Morgunblaðið - 19.07.2001, Page 6
FRÉTTIR
6 FIMMTUDAGUR 19. JÚLÍ 2001 MORGUNBLAÐIÐ
G
ERT er ráð fyrir að íbú-
um á höfuðborgarsvæð-
inu fjölgi um 60 þúsund
til ársins 2024, í tillög-
um að svæðisskipulagi
sem samvinnunefnd sveitarfélag-
anna á höfuðborgarsvæðinu hefur
unnið og sem kynntar voru í gær.
Það þýðir að byggja þurfi 32 þúsund
nýjar íbúðir á svæðinu og að störfum
fjölgi um 35 þúsund. Gert er ráð fyrir
að byggja þurfi um 1,5 milljón fer-
metra af verslunar- og skrifstofuhús-
næði á tímabilinu. Aðalskipulag í
sveitarfélögunum átta verður byggt
á tillögum nefndarinnar og er gert
ráð fyrir að svæðisskipulagið taki
gildi fyrir næstu áramót.
Í tillögunum, sem taka til Reykja-
víkur, Kópavogs, Hafnarfjarðar,
Garðabæjar, Mosfellsbæjar, Sel-
tjarnarness, Bessastaðahrepps og
Kjósarhrepps, er gert ráð fyrir að
þétta megi núverandi byggð með um
sjö þúsund íbúðum. Reiknað er með
að alls þurfi tæplega 1.600 hektara
landsvæði fyrir nýja byggð á tíma-
bilinu.
Blönduð byggð í Vatnsmýri
Samkvæmt aðalskipulagi Reykja-
víkur er gert ráð fyrir að Reykjavík-
urflugvöllur verði um kyrrt í Vatns-
mýrinni til ársins 2016.
Samvinnunefndin lét gera, í sam-
vinnu við innlenda og erlenda ráð-
gjafa, umfangsmikla athugun á
framtíðarstaðsetningu innanlands-
flugvallar og kom fram tillaga um
flugvöll í Hvassahrauni. Flugmála-
stjórn telur það ekki heppilegan stað
vegna veðurfars. Í skipulagstillögun-
um segir að borgarstjórn Reykjavík-
ur hafi ákveðið að vinna samkvæmt
niðurstöðu flugvallarkosningarinnar
í mars síðastliðnum. „Eftir árið 2016
er æskilegt út frá sjónarmiðum
byggingarlistar að byggð þróist á
landsvæði flugvallarins í Vatnsmýr-
inni, sem er m.a. í samræmi við óskir
atvinnulífsins um þróun borgarinnar
sem miðstöðvar viðskipta-, athafna-
og menningarlífs sem sé alþjóðlega
samkeppnishæft,“ segir í tillögun-
um. Þar er gert ráð fyrir að um helm-
ingur flugvallarsvæðisins verði
byggður upp til ársins 2024. Reiknað
er með blandaðri byggð á svæðinu og
að fjöldi íbúða og starfsmanna verði
álíka mikill. Til ársins 2024 er rúm
fyrir 2.500 íbúðir í Vatnsmýrinni og
væri möguleiki á að bæta 3.500 íbúð-
um við, verði samþykkt að flugvöll-
urinn fari. Nýtingarhlutfall lóða
verður hærra í Vatnsmýrinni en víð-
ast hvar annars staðar á höfuðborg-
arsvæðinu, samkvæmt tillögunum.
Landfyllingingar eru fyrirhugað-
ar við Eiðsgranda og í Gufunesi fyrir
blandaða byggð íbúða og atvinnu-
starfsemi, og fyrir íbúðarbyggð við
Kársnes og Arnarnes.
Árið 2024 er gert ráð fyrir sam-
felldu þéttbýli milli Mosfellsbæjar í
norðri og Hafnarfjarðar í suðri.
Megináhersla er á að byggðin teygi
sig ekki í austurátt, hið græna bak-
land borgarinnar, sem oft hefur ver-
ið nefnt „græni trefillinn“, verði
varðveitt og endurbætt.
Fjöldi íbúa yfir sextugu tvöfald-
ast og færri íbúar í hverri íbúð
Miðað er við að fólksfjölgun á höf-
uðborgarsvæðinu verði svipuð og
verið hefur síðustu ár. Búist er við að
íbúafjöldinn verði kominn upp í 228
þúsund árið 2024, sem er 60 þúsund
fleiri íbúar en í dag. Þetta svarar til
um 36% fólksfjölgunar á tímabilinu,
sem er fjölgun um tæplega 2.300
íbúa árlega að meðaltali. Á blaða-
mannafundi í gær þar sem tillögurn-
ar voru kynntar kom fram að búist er
við að helmingur þessarar fjölgunar
verði náttúruleg fjölgun og að hinn
helmingurinn verði brottfluttir frá
landsbyggðinni.
Aldurssamsetning íbúa mun
breytast mikið á skipulagstímanum
þar sem eldra fólki mun fjölga mun
meira en yngra fólki. Búist er við að
íbúum á aldrinum 5–24 ára fjölgi um
16% til 2024, en fólki yfir sextugt um
105%. Í kjölfar þessara breytinga er
gert ráð fyrir að íbúum í hverri íbúð
muni fækka, bæði þar sem fólk eign-
ist færri börn og öldruðum fjölgi.
Talið er að meðalfjöldi íbúa í hverri
íbúð lækki úr 2,67 árið 1998 í 2,4 árið
2024.
Ráðgert er að fólki fjölgi mest í
Reykjavík, í Hamrahlíðarlöndum,
Úlfarsdal, Norðlingaholti, Gufunesi,
Geldinganesi og í Vatnsmýrinni. Í
prósentum talið verður fjölgunin
mest í Garðabæ, 157% og Mos-
fellsbæ, 151%.
Á blaðamannafundinum í gær kom
fram að áhersla hafi verið lögð á
sjálfbæra þróun í vinnslu svæðis-
skipulagsins, þannig að núverandi
byggð verði þétt eins mikið og sveit-
arfélögin geta samþykkt. Haft var
orð á því að byggðin verði eins og
eins konar eyjar í landslaginu, þétt-
ing byggðar verði undir íslenskum
formerkjum þannig að talsvert verði
um opin svæði milli íbúðasvæða.
Lagt er til að byggðin verði látin
þróast á þeim stöðum þar sem veð-
urfar hefur hvað minnst áhrif á bú-
setu. Því er gert ráð fyrir að byggð
verði ekki valinn staður í meira en
100 metra hæð yfir sjávarmáli.
Lagt er til að sérhæfðu skrifstofu-
og þjónustuhúsnæði verði valinn
staður í miðbæ Reykjavíkur, vestan
Kringlumýrar, og í kjarnanum í
Smáranum í Kópavogi. Annarri
þjónustustarfsemi verði komið fyrir í
hverfiskjörnum. Reiknað er með að
40% starfa í hátækniiðnaði dreifist á
þrjá staði, Keldnaland, Vatnsmýrina
og Urriðaholt í Garðabæ.
Einkum er gert ráð fyrir iðnaðar-
svæði á þremur stöðum, á Hólms-
heiði við Suðurlandsveg, Geldinga-
nesi og sunnan við Hafnarfjörð.
Heildarkostnaður vegna nauðsyn-
legra framkvæmda á skipulagstíma-
bilinu er metinn á 183 milljarða
króna á verðlagi fyrir þetta ár. Árleg
fjárfesting er tæplega átta milljarð-
ar, eða ríflega 1% af vergri þjóðar-
framleiðslu, þar af nema vegafram-
kvæmdir þyngst.
Bílaumferð í göng
Búist er við að bílaumferð aukist
um 40% á skipulagstímanum. Þessi
aukning kallar á umtalsverðar fjár-
festingar í umferðarmannvirkjum.
Talið er nauðsynlegt að 60–70 millj-
arðar verði lagðir í gatnafram-
kvæmdir og segir Stefán Her-
mannsson, borgarverkfræðingur og
formaður samvinnunefndarinnar, að
leggjast þurfi í tvo þriðju hluta fram-
kvæmdanna strax á fyrri hluta
skipulagstímabilsins.
Meðal þess sem gert er ráð fyrir er
að göng verði lögð undir Öskjuhlíð
og austurhluta Kópavogs, þannig að
tengja megi Hringbraut og Kringlu-
mýrarbraut annars vegar og
Kringlumýrarbraut og Reykjanes-
braut hins vegar. Þá er reiknað með
að ráðist verði í fyrri hluta Sunda-
brautar, sem mun liggja milli Sæ-
brautar og Geldinganess. Í skýrsl-
unni eru einnig sýnd göng undir
Skólavörðuholtið, frá Hringbraut að
Sæbraut. Þar segir þó að enn hafi
ekki verið miðað við göngin í umferð-
arspám og framkvæmdaáætlunum.
Einnig segir að þegar til lengri tíma
sé litið komi vegtenging þvert yfir
Skerjafjörð til greina, í tengslum við
byggð á flugvallarsvæðinu.
Í skipulaginu eru Kringlumýrar-
braut, Hafnarfjarðarvegur, Reykja-
nesbraut og Sundabraut, ásamt
hluta Sæbrautar Vesturlands- og
Suðurlandsvegar flokkaðar sem
stofnbrautir þar sem annaðhvort
verða mislæg gatnamót, eða göng,
sem ætti að koma í veg fyrir að mikl-
ar tafir verði á umferð. Þá er gert ráð
fyrir lagningu Ofanbyggðarvegar
síðar á skipulagstímabilinu.
Strætó hafi forgang
Mikil áhersla er lögð á að almenn-
ingssamgöngur verði styrktar þar
sem þétting byggðar, aukin þrengsli
í umferðinni, skortur á bílastæðum
og fjölgun íbúa muni auka eftirspurn
eftir slíkri þjónustu. Lagt er til að
þar sem því verði komið við verði
sérstök akrein fyrir almennings-
vagna og að umferðarljós verði stillt
þannig að vagnarnir hafi forgang
fram yfir fólksbíla. Einnig er lagt til
að byggt verði upp svæðisbundið
göngu- og hjólastígahverfi, sem
tengi sveitarfélögin átta.
Svæðisskipulagstillagan verður
nú kynnt almenningi næstu vikurn-
ar. Að kynningu lokinni verður til-
lagan endurskoðuð áður en hún fer í
lögformlega kynningu. Stefnt að því
að sveitarfélögin sem um ræðir verði
búin að afgreiða tillögurnar fyrir
næstu áramót.
Hvert sveitarfélag á tvo fulltrúa í
samvinnunefndinni. Þeir nefndar-
menn sem Morgunblaðið ræddi við á
fundinum í gær voru sammála um að
ágætis samstarf hefði ríkt í nefndinni
og töldu þeir ólíklegt að ekki yrði far-
ið eftir tillögunum í megindráttum
við samþykkt aðalskipulags. Enda
hefði verið litið til hugmynda og
skoðana meirihlutans í hverju sveit-
arfélagi fyrir sig og rituðu allir full-
trúarnir nöfn sín undir tillögurnar.
Tillögur að svæðisskipulagi sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu til ársins 2024 kynntar
Morgunblaðið/Jim Smart
Þetta er í fyrsta sinn sem öll átta sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu standa saman að heildarskipulagi svæð-
isins. Lengst til hægri eru Stefán Hermannsson, borgarverkfræðingur og formaður samvinnunefndarinnar, og
Árni Þór Sigurðsson, annar tveggja varaformanna nefndarinnar og formaður skipulags- og byggingarnefndar
Reykjavíkur, á blaðamannafundinum í gær.
Áhersla lögð á
þéttingu byggðar
Íbúum á höfuðborg-
arsvæðinu mun fjölga
um tæp 40% og þarf að
byggja 32 þúsund nýjar
íbúðir þar til ársins
2024, samkvæmt til-
lögum að svæðisskipu-
lagi fyrir höfuðborg-
arsvæðið, sem Nína
Björk Jónsdóttir kynnti
sér. Byggt verður á
helmingi flugvallar-
svæðisins í Vatnsmýri á
tímabilinu.
!
"
!
#
$
!
" #$
% &'
"
%
"
&
'
"
(
)
$
()
)*
ninabjork@mbl.is