Morgunblaðið - 20.05.2001, Qupperneq 47
FÓLK Í FRÉTTUM
MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 20. MAÍ 2001 47
MOGWAI er búin að vera iðin hljóm-
sveit, í meira lagi, síðan hún tók til
starfa árið 1995. Hún er búin að gefa
út helling af ep-plötum, smáskífum
og þrjár breiðskífur. Rock Action er
einmitt þeirra þriðja stóra plata og
hennar hefur verið beðið með nokk-
urri eftirvæntingu þar sem Mogwai
hefur verið í forystusveit evrópskra
síðrokksveita allt frá því að plata
þeirra Young Team kom út; en hún
var einkar vel heppnuð í alla staði.
Síðan Young Team leit dagsins ljós
hefur Mogwai þótt líklegur kandídat
til þess að valda straumhvörfum inn-
an tónlistargeirans. Ekki verður
þeim kápan úr því klæðinu í þetta
sinn, því á Rock Action heldur
Mogwai uppteknum hætti, fetar á
fyrri slóðir avant-rokks og naum-
hyggju. Tónlist Mogwai er í ætt við
hina þjóðsagnakenndu hljómsveit
Slint, Godspeed You Black Emperor,
Low og þýsku snillinganna í Neu!.
Örlagið „Robo Chant“ er í raun hálf-
gerður óður til Neu!, einskonar end-
urvinnsla á upphafi eins frægasta
lags Þjóðverjanna „Negativland“.
Hin nýja plata Mogwai er alls ekki
slæm, en það sem vantar er meiri
framsækni, áræðni til þess að taka af
skarið og fara alla leið; í samsuðu
rokks og raftónlistar sem örlar fyrir
á Rock Action. Kvintettinn frá Skot-
landi hefur sýnt það í gegnum tíðina
að þeir hafa upp á margt að bjóða, en
sá máttur og dýnamík sem var að
finna á þeirra fyrstu verkum hefur
dofnað. Á Rock Action er engu að
síður um nokkuð auðugan garð að
gresja, þarna eru fín lög, skemmtileg
spilamennska, ásamt góðri upptöku-
stjórn Dave Fridmanns sem meðal
annars hefur séð um hljóðritanir fyr-
ir hljómsveitirnar Mercury Rev og
Flaming Lips.
„Sine Wave“ er upphafslag Rock
Action og er það alveg feikilega gott.
Lagið er samsuða raftónlistar að
hætti múm og rokks að hætti
Mogwai. Þarna er vottur af þeirri
framþróun sem Mogwai er fær um
að galdra fram en fær því miður ekki
að njóta sín nema í einu öðru lagi;
laginu „2 Rights Make 1 Wrong“.
Þar er komið besta lag plötunnar,
níu og hálfs mínútna rokk/raf-fantas-
ía. Lagið byrjar á sýrurokki, svífur
um í nokkra stund, blandast síðan við
vel útfærða raftakta, skreyttum
skemmtilegum banjóleik. Þetta er
það lag sem rís hvað hæst, þarna
kveður við nýjan og ferskan tón sem
vonandi verður unnið meira með í
náinni framtíð. „Secret Pint“ er loka-
lagið, tregafullt og rólegt lag rétt til
að ná fólki niður. Lagið liðast hægt
áfram, skreytt strengjum og píanó-
spili og minnir eina helst á útfarar-
sálm; svona hálfgert bless og takk,
þetta er búið í bili.
Rock Action hefur margt til síns
ágætis og mun án nokkurs vafa
gleðja hina fjölmörgu aðdáendur
Mogwai hér á klakanum. Tónlistin er
oft tilkomumikil og svöl eins og
hljómsveitin, en því miður stendur
hún ekki fyllilega undir væntingum.
ERLENDAR
P L Ö T U R
Jóhann Ágúst Jóhannsson
fjallar um nýjustu breiðskífu
Mogwai, Rock Action
Óður til …!
Skoska síðrokkssveitin Mogwai.
ROKKIÐ hefur orðið síðmód-ernismanum að bráð einsog aðrar listastefnur ogekkert nema gott um það
að segja. Allt er leyfilegt og menn
hræra saman sem þeim sýnist rokki,
fönki, óhljóðum, djassi og svo má
telja. Í síðrokkinu hefur mjög borið á
djassinum, ekki síst innan Chicago-
klíkunnar margræddu, en fleiri hafa
orðið til að nusa af djassi, Þar á meðal
emo-sveitin Karate. Á tónleikum í
neðanjarðarbúllu í Hamborg fyrr á
árinu mátti sjá og heyra að Karate er
geysiöflug sveit þótt ekki sé hún
fjölmenn, trommur, bassi og syngj-
andi gítarleikari, og þýskir áheyr-
endur sem troðfylltu staðinn kunnu
vel að meta tilfinningaríkan söng,
djassskotinn hryngrunn og liprar
gítarfléttur. Skífa Karate Unsolved
sem kom út seint á síðasta ári er og
fyrirtak, sem og næsta plata þar á
undan, Bed is in the Ocean.
Geoff Farina gítarleikari og söngv-
ari stofnaði sveitina með bassaleik-
aranum Eamonn Vitt og trymblinum
Gavin McCarthy. Fyrstu tónleikarnir
voru í desember 1993 og fyrsta smá-
skífan, Death Kit, kom út stuttu síð-
ar. Síðan eru smáskífurnar orðnar
fimm og breiðskífurnar fjórar, Kar-
ate, In Place of Real Insight, Bed is in
the Ocean og Unsolved sem getið er í
upphafi. Árið 1995 slóst Jeff Goddard
í hópinn sem bassaleikari, en Vitt gat
þá sinnt hryngítarleik. Hann entist
þó ekki nema fram á árið 1997, að
hann hætti til að leggja stund á lækn-
isfræði.
Ekki við eina fjölina felldur
Geoff Farina er óskoraður leiðtogi
Karate, semur lög og texta og ræður
ferðinni í útsetningum og stemmn-
ingu. Hann er ekki við eina fjölina
felldur í tónlistinni, heldur úti sóló-
ferli samhliða Karate og leikur að
auki í tvíeykinu Secret Stars. Karate
var á sínum tíma hreinræktuð emo-
sveit, en Secret Stars flokka menn
sem sadcore og heldur er Farina
naumhyggjulegur þegar hann er
einn. Alltaf leggur hann þó mikla
áherslu á hljóma og hljóð og leitun að
öðrum eins grúskara í magnara- og
skælifetlafræðum. Í viðtali um það
leyti sem þriðja plata sveitarinnar,
Bed Is in the Ocean, kom út sagði
hann að þegar Karate var að byrja
fór það mjög í hann hve allt sem þeir
félagar gerðu hljómaði illa og þá
vegna þess að sökum fjárskorts höfðu
þeir ekki efni á að nota nema úr-
gangsgræjur. Smám saman tók hann
að gera upp magnara og sérsmíða og
hefur sitt að segja með tæran gítar-
hljóminn sem einkennir síðustu plöt-
ur Karate, en söngstíllinn vekur einn-
ig athygli manna, einlægur og
tilfinningaríkur, þó ekki falli sam-
setningin öllum í geð.
Síðrokkið er áberandi á fyrstu
plötum sveitarinnar, en hefur smám
saman látið undan síga, hægt á takt-
inum og hljómarnir fá meira rými.
Það mátti vel heyra á The Bed is in
the Ocean og síðan á Unsolved, sem
hljómar eins og rökrétt framhald á
The Bed is in the Ocean þótt hún sé
tekin upp meira en tveimur árum síð-
ar.
Lærði djassleik í tónlistarskóla
Djassáhrifin í tónlist Karate þurfa
ekki að koma á óvart, því Farina
lærði djassleik í tónlistarskóla, en
hann segist líka leita í ótal áttir eftir
innblæstri og áhrifum, allt frá R&B/
rappi í gamlan blús, en einnig segist
hann hafa dálæti á raftónlist ýmis-
konar og óhljóðalist, ekki síst í sí-
felldri leit að nýjum hljóðum og hljóð-
gjöfum. „Vélbúnaður er málið,“ segir
hann og bætir við að fátt sé dýrmæt-
ara en græjurnar hans, en þess má
geta að Farina skrifaði mastersrit-
gerð um sögu hljóðgervla. Hann seg-
ist og mikið spá í slíka hluti, sem geti
eins leitt af sér að hann stofni eina
sveit til, techno-sveit, enda heillaður
að sögn af þeim möguleikum sem raf-
einda- og tölvutæknin gefi. „Menn
gleyma því gjarnan að rafgítarinn var
framandlegur og ónáttúrlegur þegar
hann kom fram á sjónarsviðið og bylti
síðan öllu, líkt og tölvutækknin er að
gera.“
Sumir hafa orðið til að gagnrýna
sveitina fyrir sundurgerð í tónlist og
benda á að erfitt sé að segja til um
hvort flokka eigi Unsolved sem rokk-
djass, nýbylgju, síðrokk eða blús og
svo má telja. Í textum er Karate svo
sama marki brennd og margar aðrar
síðrokksveitir, sjá til að mynda Rad-
iohead, þar sem andinn er við það að
sigra efnið hvað eftir annað. Farina
segist skrifa texta laganna eins og
vitundarflæði, þ.e. þeir eru nánast
ósjálfráð skrift þar sem allt er látið
flakka. Sem betur fer gengur hann
ekki eins langt í þessum efnum með
Karate og þegar hann er einn á ferð,
en textar á síðustu sólóskífu hans eru,
satt best að segja, innihaldslaust bull.
Það er reyndar fróðlegt að fylgjast
með því hvernig margar forvitnileg-
ustu rokksveitir síðustu ára eru að
feta út í bull- og blaðurfræði; upp-
teknar af merkingarfræði og dul-
speki, gegnumsýrðar af innblæstri
eins og blóðmörskeppir í blásteins-
legi. Sú bylgja hefur áður risið og
mun fljótt hníga, en það skiptir svo
sem ekki máli á meðan menn eru að
semja skemmtilega tónlist.
Tónlist á sunnudegi
Árni Matthíasson
Nusað af djassi
Í umróti síðustu ára er allt orðið leyfilegt í rokki,
menn geta hrært saman því sem þeir vilja og kallað
það sem þeir vilja. Árni Matthíasson segir frá rokk-
sveitinni Karate sem sumir vilja kenna við djass.
Karate-félagar. Geoff Farina, Jeff Goddard og Gavin McCarthy.