Þjóðviljinn - 25.08.1989, Blaðsíða 14

Þjóðviljinn - 25.08.1989, Blaðsíða 14
I Sigtryggur Baldursson hef- ur barið húðir í nokkrum eftir- tektarverðustu hljómsveitum landsins. Fyrst vakti hann verulega athygli á sér í hljóm- sveitinni Þeyr og var af mörg- um talinn einn besti liðsmaður þeirrarsveitar. Hann spilaði síðan í Kuklinu sem seinna þróuðust yfir í Sykurmolana. Þessi ljóshærði trommuleikari lætur hins vegar ekki mikið á sér bera, miðað við framhlið Syk- urmolanna, Björk og Einar. Við hliðina á Einari eru Sigtryggur og Bragi eins og logn í stormi. Nýtt Helgarblað fékk Sigtrygg til að segja sér upp og ofan af lífi Syk- urmolanna, draumum þeirra væntingum. Sigtryggur var með hugann fastan við rokkhátíðina í Redding á Englandi en þar eru molarnir um þessar mundir. Þeg- ar við höfðum rætt um þá hátíð í stutta stund, spyr ég Sigtrygg hvort hann líti á spilamennsku sína með Sykurmolunum sem hápunkt á sínum ferli. Nei, nei. Ég lít ekki þannig á hlutina. Það bara vill þannig til að þetta band fær miklu meiri at- hygli en önnur sem ég hef verið í, meiri athygli erlendis. Fyrir mig þarf þetta alls ekki að þýða ein- hvern hápunkt á mínum ferli. Aftur á móti eru Sykurmolarn- ir góður punktur á ferlinum og ósköp ánægjulegur, sérstaklega á meðan hann er að gerast. Sagan verður að segja mér til um þetta allt þegar ég er orðinn eldri. Það er ómögulegt að dæma um þetta á meðan hlutirnir eru að gerast. Erf iðara að spila f yrir 100 en 100 þúsund Hver er munurinn að leika með hljómsveit eins og Sykur- molunum sem þeysir um allan, heim og hljómsveit sem spilar bara hér á íslandi? Það er ekki svo mikill munur. Þetta er auðvitað dálítið meira um sig. En samt tók maður hlut- ina alveg jafn alvarlega þegar maður var að spila fyrir 100 manns í Duus húsi. Þetta var jafn mikið mál. Maður verður ekkert stressaðri að spila fyrir 100 þús- und manns, það er oft miklu erf- iðara að spila fyrir 100 manns í Duus húsi. Eina skiptið sem ég hef fengið einhvers konar sviðsskrekk á síð- ustu tveimur árum var á fá- mennum tónleikum í Duus húsi. Þá man ég eftir því að hafa fengið í magann. Maður tekur þetta bara eins og það kemur fyrir. Stressið er oftast mest áður en maður fer inn á sviðið en eftir á er þetta mjög gaman. En hvernig gengur að halda uppi góðum anda á þeirri keyrslu sem Sykurmolarnir eru á, öll í sama bílnum kannski í margar vikur? Við reynum að hafa hlutina ekki þannig. Reynum að eiga okkar einkalíf þegar við viljum. Við þekkjumst það vel að ég held YÐIMORKI að við reynum ómeðvitað að vera ekki alltaf ofan í hvert öðru og virða einkalíf hvers annars þegar við viljum fá að vera í friði, sem er mjög nauðsynlegt á svona ferð- um. Þetta er ekkert vandamál, vegna þess hvað við þekkjumst vel þannig að það verða engin vandamál. Það er alla vega mjög auðvelt að komast hjá þeim. Maður veit nokkurn veginn hvar hætturnar eru, rétt eins og í fjöl- skyldunni. Það eru samt alltaf átök en það er bara gott. Þá finnur maður fyrir því að það sem maður er að gera skiptir einhverju máli og maður er á lífi. Átök hreinsa and- rúmsloftið. Við þurfum að taka geysilega mikið af ákvörðunum, sérstaklega vegna þess að við vilj- um halda utan um allt skipulags- dæmið sjálf. Þetta þýðir að við þurfum að taka ákvarðanir á öllum stigum. Ekki bara í sam- bandi við tónleikaferðalögin, heldur allt. Plötuútgáfa á alþjóðavettvangi er ansi flókiö mál en við heimtum að fá að sjá allt sem er gert og hafa lokaorðið. Ef allt er í lagi, látum við hlutina fara áfram. En stundum þurfum við að taka á- kvarðanir til breytinga og þá þarf oft að miðla málum á milli okkar innbyrðis. Nýja platan inniheldur t.d. 13 lög. Núorðið eru held ég allir sammála um, að við hefðum kannski átt að hafa lögin eitthvað færri, því okkur vantar alltaf lög á sérútgáfur. En ástæðan fyrir því að það eru 13 lög á plötunni er að við þurftum að miðla málum okk- ar á milli. Hvernig sérð þú stöðu Syk- urmolanna í poppheiminum? Eru þeir stórt eða lítið nafn? Velgengnin í poppinu fer svo- lítið framhjá manni. Af því að við kjósum að búa hérna heima, erum við ekki með nefið ofan í poppheiminum sem slíkum. Maður hefur því ekki miklar áhyggjur af þessu, hversu stór við erum. En það hefur samt komið mér á óvart hvað við erum þekkt, aðallega á meðal skólakrakka og krakka almennt. Sérstaklega í Bandaríkjunum, sem eru rosa- lega stórt svæði. En eini mælikvarðinn sem maður hefur á þetta er annars vegar plötusala og hins vegar hvað er sett á oddinn í blöðunum, hverjir fá mikla athygli. Þó hljómsveit selji mikið af plötum þarf hún ekki að fá mikla athygli í blöðum, þannig að þú getur metið þetta á nokkrum vettvöng- um. Síðan er hægt að meta þetta út frá því hvar þér er raðað niður á rokkhátíðum. Vilja skipuleggj- endur hafa mann síðastan, í miðj- unni eða fyrstan? Núna spilum við næst sfðastir á undan New Order á Redding, af kannski 7-8 böndum yfir daginn. Þetta getur sagt manni heil mikið. Á síðasta Bandaríkjatúr feng- um við að velja hvort við vildum vera fyrst eða númer tvö á undan New Order. Við kusum að vera fyrst. Ég held að það hafi virkað. Bókunaraðilinn okkar í Banda- ríkjunum er ansi góður, hann sér um að bóka okkar tónleikaferðir og menn þurfa að hafa góða til- finningu fyrir þessu, hversu stóra staði er verið að bóka á og svo framvegis. Hann sagði okkur að það væri taktískt mjög gott að vera fyrstir, þó eðlilegast hefði verið að Sykurmolarnir væru númer tvö þar sem við höfum selt fleiri plötur í Bandaríkjunum en Pil, sem mér fannst mjög skrýtið þegar ég heyrði það. Það hefði verið mjög asnalegt að spila á eftir John Lydon, alla vega fyrir okkur strákana í band- inu. Eg veit ekki hvað Björk finnst um það. En það hefði jafnvel verið óþægilegt fyrir okk- ur strákana. Það er erfiðast að spila fyrst og meiri ögrun. Þá er maður að spila á meðan áheyrendur eru að koma inn og það þarf að ná athyglinni, enginn meðalvegur þar. Við vorum líka eina bandið sem spilaði í dags- birtu, þannig að þetta varð lang erfiðasta hlutskiptið. Ekki hægt að fela sig á bakvið neitt sjóf. En þetta hentaði okkur ágæt- lega. Eg held að við höfum verið lang berust. Public Image var með dálítið sjóf. En tónlistin okkar er tiltölulega ber. Og okk- ur gekk mjög vel að ná sambandi við áheyrendur. Ég held að ferð- in hafi virkað mjög vel, alveg eins og við hugsuðum hana. Óli Gaukur nýj- asti molinn Nýja platan hefur verið nokk- urn tíma í smíðum. Voru vinnu- brögðin mikið öðruvísi en á síð- ustu plötu? Já. Við ætluðum að rumpa henni af, taka hana upp í einum slump. Það átti að taka hana upp og hljóðblanda hérna heima í janúar og fram í febrúar. En við Iærðum ansi mikið á þessu og þeir sem voru að vinna með okkur. Miðað við þau gæði sem við ætl- uðum að hafa varð að vinna þetta öðruvísi og upptökur stóðu alveg fram í mars. Meirihlutinn var tví eða þrí hljóðblandaður, við vor- um aldrei alveg ánægð með þetta. Svo bættist náttúrlega hljóm- borðið við og það flækti málið. Það var nokkrum röddum bætt við úti og svo má ekki gleyma blæstrinum og strengjunum sem voru líka teknir upp í London. Óli Gaukur útsetti dýrðarblástur í fyrsta laginu á A-hliðinni og á skilið mikið lof fyrir. Þeir voru mikið hrifnir af þessum útsetn- ingum drengirnir sem spiluðu þetta úti, en þeir eru atvinnublás- arar sem hafa spilað með hinum og þessum frægum. Platan verður gefin út á ís- lensku um allan heim. Þetta er trúboð, þetta er orðið trúboð líka, að dreifa gullaldarmálinu. Nei, nei við seljum miklu fleiri plötur út á þetta, fáum meiri og meiri peninga. Mestu aðdáend- urnir kaupa allar útgáfur af hverri plötu. Við fengum nokkur bréf að utan eftir að „Life's too good" kom út. Umslagið var í sex litum og nokkrir harðir aðdáendur skrifuðu okkur og kvörtuðu undan því að þurfa að kaupa sex plötur, það væri full mikið af hinu góða. Þetta fannst mér helvíti gott. Hvernig tóku Bandaríkjamenn nýja efninu? Þið hafið ekki keyrt það mikið annars staðar? Jú og nei. Við prófuðum slatta af því í Evrópu síðast liðið haust og það reyndist mjög vel. Ég sá tvo slæma dóma á síðastaBanda- ríkjatúr. Maður reynir að fylgjast með pressunni, verandi gamall pressuhundur sjálfur. Annar dómurinn var í „San Fransico Herald" og meira að segja Dag- blaðið var nægilega sniðugt að taka hann upp snarlega. En þeir á Dagblaðinu hafa verið mjög lipr- ir við að leita uppi vonda dóma um okkur og það er gott að einT hver sér um þá deild. Ég er mjög þakklátur þeim fyrir þetta. Ég sá slatta af öðrum dómum sem voru yfirleitt mjög góðir. Það sannaði fyrir mér að það hefði verið rétt að spila fyrst. Því hin böndin fengu smá spark. Við vorum líka lang yngsta bandið og erum að gera nýjustu hlutina, þannig séð. Við höfðum því margt með okkur. En það gladdi mig þegar „Los Angeles Times", minnir mig, sagði að hápunktur- inn í okkar prógrammi hefðu ver- ið lög sem þeir höfðu aldrei heyrt áður. Það er gott þegar lög sem fólk hefur ekki heyrt áður ná að standa upp úr. Annars tóku Bandaríkjamenn okkur yfirleitt vel. Þetta eru nátt- úrlega allra þjóða andskotar, eins og gamla konan sagði. Þetta er skrautlegur lýður sem byggir þetta land og afskaplega erfitt að alhæfa mikið um þá. Blessuð hé- gómagirnin Slagorð Smekkleysu, „heims- yfirráð eða dauði", lætur manni detta í hug göfug markmið eins og auð og frama. Já, eða: humar eða frægð. Er það eitthvað sem þú stefnir að? Blessuð hégómagirnin. Það er mjög erfitt að gera sér grein fyrir því að hvaða marki hún er ein- hver drifkraftur. Ég reyni að halda henni í skefjum, annars hefði maður löngu áður en þetta slys gerðist með Sykurmolana, verið farinn út í eitthvert glys- popp. Þó Sykurmolarnir eigi að: vera mesta glyspopp sem tiler. I En ég ætla ekki að neita því að hégómagirnin hlýtur að vera þarna einhvers staðar. Það hlýtur' að vera þannig með alla sem eru að setja sig á svið, að hégóma- girnin drífur þá áfram að ein- hverju marki. Fólk fer bara mis skemmtilega með hana, held ég. Hvað sjálfan mig varðar hef ég örugglega alltaf verið með ein- hvers konar upptroðslu kom- plexa. Og við höldum því alltaf fram að við séum besta band í heimi og svo má leggja hvaða merkingu sem er í það. Bragi sagðist hafa lært það f Verslunarskólanum að vilji væri allt sem þyrfti. Hann snéri síðan skemmtilega út úr þessu og sagð- ist ekkert vera þurfandi. Óskarðu þess stundum að þú værir að gera eitthvað annað en að spila með Sykurmolunum? Já, já það kemur fyrir alla held ég alls staðar, þegar menn eru kannski búnir að vera að setja niður plöntur óralengi í rigningu. Það hefur alla vega komið fyrir mig. Mig hefur langað til að vera einhvers staðar allt annars stað- ar. Þessi tónleikaþvælingur getur verið mjög þreytandi. Að lifa eins og farandsölumaður í marga mánuði er ekkert heillandi. Það fer af þessu glamúrinn svolítið. Maður lítur bara þannig á þetta að maður sé á vertíð. Við erum bara sjómenn. Við köllum þetta annars „veg- avinnu". Við erum í vegavinn- unni þegar við erum á tónleika- ferðalögum, það er ágætis ís- lenskun á „on the road". Þetta er ekki hálft eins glamúrus og mað- ur hélt. Þetta hefur náttúrlega sínar jákvæðu hliðar og er oft mjög gaman, fer aðallega eftir skapinu sem maður er í. Það kemur auðvitað eitt og annað upp á sem kryddar tilver- una? Já. En það er með skemmti- legar uppákomur eins og að fara inn í stórar plötuverslanir í stór- borgum, maður man aldrei hvað átti að kaupa, nema maður hafi skrifað lista kvöldið áður. Ég man frekar eftir því skemmtilega sem gerist en því leiðinlega...jú, við fundum Ópal á trukkastoppi einhvers staðar í eyðimörkinni, þegar við vorum á leiðinni frá Salt Lake City til Denver, minnir mig. Ægileg keyrsla. Yfirleitt ferðuðumst við með flugi, en snemma í ferðinni kusu sum okk- ar að ferðast frekar með rútu, þó ferðirnar yrðu oft 12-14 tímar. Það er oft miklu skemmtilegra að ferðast með rútu en að vera á þessum flugvallarþeytingi, sem er ákaflega leiðinlegur. Þannig sá maður líka meira af Bandaríkj- unum. Borgirnar eru líka stundum hundleiðinlegar. Sérstaklega þegar maður stoppar mjög stutt og hefur engan tíma til að skoða þær, heldur veður bara borg úr borg í borg, maður verður hálf þreyttur á borgum. Þá er oft miklu meira gaman að skoða litlu trukkastaðina. Og á einum slík- um fann Þór Ópal og á bakinu á pakkanum var skrifað að þetta væri „ Afrodisiac" og „Breath fre- hcner" eða kynörvandi lyf og andfrískandi, andremmu- hreinsandi lyf væntanlega, frá ís- landi. Svo ég vitni beint í pakk- ann: „Cherished by drinkers and lovers world over", þetta fannst okkur mjög gott og þessi pakki var í miklum hávegum hafður restina af ferðinni. Svo er allt fólkið sem maður hittir. Bandaríkin eru æðislegur dýragarður og þegar maður ferð- 14 SÍÐA - NÝTT HELGARBLAÐ Föstudagur 25. ágúst 1989

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.