Morgunblaðið - 17.08.2002, Qupperneq 10
FRÉTTIR
10 LAUGARDAGUR 17. ÁGÚST 2002 MORGUNBLAÐIÐ
NÚVERANDI rekstraraðilar í
Flugstöð Leifs Eiríkssonar er marg-
ir hverjir ósáttir við að ákveðið hafi
verið að efna til forvals á rekstr-
araðilum á brottfararsvæði flug-
stöðvarinnar en samningar um
verslunarrekstur, veitingasölu og
ýmsa aðra þjónustu á svæðinu renna
út um næstkomandi áramót. Enn-
fremur eru lagðar til breytingar á
verslunar- og þjónustusvæðinu og
kemur það til með að aukast um
50%, en stjórnendur flugstöðvarinn-
ar gera ráð fyrir talsverðri aukningu
í farþegafjölda á næstu árum. Nú-
verandi rekstraraðilar sjá hins veg-
ar margir hverjir ekki fram á aukn-
ingu og óttast að stækkunin muni
ekki standa undir sér.
Kynning á forvalinu fór fram sl.
fimmtudag en Höskuldur Ásgeirs-
son, framkvæmdastjóri Flugstöðvar
Leifs Eiríkssonar hf. (FLE), sagðist
í Morgunblaðinu í síðustu viku von-
ast til að fyrirhugðar breytingar
bættu afrakstur og veltu flugstöðv-
arinnar. Þá væri tilgangurinn með
forvalinu að fá fram nýjar hugmynd-
ir um rekstur í flugstöðinni og gera
núverandi og nýjum rekstraraðilum
kleift að koma hugmyndum sínum á
framfæri. Hann sagði umsækjendur
verða metna meðal annars út frá
reynslu þeirra og getu.
Sum svæðin ná ekki
til farþeganna
Rekstraraðilar í flugstöðinni voru
almennt tregir til að tjá sig um for-
valið við Morgunblaðið í gær m.a.
þar sem það gæti mögulega haft
áhrif á mat á umsóknum þeirra í for-
vali. Einn þeirra sagði að rekstur í
flugstöðinni hefði verið mjög erfiður
og dýr skóli. Rekstrarumhverfið
væri mjög sérstakt og rekstrarað-
ilarnir geti haft lítil áhrif þar á held-
ur þurfi þeir að vinna úr einhliða
ákvörðunum FLE. Annar sagði
óeðlilegt að FLE ætli sér, þ.e. frí-
hafnarrekstri sínum, öll bestu versl-
unar- og þjónusturýmin en aðrir
verði að láta sér lynda það sem eftir
er. Hann orðaði það sem svo að
þarna væru svæði sem borin von
væri að gætu náð til farþeganna.
Verslanir á þeim svæðum mundu
missa af farþegunum enda væri ver-
ið að keppa um mjög knappan tíma
þeirra á svæðinu. Staðsetningin
skipti því öllu máli.
Aftur á byrjunarreit
Sævar Jónsson, kaupmaður í
Leonard, er einn frumkvöðlanna í
verslunarrekstri í Flugstöð Leifs
Eiríkssonar. Hann segir ákvörðun
stjórnar FLE um forval á rekstr-
araðilum hafa komið sér verulega á
óvart.
„Þær verslanir sem tóku af skarið
á sínum tíma fóru út í mikinn
áhætturekstur og hafa fórnað miklu
til að ryðja brautina. Maður er bú-
inn að byggja þarna upp í fimm ár
og stendur nú frammi fyrir því að
aðrir geti komið, ýtt manni út og
tekið upp þráðinn. Mér finnst ekki
alveg sanngjarnt að verið sé að
breyta ákveðnum línum sem fyrri
stjórn FLE var búin að leggja. Ég
varð fyrir miklum vonbrigðum með
þetta forval og hvernig fyrirkomu-
lagið á að vera á þessu. Samkvæmt
því eru menn komnir aftur á byrj-
unarreit.“
Sævar hefur einu sinni flutt versl-
un sína innan flugstöðvarinnar á
leigutímanum. Hann segir það hafa
verið mjög kostnaðarsamt en sam-
kvæmt forvalsgögnum FLE, sé gert
ráð fyrir að FLE fái til umráða nú-
verandi verslunarrými Leonard.
Sævar gæti þannig staðið frammi
fyrir því að þurfa að flytja verslun
sína á ný með tilheyrandi kostnaði.
Hann tekur þó fram að gefið hafi
verið í skyn á kynningarfundi á for-
valinu að einungis væri um tillögur
að skipulagi að ræða en ekki end-
anlega ákvörðun.
Ríkið hætti verslunarrekstri
samhliða breytingunum
Um fyrirhugaða stækkun á versl-
unar- og þjónustusvæði flugstöðvar-
innar segist Sævar ekki sjá fram á
mikla aukningu í farþegafjölda á
næstu árum enda hafi farþegum
fækkað um hundrað þúsund á síð-
asta ári. FLE geri hins vegar ráð
fyrir talsverðri aukningu og hafi þar
fyrir sér British Airport Authorities
(BAA). Verði ekki talsverð aukning
á farþegafjölda sér Sævar ekki að
grundvöllur verði fyrir stækkun
svæðisins. Það leiði einungis til þess
að fleiri aðilar bítist um sama bit-
ann. Þá telur hann fráleitt að FLE,
sem er í eigu ríkisins, eigi í sam-
keppni við einkaaðila í flugstöðinni
og hagi því svo að fríhafnarverslun
þeirra megi ein selja arðbærustu
vöruflokkana, sem séu áfengi, tóbak
og sælgæti.
„Það hlýtur að vera tímaspursmál
hvenær ríkið hættir þessum versl-
unarrekstri og mér finnst eðlilegt að
það gerist samhliða fyrirhuguðum
breytingum.
FLE mætti gjarnan huga betur
að öðru máli, sem hefur verið í
ólestri sl. tvö ár en það er aðkoma
farþega að flugstöðinni. Biðraðir
hafa aukist mjög, bæði við innrit-
unarborð og í vopnaeftirliti. Það
þýðir einfaldlega að fólk hefur minni
tíma til að versla og á meðan kaup-
menn eru bæði að borga veltugjald
og háa leigu þá segir sig sjálft að all-
ir tapa peningum, líka ríkið. Þennan
flöskuháls þarf að laga,“ segir Sæv-
ar Jónsson.
Byggist allt á
farþegafjöldanum
Gunnar Olsen, framkvæmdastjóri
Flugþjónustunnar á Keflavíkurflug-
velli ehf. sem sér um veitingarekst-
ur á svæðinu, segir að öll viðskipti í
flugstöðinni byggist á þeim farþega-
fjölda sem fer þar um. Flugþjón-
ustan eigi eftir að skoða spár FLE
og leggja mat sitt á þær.
„Maður hefur þó ákveðinn fyrir-
vara almennt á spám um aukningu á
næstu misserum. Staðreyndin er sú
að það hefur dregið verulega úr um-
ferð um flugstöðina og ekki fyrirséð
að nokkur vöxtur verði á næstunni.
Allur rekstrargrundvöllur byggist á
viðskiptamannafjöldanum og við
getum ekki séð að hann komi til með
að aukast á næstu misserum.
Stærsti viðskiptavinur flugstöðvar-
innar, Flugleiðir, hefur verið að
breyta sínum áherslum, töluvert
hefur dregið úr flugi yfir Atlants-
hafið og önnur flugfélög hafa hætt
flugi til og frá Íslandi. Þannig hefur
dregið úr umsvifum á flugvellinum
og þetta hefur allt áhrif á möguleika
fyrir rekstur í húsinu.“
Gunnar segir þó ekkert óeðlilegt
við það að verslunar- og þjónustu-
rýmin verði boðin út enda sé samn-
ingstími núverandi leigjenda að
renna út. „Það er bara spurning um
þær leiðir sem farnar eru og hvaða
fyrirkomulag er haft á hlutunum en
um það má alltaf deila,“ segir Gunn-
ar Olsen.
Ýmsar breytingar
koma á óvart
Magnús Ólafsson, stjórnarfor-
maður Íslensks markaðar, segist
ekki vilja tjá sig um forvalið á
rekstraraðilum fyrr en eftir að
fundað hefur verið með starfsfólki
fyrirtækisins í næstu viku.
Um fyrirhugaðar breytingar á
verslunar- og þjónusturými segir
hann þó að ýmislegt hafi komið á
óvart á kynningarfundi FLE á
fimmtudag og þá fyrst og fremst
breytingar á norðurbyggingu. Þar
sé gert ráð fyrir að eyjan sem hýst
hefur bankann, Leonard og minja-
gripaverslunina Memories hverfi
auk þess sem Fríhöfnin fái svæði
gleraugnaverslunarinnar Optical
Studio en Fríhöfnin taki ekki þátt í
forvali rekstraraðila.
Í athugun hjá
Samkeppnisstofnun
Rekstraraðilar í flugstöðinni
lögðu í sumar fram óformlegar at-
hugasemdir til Samkeppnisstofnun-
ar þar sem kvartað var undan því að
flugstöðin væri að hygla eigin
rekstri og velja sér rými áður en
leitað væri til annarra auk þess að
velja sér þá vöruflokka sem mest
væri upp úr að hafa. Guðmundur
Sigurðsson, yfirmaður samkeppnis-
mála hjá Samkeppnisstofnun, segir
að vegna þessara óformlegu athuga-
semda hafi Samkeppnisstofnun ósk-
að eftir ákveðnum gögnum frá flug-
stöðinni. Þau gögn hafi nýverið
borist stofnuninni og verið sé að
vinna úr þeim. Guðmundur segir
óljóst með framhaldið enda sé málið
í athugun og óvíst hvenær niður-
staða liggi fyrir.
Núverandi rekstraraðilar ósáttir við forval og fyrirhugaðar breytingar á flugstöðinni
Segja flugstöðina tryggja
eigin rekstri bestu bitana
Óánægja er meðal fyr-
irtækja í Flugstöð Leifs
Eiríkssonar með þá
ákvörðun stjórnar
stöðvarinnar að efna til
forvals á rekstraraðilum
á brottfararsvæði flug-
stöðvarinnar. Fyrirhug-
aðar breytingar á versl-
unar- og þjónustusvæði
eru líka gagnrýndar.
GUNNAR Þórðarson, gítarleikari
og lagahöfundur, heldur tónleika í
samkomuhúsinu Bragganum á
Hólmavík í kvöld og hefjast þeir kl.
21.
Gunnar er fæddur og uppalinn á
Hólmavík og hefur verið að gera
upp húsið sem hann ólst upp í að
undanförnu. Hann heldur nú
tvenna tónleika og fóru þeir fyrri
fram í gær.
Tónleikarnir eru órafmagnaðir
og spilar Gunnar mörg af sínum
þekktustu dægurlögum. Honum til
halds og trausts eru þrír söngvarar
frá Hólmavík, þau Tinna Marína
Jónsdóttir, Gunnlaugur Bjarnason
og Aðalheiður Ólafsdóttir, en sjálf-
ur syngur Gunnar þrjú lög. Myndin
var tekin á æfingu í gær og var inn-
lifun fjórmenninganna mikil.
Með tón-
leika á
æskustöðv-
unum
Ljósmynd/Magnús Magnússon
FISKISTOFA hefur svipt Jón
forseta ÓF-4 veiðileyfi næstu
þrjár vikur en eftirlitsmenn
fiskistofu stóðu skipverja að því
að landa rúmlega 7,5 tonnum af
þorski fram hjá löndunarvigt á
Dalvík í júní sl. Skipstjórinn
játaði brotið.
Veiðileyfissviptingin gekk í
gildi á miðnætti í fyrrinótt en
samkvæmt upplýsingum frá
Fiskistofu hafði báturinn þá
þegar verið sviptur veiðileyfi
vegna fiskveiða umfram afla-
heimildir. Hafði honum verið
haldið til veiða en snúið aftur
með heldur meiri afla en heim-
ildir voru fyrir. Slík svipting
gengur til baka séu aflaheim-
ildir færðar á bátinn. Jón for-
seti er 31 brúttótonns eikarbát-
ur.
Ekki með
veiðileyfi
þegar hann
var sviptur