Morgunblaðið - 10.09.2002, Page 39
MINNINGAR
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 10. SEPTEMBER 2002 39
✝ Þórður Þórðar-son múrarameist-
ari fæddist í Gerðum í
Garði 16. október
1917. Hann lést á
Landspítala – há-
skólasjúkrahúsi í
Fossvogi2. septem-
ber síðastliðinn. For-
eldrar hans voru
Þórður Þórðarson
trésmiður, f. á Neðra-
Hálsi í Kjós 23. okt.
1884, d. 12. ágúst
1965, og Gíslanna
Gísladóttur, f. að Sjó-
búð í Garði 24. júlí
1887, d. 19. maí 1983. Systkini
Þórðar voru Jóna saumakona, f.
16. mars 1914, d. 16. feb. 2000,
Fanney, f. 17. ágúst 1915, d. 24.
júní 1935, og Gísli loftskeytamað-
ur, f. 4. ágúst 1926. Þórður kvænt-
ist 26. júní 1940 Gyðu Jónsdóttur,
f. 15. apr. 1918. Foreldrar hennar
voru Jón Kornelíus Pétursson, f. í
Dýrafirði 3. júní 1890, d. 8. feb.
1925, og Ágústa Gunnlaugsdóttur,
f. í Reykjavík 1. ágúst 1888, d. 7.
ág. 1951. Börn Þórðar og Gyðu
eru: 1) Jón K., f. 6. mars 1939, maki
Úndína Gísladóttir f. 14. sept.
1937, þau eiga þrjár dætur. 2)
Fanney Margrét, f. 13. feb. 1941,
maki Magnús Björnsson, f. 16. apr.
1944. Þau eiga fjóra syni. 3) Þór-
anna, f. 16. des. 1946, maki Guð-
mundur Valdimarsson, f. 24. feb.
1928, þau eiga tvö börn. 4) Þórður,
f. 21. des. 1948 maki Kristín S. Sæ-
mundsdóttir, f. 21. apr. 1948. Þau
eiga þrjú börn. 5) Ágúst, f. 4. okt.
1951 maki Edda Ólafsdóttir, f. 14.
des. 1951. Þau eiga tvö börn. 6)
Ingi Gunnar, f. 28. apr. 1953 maki
Hafdís Helgadóttir, f. 13. ág. 1954.
Þau eiga þrjú börn. Langafa og
langalangafabörnin eru 19. Áður
en Þórður kvæntist eignaðist hann
dótturina Maríu Magnúsdóttur, f.
30. apr. 1938, d. 20.
des. 1996, maki Ei-
ríkur Rafn Thor-
arensen. Þau eiga
fimm börn.
Þórður tók sveins-
próf í múraraiðn
1948. Var félagi í
Múrarafélagi
Reykjavíkur í 9 ár og
gegndi hann mörg-
um trúnaðarstörfum
innan félagsins.
Hann sat í stjórn
Sveinasambands
byggingamanna og
var forseti þess um
skeið. Árið 1957 varð hann félagi í
Múrarameistarafélagi Reykjavík-
ur. Þórður sat í stjórn þess félags í
25 ár, þar af 17 ár sem formaður.
Þórður var gerður að heiðurs-
félaga í Múrarameistarafélagi
Reykjavíkur árið 1987. Hann sat í
stjórnum Lífeyrissjóðs múrara,
Vinnuveitendasambands Íslands
og Landssambands iðnaðar-
manna. Þórður var múrarameist-
ari á mörgum byggingafram-
kvæmdum og eru þar á meðal
Landakotsspítali, Hafnarbúðir,
byggingar Loftleiða, Lögreglu-
stöðin v/Hverfisgötu, Félagsstofn-
un stúdenta v/ Hringbraut, fyrstu
áfanga bæði að Verkfræði- og
raunvísindadeild Háskólans og
hjónagörðum v/Suðurgötu, Val-
höll hús Sjálfstæðisflokksins, hús
Pósts og síma v/Kirkjustræti og
Ármúla, Hótel Hof v/ Rauðarár-
stíg, heimili St. Jósefssystra í
Garðabæ, Vistheimilið v/Dal-
braut, Félagsheimili og íþróttahús
fyrir KR v/Kaplaskjólsveg, auk
fjölda íbúðabygginga. Þórður var
félagi í Oddfellowreglunni í stúku
nr. 10 Þorfinni karlsefni.
Útför Þórðar verður gerð frá
Bústaðakirkju í dag og hefst at-
höfnin klukkan 15.
Ég leitaði blárra blóma
að binda þér dálítinn sveig,
en fölleit kom nóttin og frostið kalt
á fegurstu blöðin hneig.
Og ég gat ei handsamað heldur
þá hljóma, sem flögruðu um mig,
því það voru allt saman orðlausir draumar
um ástina, vorið og þig.
En bráðum fer sumar að sunnan
og syngur þér öll þau ljóð,
sem ég hefði kosið að kveða þér einn
um kvöldin sólbjört og hljóð.
Það varpar á veg þinn rósum
og vakir við rúmið þitt,
og leggur hóglátt að hjarta þínu
hvítasta blómið sitt.
Ég veit ég öfunda vorið,
sem vekur þig sérhvern dag,
sem syngur þér kvæði og kveður þig
með kossi hvert sólarlag.
Þó get ég ei annað en glaðzt við
hvern geisla, er á veg þinn skín,
og óskað, að söngur, ástir og rósir,
sé alla tíð saga þín.
(Tómas Guðmundsson.)
Með þessu ljóði Tómasar Guð-
mundssonar skálds vil ég minnast
afa míns sem ásamt ömmu minni um-
vafði mig allri sinni ást og hlýju frá
því ég fæddist og þar til hann dó.
Minningarnar um hann mun ég
geyma í hjarta mínu. Með þessum
orðum kveð ég ástkæran afa minn.
Blessuð sé minning hans.
Gyða.
Elsku afi, það er svo margt sem
fer í gegnum hugann þegar stundin
er komin og við þurfum að kveðja þig
í hinsta sinn. Hugurinn reikar aftur í
tímann þegar ég var lítil og var mikill
heimagangur hjá þér og ömmu í
Skeiðarvoginum. Þú vannst nú
reyndar mikið en komst í hádeginu í
bláberjaskyrið og rúgbrauðið hjá
ömmu og leyfðir mér að sitja í fang-
inu á þér og sagðir mér frá vinnu-
körlunum. Mér fannst þú vera mik-
ilvægasti maðurinn í öllum
heiminum að hafa byggt allar
stærstu og mikilvægustu bygging-
arnar í Reykjavík t.d. lögreglustöð-
ina við Hverfisgötu, nýja Landakots-
spítalann og Loftleiðabyggingarnar.
Sérstaklega man ég þó eftir jólaboð-
unum hjá ykkur ömmu sem voru eins
fínustu veislur hjá hefðarfólki í út-
löndum og ég var reglulega stolt að
geta montað mig af þeim við vinkon-
ur mínar, ekkert var flottara en jóla-
boðin ykkar. Eftir að ég komst á full-
orðinsárin var gott að leita til þín og
þú varst alltaf boðinn og búinn að
hjálpa okkur barnabörnunum ef okk-
ur vanhagaði um eitthvað.
Þegar að endalokum kom fannst
mér ómetanlegt að hafa getað verið
hjá þér og haldið í höndina þína, þeg-
ar þú kvaddir okkur sem eftir lifum
og minnumst þín og söknum. Því eins
og Einar Benediksson sagði forðum
,,hve blásnautt er hjarta sem einskis
saknar“.
Elsku afi, ég veit að langamma og
systir þín taka vel á móti þér og þú
munt aldrei hverfa úr huga mér.
Bless elsku besti afi.
Sá er eftir lifir
deyr þeim sem deyr
en hinn dáni lifir
í hjarta og minni
manna er hans sakna.
Þeir eru himnarnir
honum yfir.
(Hannes Pétursson.)
Þín
Margrét.
Mig langar að minnast Dóa afa
með fáeinum orðum. Þegar ég var lít-
il stelpa þá fannst mér hann afi voða
mikill maður. Hann hafði byggt allar
helstu byggingar Reykjarvíkurborg-
ar, svo átti hann svaka flotan Range
Rover jeppa og hafði alltaf hatt eins
og forsetar. Seinna fékk ég að eiga
einn af höttunum hans, en þá var það
nú frekar til að vera eins og popp-
stjarna á plötuumslagi heldur en for-
seti.
Til afa og ömmu var alltaf frábært
að koma, jólaboðin í Skeiðarvoginum
voru tilhlökkunarefni allt árið og
sumarbústaðarferðir algert ævin-
týri. Enda var allt gert til þess að við
barnabörnin hefðum það sem allra
best. Við erum 4 frænkurnar á sama
aldri og ekki vorum við nú beint
hljóðlátar og prúðar en ekki man ég
til þess að afi hafi nokkurn tímann
hækkað róminn við okkur. Það er
ekki fyrr en núna þegar ég er orðin
eldri að ég geri mér grein fyrir
hversu mikilli þolinmæði hann bjó yf-
ir. Hann afi minn bjó yfir mörgum
góðum kostum, einn af þeim var gott
skopskyn. Hann gat gert mikið grín
að sjálfum sér, þá sérstaklega eftir
að hann fór að tapa heyrn, hann hló
oft að þeim skondna misskilningi
sem af því hlaust og ekki síst þegar
hann sá hversu mikið synir hans gátu
haft gaman af.
Þegar ég kom heim í sumar
skrapp ég auðvitað í heimsókn til afa
og ömmu. Þau voru í góðu formi þann
daginn, afi brosandi og hló að því að
það væri enginn friður fyrir gesta-
gangi. Hann faðmaði mig fast þegar
ég fór, bað að heilsa og óskaði mér
góðrar ferðar.
Afi var mikill fjölskyldumaður og
eins og hann byggði stór hús þá
byggði hann líka upp stóra og sterka
fjölskyldu. Ég álít mig mjög lánsama
að vera hluti af þeirri heild. Vonandi
tekst mér að bera áfram þessi góðu
gildi sem ég ólst upp við.
Hugur minn undanfarna daga hef-
ur mikið verið hjá Gyðu ömmu og ég
votta henni og hennar börnum mínar
dýpstu samúð.
Sæunn Huld Þórðardóttir.
Sumri hallar og hausta fer,
kveðjustundin er komin. Oft höfum
við afi kvaðst áður, ég á leið til út-
landa til dvalar eða búsetu. Afa féll
ekki vel sú hugsun að ég væri sest að
erlendis og spurði í hvert skipti er við
hittumst, „Ertu alfarið sest að þarna
úti? Hvenær kemurðu í heimsókn
aftur?“ Við ræddum þetta mikið en
það var ekki fyrr en ég var komin
með mann sem hann hætti að spyrja
og sætti sig við að ég væri flutt er-
lendis. Í staðinn hljómuðu spurning-
arnar svona „Hefur hann ekki ágætis
vinnu þannig hann geti séð fyrir
þér?“ Þannig var afi, maður af gamla
skólanum.
Allt frá því ég var barn fannst mér
gott að leita til afa. Hann var alltaf
tilbúinn til að hlusta á mig enda
þurfti ég mikið að tala. Eitt sinn er
tekin var mynd af mér, en á henni
hafði ég lokaðan munninn, sá afi það
um leið og spurði „Hvernig tókst
ykkur að fá hana til að loka munn-
inum?“ Oft sátum við saman og
ræddum allt milli himins og jarðar og
gerðum grín að hversdagsleikanum.
Skopskyn afa var mikið og gaman-
semi hans skein alltaf í gegnum sam-
ræðurnar.
Heimsóknirnar í sumarbústaðinn
eru í dag með yndislegustu minning-
unum sem geymast í hjartanu. Þegar
fáni var dregin að húni, kallaði afi
barnabörnin með sér út til að hylla
fánann. Þessu hélt hann áfram þó svo
að barnabörnin þættust vera orðin of
stór en nú voru það bara langafa-
börnin sem fóru með. Eitt af því
fyrsta sem keypt var, þegar sum-
arbústaðurinn varð að veruleika,
voru leiktæki fyrir barnabörnin,
þannig var afi alltaf að hugsa um
börnin sín. Leiktækin voru mikið
notuð og fyrir tíu árum spurði afi mig
hvort hann ætti ekki að henda þeim.
Ég hélt nú ekki og eftir þó nokkrar
umræður féllst afi á það að ef mér
tækist að gera leiktækin upp fengju
þau að vera áfram á lóðinni. Þvílík
vinna! Ég hamaðist og hamaðist í tvo
daga og tókst að bjarga þeim. Í dag
leika langafabörnin sér í leiktækjun-
um og hafa ekki minna gaman af en
ég á sínum tíma.
Eftir að ég eltist og flutti til
Reykjavíkur tengdumst við enn
sterkari böndum og það var eins og
það væri hjartans mál fyrir afa
hvernig mér vegnaði í Háskólanum.
Þegar að útskrift minni kom fannst
afa það hinn eðlilegasti hlutur að
haldið yrði upp á þennan viðburð í
hans húsum þrátt fyrir þverrandi
heilsu hans og ömmu. „Annað kemur
ekki til greina“. Ég vil þakka afa all-
ar samverustundirnar, öll hjólin sem
ég fékk og allt það sem hann hefur
gert fyrir mig með kvæðinu „Dán-
arstef“ eftir Einar Benediktsson.
Vor ævi stuttrar stundar
er stefnd til Drottins fundar,
að heyra lífs og liðins dóm.
En mannsins sonar mildi
skal máttug standa’ í gildi.
Hún boðast oss í engils róm.
Svo helgist hjartans varðar.
Ei hrynur tár til jarðar
í trú, að ekki talið sé.
Í aldastormsins straumi
og stundarbarnsins draumi
oss veita himnar vernd og hlé.
Margrét Unnur.
Að kveðja er aldrei auðvelt, sér-
staklega mann eins og afa. Afi var
alltaf fastur punktur í fjölskyldunni.
Hann var maðurinn sem átti alltaf
kók frammi í bílskúr, lumaði alltaf á
bröndurum þegar maður átti síst von
á þeim og sá til þess að það voru allt-
af til flugeldar fyrir áramótin. Sem
barn var skrifstofan hans afa alltaf
óþrjótandi uppspretta furðulegra
hluta og það er nokkuð víst að þol-
inmæði hans var ótrúleg þegar kom
að littlum puttum að róta í skúffum
og fikta við allt sem á skrifborðinu
var. En bestu minningarnar um afa
eru að austan úr sumarbústað. Þar
var hann í essinu sínu og hann virtist
aldrei vera hamingjusamari heldur
en þegar við barnabörnin vorum sem
flest í kringum hann. Þegar maður
kom í heimsókn spurði hann hvað
maður væri að gera þá stundina.
Hann vildi vita hvað maður væri að
bauka í skólanum og eftir að við elt-
umst og fórum að þvælast um heim-
inn vildi hann vita hvernig maður leit
heiminn.
Sem barn var maður óendanlega
stoltur af honum afa, sem hafði
byggt allar þessar byggingar í
Reykjavík. Maður leit með stolti á
lögreglustöðina á Hverfisgötu,
Landakotspítala, Valhöll, hús sjálf-
stæðismanna og margar fleiri bygg-
ingar og maður var alltaf jafn stoltur
af að vera barnabarn hans.
Elsku afi, núna þegar þú ert horf-
inn á vit næsta tilverustigs vitum við
að þú passar upp á okkur og sérð til
þess að húmorinn skorti aldrei á
himni. Kímnin sem skein ávallt úr
augum þínum og að sjá lífið með
björtum huga er veganesti í lífinu
sem við munum varðveita stolt í öllu
sem við gerum. Guð varðveiti þig.
María og Martin.
Ættarhöfðingi er fallinn frá. Þórð-
ur Þórðarson múrarameistari er lát-
inn 84 ára að aldri. Við slík tímamót
er manni gjarnt að láta hugann reika
til baka og rifja upp kynni manns af
þessum höfðingja. Mín kynni af
Þórði ná allt aftur til frumbernsku
minnar, þó svo að þau kynni komi
hvað skýrast fram frá því á barns-
aldri í Bústaðahverfinu. Það var viss
og afgerandi lífsreynsla að alast upp
í hverfinu á sjötta áratugnum, hverfi
sem var þá á endimörkum borgar-
innar og í algerri mótun. Ekki er ég
viss um að allir trúi því en þá voru
eingöngu tveir símar í öllu efra
hverfinu, þ.e. ofan ,,Ólabúðar“ sem
svo var nefnd, lengra er nú ekki síð-
an. Það hins vegar háði ekki fólki,
fólki sem í dag mundi vera talið efna-
lítið. Fjölskyldan var stór og en
húsakynni ekki að sama skapi. Við
þessar aðstæður ólst ég upp og átti
sem leikfélaga og frænda Þórð
yngsta, sem þá var kallaður, því
,,Þórðarnir“ voru þá þrír, eins og nú.
Við Dói, eins og Þórður yngsti var
ætíð kallaður nutum þeirra forrétt-
inda að umgangast ömmu hans og
afa, Gíslínu og Þórð elsta á Vestur-
götunni, heiðurshjón, sem alltaf var
gaman að heimsækja og fá pönnu-
kökur hjá, kannski eftir veiðar niðri á
bryggju. Þannig kynntumst við
krakkarnir einnig þeirri kynslóð sem
fædd var fyrir og um næstsíðustu
aldamót. Kannski má segja að kjör
okkar hafi verið kröpp á þessum tíma
en við upplifðum þau ekki þannig.
Þórði Þórðarsyni kynntist ég
fyrst, þegar hann réð mig til sum-
arvinnu sem ,,handlangara“ við
byggingu ,,nýja“ Landkotsspítalans.
Þótt hann væri tengdur fjölskyldu
minni, giftur systur móður minnar,
var ekki laust við að ég bæri fyrir
honum óttablandna virðingu, hann
var jú húsbóndinn. Þá og ætíð síðan
kynntist ég helstu eiginleikum þessa
manns. Ráðvendni, vinnusemi, festu
og varkárni í fjármálum, og þeirri
gullvægu kennisetningu að; ,,Orð
skulu standa“. Mér er ætíð ljós sú
takmarkalausa virðing sem nunn-
urnar í Landakoti báru fyrir honum
bæði meðan á þessu verki stóð, en
ekki síður æ síðan. Það má segja að
með þessu verki hafi gæfan snúist
Þórði og hans fjölskyldu í hag. Því að
í kjölfar þessa verks voru honum fal-
in ótalmörg flókin og vandasöm verk
víðs vegar um Reykjavík, sem bera
þessum mikla verkmanni göfugt
vitni. Þórður var mikill íhaldsmaður,
íhaldsmaður í þess orðs besta skiln-
ingi. Hann gerði sér ekki upp skoð-
anir fjöldans, reyndi það alls ekki,
þvert á móti átti hann það jafnvel til
að vera á móti í rökræðum, kannski í
þeim eina tilgangi að vera á móti, en
ætíð fastur fyrir. Hans pólitísku
skoðanir voru jafnvel á ,,skjön“ við
flesta aðra, jafnt í innanlands- sem
utanlandsmálum, en það skipti hann
engu, hann hélt sínu striki Þannig
var hann heilsteyptur maður sem þú
gast reitt þig á, þó svo að skoðanir
ykkar færu ekki saman.
Þrátt fyrir að vinnudagurinn væri
oft langur og á stundum erfiður, var
það ekki svo að þessi mikli höfðingi
gæfi sér ekki tíma með okkur krökk-
unum. Ógleymanlegar eru bílferð-
irnar forðum á ,,Austin“ bílnum sem
hann átti, fallegri bifreið með, að mig
minnir, leðurklæddum sætum, þá
gekk nú ýmislegt á í aftursætinu hjá
okkur og kannski ekki alltaf lögleg
farþegatalan! Þá má ekki gleymast
spenningurinn fyrir áramótin, hvort
Þórður ,,stóri“, eins við nefndum
hann færi í tiltekna búð á Vesturgöt-
unni og höndlaði þar varning, sem þá
og að ég held nú, var ekki talinn lög-
legur, þ.e.a.s keypti ,,kínverja“ og þá
hvort við fengjum að njóta þeirra
kaupa, en Þórður hafði ekki síður
gaman af að sprengja þá en við.
Þetta eru ógleymanlegir tímar.
Ekki verður skilist svo við minn-
ingu Þórðar Þórðarsonar að ekki sé
getið förunautar hans á lífsskeiðinu,
móðursystur minnar Gyðu Jónsdótt-
ur. Það má segja að gæfa Þórðar hafi
falist að jafn miklu leyti í hans eig-
inleikum sem og Gyðu. Það skal eng-
inn segja manni annað en að það hafi
þurft tvær kraftmiklar og dugandi
og samhentar manneskjur í lífsbar-
áttuna, með sex börn, til að komast
þangað sem þau komust saman.
Áræði og ákveðni skipuðu æðsta sess
hjá þeim við það mikla verk og
kannski ekki síður það einfalda lífs-
viðhorf að gefast aldrei upp hvað svo
sem á móti blési.
Að leiðarlokum þá átta ég mig á
hversu djúp áhrif ýmislegt í viðkynn-
ingu við Þórð Þórðarson hefur haft á
mig, börn hans og aðra afkomendur,
til góðs og fyrir það vil ég þakka bæði
fyrir mína hönd og minnar fjöl-
skyldu. Ég veit að á þeirri vegferð
sem hann nú hefur lagt út á verður
hans för gæfuför. Hafðu þökk fyrir
allt. Ég bið algóðan Guð að vernda
Gyðu frænku, börn hans og afkom-
endur og vini á þessari sorgar- og
saknaðarstund.
Þorsteinn Eggertsson.
ÞÓRÐUR
ÞÓRÐARSON
Erfidrykkjur
Heimalöguð kaffihlaðborð
Grand Hótel Reykjavík
Sími 514 8000
Handrit afmælis- og minningargreina skulu vera vel frá gengin, vélrituð eða tölvusett. Sé
handrit tölvusett er æskilegt, að disklingur fylgi útprentuninni. Senda má greinar til blaðsins
í bréfsíma 569 1115, eða á netfang þess (minning@mbl.is). Nauðsynlegt er, að símanúmer höf-
undar/sendanda fylgi. Nánari upplýsingar má lesa á heimasíðum. Það eru vinsamleg tilmæli
að lengd greina fari ekki yfir eina örk A-4 miðað við meðallínubil og hæfilega línulengd — eða
2.200slög. Höfundar eru beðnir að hafa skírnarnöfn sín en ekki stuttnefni undir greinunum.