Morgunblaðið - 09.11.2002, Qupperneq 37
LISTIR
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 9. NÓVEMBER 2002 37
ERLA S. Haraldsdóttir er fædd
1967, menntuð í Gautaborg, San
Fransisco og Stokkhólmi og hefur
verið virk í list sinni í um sex ár. Á
þeim tíma hefur hún haldið fimm
einkasýningar og þetta er sú sjötta,
auk þess að taka þátt í fjölda sam-
sýninga, hérlendis og erlendis. Ljós-
myndaverk sem hún vann í sam-
vinnu við Bo Melin vöktu nokkra
athygli hér þegar þau voru sýnd í
Galleríi Hlemmi 2001.
Erla hefur unnið ágæta möppu
sem gefur góða innsýn í verk hennar
undanfarin sex ár og þegar hún er
skoðuð er ljóst að verk hennar fjalla
gjarnan um skynjun og mörk raun-
veruleika og ímyndunar. Þannig
leika ljósmyndaverk hennar og Bo
Melin sér með daglegt umhverfi
okkar með því að breyta því á til-
tölulega hógværan hátt svo efi vakn-
ar hjá áhorfanda um það hvað er
raunverulegt og hvað ekki. Svipað
hefur Erla gert upp á eigin spýtur í
ljósmyndum af íslenskri náttúru þar
sem framandlegur fugl flýgur við
Skógafoss, geimför takast á loft uppi
á öræfum o.fl.
Nú er Erla líka á náttúruslóðum í
verki sínu Það sem þú í raun sást, en
aðalverk sýningarinnar er mynd-
bandsverk af öldugangi á Mýrdals-
sandi þar sem einnig bregður fyrir
stúlku á ferli. Myndbandið er fal-
legt, öldugangur er jafnan seiðandi
og hraðinn dregur ekki úr þeim
áhrifum. Stúlkan sem birtist og
hverfur jafnsnöggt bætir annarri
vídd við verkið, maður er í raun ekki
viss um hvað maður sá og ekki sá.
Myndbandinu er varpað á vegg.
Þegar ég sá það var það illa sýnilegt
vegna sólar, sem truflaði mjög. Án
efa er það sterkara á skýjuðum degi.
Nú eru svo margir að vinna mynd-
bandsverk í dag. Kannski verður
það til þess að það er stundum notað
án tillits til sérstakra eiginleika
þess. Sjónrænir möguleikar miðils-
ins fara oft fyrir ofan garð og neðan
og myndbönd eru oftar en ekki eins
konar hreyfanleg ljósmyndavél, sem
hefur fyrst og fremst heimildagildi.
Í þessu tilfelli hefði verkið verið mun
sterkara með ákveðnari framsetn-
ingu. Myndbönd listamanna eins og
til dæmis Marijke van Warmerdam
sýna til dæmis vel hvers myndband-
ið er megnugt á sinn einfaldasta
hátt. Mér fannst líka tilvísun til
virkjana óþörf í verkinu og þrengja
túlkunarmöguleika áhorfanda um of.
Erla hefur svo beðið tvo lista-
menn um að vinna verk út frá mynd-
bandinu, Joshua Trees segir í orðum
hvað honum finnst hann sjá út úr
kyrrmynd af myndbandinu og Arn-
grímur Borgþórsson, ungur graffit-
ilistamaður, gerir verk á einn vegg
gallerísins, byggt á sömu kyrrmynd.
Texti Trees verður til þess að maður
veltir fyrir sér hvað það er sem
skapar ímynd Íslands út á við –
hvort Sykurmolarnir og síðan Björk
eigi þar í raun svona stóran hlut að
máli en í texta sínum nefnir Trees
bæði álfa og vindla sem virkar óneit-
anlega klisjukennt, en álfastúlkan
Björk söng jú um vindlareykingar í
Sykurmolalaginu góða fyrir löngu.
Þessi samvinnuhugmynd finnst
mér áhugaverðasti hluti sýningar-
innar og nokkuð sem er spennandi
að vinna með – jafnvel þó að útkom-
an sé í þessu tilfelli ekkert sérstak-
lega áhugaverð. Sovéski listamaður-
inn Ilya Kabakov hefur til dæmis
notað þennan möguleika á skemmti-
legan hátt með því að innlima við-
brögð áhorfenda við verkunum í
sýningar sínar, þannig hefur komið
vel fram í verkum hans mismunur á
viðbrögðum áhorfenda í vestri og
austri, auk gráthlægilegra við-
bragða almennings við list sem fáir
botnuðu í. Samvinna er ofarlega á
baugi í dag, bæði listamanna á milli
sem og milli listamanna og almenn-
ings og það er spennandi að fylgjast
með hvernig hún þróast frekar á
næstu árum.
Þrátt fyrir annmarka framsetn-
ingar og þá staðreynd að viðbótin
sem vannst með samvinnunni er
ekkert sérlega spennandi, búa verk
Erlu yfir áhugaverðum þáttum, skil-
in milli raunveruleika og ímyndunar
eru heillandi og samvinnuhugmynd-
in frjó. Og vonandi að sólin haldi sig
bak við ský á næstu dögum.
Vindlareykjandi
álfastúlkur á
Hlemmi
MYNDLIST
Gallerí Hlemmur
Til 10. nóv. Sýningin er opin miðvikudaga
til sunnudaga frá kl. 14–18.
BLÖNDUÐ TÆKNI,
ERLA S. HARALDSDÓTTIR
Ragna Sigurðardóttir
Þetta er Ísland
Hún er Íslendingur
Hún er álfur
Hún er heilbrigð
Hún reykir vindla
Hún er köld
Hún er alein
TVÖ námskeið hefjast í Listahá-
skóla Íslands í næstu viku. Nám-
skeið í leiktúlkun hefst á mánu-
dag. Markmiðið er að opna heim
sviðs- og leiktúlkunar. Fjallað
verður m.a. um það hvernig leik-
arar nálgast nýtt hlutverk. Rann-
sökuð verða mismunandi göngu-
lag og hreyfingar, talsmáti og
kækir. Aðaláhersla verður lögð á
vinnu með einleik (Mónólóg) að
eigin vali eða valinn í samráði við
kennarann. Kennari er Þór Tul-
inius leikari.
Námskeið í hönnunarsögu hefst
á fimmtudag. Það er í formi fyr-
irlestra og fjallar um íslenska
hönnunarsögu 1860–1960. Tíma-
bilið hefst með brautryðjenda-
starfi Sigurðar Guðmundssonar
(1833–1874) og síðan verður þátt-
taka Íslendinga í heimssýningum
reifuð og lýkur með umfjöllun um
hönnunartilraunir sjötta áratug-
arins þegar norræn hönnun öðl-
aðist alþjóðlega viðurkenningu.
Kennari er Arndís S. Árnadótt-
ir innanhússhönnuður.
Námskeið í LHÍ
Önnur eins ánægja á
ferðalögum finnst varla
og í Thailandsferðum
HEIMSKLÚBBSINS.
8. JAN. 2003
UNDRA THAILAND
17 d. 4 n. í Bangkok og 11 n.
á Jomtien. 4ra-5* hóteli
m. morgunv.
29. JAN. 2003
RÓMUÐ STÓRA
THAILANDSFERÐIN
Allt landið frá Bangkok, Stóri flotmarkaðurinn, River Kwai,
Phitsanuloke, Sukotai, CHIANG MAI - Rós Norðursins,
CHIANG RAI og í lokin 6 d. Jomtien PÁLMASTRÖND.
Nú geta allir farþegar okkar gist á hinu frábæra
RADISSON-BANGKOK.
THAILANDSFERÐ ÞEGAR ÞÚ VILT
- á eigin vegum. Flug frá kr. 107 þús m. flugvallarsk.
Viltu stytta skammdegið?
Austurstræti 17, 4. hæð, 101 Reykjavík, sími 562 0400, fax 562 6564,
netfang: prima@heimsklubbur.is, heimasíða: http://www.heimsklubbur.is
SJÁ EINNIG
http//www. heimsklubbur.is
Pantanasími
56 20 400