Morgunblaðið - 04.02.2001, Page 18
ERLENT
18 SUNNUDAGUR 4. FEBRÚAR 2001 MORGUNBLAÐIÐ
ÞINGMENN á Kaliforníuþingisáu sig knúna til að grípa tilaðgerða og samþykkja frum-
varp til laga um kaup Kaliforníuríkis
á raforku næstu árin, jafnvel þótt
margir þeirra væru ekki sáttir við
niðurstöðuna. Skammtímafjármagn
til raforkukaupa, um 35 milljarðar
króna, var upp urið eftir 12 daga raf-
orkukaup við háu verði og ljóst að rík-
ið yrði að ganga til langtímasamninga
við orkuver til að halda hjólum at-
vinnulífsins gangandi í Kaliforníuríki.
Með lögunum, sem öldungadeildin
samþykkti á miðvikudagskvöld og
fulltrúadeildin á fimmtudag, er heim-
ilt að selja ríkisskuldabréf fyrir allt að
10 milljarða dollara, eða um 860 millj-
arða íslenskra króna, til að fjármagna
raforkukaup næstu ára.
Svo gæti farið að Gray Davis rík-
isstjóri nái ekki að standa við það lof-
orð sitt að gjaldskrá rafveitna muni
ekki hækka, a.m.k. gera nýju lögin
ráð fyrir að raforkunotkun umfram
ákveðið þak verði dýrari en nú er.
Þetta er gert með það í huga að ríkið
nái fjárframlögum sínum til baka. Þar
að auki virðist ljóst að 9% bráða-
birgðahækkun á gjaldskrám rafveitn-
anna fyrir skömmu verður varanleg.
Það er þó aðeins eitt af mörgum
áhyggjuefnum ríkisstjórans þessa
dagana, því gert er ráð fyrir að Kali-
fornía þurfi enn að eyða um 43 millj-
örðum króna í kaup á raforku þar til
langtímasamningarnir taka gildi.
Kaliforníuríki hélt útboð í síðustu
viku og barst fjöldi tilboða um raf-
orkusölu frá orkuverum. Tilboðin
runnu formlega út sl. miðvikudag, en
orkuverin samþykktu að láta þau
standa þar til þingið hefði tekið af
skarið.
Naumlega
samþykkt
Davis ríkisstjóri er ekki búinn að
bíta úr nálinni í þessu máli, eins og
skýrt kom fram í umræðum á þingi.
Þar veittust repúblikanar að honum
fyrir auma stjórn á orkumálum og
það sem verra var, sumir flokks-
bræðra hans í hópi demókrata gerðu
slíkt hið sama. Þeir segja að lög um
kaup ríkisins á raforku næsta áratug-
inn hljóti aðeins að vera fyrsta skrefið
í endurskoðun orkumála, enda við-
haldi þau í raun óbreyttu ástandi, og
kalla eftir stefnu ríkisstjórans.
Þar sem lögin áttu að taka gildi um
leið og ríkisstjórinn undirritaði þau á
fimmtudag þurfti tvo þriðju hluta at-
kvæða til að fá þau samþykkt. Það
gekk ágætlega í öldungadeildinni, þar
sem 27 samþykktu frumvarpið og að-
eins 8 voru á móti. Í fulltrúadeildinni
var staðan öllu naumari og frumvarp-
ið var samþykkt með 54 atkvæðum
gegn 25. Við atkvæðagreiðslu fyrr um
daginn vantaði þrjú atkvæði upp á að
frumvarpið næði samþykki og hófust
þá miklar tilfæringar að ná til fjar-
staddra þingmanna, m.a. var lítil flug-
vél send eftir einum sem lá veikur
heima. Einn þingmanna demókrata
greiddi atkvæði gegn frumvarpinu af
ótta við að það kæmi hart niður á
bændum komandi sumar, en eftir
fundahöld með flokksbróður sínum,
forseta fulltrúadeildarinnar, snerist
honum hugur. Hann sagði forsetann
hafa sannfært sig um að stjórnvöld
myndu huga sérstaklega að bændum.
Davis ríkisstjóri ritaði ekki ein-
göngu undir ný raforkukaupalög á
fimmtudag, heldur einnig tilskipun,
sem tekur gildi 15. mars og skikkar
allar verslanir og veitingahús til að
draga úr lýsingu við byggingar sínar
eftir lokun. Verði menn ekki við þess-
ari tilskipun geta þeir átt von á um 86
þúsund króna dagsektum. Að auki
ætlar ríkið að hefja mikinn áróður í
fjölmiðlum fyrir orkusparnaði. Sú
herferð mun að líkindum kosta um 35
milljarða króna.
Hvar er gróði fyrri ára?
Með hverjum deginum sem líður
eykst óánægja almennings með
stærstu rafveitur ríkisins, PG&E og
Southern California Edison. Flestum
er ljóst að rafveiturnar lentu í vanda
vegna þess að ætlað frjálsræði í orku-
málum gekk ekki nema hálfa leið.
Heildsöluverðið hækkaði sífellt, en
rafveitunum var meinað að hækka
smásöluverðið.
Undanfarna daga hafa rafveiturnar
tilkynnt að þær geti ekki greitt skuld-
ir vegna raforkukaupa undanfarinna
mánuða, en þessi tvö fyrirtæki hafa
safnað rúmum 12 milljörðum dollara,
eða rúmum þúsund milljörðum króna,
í skuldir frá því í júní á síðasta ári. Þar
af tapaði Edison um 4,5 milljörðum
dollara. Gagnrýnendur benda á, að
Edison greiddi móðurfyrirtæki sínu,
Edison International, um 5 milljarða
dollara frá 1996, þegar ætluðu frjáls-
ræði á raforkumarkaði var komið á,
og til loka síðasta árs. Svipaða sögu er
að segja af PG&E.
Forseti öldungadeildar Kaliforníu-
þings sagði að þessar greiðslur hefðu
verið óábyrgar, móðurfyrirtækið
hefði mergsogið Edison og skilið fyr-
irtækið svo eftir í skuldasúpunni.
Endurskoðendafyrirtækið KPMG,
sem fór yfir fjárhag Edison, sagði
ekkert athugavert við þessar
greiðslur, en almenningur virðist á
svipaðri skoðun og þingforsetinn.
Auk þess velta menn því óneitanlega
fyrir sér hvað varð um alla millj-
arðana sem rafveiturnar fengu þegar
þær seldu orkuverin sín háu verði,
eins og þau voru skikkuð til að gera í
kjölfar lagasetningarinnar um ætlað
frjálsræði árið 1996.
Á meðan þingmenn á Kaliforníu-
þingi í Sacramento afgreiddu raf-
orkufrumvarpið var orkuvandinn í
ríkinu ræddur í öldungadeild Banda-
ríkjaþings í Washington. Þar héldu
demókratar því fram að ríkisstjórn-
inni bæri skylda til að leita lausna á
málinu áður en vandinn yrði enn
meiri. Þeir gagnrýndu Bush forseta
og flokksmenn hans fyrir að nýta sér
vanda Kaliforníu til að vinna olíuleit í
Alaska fylgi og sögðu að olía þar
myndi lítt gagnast gullna ríkinu í
vestri.
Repúblikanar studdu hins vegar þá
ákvörðun forsetans að láta Kaliforníu
sjálfa um að leysa sinn vanda. Frank
H. Murkowski, formaður orkumála-
nefndar öldungadeildarinnar, sagði
m.a. að sú ákvörðun ríkisstjórnar
Clintons að knýja orkuver til að halda
áfram sölu til Kaliforníu gæti hugs-
anlega gert ríkisstjórnina ábyrga fyr-
ir milljörðum dollara. Ef Kalifornía
gæti ekki greitt fyrir þessa orku
myndi það koma í hlut alríkisins, sem
hefði fyrirskipað söluna. Þess má
geta, að nýr orkumálaráðherra í rík-
isstjórn Bush framlengdi tilskipun
fyrri ráðherra til 7. febrúar. Ríkis-
stjórnin er ekki líkleg til að fram-
lengja þann frest frekar eða sam-
þykkja þak á raforkuverð frá
orkuverum.
Ríkisþing Kaliforníu samþykkir allt að 860 milljarða króna orkukaup
Orkumálum
bjargað fyrir horn
Kaliforníuþing samþykkti í vikunni lög sem tryggja áframhaldandi
raforku í ríkinu næstu árin. Ragnhildur Sverrisdóttir segir að rík-
ið muni nú ganga til langtímasamninga við orkuver. Rafveiturnar
berjast áfram við skuldahala, en liggja undir ámæli fyrir að hafa
greitt móðurfyrirtækjum sínum háan arð undanfarin ár.
Reuters
Mikið hefur mætt á Gray Davis, ríkisstjóra Kaliforníu, vegna orkuvandans.
ÞAÐ er óneitanlega með ólík-indum að neyðarástand ríki íKaliforníu, einhverju auðug-
asta svæði í heimi, vegna skorts á raf-
orku. Orsök vandans er að rekja til
breytinga sem gerðar voru á reglum
um raforkumál í ríkinu fyrir fimm ár-
um, en þau mistök voru þá gerð að
stíga skrefið í átt til frjálsræðis að-
eins til hálfs.
Staða stærstu raforkufyrirtækj-
anna í Kaliforníu var lengi vel mjög
sterk og raforkuverð þar var með því
hæsta sem gerðist í Bandaríkjunum.
Yfirvöld í ríkinu ákváðu árið 1996 að
rjúfa einokunarstöðu stóru fyrir-
tækjanna í því skyni að tryggja hag
neytenda og í þeirri von að aukin
samkeppni myndi leiða til lægra
verðs. Raforkurisunum var gert að
selja orkuver sín til að tryggja eðli-
lega verðmyndun á rafmagni, og
stofnaður var sérstakur uppboðs-
markaður, þar sem raforkuframleið-
endur selja orkuna hæstbjóðanda.
Við breytingarnar var einkum litið
til Bretlands, þar sem orkugeirinn
var opnaður fyrir áratug með góðum
árangri. En ýmsir samverkandi
þættir urðu þess valdandi að dæmið
gekk ekki upp í Kaliforníu.
Heildsöluverð frjálst en há-
marksverð í gildi í smásölu
Fyrir það fyrsta gerðu yfirvöld
þau afdrifaríku mistök að setja há-
mark á það verð sem rafveitur mega
leggja á rafmagn í sölu til neytenda.
Heildsöluverð á rafmagni frá orku-
verunum hefur hins vegar farið sí-
hækkandi síðan 1996, og sökum haft-
anna hafa rafveiturnar ekki getað
brugðist við með því að hækka smá-
söluverðið. Nú er svo komið að þær
ráða ekki lengur við að kaupa raf-
magn af raforkuverum til að dreifa til
neytenda. Lánstraust rafveitnanna
er á þrotum og yfirvöld í ríkinu hafa
því neyðst til að fjármagna kaup
þeirra á rafmagni til að koma í veg
fyrir algjöran orkuskort.
Stjórnmálamenn ákváðu einnig að
bæta stórfyrirtækjunum upp þann
skaða sem þau urðu fyrir er þeim var
gert að selja orkuverin. Það kann ef
til vill að virðast sanngjarnt, en var
gert með afar misráðnum hætti.
Bæði voru bæturnar að margra mati
óeðlilega háar, og það sem verra er,
ákváðu embættismenn að láta nýliða
í greininni bera hluta kostnaðarins
með sérstökum álögum. Það var því
lítill hvati fyrir ný fyrirtæki að hasla
sér völl á raforkumarkaðnum í Kali-
forníu og samkeppnin, sem vænst
hafði verið, hefur ekki orðið að veru-
leika.
Aukin eftirspurn
leiðir annmarka í ljós
Þrátt fyrir augljósa annmarka á
nýju reglunum var þó ekki endilega
fyrirsjáanlegt að þær myndu leiða til
neyðarástands á svo skömmum tíma.
Ýmsir ytri þættir hafa hjálpað til við
að leiða mistökin í ljós.
Eftirspurn eftir raforku hefur til
dæmis aukist gríðarlega síðan breyt-
ingarnar voru gerðar. Þessa aukn-
ingu má vitanlega fyrst og fremst
rekja til vaxtar hátækniiðnaðarins í
ríkinu. En almenn rafmagnsnotkun
hefur einnig aukist, sem kemur ekki
á óvart í ljósi þess að neytendur hafa
ekki þurft að miða notkun sína við
eðlilegt verð.
Hinir stórhuga umbótasinnar
gleymdu einnig að taka með í reikn-
inginn að aðstæður eru um margt
ólíkar í Kaliforníu og Bretlandi. Víð-
ast hvar í Vestur-Evrópu, þar sem
raforkuframleiðsla hefur verið undir
stjórn ríkisvaldsins, var framleiðslu-
geta orkuvera til dæmis sniðin að því
að ávallt væru til nægar varabirgðir
af rafmagni. Því var hins vegar ekki
að heilsa á vesturströnd Bandaríkj-
anna, þar sem raforkufyrirtækin
miðuðu framleiðslu sína að sjálfsögðu
við hagkvæmni í rekstri.
Þetta hefði ekki komið að sök ef ný
raforkuver hefðu verið reist í takt við
aukna eftirspurn, en sú er ekki raun-
in. Ástæðuna má sennilega að mestu
rekja til mikilla ítaka umhverfis-
verndarsinna í Kaliforníu, en þar
gilda strangari lög um umhverfismál
en annarsstaðar í Bandaríkjunum og
áformum um byggingu orkuvera er
jafnan mótmælt harðlega.
Stjórnvöld treystu ekki
lögmálum markaðarins
Breytingarnar árið 1996 voru nið-
urstaða málamiðlana milli stjórn-
málamanna með ólíkar skoðanir og
hagsmunaðila með ólík markmið. Því
þurfti kannski ekki að koma verulega
á óvart að einhverjir annmarkar
væru á hinu nýja fyrirkomulagi. En
vandinn hefur verið aðsteðjandi um
nokkurt skeið og honum hefði ef til
vill mátt afstýra ef stjórnvöld í ríkinu
hefðu brugðist rétt við. Í staðinn fyrir
að gefa verð frjálst þegar eftirspurn
jókst, eins og ríki í miðvesturhluta
Bandaríkjanna gerðu fyrir nokkrum
misserum, treystu stjórmálamenn í
Kaliforníu ekki lögmálum markaðar-
ins og gripu jafnvel til ráðstafana
sem gengu í þveröfuga átt.
Orsakir orkukreppunnar í Kaliforníu má rekja til reglna sem settar voru árið 1996
Ekki nógu langt
gengið í frjálsræðisátt
Ýmsir hafa kennt auknu frjálsræði í
orkumálum um neyðarástandið sem
skapast hefur í Kaliforníu vegna skorts á
rafmagni. Aðalheiður Inga Þorsteinsdóttir
segir hina raunverulegu ástæðu líklega
frekar þá að ekki var gengið nógu langt í
frjálsræðisátt þegar nýjar reglur voru
settar fyrir fimm árum.