi af reisn og röggsemi og er skemmst að minnast svars hennar við beiðni um frí til að hjálpa ein- hverjum útlendum og þel- dökkum trantaralýð suðrí Afr- íku. En nú er ráðherrann kom- inn í vanda. Nokkrir nemend- ur framhaldsskólanna hafa sem sé tilkynnt að þeir geti ekki mætt í skólann 11., 12. og 13. apríl næstkomandi vegna áríðandi fundar í Reykjavík. Bíða skólamenn nú spenntir viðbragða ráðu- neytisins, en við erum ekki í neinum vafa um úrskurðinn. Þessa daga er nefnilega hald- inn landsfundur Sjálfstæðis- flokksins...B Gunnar Steinn og mjólkin Aðalfundur Sambands ísl. auglýsingastofa var haldinn í gær. Fundarstjóri var Gunnar Steinn Pálsson forstjóri Auglýsingaþjónustunnar, sem hannaði mjólkurauglýs- ingarnar, sem stöðvuð var birting á þar til texta þeirra hafði verið breytt. Það bar svo til tíðinda á fundinum í gær að þegar öðrum var boðið kaffi eða einhver drykkur þaðanaf betri var Gunnari boðin mjólk. Fótboltapakki Nýjustu tíðindi úr bók- menntaheiminum herma, að væntanleg sé í sumar stærðar knattspyrnubók ásamt með myndsnældu (svokölluðu spyrnubandi). Samkvæmt fremur áreiöanlegum heimild- um mun Sigurður Svavarsson íslenskumaður vinna að þýð- ingu og staðfæringu bókar- innar sem unnin er m.a. í sam- ráði við Tækninefnd KSÍ. Að sögn munu íslenskir knatt- spyrnumenn koma við sögðu bæði í bókinni og á spyrnu- bandinu. Upprunalega er hér um að ræða hollenska fram- leiðslu og eru (slendingar meðal þeirra fyrstu sem þýða og staðfæra þetta verk, sem ætlað er að verði byrjendum í knattlistinni mikil lyftistöng. Á spyrnubandinu eru m.a. svip- myndir úr þekktum og al- ræmdum knattleikjum. Mál og menning gefur út þetta verk.B íslenska skáldsagan Allt bendir til þess að mikið verði um íslenskarskáldsögur á jólamarkaðnum næsta. Þannig hefur spurst að vænta megi skáldsögu eftir Einar Kárason, eins konarframhald Djöflaeyjunnar, sem gerði skáldið frægt fyrir nokkru. Nafni hans Einar Már Guð- mundsson mun einnig hafa sett upp útgáfufésið, - og mun vera væntanleg skáld- saga frá honum. Þá hefur einnig heyrst að ekki væri úti- lokað að skáldsaga komi út fyrir jólin eftir Pétur Gunnarsson.B Alþjóðlegir kratar Það hefur farið fyrir brjóstið á mörgum í fjandvinaher Al- þýðubandalagsins að í flokkn- um skuli vera uppi hugmyndir um að ganga til liðs við Al- þjóðasamband sósíalista. Margir hafa þannig reynt að búa til heilagt stríð í flokknum milli fylgjenda og andstæð- inga aðildar. Besta leikinn átti að líkindum Magnús Ólafsson ritstjóri NT, sem sagði að deilan stæði á milli þeirra sem vildu fara í Alþjóðasamband sósíalista og svo hinna sem vilja ganga í Alþjóðasamband jafnaðarmanna. En þarskripl- aði ritstjórinn heldur betur á Framsóknarskötunni: Al- þjóðasamband jafnaðar- manna og Alþjóðasamband sósalista eru nefnilega einn og sami hluturinn, hvort tveggja þýðing á heitinu „Soc- ialist International". Reyndu betur næst, Mangi... ■

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.