Lesbók Morgunblaðsins - 24.10.1998, Blaðsíða 15

Lesbók Morgunblaðsins - 24.10.1998, Blaðsíða 15
lenskir menn lögðu til þessa máls. Hitt getum við fullyrt að nor- rænir menn voru þar að verki. Norrænt tækniafrek Norrænt þjóðerni landnámsmanna Grænlands og Vínlands er þó einkum meginatriði málsins af því að kunnáttan sem þurfti til að sigla yfir Norður-Atlantshaf með nægilegri vissu um að kom- ast á fyrirfram ákveðinn stað var hvorki íslensk né grænlensk heldur umfram allt norræn. Um þetta lendir Guðmundur Hansen í átakanlegri mótsögn í grein sinni. Annars vegar leiðréttir hann mig um að norrænir menn hafí uppgötvað Norður-Ameríku, en bætir við: „rétt er hins vegar að segja að norrænir menn hafi fundið og numið Island." Hins vegar hefur hann eftir Jóni Dúasyni að íslendingar hafi ver- ið „fyrsta þjóðin sem lagði stund á úthafssiglingar, fyrsta hafsigl- ingaþjóðin ..." Jafnframt kallar hann Sigurð Líndal til vitnis um þessa staðhæfmgu. Sé flett upp á tilvitnuðum stað hjá Sigurði kemur í ljós að Guðmundur hefur rangt eftir honum. Sigurður hefur þessi orð ekki um íslendinga, heldur um landnámsmenn ís- lands,14 og þeir geta ekki með nokkru móti hafa verið íslendingar fyrr en þeir voru komnir yfir til íslands, með þeirri siglingatækni sem til þess þurfti. Sú tækni var frekar meiri en minni en sú sem þurfti til þess að sigla frá íslandi til Grænlands eða frá Grænlandi til meginlands Norður-Ameríku, því að lengsta leiðin sem óhjá- kvæmilegt er að fara um opið úthaf þar sem ekki sést til landa, mun vera á milli Færeyja og íslands (ef farið er um Hjaltland). Við komumst því ekki framhjá því að úthafssiglingatæknin og áræðið að leggja í opið haf urðu til meðal fólks sem bjó á landi sem nú er hluti Noregs, hvernig sem það fólk hefur kennt sig til þjóðernis þegar það var að smíða úthafsskip sín og ýta frá landi. Það eina sem við getum fullyrt er að það hafi verið norrænt fólk, í víðari merkingu þess orðs. Einhverjum kynni að detta í hug að bjarga siglingaafrekinu handa okkur íslendingum með því að segja að afreksmennirnir hafi orðið íslendingar eftir að þeir komust yfir, og því hafi snilld þeirra erfst til íslendinga en ekki Norðmanna. En þá erum við gengin í gildru, því að við verðum þá að beita sömu reglu um land- námsmenn Grænlands, Eirík rauða og Leif son hans. Þeir hætta þá að vera íslenskir um leið og þeir taka sig upp frá íslandi. Og afrekin að byggja Grænland og finna og kanna Norður-Ameríku reynast varla eiga sér neina núlifandi erfingja, nema við látum þau erfast ásamt landinu til Inúítaþjóðarinnar sem nú byggir Grænland. Hvor leiðin sem farin er, er hætta á að við íslendingar sitjum uppi slyppir og snauðir, dettum niður á milli þeirra sem hófu úthafssiglingarnar og þeirra sem stigu fyrstir hvítum fótum á landið sem nú þykir einna vænlegast til túristaveiða. Jafnvel frá hreinu þjóðarhagsmunasjónarmiði okkar reynist vænlegra að kalla afrekið norrænt og vera þátttakendur í því sem hluti nor- rænna þjóða. Um þjóðarstolt Það er svosem ekkert röklegt við þjóðarstolt. Það er ekki sennilegt að við séum hóti betri þótt við séum komin af fólki sem vann einhver tiltekin afrek fyrir þúsund árum. Ekki frekar en við flest erum nokkru betri þó að einhverjum ellefu löndum okkar gangi vel að sparka bolta í mark, eða íslensk stúlka stökkvi hátt á stðng, eða önnur spili vel á fiðlu. Að minnsta kosti, ef við höldum að þessi afrek sanni í rauninni að við séum betri en við værum annars, þá leiðir það okkur inn á kynþáttahyggju sem við viljum fæst beita fyrir okkur. Samt sé ég enga ástæðu til að vera á móti þjóðarstolti. Það er eins og hver önnur tilfinning sem hjálpar til að gera tilveruna svo- lítið litríkari og skemmtilegri en ella og á vafalaust sinn þátt í að halda samfélaginu saman. Stundum kann að vera að það magni árásargirnd samfélaga, en þannig er það einatt með tilfinningar, þær geta verið hættulegar ef þær ofhitna. Ég sé þess vegna ekkert athugavert við að við íslendingar sé- um stoltir af því að landar okkar á 13. öld skrifuðu sögur sem enn teljast sígildur menningararfur. Mér finnst heldur ekkert að því að við höldum því á loft með nokkru stolti að maðurinn sem stýrði fyrstur Evrópumanna könnunarleiðangri um strönd Norður-Am- eríku var að öllum líkindum fæddur á íslandi, og við getum með þokkalegum líkum bent á fæðingarstað hans. Jafnvel má halda því fram að það sé menningarhlutverk okkar íslendinga að láta bera á þessu, því að þannig leggjum við okkar skerf af mörkum til að gera menningararf heimsins svolítið ríkari og skemmtilegri. Við megum jafnvel skammast okkar svolítið fyrir að hafa látið Ei- ríksstaði í Haukadal liggja grafna og gleymda heiminum þangað til nú. Hins vegar eru þjóðarafrek sem slík ekkert hátt skrifuð í heim- inum um þessar mundir. Það er búið að framleiða slík firn af fólsuðum afreksverkum þjóða, einkum síðustu tvær aldirnar, að maður þarf að hafa afar sterkan og auðskilinn málstað til að geta haldið því fram við heiminn að við séum að sýna honum þjóðernis- legan góðmálm. Það orkar barnalega í samfélagi þjóða nú að karpa við aðrar þjóðir um þjóðarafrek á hæpnum forsendum og beita hundalógík til þess að heimfæra söguleg afrek upp á eigin þjóð. Og verst af öllu fer smáþjóð eins og Islendingum sjálfsmynd útþensluþjóðarinnar, imperialistans, sem Jón Dúason og fleiri menn á fyrri helmingi 20. aldar reyndu að gefa henni með áróðri sínum um að íslendingum bæri réttur til Grænlands. Heimildir: 1 [Gizur Bergsteinsson:] Álit nefndar, er skipuð var til rannsóknar á því, hvort ísland muni eiga réttarkröfur til Grænlands (Rv. 1952). 2 Grágás. Lagasafn Islenska þjóðveldisins. Gunnar Karlsson, Kristján Sveins- son, Mörður Arnason sáu um útgáfuna (Rv., Mál og menning, 1992), 53. 3 Grágás (1992), 66. 4 Grágás (1992), 271. 6 Ólafur Lárusson: „Réttarstaða Grænlands að fornu." Andvari IL (1924), 59. c Kirsten Hastrup: „Defining a Society: The Icelandic Free State between two worlds." Scandinavian Studies LVI (1984), 237-39. 7 Grágás (1992), 239. Fleiri dæmi eru í Grágás (1992), 55,240,371. 8 Grágas (1992), 55-56. 9Grágás(1992), 150. 10 Grágás (1992), 40. 11 Gunnar Karlsson: „Upphaf þjóðar á íslandi." Saga og kirkja. Afmælisrit Magnúsar Más Lárussonar (Rv., Sögufélag, 1988), 29- 30. 12 íslenzk fornrit XXVII. Heimskringla II (Rv., Hið ísl. fornritafélag, 1945), 91. 13 Johan Fritzner: Ordbog over Det gamle norske Sprog II. Omarbeidet, foraget og forbedret Udgave (Kristiania, Den norske Forlagsforening, 1891), 836. 14 Sigurður Líndal: „ísland og umheimurinn." Saga íslands I (Rv., Hið ísl. bók- menntafélag, 1974), 201. Höfundurinn er prófessor við Háskóla íslands. ÍBÚÐARHÚSIN í Kirchsteigfeld sem arkitektinn Rob Krier frá Lúxemborg hefur hannað. NÝTT ÍBÚÐAHVERFI BERLÍN-POTSDAM EFTIR EINAR ÞORSTEIN ÁSGEIRSSON Idag er ekki aðeins verið að byggja upp miðborgina í Berlín af mikilli framsýni heldur er verið að reisa nokkur íbúðahverfi í jaðri borgarinn- ar. Þessi starfsemi er ekki síst tilkomin vegna þess að fyrir árið 2000 á stjórn- sýslan öll að vera flutt frá Bonn til Berlínar. Og endaþótt enn séu um 1300 lóðir óbyggðar inní Berlín þar sem reisa mætti um 200 þúsund íbúðir, þá eru svo margar af þeim ófrágengnar hvað varð- ar eignarrétt á þeim að jarðarsvæðin verða ákjósanlegri. I Kirchsteigfeld er búið að reisa mestanhluta þeirra 2800 íbúða fyrir 7500 íbúa, sem þar eru skipulagðar. Þar af eru 2000 félagslegar íbúðir en 800 einkaíbúðir. En auk þess er enn óbyggt atvinnusvæði í sama hverfi með pláss fyrir um 5000 vinnustaði. Aðalskipuleggjandi hverfisins er lúxemborgski arkitektinn Rob Krier. Hann lagði þarna drögin að heilli og samfelldri borg, sem nú eftir tveggja ára byggingu og eftir að meginhluti íbúðanna hefur verið tekinn í notkun lítur frekar út fyrir að hafa vaxið þarna á 25 árum. Ahrifin á staðnum koma sannarlega á óvart, því þarna er farið alveg nýja leið í útlitsgerð nýs hverfis. Sem dæmi um það má nefna að alls hafa 30 arkitekta- og verkfræðistofur alls staðar að úr Evrópu séð um teikn- ingu húsanna sem þarna eru komin. Litagleðin í útliti húsanna er mikil, sem m.a. verður til þess að bílarnir utan við húsin bera ekki hverfið ofurliði. Hvar sem er í byggðinni eru mismunandi formuð torg, þannig að fólk ratar vel um hverfið. Þetta er ólíkt vejulegum arkitektahverfum þar sem lögð er áhersla á að allt sé eins „til að ná heild- rænum svip". Mikil áhersla er að nota gömul for- melement í gerð þessara nýju húsa: Hornturna, súlnaganga, terrössur, inni- garða, þakíbúðir, út- og innskot. Rob Krier, sem er einnig þekktur sem listmálari og myndhöggvari, segist hafa haft að leiðarljósi að gefa íbúunum „meðvitund þess að vera heima". Nokk- ur listaverk eftir hann auk húsa eru á víð og dreif í hvefinu. En arkitektúr- gagnrýnendum finnst þó að hverfin hans verði of skrautleg og „sæt". Minni á Lególand. Þetta er raunar gamalt deilumál um það fyrir hvern er verið að vinna: Listina eða fólkið. Og félagsfræðingar frá Berlín hafa þegar verið þarna á ferðinni og niður- staðan er sú að ánægja íbúanna er langt yfir landsmeðaltali í nýjum hverfum. Það er því alveg óhætt að mæla með heimsókn arkitekta og byggingarmanna sveitarfélaganna í þetta hverfi. Höfundurinn er hönnuður. LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ~ MENNING/LISTIR 24. OKTÓBER 1998 15

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.