Þjóðviljinn - 27.09.1987, Blaðsíða 10

Þjóðviljinn - 27.09.1987, Blaðsíða 10
Og allir fá að gera hvað sem þeir vilja Heyrt og séð á bókmenntahátíð 1987 Á næstliðinni viku gengu rit- höfundar á bókmenntahátíð til móttöku í frægu húsi, Höfða. Þeirra á meðal voru tveir kunningjar, Kurt Vonnegut, bandarískurog Rússinn And- rei Bítov. Þeirvoru aðhugsa um að leita uppi stólana þar sem leiðtogar risaveldanna sátu í fyrra og hlamma sér nið- ur í þá. Hvað ætlið þið að sækja þangað? spurði ég. Ábyrgðartilfinningu? Varla, sagði Kurt Vonnegut, gerist annað en að allt fer á ringul- reið í hausnum á okkur. Hvað skyldu þeir andar hafa séð í þessu draugahúsi? spurði Andrei Bítov, þegar þeir litu út um glugggann. Sáu þeir kannski ekki annað en þoku? Til hvers var þetta? Sjálfsagt verður sá maður hlægilegur sem reynir að meta það, hvaða gagn menn hafa af skáldaþingi sem því er efnt var til hér í Reykjavík nú í september. Slíka hátíð hefur hver og einn til síns brúks. Velviljaðir menn telja það gagnlegt að skiptast á við- horfum og geðshræringum. Mað- ur er manns gaman. Þeir bjartsýnu segjast verða fyrir miklu innstreymi andlegrar orku sem væru þeir undir Jökli eða í öðrum slíkum helgum plássum. Það er líka talað um að það sé gaman að skoða frægt fólk. í framhaldi af því má náttúrlega glotta með nokkurri meinfýsni og segja að svona hátíð sé bara fyrir snobbað pakk. Það er nefnilega það. Gerði það mikið til þótt satt væri? Ég segi fyrir mig - ég hefi aldrei treyst mér til að hafa hvasst horn í síðu snobbsins. Snobbið er dálítið spaugilegur aflgjafi, en aflgjafi samt. Hann knýr t.d. ungt fólk áfram í því að kynna sér hluti sem það hefur ekki alltof gaman af - í bili. Með þeim afleiðingum vonandi að gamanið kemur seinna. Snobbið er líka aðferð til að hafa peninga til menningarlífs út úr ríku fólki sem annars mundi eyða þeim í tóma vitleysu. Góður fengur Ég segi fyrir mig: Það var mikill fengur að fá staðfestan af sjón og heyrn grun um að Isabel Allende frá Chile mundi koma því til skila af sönnum þokka, skaphita og með húmor að enn eru til álfur þar sem sagan og aðstæðurnar gera skáldið að merkilegri sam- einingu skemmtunar, spásagnar og leiðsagnar. Það var líka góð uppgötvun að kynnast sérstæðri stílgáfu og persónutöfrum Rúss- ans Andreis Bítovs, sem skokkar með elskulegu andlegu fjöri um innlendur hugans og goðsagna- heiminn og slær ókunna furðu með því að vera sovéthöfundur í útlöndum sem hefur lagt af alla siðu sendinefndarfólans. Margt í senn Það var umræðufundur um skáldsöguna í Norræna húsinu. Sænski rithöfundurinn Jersild reifaði þar þá hugsun að nú um stundir væru öngvir megin- straumar í skáldsagnagerð, engin ríkjandi stefna, heldur væri allt mögulegt að gerast í einu. Hann taldi þetta gott að því leyti að í þessum plúralisma, í þessu fjöl- streymi, væri hver og einn frjáls- ari að syngja með sínu nefi, ekki þrúgaður af einhverri ríkjandi kröfu. Á hinn bóginn hefði þetta ástand það í för með sér að marg- ir höfundar væru eins og óvissir í sinni sök. Já og það var á Jersild að heyra líka að gagnrýnendur og lesendur væru enn ruglaðri en nokkru sinni fyrr. Þetta fjölstreymi er- vissulega staðreynd - og hún verður meðal annars til þess, að það er erfitt að halda saman umræðum um „skáldsöguna á vorum dögum" eða þvíumlíkt: Mun hver éta úr sínum poka og náttúrlega hafa allir rétt fyrir sér. Ekki þar fyrir: það getur verið gaman að reyna slíka umræðu. Hún leiðir það a.m.k. skýrt fram hve langt er á milli póla á bók- menntahnettinum. Þar sitja þau t.d. hlið við hlið Robbe-Grillet og Isabel Allende. Og Robbe- Grillet heldur tölu um það að bókmenntirnar séu skrifaðar á annarlegri tungu, og lesandinn eigi í vandræðum með að skilja það mál, og höfundurinn er sífellt í leit að Orðinu sem hann kannski finnur ekki, enda vafasamt að hann viti sjálfur hvert hann er að fara. Svo kemur Isabel Allende frá landi Pinochets og pyntinga- klefannaog segir: Þið í Evrópu getið setið við og skrifað skáld- sögu um veðrið á fimmtudaginn var. En við erum að berjast fyrir lífi okkar, við getum ekki setið í fílabeinsturni, og það þýðir líka að við getum ekki og erum ekki einmana, við höfum þörf hvert fyrir annað. Og, sagði hún enn- fremur (í erindi síðar sama dag) hvað stoðar það mig þótt ég sé frjáls ef aðrir eru það ekki? Og sá sem hlustar, hann hefur væntanlega miklu meiri samúð með Isabel Allende og hennar líkum, en hann veit líka að tíminn og þjóðfélagsástandið ráða miklu um það hvaða pól rithöfundur tekur í hæð sinna verka, og að Grillu-Robbi þarf líka að lifa og iðka sínar æfingar með fætur sem skilja eftir spor í sandi á Bretagne og að allt er það í lagi og meira en það. Þörfin fyrir óvin Þegar Jersild talaði um ringul- reið í bókmenntalífi í sínu landi, Svíþjóð, oghnignandi gengi bóka rneðal almennings, þá gat hann þess, að sumir hreyfðu þeirri hug- mynd að gott væri nú ef bók- menntirnar eignuðust sameigin- legan óvin eins og ritskoðunin er í austurevrópskum höfundum. Þessi hugsun skýtur oft upp kolli á Vesturlöndum: Menn segja sem svo: Ritskoðun getur haft þau jákvæðu áhrif að menn taki eftir bókmenntunum og taki mark á stríði rithöfunda fyrir frelsi og öðru góðu, en hér getum við skrifað hvað sem er og enginn tekur eftir neinu, öllum er skít- sama. Ég minntist á þetta við Andrei Bítov. Hann sagði sem svo: Það má vera að þjáningar miklar hafi hjálpað skáldi til að yrkja merki- leg verk og að ritskoðun geti haft einhver jákvæð áhrif - en aldrei skyldu menn leggja mál fram með þessum hætti, og aldrei reyna að tala fyrir hönd þeirra sem þjást skrifandi eða glíma við ritskoðun. En ekki þar fyrir - það er kann- ski ómaksins vert að nema ögn staðar við þessa hugmynd: að það væri hollt bókmenntum að eignast sameiginlegan óvin. Hvar er sá fjandi? Stundum er reynt að finna slík- an Satan í gagnrýnendum, en það mistekst - gagnrýnin er alltof tví- struð, misgóð og misvísandi til að standa í svo dramatísku hlut- verki. Kannski er Útgefandinn slíkur óvinur - sá sem nú síðast hefur hagvæðst af miklum móð, eins og Kurt Vonnegut gat um, og þolir ekki að bækur liggi á lager, heldur hakkar þær eða brennir eftir árið hafi þær ekki runnið út eins og heitar lummur. (f þessu mættu menn vel sjá sér- stæða ritskoðun markaðarins, sem ekki gefur bókmenntum þann tíma sem þær einatt þurfa, heldur lítur á þær eins og hvert annað Nýtt Kók, sem verður hætt að framleiða í snatri ef það slær ekki í gegn eins og skot). Og þó - útgefendur eru heldur ekki sá marghöfða þurs sem á einum skrokk situr, hvað sem líður duttlungafullri ritlaunapólitík þeirra og fyrrnefndum ótta við bókabirgðir. Sjónvarpið kemst nátttúrulega næst því að vera sá Fjandi sem rithöfundar gætu sameinast um að slást við á okkar dögum. Sjón- varpið sem gerir allt að skemmtun þangað til allt verður hundleiðinlegt, sem kubbar heiminn í sundur í ótal parta sem enginn man hvernig hægt er að setja saman aftur. Rásirnar fjöru- tíu sem Kurt Vonnegut líkti við eiturlyf: Við vitum aldrei fyrr en um seinan hvað slíkar inntökur eru að gera við okkur. Ekki svo að skilja: Það er nátt- úrlega vonlaust að berjast við fyrirbæri eins og sjónvarpið, sem er komið út um allt. Það er meira að segja hæpið að hægt sé að gera nokkuð sem um munar til að gera það „betra“ eða „verra“ (til eru þeir rithöfundar sem segja: Því verra sjónvarp þeim mun betra). En hitt getur svo vel verið, að hin sálræna þörf bókmenntamanna fyrir sameiginlegan óvin geti hvergi fundið betri samastað en í sjónvarpinu - sem m.a. veldur því nú síðast með sinni eðlislægri fréttastefnu, að mikill hluti ís- lenskrar þjóðar mun ekkert ann- að muna um bókmenntahátíð 1987 en að Guðbergur Bergsson kallaði hana móðgun við íslensku þjóðina! Og enn lifum vér, og enn koma út bækur, og eru meira að segja lesnar talsvert. -Til að þetta gerist þarf reyndar ekki nema tvennt: Þann nauðsynlega barnaskap rit- höfunda að það taki því að bæta við enn einni bók þótt um flest hafi verið skrifað og það mjög vel. Og þá forvitni sem sviptir af bókinni umbúðum og rekur nef lesandans á kaf í ilm hennar orða. 10 SfÐA - ÞJÓÐVILJINN Sunnudagur 27. september 1987

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.