Morgunblaðið - 14.05.2003, Side 36

Morgunblaðið - 14.05.2003, Side 36
MINNINGAR 36 MIÐVIKUDAGUR 14. MAÍ 2003 MORGUNBLAÐIÐ Jón Þorsteinsson, mágur minn, er látinn eftir stutta en erfiða baráttu. Jón skipaði óhjákvæmilega stóran sess í mínu lífi sem eiginmaður syst- ur minnar, en alla tíð höfum við syst- ur verið samrýndar. Aldrei örlaði á neins konar pirringi eða afbrýðisemi þó að við systur eyddum ómældum tíma saman. Líklega hefur hann átt- að sig á því snemma að við vorum óaðskiljanlegar. Þvert á móti gekk þolinmæði hans svo langt, að hann útvegaði mér vinnu á skrifstofu sem hann hafði umsjón með fyrir mörg- um árum og sótti mig auk þess á morgnana og ók mér heim eftir vinnu á hverjum degi í tvö ár. Jón var alla tíð góður íþróttamað- ur og stundaði golf fram að því að þrekið gaf sig vegna sjúkdómsins. Hann var einn af stofnendum Golf- klúbbs Suðurnesja og hlaut í gegnum árin margs konar viðurkenningar í þeirri íþrótt. Þá stundaði hann alla tíð veiðimennsku, bæði skotveiði og silungsveiði. Ekki var hann allra og að mörgu leyti einfari. Húmor hafði hann gáskafullan og beinskeyttan sem hann beitti gjarnan í góðra vina hópi. Þeim sem hann tók var hann hins vegar traustur og góður vinur. Jón var alinn upp á Geiteyjar- ströndinni við Mývatn og þangað fór hann í sumarfrí á hverju ári. Alla tíð hafði hann mjög sterkar taugar til Mývatnssveitar og fátt var fegurra og merkilegra í hans augum. Fyrir tæpum tveimur áratugum ákvað hann að byggja sér bústað á jörðinni sem hann erfði og átti við Mývatn. Bústaðurinn átti að vera at- hvarf hans í ellinni og sumardvalar- staður fjölskyldunnar. Varla hafði hann fyrr sett hugmyndina fram en fjöldi sjálfskipaðra verndara Mý- vatnssveitar settu sig á móti fram- kvæmdinni. Hófst nú áralöng bar- átta hans við aðila sem allir virtust tengdir einhverjum sem byrjaði eða endaði á skipulagi eða vernd. Fyrir tveimur árum hafði hann þó sigur og fékk hann að byggja á landinu sínu. Jón byggði glæsilegan bústað síðasta JÓN ELLIÐI ÞORSTEINSSON ✝ Jón Elliði Þor-steinsson fæddist á Geiteyjarströnd í Mývatnssveit 3. ágúst 1928. Hann lést á Heilbrigðis- stofnun Suðurnesja 2. maí síðastliðinn og var útför hans gerð frá Keflavíkurkirkju 13. maí. sumar. Þar náði hann að gista þrisvar áður en hann lést. Elsku Erla mín. Það er mér þungbært að geta ekki verið með ykkur á þessari erfiðu stund. Við Pétur send- um ykkur innilega sam- úðarkveðju. Elsku Jón, mágur minn. Þér þakka ég samferðina í þessu lífi og allt það góða sem þú gerðir fyrir mig. Erna Sigur- bergsdóttir. Það var aldrei leiðinlegt nálægt Jóni. Næmt auga fyrir minnstu hrukku og skrámu í karakterum sem urðu á vegi hans og óviðjafnanlegt skopskyn gerðu að verkum að það var alltaf tilhlökkun að hitta hann. Jón var ekki allra, enda kærði hann sig ekkert um alla. Hann var ekki maður sem lét velja sig, heldur valdi hann sjálfur þá sem hann vildi hafa í kringum sig. Þeir sem ekki lentu í náðinni álitu hann kaldan og ómannblendinn. Við sem urðum þeirrar gleði njótandi að kynnast honum vitum hins vegar að hann var hlýr og stóð með sínu fólki sama á hverju gekk – og mikil félagsvera þegar hann hitti fólk sem var honum að skapi. Það var ekki hversdagslegt fólk; það var ekki endilega neitt já-fólk. Þvert á móti, skilyrði fyrir því að hann nennti að halda úti samræðum sem um munaði (án þess að hann segði það endilega upphátt) voru þau að fólk væri dálítið skrautlegt og skringilegt. Hann var alltaf að stúd- era karaktera og átti einstaklega auðvelt með að herma eftir fólki. Og þá var hlegið. Ekki svo að skilja að Jón væri neinn spjátrungur á bak við póker- andlitið sem einkenndi hann dagfars- lega. Hann fékk svo sannarlega sinn skerf af sorgum og áhyggjum, þótt ekki viti ég um neinn sem heyrði hann berja sér á brjóst, kvarta eða biðja um samúð og skilning. Kannski var það einmitt þessi fullkomni skortur á „aumingja-ég“-þætti í fari Jóns sem gerði það að verkum að stundum stóð fólki stuggur af hon- um. Þeir voru til sem héldu að ekkert snerti hann. En Jón var mennskur og fann til; hann var breyskur og gerði glommur – sem ég man ekki eftir að hann reyndi að réttlæta. Hann var fylginn sér þegar hann beit eitthvað í sig sem sannaðist best með því að hann skyldi á endanum „fá leyfi“ til þess að reisa sumarbústað á „sínu eigin“ landi við Mývatn eftir áralangt þref við náttúrverndaryfir- völd sem fylgdu svo strangri vernd- arstefnu að við lá að þau bönnuðu sjálfum blómunum að gróa í landi Jóns, til þess að allt héldist nú nógu óbreytt um aldur og ævi. Jón var þróttmikill einstaklingur sem sá ekki fram á að ellin hefði upp á margt af því að bjóða sem hann áleit einhvers virði. Hann lagði sig virkilega í líma um að sniðganga hana, að minnsta kosti líta framhjá henni, enda má segja að hann hafi verið ungur, frískur og haldinn ein- hverri lífsgleði-þrjósku allt þar til enn þrjóskari sjúkdómur lagði hann að velli. Ég er ekki svo viss um að það hafi verið honum á móti skapi að fara á þessum tímapunkti, þótt hann hefði orðið síðastur manna til þess að flýta fyrir för sinni í aðra heima. Við sem þekktum Jón vel vitum að sá dagur hefur vart liðið í rúm fjörutíu ár að efst í huga hans hafi ekki verið myndin af syninum, Birgi Steini, sem hann missti í hörmulegu slysi fjög- urra ára gamlan. Jón lifði í vissu um að sá augasteinn myndi taka á móti honum hinum megin og kannski var það sú vissa sem veitti honum kjark til að standa sína plikt, hlúa að sín- um, láta hverjum degi nægja sína þjáningu og láta hreint hjá líða að æðrast þegar hann vissi í lokin að hverju stefndi. Ja, ef þar verða ekki fagnaðar- fundir … Það er hins vegar lítill fögnuður hjá okkur sem þótt vænt um Jón. Það er sárt að kveðja hann í dag, því hann var drengur góður og við eigum eftir að sakna hans. Súsanna Svavarsdóttir. Mig langar með nokkrum orðum að kveðja minn ágæta vin Jón Þor- steinsson. Ég kynntist þeim hjónum Jóni og Erlu fljótlega eftir að ég flutti til Keflavíkur 1963 og gerðist kennari við Barnaskóla Keflavíkur. Í fyrsta bekknum mínum var dóttir þeirra Jóns og Erlu, Oddný Indíana, og kunningsskapur við fjölskylduna hefur haldist æ síðan. Sem starfs- maður í Verslunarbankanum kynnt- ist ég Jóni einnig sem einum af við- skiptavinum bankans en eins og kunnugt er ráku þau hjónin Skóbúð- ina Keflavík í meira en 30 ár og voru þau í hópi viðskiptavina bankans. Hafði ég mikla ánægju af þeim sam- skiptum enda ráku þau fyrirtæki sitt með miklum myndarskap. Mestur og bestur varð kunningsskapur okkar Jóns þó á því sviði sem lengstum var mesta áhugamál og ástríða okkar beggja, þ.e. í golfíþróttinni. Jón hafði verið einn af frumkvöðlunum sem stofnuðu Golfklúbb Suðurnesja árið 1964 og þegar ég gekk í klúbbinn nokkrum árum seinna var Jón í hópi bestu kylfinga klúbbsins. Ekki leið á löngu þar til ég komst í hóp þeirra sem oftast spilaði með Jóni og stund- um var það oft í viku og skipti þá ekki máli hver árstíðin var. Jón var vin- sæll golfari enda mikill keppnismað- ur og það var hreint ekki auðvelt að ganga með sigur af hólmi þegar leik- ið var við hann. Þegar ég fór að huga að því að minnast Jóns hér í dag þá dró ég fram litla minnisbók sem ég hef lengi geymt í náttborðinu mínu og glugga í öðru hvoru. Ég gríp niður í það sem ég hef skrifað 9. febrúar 1975: Leiknar níu holur með Jóni Þ. Jón vinnur með einni holu! 13. febr- úar: Leikið með Jóni. Jón vinnur með tveimur holum. 2. mars: Leikið með Jóni. Jón á orðið fjórar holur. Svona var þetta oft en þegar upp var staðið skipti þó ekki máli hvor var yfir í það og það skiptið, það var samveran sem skipti máli. Við áttum líka marg- ar stundir á heimili þeirra Erlu þar sem við fylgdust með sjónvarpssend- ingum frá helstu stórmótum. Þar var ávallt tekið á móti mér af einstakri hlýju og vil ég við þetta tækifæri sér- staklega þakka Erlu fyrir hennar þátt í því. Ég votta henni og fjöl- skyldunni samúð mína um leið og ég þakka Jóni vini mínum fyrir allar góðu stundirnar sem við áttum sam- an. Helgi Hólm. Elskulegur eiginmaður minn, faðir okkar, tengdafaðir og afi, GUÐMUNDUR SIGFÚSSON ÖFJÖRÐ frá Lækjamóti, Kirkjuvegi 13, Selfossi, andaðist á sjúkrahúsi Selfoss laugardaginn 3. maí síðastliðinn Útförin hefur farið frá Selfosskirkju þann 10. maí sl. í kyrrþey að ósk hins látna. Bestu þakkir til allra þeirra, sem sýnt hafa okkur hlýju og velvild. Jóhanna Ósk Halldórsdóttir, Sigfús G. Öfjörð, Lilja Bragadóttir, Ari G. Öfjörð, Sólrún Sverrisdóttir, Lára G. Öfjörð, Ólafur S. Bjarnason, Eiríkur Rúnar G. Öfjörð, Björg Sighvatsdóttir, Þorsteinn G. Öfjörð, Linda Steingrímsdóttir, Guðrún Ása G. Öfjörð, Ingigerður G. Öfjörð, Guðmundur Jóhann G. Öfjörð, Þórunn Jónsdóttir og barnabörn. Ástkær eiginkona mín, móðir mín og amma okkar, BIRNA JÓNSDÓTTIR, Garðastræti 9, verður jarðsungin í Dómkirkjunni fimmtudaginn 15. maí kl. 13.30. Pétur Pétursson, Ragnheiður Ásta Pétursdóttir, Pétur Gunnarsson, Eyþór Gunnarsson, Birna Gunnarsdóttir, Sólveig Anna Jónsdóttir. Hjartans þakkir fyrir auðsýnda samúð og hlý- hug við andlát og útför ástkærrar eiginkonu, móður okkar, tengdamóður, ömmu og lang- ömmu, HULDU SIGURBJÖRNSDÓTTUR, Víðilundi 24, Akureyri. Sérstakar þakkir fær hjúkrunarfólk lyflæknis- deildar Fjórðungssjúkrahúss Akureyrar fyrir alúð og umönnun svo og Hvítasunnukirkja Akureyrar. Guð blessi ykkur öll. Jóhann Pálsson, Samúel Jóhannsson, Ragnhildur Ingólfsdóttir, Rut Sigurrós Jóhannsdóttir, Guðmundur Konráðsson, Hanna Rúna Jóhannsdóttir, Ágústa Jóhannsdóttir, Ellert B. Schram, ömmu- og langömmubörn. Hjartans þakkir til allra þeirra sem sýndu okkur samúð og hlýhug við andlát og útför elskulegs eiginmanns míns, föður, tengdaföður og afa, ÁSGEIRS KRISTINS ÁSGEIRSSONAR, Garðabraut 45, Akranesi. Aðalbjörg Guðmundsdóttir, Marta Kristín Ásgeirsdóttir, Gylfi Þórðarson, Hafdís Fjóla Ásgeirsdóttir, Sólveig Ásgeirsdóttir, Ásgeir Ásgeirsson, Ágústa Björg Kristjánsdóttir, Guðmundur Ásgeirsson, Margrét Ýr Einarsdóttir, Agnar Ásgeirsson, Elsa Jóna Björnsdóttir og barnabörn. Innilegar þakkir fyrir auðsýnda samúð og hlý- hug við andlát og útför ástkærrar móður okk- ar, tengdamóður, ömmu og langömmu, SIGURVEIGAR HALLDÓRSDÓTTUR, áður Dvergabakka 36. Stefán V. Skaftason, Sigríður R. Hermóðsdóttir, Halldór Skaftason, Ína Gissurardóttir, Gyða Thorsteinsson, Rósa Thorsteinsson, Árni S. Björnsson, barnabörn og langömmubörn. Afmælis- og minningargreinum má skila í tölvupósti (netfangið er minning@mbl.is, svar er sent sjálfkrafa um leið og grein hefur borist) eða á disklingi. Ef greinin er á disklingi þarf út- prentun að fylgja. Nauðsynlegt er að tilgreina símanúmer höfundar og/eða sendanda (vinnu- síma og heimasíma). Þar sem pláss er takmarkað getur þurft að fresta birtingu greina, enda þótt þær berist innan hins tiltekna frests. Nánari upplýsingar eru á mbl.is. Um hvern látinn einstakling birtist formáli og ein aðalgrein af hæfilegri lengd á útfarardegi, en aðrar greinar skulu ekki vera lengri en 300 orð, u.þ.b. 1.500 slög (með bilum) eða um 50 línur í blaðinu (17 dálksentimetrar). Tilvitnanir í sálma eða ljóð takmarkast við eitt til þrjú erindi. Einnig er hægt að senda örstutta kveðju, HINSTU KVEÐJU, 5–15 línur, og votta virðingu án þess að það sé gert með langri grein. Greinarhöfundar eru beðnir að hafa skírnarnöfn sín en ekki stuttnefni undir greinunum. MORGUNBLAÐIÐ birtir afmælis- og minningargreinar endurgjalds- laust alla daga vikunnar. Greinunum má skila í tölvupósti (netfangið er minning@mbl.is - svar er sent sjálfvirkt um leið og grein hefur borist) eða á disklingi og þarf útprentun þá að fylgja. Nauðsynlegt er að til- greina símanúmer höfundar og/eða sendanda (vinnusíma og heima- síma). Tekið er á móti afmælis- og minningargreinum á 1. hæð í húsi Morgunblaðsins, Kringlunni 1 í Reykjavík, og á skrifstofu Morgun- blaðsins Kaupvangsstræti 1 á Akureyri. Ekki er tekið við handskrif- uðum greinum. Birting afmælis- og minningargreina

x

Morgunblaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.