Alþýðublaðið - 14.03.1987, Qupperneq 8
8
Laugardagur 14. mars 1987
Víma óuar
_ _ a Guðmundsson
og fangelsi s;:;;
Tilgangur
fangelsisvistar
Á íslandi eru rekin tvö aðalfang-
elsi fyrir refsivistarfanga, Litla-
Hraun og Kvíabryggja. Auk þess
sitja menn um lengri eða skemmri
tíma í gæslu á Skólavörðustígnum
eða í Síðumúlanum og nokkrir
fangar eru í fangelsinu á Akureyri.
Tíðni afbrota og dóma hefur aukist
á seinni árum og þá sérstaklega
málum sem á einhvern hátt tengjast
ávana og fíkniefnabrotum. Á þess-
ari stundu munu 90 manns gista
fangelsi landsmanna, sumir um
skamman tíma en aðrir eiga eftir að
vera í fangelsum um nokkurra ára
skeið. Tilgangur refsivistar er eink-
um tvenns konar, þ.e. fangelsunum
er annars vegar ætlað að vernda
þjóðfélagið og skattborgarana fyrir
þeim einstaklingum sem aðhafast
refsivert athæfi og hins vegar að
gera fangana að betri mönnum,
sem eru hæfari en áður að lifa í nú-
tímaþjóðfélagi á heiðvirðan hátt.
Mörg brot framin í
ölœöi
Mikill meirihluti íslenskra refsi-
fanga er háður áfengi og öðrum
vímuefnum og margir hafa verið í
áfengismeðferðum en ekki tekist að
fóta sig á hálum vegum eðlilegs lífs.
Það er ekki vitað hversu stór þessi
hluti er, en nefndar hafa verið tölur
eins og 75—90% í þessu sambandi.
íslenskir brotamenn lenda yfirleitt
á glapstigum í sambandi við neyslu
áfengis eða annarra vímuefna, fjár-
magna neyslu með innbrotum eða
ávísanafölsunum, lenda í líkams-
meiðingum eða morðum ölvaðir,
stela bílum á fylleríum og svona
mætti lengi telja. Aðalatriðið er, að
harðsvíraðir glæpamenn, sem
fremja afbrot sín annaðhvort ein-
ungis í auðgunarskyni eða af
hreinni fúlmennsku eru sem betur
fer sjaldséðir I þessu landi. Flestir
þeirra sem á seinni árum hafa feng-
ið dóma í ávana og fíkniefnamálum
fyrir annaðhvort innflutning eða
sölu og dreifingu eru háðir efnun-
um sem þeir hafa verið að fást við.
Vítahringur
brotamanna
Stór hluti brotanna er tengdur
neyslu áfengis eða annarra vímu-
efna og menn sitja af sér mislangan
fangelsisdóm vegna þeirra. Þegar út
er komið er áframhaldandi neysla
áfengis og annarra vímuefna aðal-
vandamál þessara einstaklinga.
Oftar en ekki koma þessir menn úr
fangelsunum fullir af góðum
áformum en lenda fljótlega á
fylleríi og eru þá áður en auga á
þeim festir komnir útí innbrot og
ávísanafals á nýjan leik og aftur
austur fyrir fjall fyrr en þá óraði
fyrir. Þegar út er komið á nýjan leik
endurtekur sig sama saga og þannig
verða menn oft síbrotamenn í ís-
lensku þjóðfélagi. Ef þeir sem setið
hafa í fangelsum vegna ávana- og
fíkniefnabrota hætta ekki allri
neyslu fara þeir fljótlega aftur á
stúfana og taka til við innflutning
og sölu á nýjan leik, því að þeir vita
að þar eru peningar, sem á þarf að
halda til að fjármagna neysluna.
Aðalvandi
refsifangans
Það er gífurlega þýðingarmikið
að gera sér grein fyrir þessu aðal-
vandamáli íslenskra refsifanga og í
raun verða engin vandamál þeirra
leyst af einhverju viti, nema það
takist að halda þeim frá áfengi og
öðrum vímuefnum. Það má leysa
húsnæðisvanda þessara manna, út-
vega þeim vinnu, leysa ósköpin öll
af félagslegum vanda en haldi þeir
áfram að drekka er þetta allt unnið
fyrir gýg og til lítils. Gengi þeirra í
þjóðfélaginu utan múranna er und-
ir því komið hvernig tekst að halda
sér frá áfengi og öðrum vímuefn-
um.
Neysla í fangelsunum
Það er því mjög mikilvægt að
nota refsivistina til að fást við þetta
aðalvandamál þeirra þ.e. alkóhól-
ismann og á sama tíma sjá til þess
að engin neysla ávana- eða fíkni-
efna fari fram í fangelsunum. Ef
slík neysla fær að blómstra innan
veggja fangelsanna hefur sá hluti
refsivistarinnar að reyna að gera
fangana að betri þjóðfélagsþegnum
mistekist hrapallega. Það er öruggt,
að fangi sem er í neyslu meðan á
vistuninni stendur heldur neyslunni
áfram þegar útí lífið er komið og
áður en varir hefur sama gamla af-
brotasagan endurtekið sig einu
sinni enn. Það er erfitt að meta,
hversu mikil vímuefnaneysla fer
fram í íslenskum fangelsum en
sennilegast er hún þó nokkur, eða
svo segja mér heimildarmenn minir
úr hópi fyrrverandi fanga. Aðallega
er smyglað inn fyrir veggina kanna-
bisefnum og róandi lyfjum og hef-
ur reynst erfitt að stemma stigu við
því. I þessu sambandi má nefna, að
fá efni eru eins skaðleg fyrir minni,
ályktunargáfu og almennan áhuga
og kannabis og róandi lyf. Neyt-
endur þessara efna eru mjög áhuga-
Iitlir um allt, nenna fáu og reyna Iít-
ið að skoða það sem betur mætti
fara. Það er mjög alvarlegt mál, að
neysla vímuefna skuli geta viðgeng-
ist inni í fangelsunum, en erfitt er
við slíkt að fást. Þessi neysla og til-
vist vímuefna innan veggja fangels-
anna hefur mjög skaðleg áhrif á
fangana og virkar niðurdrepandi á
þá.
AA-deildir í
fangelsum
Fangarnir hafa reynt að spyrna
við fæti og berjast gegn vímuefna-
neyslu innan fangelsanna og styrkja
sig fyrir framtíðina og starfrækja
AA-deildir, þar sem þeir ræða þessi
mál og reyna að hjálpa hver öðrum.
Það er ákaflega mismunandi hversu
mikil þátttaka er í AA-starfinu inn-
an fangelsanna. Yfirleitt er þó hægt
að meta áhuga fanganna á veruleg-
um breytingum í eigin lífi eftir því
hversu mikið þeir starfa í AA-deild-
unum. Þeir sem starfa í AA innan
fangelsanna hafa mun betri grund-
völl til að standa á þegar út í lífið er
komið.
Fyrirlestrar og fundir
Ég tel, að leggja eigi mun meira
uppúr því að styrkja fangana í
þeirri viðleitni sinni að lifa edrú lífi
en nú er gert. Sú fyrirbyggjandi
starfsemi sem fram fer innan veggja
fangelsanna núna ájsessu sviði er,
að starfsmenn frá SÁÁ fara nokkr-
um sinnum á ári í sjálfboðavinnu
með fyrirlestra og auk þess fá fang-
arnir utanaðkomandi aðstoð frá
AA-mönnum til að halda AA-
deildunum gangandi. Oft er reynt
að taka fanga beint inná meðferðar-
stofnanir annaðhvort eftir að þeir
koma eða áður en þeir fara í úttekt
til að aðstoða þá á því erfiða skeiði
sem í hönd fer. En betur má ef duga
skal.
Deildaskipt fangelsi
Það verður að taka þetta vanda-
mál mjög föstum tökum í samráði
við fangana sjálfa, en flestir þeirra
gera sér grein fyrir þvi að áfengis-
vandinn er aðalmálið þegar út er
komið. Mín tillaga er sú, að fangels-
in verði deildaskipt, þannig að
komið verði upp deild innan t.d.
Litla Hrauns sem rekin væri í sam-
starfi við meðferðarstofnanir fyrir
áfengissjúka. Á slikri deild yrði
mikið lagt uppúr alls kyns fræðslu
en jafnframt grúppuvinnu og um-
ræðum um vímuefni og hvað varast
verði þegar út er komið. Margir
þessara einstaklinga hafa verið á
meðferðarstofnunum en fallið aft-
ur í neyslu og þá þróun þarf að
skoða mjög náið með þessum
mönnum svo koma megi í veg fyrir
að sagan endurtaki sig. Á slíkri
deild yrði mikil áhersla lögð á AA-
fundi, sem yrðu á hverjum degi.
Fangarnir yrðu að sækja um að
komast á slíka deild en það ætti að
verða eftirsóknarvert þar sem
frammistaða manna i áfengispró-
gramminu yrði Iögð til grundvallar
þegar metið yrði hvort stytta ætti
refsivistina. Slík deild yrði auðvitað
algjörlega Iaus við öll vímulyf og
mjög hart tekið á öllum brotum í
því sambandi. Deildir sem þessar
eru víða reknar á bandarískum
fangelsum og þykja gefast vel, enda
er reynt að tengja fangana þegar út
er komið við AA-deildirnar og
ýmsa áfangastaði sem reknir eru í
samráði við meðferðarstofnanir.
Margir fangar kvarta undan þeirri
einangrun og tómarúmi sem þeir
upplifa þegar hliðin að Litla
Hrauni skellast í lás að baki þeim að
aflokinni refsivist. Margir verða
ofsahræddir við það sem bíður
þeirra inni í Reykjavík og leita óðar
í flöskuna þegar þangað er komið
og inní gamla svallhópinn. Með því
að tengja þessa menn meðferðar-
stofnunum og áfangastöðunum og
AA-deildunum þegar út er komið
má koma í veg fyrir mikið af þessu.
Fyrirbyggjandi
aðgerðir
Með því að taka af alefli á áfeng-
is- og vímuefnavandanum á þennan
hátt væri lagður grundvöllur að því
að þessir menn gætu fótað sig betur
þegar út væri komið. Reynslan er
sú, að sé ekki tekið á þessu vanda-
máli verða allar aðrar aðgerðir hálf-
kák eitt og þeim fjármunum sem
eytt er í fangelsisvist á glæ kastað.
Besta vörn þjóðfélagsins gagnvart
afbrotum þessara einstaklinga er
sennilega að reyna af alefli að fást
við vímuefnavanda þeirra. Ef tekst
að leysa hann er mikið unnið í fyrir-
byggjandi starfi. Þetta á ekki hvað
síst við um þá einstaklinga sem leið-
ast útí innHutning og sölu á ólög-
legum vímuefnum. Ef ekki tekst að
leysa vandamál þessara einstakl-
inga hvað varðar eigin neyslu eru
miklar líkur til þess að þeir fari
beint útá afbrotabrautina á nýjan
leik þegar útí lífið er komið. Þannig
gegnir raunhæf meðferð á þessu
fólki mun stærra þjóðfélagslegu
hlutverki en margir gera sér grein
fyrir sem fyrirbyggjandi aðgerð,
hvað varðar innflutning og sölu
vímuefna. Neysla þessara dreifing-
araðila tengist beint öllum innflutn-
ingi og sölu efnanna til annarra
neytenda. Fangelsin eiga að vera
fyrsta skref þessa fólks til nýs lífs án
vímuefna, en það tekst einungis
með því að tengja fangelsin áfengis-
meðferð og AA-samtökunum.
Deildaskipt fangelsi, þar sem fang-
ar gætu verið í friði fyrir vímuefn-
um og í alvöru gert eitthvað róttækt
í sínu lífi hvað þetta varðar er frum-
skilyrði þess að þessar stofnanir
geti mögulega skilað frá sér betri og
hæfari einstaklingum en þangað
fóru inn.
Óttar Guðmundsson er yfirlæknir
SÁÁ að Vogi og skipar 10. sæti á
lista Alþýðuflokksins í Reykjavík.
Óttar Guðmundsson lœknir við Litla-Hraun en þar heldur hann reglulega fyrir-
lestra um áfengis- og vímuefni: „Oftar en ekki koma menn úr fangelsum fullir af
góðum áformum en lenda fljótlega á fylleríi og eru þá áður en auga á þeim festir
komnir útíinnbrot og ávísanafals á nýjan leik og aftur austurfyrirfjall. Sagan end-
urtekur sig og þannig verða menn oft síbrotamenn í íslensku þjóðfélagi.“
íslenskir afbrotamenn lenda yfirleitt á
glapstigum í sambandi við neyslu áfengis
eða annarra vímuefna., fjármagna neysl-
una með innbrotum eða ávísanafölsun-
um, lenda í líkamsmeiðingum eða morð-
um ölvaðir...
Margir fangar kvarta undan þeirri ein-
angrun og tómarúmi sem þeir upplifa
þegar hliðin á Litla-Hrauni skellast í lás
að baki þeim að aflokinni refsivist. Marg-
ir verða ofsahrœddir við það sem bíður
þeirra í Reykjavík og leita óðar í flöskuna
þegar þangað er komið og inn í gamla
svallhópinn...
Það er mjög mikilvœgt að nota refsivist-
ina til að fást við aðalvandamál fang-
anna, þ.e. alkóhólismann og sjá til þess
að engin neysla ávana- eða fíkniefna fari
fram í fangelsum. Þeir fangar sem stunda
AA-prógrammið innan fangelsanna hafa
mun betri grundvöll til að standa á þegar
út í lífið er komið...
Mín tillaga er sú að fangelsin verði
deildaskipt, þannig að komið verði upp
deild t.d. innan Litla-Hrauns sem rekin
vœri í samstarfi við meðferðarstofnanir
fyrir áfengissjúka...