Morgunblaðið - 09.06.2002, Blaðsíða 11
MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 9. JÚNÍ 2002 11
Bandaríkjamönnum, þangað líta Ísr-
aelar og þeir hafa traust á þeim. En
ráðamenn Bandaríkjanna og ann-
arra ráðamanna óttast að ef faraldur
sjálfsmorðsárása gjósi upp á nýjan
leik verði þeir gerðir ábyrgir. Ísrael-
ar muni segja: Þarna sjáið þið, þetta
sögðum við.“
Ísraelar treysta
Bandaríkjamönnum
– Ísraelar hafa verið gagnrýndir
hart í Evrópu vegna atburðanna í
Jenin og annars staðar. Treysta þeir
okkur Evrópumönnum?
„Þeir bera miklu minna traust til
okkar en Bandaríkjamanna. Ísr-
aelum finnst að Evrópumenn skilji
ekki aðstæður þeirra. En Ísraelar
verða að gera sér grein fyrir því að
það er eðlilegt að málstaður Palest-
ínumanna njóti skilnings og samúð-
ar. Þeir standa höllum fæti. Þegar
Ísrael var stofnað var gert ráð fyrir
að réttindi Palestínumanna yrðu
einnig tryggð en það hefur ekki verið
gert. Fjöldi Palestínumanna býr á
hinn bóginn í Ísrael og nýtur þar
réttinda, sambúðin virðist ganga all-
vel.
Þetta er því hægt. Það er líka ljóst
að ríki þessara tveggja þjóða geta
ekki lifað nema í mjög nánum
tengslum, allt svæðið er svo lítið,
ekki eru það mikil fjöll eða önnur
kennileiti sem skilja á milli, grann-
arnir búa hinum megin við hólinn.
Nálægðin er svo mikil, maður skilur
það fyrst þegar maður er búinn að
koma til landsins og sjá aðstæður.
En þetta er hluti vandans, hvernig
er hægt að tryggja öryggið þegar
þjóðirnar búa nánast í sama túninu.
Ekki gera menn það eingöngu með
því að grafa skurði eða reisa girð-
ingar ef alls staðar er nóg af vopn-
um.“
– Arafat segist ekki geta stöðvað
hryðjuverkamennina. En er hann
enn áhrifamikill leiðtogi, er hann við
stjórnvölinn?
„Hann hefur látið handtaka menn
sem grunaðir eru um hryðjuverk en
hann hefur látið þá lausa á ný. Hann
hefur líka lofað að láta handtaka
menn án þess að standa við það, Ísr-
aelar benda á skýr dæmi um að ekki
hafi verið staðið við slík loforð. Ara-
fat segir á móti: Ég hef skýr dæmi
um að þeir hafi svikið sín loforð.
Þannig ganga ásakanir á víxl en Ísr-
aelar fullyrða að hann hafi stjórn á
Fatah-hreyfingunni og menn úr
henni beri ábyrgð á síðustu hryðju-
verkunum. Ef þetta er rétt eru mikl-
ir veikleikar í stjórnarfarinu hjá Pal-
estínumönnum. Ísraelar halda því
fram að svo mikið tillit sé tekið til
Arafats meðal Palestínumanna að ef
hann beitti sér að fullu myndi fólkið
fara að ráðum hans, það myndi hlýða
honum. Palestínumenn segja á hinn
bóginn að vonleysið sé slíkt meðal al-
mennings að þeir ráði ekki við það.
Ég sá sjónvarpsviðtal við móður
lítils barns í Ísrael, það hafði verið í
barnavagni á stað þar sem sjálfs-
morðsárás var gerð. Barnið og
amma þess fórust bæði. Þetta viðtal
snerti mig vegna þess að konan
sagði: Ég er ekki alin upp við að
hata. Ég vildi að ég gæti hatað eftir
þennan atburð en ég get það ekki.
Þeir sem gera þetta eru aldir upp við
hatur, sagði hún.
Stofnun og uppbygging Ísraels
fyrir meira en hálfri öld, flótti
margra Palestínumanna af svæðun-
um sem tekin voru, þar sem þeir
missa jarðir sínar og heimili, allt hef-
ur þetta valdið heift og hatri sem enn
er þarna til staðar. Jafnvel þótt
mönnum takist að koma samninga-
viðræðum um frið í gang og Ísraelar
bindi enda á hernámið verða mjög
erfið mál eftir, þar á meðal réttindi
flóttamannanna til að snúa aftur
heim, staða landnemabyggða gyð-
inga og yfirráð í Jerúsalem. Lausnin
hefur fjarlægst frá því að viðræðurn-
ar í Camp David árið 2000 fóru fram
og Ísraelar munu auk þess aldrei
samþykkja að allir flóttamennirnir
fái að snúa til baka. Reyndar eru
engar líkur á að þeir vilji allir snúa
aftur, margir þeirra hafa komið sér
fyrir annars staðar. Ísraelar neita að
samþykkt verði grundvallarregla
um réttinn til að snúa aftur heim en
Palestínumenn leggja einmitt ofur-
áherslu á að rétturinn sé grundvall-
aratriði; báðir aðilar gera sér grein
fyrir því að fáir flóttamannanna
munu koma til baka.“
Væri brjálæði að bíða
– Ehud Barak, fyrrverandi for-
sætisráðherra Ísraels, gaf í skyn í
viðtali fyrir skömmu að Palestínu-
menn yrðu ekki reiðubúnir að slaka
á kröfum sínum fyrr en eftir 20–30
ár, þá yrðu flestir upprunalegu
flóttamannanna látnir.
„Ég held að það væri brjálæði að
ætla að bíða svo lengi. Staðan fyrir
alla aðila getur vart verið verri,
nema algert blóðbað verði. Líf
margra Palestínumanna er hörmu-
legt, matarskortur gæti verið yfir-
vofandi og þarna munu gjósa upp
farsóttir. Þá verður angistin svo
mikil að engu er hægt að spá um það
sem gæti gerst. Reiðin í arabaheim-
inum er líka mikil og margir hata þar
Ísraela og alla gyðinga. Svæðið er
allt ein púðurtunna en samt eru
þarna tækifæri þó að alltaf sé að
koma bakslag, eins og með tilræðinu
í gær [miðvikudag] þar sem 17 dóu
og yfir 30 særðust. Allir sem ég hef
talað við eru sammála um að hægt sé
að koma á friði.
En í mínum huga er alveg ljóst að
Ísraelar verða að efla traust sitt hjá
alþjóðasamfélaginu, hjá Bandaríkja-
mönnum, í Evrópu og í arabaheim-
inum, í Rússlandi. Þeir vantreysta
hins vegar Sameinuðu þjóðunum.
Og Palestínumenn verða líka að
byggja upp traust hjá Bandaríkja-
mönnum og Evrópumönnum, þeir
njóta þess þegar en þó ekki að öllu
leyti meðal arabaþjóðanna. Menn
verða að gera Palestínumönnum
kleift að byggja upp sterkara örygg-
iskerfi og þeir verða að endurskipu-
leggja stjórnsýslu sína, þar er mikil
spilling og þar skortir valddreifingu.
Þetta er nauðsynlegur undirbún-
ingur fyrir stofnun sjálfstæðs Pal-
estínuríkis en jafnframt skilyrði þess
að hægt sé að fá Ísraela til að hverfa
frá svæðunum. Þá væri um leið búið
að tryggja forsendu þess að pólitísk-
ar viðræður um framtíðarsýnina geti
aftur hafist af fullum krafti. Þá á ég
við alþjóðlega ráðstefnu um þessi
mál og samkomulag um stofnun Pal-
estínuríkis sem njóti öryggis og að
Ísrael verði viðurkennt af öllum, geti
búið við öryggi innan landamæra
sinna, treyst í sessi efnahaginn og
horft til framtíðar.
Ef þetta gerist ekki mun ekki tak-
ast að veita Palestínumönnum að-
stoð sem þeir þurfa mjög á að halda.
Allir hafa því allt að vinna. Efna-
hagslíf Palestínu er í rúst, það er illa
skaddað í Ísrael, ferðaþjónusta er
hrunin á svæðinu og því eru allir að
tapa. En Ísraelar hafa ekki eingöngu
áhyggjur af þessum málum heldur
líka því sem er að gerast í Íran, Sýr-
landi og víðar. Þeir hafa þá í huga þá
sem lýsa því yfir hvað eftir annað að
markmiðið sé að tortíma Ísraelsríki.
Þess vegna líta Ísraelar svo á að þeir
heyi nú baráttu fyrir tilveru sinni,
baráttu fyrir því að þurfa ekki að
ganga í gegnum sams konar tortím-
ingu og reyndin var í Helförinni.“
– Stundum segja Ísraelar að við
skiljum þetta ekki nógu vel, þennan
ótta þeirra. Helförin sé farin að
gleymast á Vesturlöndum.
„Þetta er mjög sterkt í sálarlífi
Ísraela og þeim finnst að þeir at-
burðir hafi gleymst. Lítill skilningur
ríki á því að þeir standi frammi fyrir
því sama núna. Ekki af hendi Palest-
ínumanna endilega heldur annarra
arabaríkja sem séu að koma sér upp
gereyðingarvopnum og af hendi
ríkja sem styðja samtökin á bak við
sjálfsmorðsárásirnar. Þeir nefna þá
oft Sýrland og Íran og Hizbollah sem
starfar í Líbanon.
Trúarbrögðin eru sterkur þáttur í
stjórnsýslu og stefnu Írana, miklu
sterkari en hjá Írökum. Hjá þeim
síðarnefndu er það fyrst og fremst
Saddam Hussein sem ógnar, hann
lætur ekki duga að drepa þá sem
ógna völdum hans með einhverjum
hætti heldur alla fjölskyldu and-
stæðinga sinna. Hann heldur öllu í
járngreipum. En þótt enginn mæli
bót því sem hann gerir óttast menn
að ef ráðist verði á Írak til að koma
honum frá geti Írak klofnað í þrennt,
þetta kom meðal annars fram í við-
ræðunum við aðstoðarutanríkisráð-
herra Jórdaníu og fleiri. Það verði
ríki Kúrda í norðurhlutanum, ríki
shíta-múslíma í suðurhlutanum og í
þriðja hlutanum með höfuðborginni
Bagdad verði aðrir landsmenn.
Einkum eru Jórdaníumenn smeykir
um að þetta geti orðið raunin enda er
land þeirra á milli Ísraels og Íraks.
Ef Írak liðast í sundur verður
ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs-
ins enn flóknara en nú.
Margt annað en Palestína getur
haft áhrif á framvinduna í Miðaust-
urlöndum. Alþjóðleg barátta gegn
hryðjuverkum í heiminum leikur þar
sitt hlutverk. Flestir hermdarverka-
mennirnir 11. september komu frá
Sádi-Arabíu og nú hafa ráðamenn
landsins tekið frumkvæði í Palest-
ínudeilunum. Tillögur Abdúllah
krónprins um samninga milli araba-
þjóðanna og Ísraela eru uppi á borð-
inu og allir vitna í þær en þær þarf að
útfæra nánar, ramminn er ekki
nægilega skýr. Egyptar eru í forystu
um að útfæra þær betur.
En inn í þessi mál spila auk þess
þingkosningar í haust í Bandaríkj-
unum, áhrif gyðinga á bandarísk
stjórnmál og mismunandi áherslur
innan stjórnarinnar í Washington,
milli varnarmálaráðuneytisins og ut-
anríkisráðuneytisins. Þær áherslur
endurspegla ólíka sýn á baráttuna
gegn hryðjuverkum í heiminum.“
Dýpri skilningur en áður
– Hafa skoðanir þínar breyst við
að fara á staðinn?
„Ég veit ekki hvort ég get lýst því
þannig. Mér finnst ég hins vegar
hafa miklu dýpri skilning á ástand-
inu, tel að ég átti mig betur á því
hvernig ef til vill verður hægt að
leysa deilurnar. En þrátt fyrir það
finn ég til máttleysis gagnvart öllu
þessu máli. Maður spyr sjálfan sig:
Af hverju getur ekki orðið krafta-
verk í Landinu helga núna eins og
fyrir tvö þúsund árum?
Það þarf kraftaverk. Enginn einn
maður getur leyst málið, til þess þarf
átak alþjóðasamfélagsins sem þarf
að taka ábyrgð á því sem þarna er að
gerast. Kristin trú hefur kennt okk-
ur að trúa á vonina og ég trúi því að
þarna séu forsendur fyrir því að
kraftaverk geti orðið. En það mun
ekki verða á augabragði eins og í
Biblíunni,“ segir Halldór Ásgríms-
son utanríkisráðherra.
ekkert traust
Morgunblaðið/Sigrún Birna
Halldór Ásgrímsson á fundi með Ariel Sharon, forsætisráðherra Ísraels.
Utanríkisráðherra með Yasser
Arafat, leiðtoga Palestínu.
Morgunblaðið/Sigrún Birna
Halldór Ásgrímsson ásamt fylgdarmönnum sínum í Gömlu borginni í Jerúsalem, á undan þeim gengur ísr-
aelskur hermaður, við öllu búinn. Uppreisn Palestínumanna, intifada, hófst í borginni í september árið 2000.