Frjáls verslun - 01.12.1991, Blaðsíða 66
BREF FRA UTGEFANDA
HEFJA ÞARF
NÝJA SÓKN
Við tímamót eins og áramót geía menn sér gjarnan
tilefni til þess að gera tvennt í senn. Horfa til baka til
liðins tíma og reyna að skyggnast fram á við og inn í
framtíðina. Hið liðna er þekkt, þótt oft sé erfitt að meta
áhrif þess sem gerst hefur. Enginn getur hins vegar séð
hvernig hið ókomna verður; það eina sem unnt er að gera
er að leiða af líkum og jafnvel þar er oftast erfitt um vik.
Aðstæður eru skjótar að breytast og það sem engum óaði
fyrir að gæti gerst er fyrr en varir orðið að staðreynd. Um
slíkt eru ótal dæmi, en það sem er ef till vill nærtækast
eru þær gífurlegu þjóðlífsbreytingar sem orðið hafa á
skömmum tíma í Sovétríkjunum og raunar í gjörvöllum
hinum sósíaliska heimi. Hver hefði t.d. látið sér detta það
í hug fyrir svo sem eins og fimm árum að á árinu 1991 væri
hið öfluga sovéska heimsveldi að líða undir lok í þeirri
mynd sem þá þekktist.
Ég hef stundum áður fjallað um það í þessum pislum
mínum í Frjálsri verslun hversu einkennilegt það sé að á
sama tíma og kerfissósíalisminn er að falla hvarvetna í
heiminum og þyki úrelt stjórnskipulag, þá höfum við fs-
lendingar verið að taka skref í átt til þessa sama kerfis.
Þau skref hafa raunar verið stigin svo hljóðlaust að fáir
hafa tekið eftir því hver kúrsinn var. Það er kannski fyrst
núna þegar í ljós kemur að við höfum hreinlega ekki efni á
svo viðamiklu kerfi og kannski ekki möguleika lengur á
erlendum lánum til þess að fjármagna það að augu manna
eru að opnast. Og því miður virðist það staðreynd, sem
raunar er þekkt alls staðar að úr heiminum, að þegar búið
er að koma einhverju ákveðnu kerfi eða svokallaðri þjón-
ustu á, er það hægara sagt en gert að afnema hana. Þá eru
komnir til ótal aðilar sem telja að sér vegið og verja
vitanlega hagsmuni sína með kjafti og klóm.
Ekki er hægt að segja að mikil bjartsýni sé ríkjandi í
íslensku þjóðlífi og efnahagslífi um þessi áramót. Séð er
fram á minnkandi þjóðarframleiðslu og þar af leiðandi
samdrátt í atvinnulífinu og minnkandi kaupmátt almenn-
ings. íslendingar hafa oft lifað slíka tíma áður, enda má
segja að það sé ekki óeðlilegt þegar búið er við svo ein-
hæfa undirstöðu sem við gerum. Við erum og verðum
greinilega um nána framtíð háð því sem fæst úr sjónum og
það er gömul og ný staðreynd að svikull er sjávarafli. Það
eru líka orðin þjóðareinkenni Islendinga að þegar illa
horfir þá fyllast menn gjarnan bölmóði og sjá ekkert nema
svartnætti framundan. Slíkt hefur vitanlega víðtæk áhrif
og rnagnar í raun erfiðleikana og gerir öldudalinn dýpri.
Stjórnvöld ganga jafnan í fylkingarbrjósti á þessum vett-
vangi enda er það ljós staðreynd að af þeirra hálfu er lítið
gert til þess að reyna að jafna út þær sveiflur í efnahagslíf-
inu sem verða með ákveðnu millibili. Þannig hefur það
viðgengist lengi að þegar þensla er í efnahagslífinu og allt
gengur vel, þá hafa opinberar framkvæmdir og umsvif
verið aukin en þegar kreppir að þá hefur hið opinbera
gengið á undan við að skera niður framkvæmdir, mest
vegna þess að þá fer enn stærri hluti hins mikla fjármagns
sem hið opinbera tekur til sín beint í reksturinn.
Þótt það sé ómótmælanlegt að ekki horfir vel um þessi
áramót er engin ástæða til þess að fyllast bölmóði eða
svartsýni. Við höfum fyrr unnið okkur út úr erfiðleikum
sem voru jafnvel miklu meiri en þeir eru núna. Aðal-
atriðið er að reynt sé að hefja nýja sókn og nýja leit eftir
tækifærum. Okkur fslendingum hættir mjög oft til þess að
tíunda að möguleikar okkar hljóti að vera miklir á þessu
eða hinu sviðinu en síðan verður minna um framkvæmdir.
Nú blasa til að mynda ýmsir möguleikar við í tengslum við
þær breytingar sem eru fyrirsjáanlegir á efnahagskerfi
Evrópu. Við þurfum að nýta okkur þá. Og það er hlutverk
stjórnvalda að hafa forystu, kynna mönnum ítarlega í
hverju möguleikarnir felast, hafa frumkvæði og veita at-
vinnulífinu nauðsynlegan stuðning. Það gæti verið fyrsti
þátturinn í nýrri sókn til meiri verðmætasköpunar og
bættrar afkomu í landinu.
Að lokum árna ég öllum lesendum Frjálsrar verslunar
heilla á nýju ári og þakka samfylgd á liðnum árum.
66