Morgunblaðið - 11.11.2001, Blaðsíða 16
16 B SUNNUDAGUR 11. NÓVEMBER 2001 MORGUNBLAÐIÐ
allt safnið verði aðgengilegt,“ sagði
Jóhann.
Fjöltyngt bókasafn
„Guðmundur G. Hagalín sagði ár-
ið 1946 að safnið væri til bráða-
birgða í Sundhöllinni og þar er það
enn,“ sagði Jóhann þegar við heim-
sóttum útlánssal bókasafnsins. Í
Sundhöllinni býr safnið við mikil
þrengsli. Lesstofan rúmar aðeins
tvo og skrifstofa forstöðumannsins
er jafnframt kaffistofa starfsfólks
og aðstaða ræstifólks. Í safnið koma
um 20 þúsund gestir á ári sem er
nokkuð mikið í ljósi þess að í sveit-
arfélaginu eru um 4.500 íbúar, þar
af 3.200 í Skutulsfirði eða næsta ná-
grenni safnsins.
Þegar útlánssalurinn í Sundhöll-
inni er heimsóttur vekja athygli
bækur á pólsku og tælensku. „Við
kaupum töluvert af lesefni fyrir ný-
búa,“ segir Jóhann. „Þegar Serbó-
króatarnir komu keyptum við 150
bækur á serbókróatísku. Þeir fluttu
svo nánast allir suður svo ég lánaði
Borgarbókasafni allan bunkann. Nú
erum við að fá um 200 titla á pólsku.
Það er sniðugt hvað þær eru ódýrar
í innkaupi! Eins erum við að bæta
við tælensku bækurnar og að fá um
100 titla í viðbót við það sem fyrir
er. Við pöntum bækurnar í náinni
samvinnu við talsmenn málahóp-
anna sem um ræðir. Lögð er áhersla
á bækur fyrir börn og unglinga, eins
þjóðlegt efni. Það hjálpar þeim að
viðhalda þekkingu á móðurmálinu
og sinni menningu. Svo stendur til
að vera hér með kennslu í tælensku.
Þetta er gert til að börnin haldi
tengslum við móðurmál sitt og föð-
urland. Það efni sem við eigum á er-
lendum málum stendur öðrum
bókasöfnum til boða.“
Jóhann segir að það spyrjist fljótt
út meðal nýbúanna að efni á þeirra
tungu sé til í safninu. „Margt af
þessu fólki er vel menntað og þykir
varið í að geta fengið lánaðar bækur
á sínu máli.“
Gamla sjúkrahúsið er í þráðlausu
netsambandi við aðrar stofnanir
Ísafjarðarbæjar. Húsið verður vel
tölvuvætt og verið er að netvæða
bókasafnið. „Hér verða tölvur sem
almenningur hefur aðgang að og
gott aðgengi að alls konar skrám.
Ætlunin er að skrá allt safnið, bæði
bækur, skjöl og ljósmyndir og hafa
það aðgengilegt á tölvutæku formi,“
sagði Jóhann. Gott samstarf hafi
verið við Snerpu í uppbyggingu
tölvukerfisins og tenging verði úr
safnskránni í tölvubókasafn Snerpu.
Höfuðstöðvar Listasafns Ísa-
fjarðar verða í Gamla sjúkrahúsinu.
Forstöðumaður þess er Jón Sigur-
pálsson. Að sögn Jóhanns er hug-
myndin að verk í eigu safnsins verði
til sýnis í Gamla sjúkrahúsinu, auk
þess sem safnið lánar verk til stofn-
ana og skóla í bænum.
Vantar meira fjármagn
Jóhann segir að stefnt hafi verið
að því að ljúka við endurnýjun
Gamla sjúkrahússins í fyrra og að
taka það í notkun með hátíðlegri at-
höfn 17. júní árið 2000. Húsið var
upphaflega vígt 17. júní 1925, á af-
mælisdegi Jóns Sigurðssonar.
„Jón Sigurðsson er stórt númer
hérna. Ég fann í gömlum skjölum að
bókasafnið var tileinkað minningu
hans árið 1944 og var það samþykkt
í bæjarstjórn,“ segir Jóhann.
En hvenær verður hægt að taka
Gamla sjúkrahúsið í notkun á ný?
„Það tæpt að þetta hafist fyrir 17.
júní á næsta ári, en við vonumst til
að geta dansað fyrir Vilmund lækni
árið 2003,“ sagði Jóna Símonía. Til
að ljúka verkinu þarf meira fjár-
magn. Jóhann segir að endurbygg-
ingin hafi verið unnin í samvinnu við
Húsafriðunarnefnd og hún styrkt
verkið eftir megni. „Við bindum
vonir við fjármagn að sunnan og
horfum til hugmynda um menning-
arhús. Þetta verður sannkallað
menningarhús.“
Heimildir:
Ársrit Sögufélags Ísfirðinga 1965.
Ísafirði 1966.
Jóhann Gunnar Ólafsson.
Bæjarstjórn Ísafjarðarkaupstaðar
eitt hundrað ára. Ísafirði 1966.
Jón Þ. Þór. Saga Ísafjarðar og
Eyrarhrepps hins forna, IV. bindi.
Ísafirði 1990.
Skutull, 1. og 3. árg. Ísafirði 1923-5.
Vesturland, 1. árg, 6. tbl. Ísafirði 1923.
Vilmundur Jónsson. Sjúkrahús og
sjúkraskýli á Íslandi í hundrað ár.
Reykjavík 1970.
http://www.isafjordur.is/bokasafn/
Edinborgarhúsið stendur áEyrinni á Ísafirði. Það varbyggt 1907 eftir teikninguRögnvaldar Ólafssonar
arkitekts og síðar húsameistara
ríkisins. Hann hefur oft verið
nefndur fyrsti íslenski arkitektinn.
Meðal annarra þekktra húsa
Rögnvaldar má nefna Vífilsstaða-
spítala, pósthúsið í Reykjavík og
kirkjurnar á Þingeyri og Húsavík.
Edinborgarhúsið var lengi eitt
reisulegasta hús á Ísafirði. Það er
kennt við verslunina Edinborg
sem var eitt stærsta verslunarfyr-
irtæki landsins um aldamót 19. og
20. alda. Eftir að Edinborgarversl-
unin hætti rekstri var m.a. Tog-
arafélag Ísfirðinga þar til húsa
uns húsið komst í þjónustu Kaup-
félags Ísfirðinga og síðar að hluta
Rækjustöðvarinnar. Húsið er 1.155
m2 á þremur hæðum. Búið er að
friða húsið að utan að tilhlutan
Húsafriðunarnefndar ríkisins.
Félag um menningu og hús
Einkahlutafélagið Edinborg-
arhúsið var stofnað 9. september
1992 að tilhlutan Litla leikklúbbs-
ins og Myndlistarfélagsins á Ísa-
firði. Auk ofangreindra eiga ein-
staklingar og fyrirtæki hluti í
Edinborgarhúsinu ehf. Alls eru
hluthafar um 70 talsins, að sögn
Jóns Sigurpálssonar, formanns
stjórnar hússins. Sama ár var Ed-
inborgarhúsið keypt.
Tilgangur Edinborgarhússins
ehf. er að efla menningar- og fé-
lagsstarf á Vestfjörðum. Félaginu
og húsinu er ætlað að vera sam-
eiginlegur vettvangur þeirra sem
unna listum og fjölbreyttu mann-
lífi. Undir þaki Edinborgarhúss
eiga að rúmast sem flestir þættir
nútímamenningar og það að vera
lifandi vettvangur heimamanna.
Þar á einnig ferðafólk að geta
komist í snertingu við menningu
Vestfjarða ásamt því að fá þar
ferðaupplýsingar og veitingar.
Upplýsingaskrifstofa ferðamála,
Vesturferðir og Úrval-Útsýn hafa
aðstöðu í suðurenda hússins.
Mikil vinna við endurbætur
Fljótlega eftir kaupin var hafist
handa við endurbyggingu hússins,
sem var í mikilli niðurníðslu. Eins
þurfti að breyta því töluvert svo
það fengi gegnt nýju hlutverki.
Teiknistofan Kol og salt ehf. hefur
annast hönnunarvinnu vegna end-
urbyggingarinnar. Til endurbót-
anna hafa fengist fjárstyrkir frá
Ísafjarðarbæ, úr húsafriðunarsjóði
og ríkissjóði. Eftir mikla vinnu
sjálfboðaliða og iðnaðarmanna
hófst menningarstarfsemi fyrir al-
vöru í suðurhluta hússins árið
1996.
Húsið er hugsað sem margþætt
menningarmiðstöð og er fyr-
irmyndin aðallega sótt til meg-
inlandsins, að sögn Jóns Sig-
urpálssonar. Menningarmiðstöðin í
Edinborg er eitt þeirra húsa sem
Ísafjarðarbær hefur kynnt til þátt-
töku í hugmyndum ríkisstjórn-
arinnar um menningarhús á lands-
byggðinni.
Um nokkura ára skeið hafa
marvíslegar uppákomur verið á
vegum menningarmiðstöðvarinnar,
sýningar af ýmsum toga, tónlistar-
uppákomur og leikuppfærslur.
Einnig hafa verið haldnar ráð-
stefnur, málþing og fyrirlestrar.
Ýmsir fastir þættir eru ár hvert á
vegum Edinborgar, má þar nefna
þátttöku á Degi íslenskrar tungu
þar sem kvæðamenn og sagnaþulir
hafa stigið á stokk og eins bók-
menntakynninguna „Opin bók“,
fyrir hver jól. „Vestanvindar“ er
bókmenntadagskrá þar sem fjallað
er um vestfirsk skáld lífs og liðin.
Leikhússalur
Nú er hafin vinna við innrétt-
ingar í norðurhluta hússins. Þar
verður salur fyrir allt að 250 gesti.
Salurinn er sérhannaður fyrir leik-
sýningar en mun einnig henta
ágætlega fyrir aðrar uppákomur. Í
risinu er mikið rými sem burð-
arvirki hússins setur sterkan svip
á. Að sögn Jóns Sigurpálssonar er
hugmyndin að þar verði ráð-
stefnusalur. Þá verður innréttað
kaffihús í viðbyggingu, sem áður
var vélasalur. Jón segir að vilyrði
hafi fengist hjá Endurbótasjóði
menningarbygginga um framlag til
Edinborgarhúss upp á allt að 30
milljónir króna. Þegar er búið að
afgreiða 18 milljónir. Þá er ótalin
mikil sjálfboðavinna félagsmanna
við endurbætur hússins.
„Við teljum að með framlaginu
sem eftir er að afgreiða frá End-
urbótasjóði, ásamt því sem við
höfum fram að færa, getum við
lokið við stóra salinn, vonandi á
næsta ári. Þá er eftir að kaupa
tækjabúnað sem er dýr,“ sagði
Jón. Jafnhliða framkvæmdum við
stóra salinn verður unnið að inn-
réttingu kaffihúss í hliðarbygg-
ingu, enda þessir tveir húshlutar
nátengdir.
Listaskóli Rögnvaldar
Í húsinu er starfræktur Lista-
skóli Rögnvaldar Ólafssonar. Skól-
inn er kenndur við arkitekt húss-
ins og var stofnaður 5. desember
1993 á 119 ára fæðingarafmæli
Rögnvaldar. Að sögn Jóns er skól-
inn sá fyrsti sinnar tegundar sem
stofnaður er hér á landi, en hann
sameinar undir einu þaki allar
helstu listgreinar og stuðlar að því
að þær vinni saman. Skólinn er
Menningarmiðstöðin Edinborg
Í Edinborgarhúsi á Ísafirði er stunduð margþætt menningariðja. Þar er bæði listaskóli
og menningarmiðstöð. Ráðgert er að innrétta fjölnota sali, m.a. fyrir leiksýningar.
Morgunblaðið/RAX
Í Listaskólanum er m.a. kenndur ballett og þjóðdansar. Kennari er Kataryna Pavlova frá Úkraínu.
Jón Sigurpálsson, stjórnarformaður Edinborgarhússins ehf., á loftinu
þar sem til stendur að innrétta ráðstefnusal.
Myndlistarnemar í Listaskóla Rögnvaldar. F.v.: Patrycja Wittstock og
Borgný Gunnarsdóttir. Kennari þeirra er Pétur Guðmundsson.
sjálfseignarstofnun og rekinn af
Myndlistarfélaginu á Ísafirði, Litla
leikklúbbnum og Tónlistarskóla
Margrétar Gunnarsdóttur.
Listaskólinn sér um kennslu í
leirlist fyrir Grunnskólann á Ísa-
firði og umræður eru hafnar um
nánara samstarf við Mennta-
skólann á Ísafirði. Nemendur, að
frátöldum nemendum grunnskól-
ans eru á annað hundrað.
Skólinn býður upp á fjölþætta
kennslu í mörgum listgreinum.
Haldin eru námskeið sem vara allt
frá sex vikum og upp í veturlöng
námskeið. Til dæmis um náms-
framboð má nefna að á yfirstand-
andi haustönn er boðið upp á pí-
anókennslu fyrir alla aldurshópa
og söngnámskeið. Námskeið í gít-
arleik, ballettkennslu fyrir börn og
er það í fyrsta sinn sem kenndur
er listdans á Ísafirði svo vitað sé.
Leiklistar- og myndlistarnámskeið
fyrir börn og fullorðna s.s. teikni-
myndasagnagerð, teiknun, málun,
módelteikningu og mótun í leir. Á
öðrum nótum eru svo námskeið í
hönnun og námskeið um íslenska
byggingararfleifð og handverks-
námskeið um gerð aðventuskreyt-
inga.
http://www.snerpa.is/edinborg
Innréttaður verður salur fyrir leiksýningar o.fl. í norðurenda Edinborgarhússins, sem er til hægri á myndinni.