Þjóðviljinn - 27.01.1989, Blaðsíða 12

Þjóðviljinn - 27.01.1989, Blaðsíða 12
ERLENDAR FRÉTTIR Inka- maóistar á vígaslóð Liðsmenn skæruliðahreyfingarinnar Ljóm- anda stígs fara nú ferða sinna um Perú næstum að vild og ógna hrörlegu efnahagskerfi þess. Líkur eru á að þeim takist að stöðva matvæla- flutninga til höfuðborgarinnar Perúanskir indíánar - þeir hafa litla ástæðu til stuðnings við perúanska ríkið eins og það er. Níu ár eru liðin síðan nokk- uð sérkennileg uppreisnar- hreyfing, sem nefnist Send- ero Luminoso (Ljómandi stíg- ur), hóf hæst í dölum Andes- fjalla skæruhernað gegn stjórnvöldum í Perú. Undan- farið hafa skæruliðar þessir færst í aukana og eru nú jafnvel taldar líkur á því að þeim takist að valda hruni í efnahagskerfi landsins, sem reyndar má ekki við miklu. Ljómandastígsliðar aðhyllast maóismann, sem lítið fer nú fyrir hjá því sem áður var, en þarna á meðal afkomenda Inkanna og þegna þeirra hefur honum að minnsta kosti tekist að halda velli og vel það. Skæruliðar þessir halda sér fast við kenninguna og veigra sér ekki við að fordæma á sem eftirminnilegastan hátt þá, sem frá henni falla. Þannig urðu íbúar höfuðborgarinnar Lima nokkuð hvumsa við morgun einn í nóv. 1980, er þeir komu á fætur, því að þá hékk þar hengdur hund- ur í hverjum Ijósastaur. Guldu hundkvikindin þess, að hug- myndafræðingar Ljómanda stígs höfðu skilgreint Deng Xiaoping Kínaleiðtoga sem „hlaupahund kapítalismans“ eftir að hann steypti fjórmenningaklíkunni svokölluðu, ekkju Maos for- manns og þeim hinum. En þar eð perúanskir aðdáendur fjórmenn- inganna áttu þess engan kost að hafa hendur á Deng sjálfum, hafa þeir sennilega komist að þeirri niðurstöðu að hengja yrði aðra hunda í hans stað, heldur en ekki neitt. Höfðinginn Fjórða sverð Alþýða höfuðborgarinnar, ekki ýkja fjölfróð um heimsvið- burði, mun að vísu ekki hafa átt- að sig fullkomlega á táknrænni þýðingu hundadrápsins. En Ljómandastígsliðar voru þá þeg- ar farnir að minna á sig með öðru móti. Sex mánuðum fyrir hunda- hengingarnar miklu, þegar kosn- ingar stóðu yfir í landinu, höfðu þeir ráðist á lögreglustöð í þorpi upp í Andesfjöllum og lagt eld að kjörseðlakössum, sem þar voru varðveittir. Vildu skæruliðar með því sýna fyrirlitningu sína á lýðræði „heimsvaldasinna". Sá atburður er talinn marka upphaf uppreisnar þeirra. Leiðtogi Ljómanda stígs heitir Abimael Guzman og er af víga- mönnum sínum nefndur „Gonz- alo forseti". Hann kvað hafa snú- ist til maóisma um miðjan sjö- unda áratuginn, er hann dvaldist um skeið í Kina. Þá var menning- arbyltingin svokallaða komin í gang þarlendis. Guzman, sem eins og vita mátti er menntamað- ur, hafði fram að þeim tíma verið talinn mesta meinleysisskinn, sem öllu líklegri þótti til að verja ævinni til grúsks á háskólabóka- söfnum en að leggjast út á merk- ur og skóga sem foringi óheflaðra stríðsmanna. Menn hans tigna hann sem „fjórða sverð komm- únískrar heimsbyltingar", hinir brandarnir eru þeir Marx, Lenín og Mao. (í goðafræði maóista fyrr á tíð voru sem kunnugt er efst á stalli þeir fimmmenningar Marx, Engels, Lenín, Stalín og Mao, en hjá inkamaóistum þess- um hafa þeir Engels og Stalín af einhverjum ástæðum dottið upp- fyrir.) 5000 í „fullu starfi“ Kunnugir menn telja, að Ljómandi stígur hafi nú á að skipa að minnsta kosti um 5000 skæruliðum „í fullu starfi", og að þeir njóti meiri eða minni aðstoð- ar um 30.000 manns í viðbót. í baráttu sinni hafa þeir í heiðri þá meginreglu Maos formanns að leitast fyrst við að leggja undir sig sveitirnar, þar eð að því loknu séu borgirnar neyddar til upp- gjafar. Og þeim hefur orðið all- mikið ágengt. Njósnaþjónusta stjórnarinnar viðurkennir, að hópar þeirra geti nú rásað næst- um að vild um endilangt hálendi Perú, frá norðri til suðurs. Und- anfarna mánuði hafa þeir unnvörpum sprengt í loft upp orkustöðvar og verksmiðjur og þar á ofan myrt nokkra erlenda búfræðinga í þjónustu stjórnar- innar, svo að þeim takist ekki að lappa upp á landbúnaðinn fyrir hana. Fyrir skömmu hófu skæru- liðar aðgerðir með það fyrir augum að stöðva matvælaflutn- inga til Lima utan af landsbyggð- inni. 1 þeim tilgangi hafa þeir sprengt upp brýr og sett tálmanir á vegi. Varnarmálaráðherra Perú sagði fyrir skömmu, að þetta um- sátur skæruliða um höfuðborgina væri orðið svo alvarlegs eðlis, að vera kynni að koma þyrfti upp „loftbrú" til þess að sjá borgarbú- um fyr’n brýnustu lífsnauðsynj- um. I fyrrihluta mánaðarins fell- du skæruliðar að minnsta kosti 35 lögreglumenn í skærum á víð og dreif um norður- og miðhluta landsins. Ljómandastígsliðar vega markvisst að atvinnulífi landsins, eins og skilja má af framan- skráðu, en efnahagslíf Perú er raunar svo veikburða af öðrum ástæðum, að líkja má því við spil- aborg, er hrunið gæti á hverri stundu við lítilsháttar aukaálag. Lífskjörin þar, sem aldrei frá komu Spánverja til landsins voru góð, hafa undanfarið versnað. Vaxandi neyð gerir að verkum, að fleiri og fleiri, einkum táning- ar, snúast í lið með skæruliðum, margir fyrst og fremst vegna þess að þeir sjá ekkert annað ráð sér til framfleytingar. Helmingur lands- manna indíánar Fleira er það í perúanska samfélaginu sem gefur upp- reisnarmönnum þessum högg- stað á því. Nærri helmingur rúm- lega 20 miljóna íbúa landsins eru indíánar, sem tala mál eins og ketsjúa og aymara, búa margir í afskekktum fjallahéruðum, eru örfátækir og hafa í aidaraðir verið illa leiknir af spænskumælandi valdhöfum og stórjarðeigendum. Þetta hefur alið upp í þeim andúð og tortryggni gagnvart stjórn- völdum, og þeim stendur líklega nokkuð á sama hvort á valdastól- um í Lima sitja herforingjaklíkur af venjulegri rómanskamerískri gerð eða stjórnir, sem kenna sig við lýðræði. Ljóst er, að árangur Guzmans og hans manna byggist ekki hvað síst á því, að þeim hef- ur tekist að afla sér verulegs fylgis meðal indíána. Aðrir indíánar, sem kannski er ekkert um skæru- liða, styðja þá af ótta við þá og/ eða sökum þess, að þeir láta sér örlög núverandi valdhafa í Iéttu rúmi liggja. íbúar héraða þeirra, þar sem skæruliðar eru athafnasamastir, hafa oft lent í slæmri klemmu milli þeirra og hers og lögreglu stjórnarinnar. Báðir aðilar drepa gjarnan eða kvelja það fólk, sem þeir gruna um að vera sér mót- snúið, og þarf oft ekki mikið til. Það er að vísu margra mál, að herinn og lögreglan séu drjúgum stórtækari í drápum og hryðju- verkum á grunuðum eða mögu- legum andstæðingum en skæru- liðar eru, enda er það svo, að þótt Perú eigi nú að heita lýðræðisríki, þá eru téðar stofnanir þess ekki sagðar hóti mannúðlegri en her- og lögreglulið einræðisrikja þar í álfu. Samkvæmt skýrslum Per- ústjórnar hafa um 15.000 manns verið drepnir í viðureign hennar við skæruliða, en hærri tölur í því sambandi hafa heyrst nefndar. Félagslegt sprengiefni Til Lima þyrpist úr sveitunum það fólk, sem vegna örrar fólks- fjölgunar getur ekki séð sér þar farborða, og er það sama sagan og víðast hvar annarsstaðar úr þriðja heiminum. Nú eru borgar- búar um sex miljónir talsins. Mikill hluti þess fjölda er illa fóðraður fyrir, og nærri má geta hvílíkt félagslegt sprengiefni hann gæti orðið, ef tæki fyrir að- flutninga til borgarinnar. í frumskógunum í austurhluta landsins, sem liggja að landa- mærum Brasilíu, er ræktað mikið af kókalaufi því sem kókaínið, sem eiturlyfjahringar smygla víða um heim, er unnið úr. í þeim hér- uðum hefur Ljómandi stfgur und- anfarið náð verulegum ítökum. Perúönsk stjórnvöld segja hann fjármagna baráttu sína með því að láta þessa búgrein afskipta- lausa, gegn ríflegu skattgjaldi frá kókaínhringunum. Ekki er hægt að fullyrða hvað hæft sé í því, þar eð téð stjórnvöld eru vitaskuld ekki hlutlaus aðili, þegar um þessa seigu og illvígu andstæð- inga þeirra er að ræða. Dagur Þorleifsson. ('Vi JÆNNARA _HASKÓLL ÍSLANDS Laust starf við Kennaraháskóla íslands Laust er til umsóknar starf endurmenntunarstjóra við Kennaraháskóla íslands. Endurmenntunar- stjóri hefur í umboði rektors og skólaráðs umsjón með endurmenntun á vegum skólans; vinnur að stefnumótun og stýrir daglegri framkvæmd, sbr. ákvæði í lögum um Kennaraháskólann. Umsækjendur skulu hafa staðgóða reynslu af kennslu og skólastarfi. Þeir skulu hafa fullgilt há- skólapróf og kennsluréttindi. Ráðning er frá 1. september 1989 og er til tveggja ára. Laun skv. launakerfi opinberra starfsmanna. Umsóknir ásamt ítarlegri greinargerð um nám og störf þurfa að berast til Kennaraháskóla íslands v/Stakkahlíð, Reykjavík, fyrir 20. febrúar 1989. Rektor FRÁ MENNTAMÁLARÁÐUNEYTINU: Lausar stöður við framhaidsskóla Að Fósturskóla íslands vantar stundakennara í sálfræði. Umsóknarfrestur er til 5. febrúar næstkomandi. Umsóknir ásamt upplýsingum um menntun og fyrri störf sendist skólameistara. Menntamálaráðuneytið 12 SÍÐA - NÝTT HELGARBLAÐ Föstudagur 27. janúar 1989

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.