Árbók Landsbókasafns Íslands - 01.01.1975, Page 121
HORFUR í AMERÍSKUM BÓKASAFNAMÁLUM
121
varðveizlu mikilla safna frá löngu horfinni tíð. Við höfum því einbeitt okkur að not-
endum safnanna engu síður en bókunum og enn meir að þeim upplýsingum, sem leitað
var eftir, en þeim söfnum, sem geymdu þær. Við eigum þess vegna líklega auðveldara
með að hugsa okkur söfn án svokallaðra bóka (gagnabanka) eða vélar sem tæki til
að miðla upplýsingum.
En því aðeins nýtist að nýjungum véltækninnar eða hvaða ráðabreytni sem er í
bókasafnaþjónustu, að ekki bregðist það gamla krosstré: starfslið safnanna. Eigi nýj-
ar aðferðir að ná fram að ganga, þurfa menn endurmenntunar við og nýs viðbúnaðar,
auk þess sem viðhorf þeirra hljóta að breytast. Bókvarðaskólarnir eru þegar farnir
að laga sig að þessu með því að gera upplýsingaþáttinn miklu gildari en hann hefur
verið í bókavarðamenntuninni. Margir skólanna leggja nú minni áherzlu á bókina,
safnið, fræðimennskuna en tíðkazt hefur í kennslunni til þessa, en hverfa í staðinn að
námsefni, þar sem miðlun þekkingar situr í fyrirúmi. Bókasöfn skólanna höfðu þegar
gengið á undan og kennt sig við hið breytta hlutverk (School Media Centers) og starfs-
menn þeirra á sama hátt (Media Specialists). Einn bókavarðaskóli hefur þegar sleppt
bóka-liðnum úr nafni sínu og heitir nú framvegis: School of Communication Studies
(þ. e. skóli, þar sem lögð er stund á hvers konar miðlun þekkingar). Margir aðrir hafa
bætt við heiti sitt orðum sem Information Science (upplýsingavísindi) til þess að
vekja almenna athygli á hinum breyttu viðhorfum. Áður urðu allir nemendur að
sækja eitt námskeið í sögu bóka, prentlistar og safna, en nú er þetta orðin valgrein í
flestum skólum. Fyrrum var bókavörðum talið skylt að kunna a. m. k. eitt erlent
tungumál, en nú er talið jafngilt að kunna skil á vélmáli. Meiri stærðfræðiþekking er
nú sett sem skilyrði fyrir inngöngu, og nám í tölfræði er nú iðulega tekið við í stað
náms í sagnfræðilegum eða bókmenntasögulegum rannsóknaraðferðum, er fyrrum var
mjög vinsælt. Ætla verður, að þeir, sem brautskrást frá slíkum skólum nú á dögum,
fái ráðið við hin nýju verkefni án þess að verða að gjalti, ekki sízt þegar litið er á þá
menntun, sem þeir öðlast, og lífsreynslu núlifandi kynslóðar, sem gengur að útvarpi,
kvikmyndum og sjónvarpi eins og mat sínum og snýr sér síðan að bókunum (en ekki
öfugt eins og er um mína kynslóð). Hitt vitum við svo ekki enn, hvað kann að hafa
tapazt, þegar þessar róttæku breytingar verða á orðnar.
Það hefur ennfremur gerzt ekki alls fyrir löngu á sviði bókavarðamenntunar, að
fallizt hefur verið á, að stöður í safni hljóti að vera misjafnlega ábyrgðarmiklar, eigi
það að veita góða þjónustu, og búa verði menn undir þær á misjafnlega rækilegan
hátt. Ameríska bókavarðafélagið viðurkennir tvo flokka aðstoðarmanna í söfnum -
tæknimenn og aðstoðarbókaverði - en af þeim er ekki krafizt eins árs eða lengra fram-
haldsnáms í háskóla eins og þeim, er gegna ábyrgðarmeiri safnstöðum og rétt hafa til
að nefnast bókaverðir. I þeim greinarmun, sem þannig er gerður á háttbundnum
störfum og kunnáttu - en hvorugs verður án verið í daglegum rekstri bókasafna - og
þeirri vinnu, sem verja verður til skipulagningar, samræmingar, til þess að vega og
meta úrræði og reyna nýjungar í söfnum, ætli þau að laga sig að breyttum þjóðfélags-
háttum, eru fólgnar vísbendingar um framtíð bókasafna og bókavarðamenntunar.