Morgunblaðið - 30.05.2003, Blaðsíða 4

Morgunblaðið - 30.05.2003, Blaðsíða 4
FRÉTTIR 4 FÖSTUDAGUR 30. MAÍ 2003 MORGUNBLAÐIÐ Þ AÐ má segja að fólkið hafi kosið þetta yfir sig. Hér var í eina tíð mikill kvóti, hann var seldur og peningunum sem fyrir hann fékkst eytt í annað,“ sagði Jón Sigurðsson, sem fæddur er á Raufarhöfn, en hefur verið „landshornaflakkari í mörg ár,“ eins og hann segir. Hann flutti burt um 1950, en hefur mörg hin síðari ár dvalið að sum- arlagi á heimaslóðum og þá gjarnan róið á trillu sinni eftir fiski í soðið. „Ég á engan kvóta, fiska bara og gef fólki í soðið, lauma því á tröppurnar þegar það sefur.“ Jón sagði það sína skoðun að ríkisstjórnin ætti að hjálpa fólkinu til að flytja í burtu, það væri eina ráðið. „Það á að kaupa eignirnar af íbúunum hérna á skynsamlegu verði og að- stoða það við að koma sér fyrir annars stað- ar. Átthagatengslin eru raunar býsna sterk, en ég held það fólk fari sem getur farið,“ sagði Jón. Hann sagði ástandið afar slæmt, en að einhverju leyti væri vandinn heima- tilbúinn. Þegar skipin urðu stærri, var höfnin of grunn. Þá var hún dýpkuð og þegar því verki var lokið voru skipin hætt að koma til Raufarhafnar því eignarhaldið á bæði skipum og verksmiðjum hafði breyst. „Ég átti tal við mann héðan skömmu eftir að ótíðindin bárust út og hann spáði því að fyrir næstu áramót yrðu um 100 manns á staðnum flutt í burtu, en ég veit ekki hvort það verður. Getur allt eins verið.“ Jón býr í hjólhýsi sem hann dró fyrr í vor sunnan úr Reykjavík þar sem hann býr yfir veturinn. Helgi Hólmsteinsson, fermingarbróðir hans, leit við í kaffi „áður en maður skellir í sig grautnum,“ eins og hann orðaði það og hellti snarpheitu kaffinu úr brúsanum. Helgi hefur búið á Raufnarhöfn alla sína tíð, lengstum verið sjómaður á land- róðrabátum. Hann átti, með foreldrum sínum og systkinum, hlut í félagi sem gerði út einn til tvo báta. „Maður hefur nú lifað tímana tvenna,“ sagði Helgi, en hann man vel þann tíma þegar Raufnarhöfn var ein stærsta út- flutningshöfn landsins og þorpið iðaði af lífi „og svo hefur maður fylgst með hnignuninni. Nú verður ekkert eftir ef þetta gengur allt eftir.“ Hann sagði að þegar uppsagnir tækju gildi hjá frystihúsinu og síldarvinnslunni, myndi keðjan halda áfram, hreppurinn myndi draga saman seglin „og þá verður fátt eftir.“ Helgi á 160 fermetra einbýlishús á Rauf- arhöfn með 60 fermetra bílskúr og leigir það á 20 þúsund krónur á mánuði. „Þetta er einskis virði, ævistarf manns er nánast farið í vaskinn. Það er vissulega sárt, mjög sárt,“ sagði Helgi og bætti við að ekkert nema kraftaverk gæti bjargað staðnum. „Þeir yrðu þá að finna olíu,“ sagði Jón fermingarbróðir Helga og er heldur vantrúaður á kraftaverk. Þeir fermingarbræður sögðu illt að horfa upp á ástandið. Helgi nefndi að ríkið hefði átt síldarverksmiðjuna en fyrirtækinu hefði svo verið breytt í hlutafélag. „Við vorum mörg hér í bænum sem keyptum hlutabréf og töld- um að við hefði þannig einnig áhrif. Svo kom bara í ljós að við voru núll og nix, réðum engu og sjálfsagt verður verksmiðjunni lok- að,“ sagði Helgi. Hann vill þó trúa því að á ný renni upp betri tíð, „Við stöndum illa núna, en hér er fín höfn og þetta er úrvals staður til smábátaútgerðar, þannig að ég vona að úr rætist.“ Peningarnir ráða Erlingur Thoroddssen, hótelstjóri á Hótel Norðurljósum, sagði að þegar Jökull var seldur fyrir fáum árum og Útgerðarfélag Ak- ureyringa tók við hefði strax sett ugg að mönnum. „Þessir háu herrar fullyrtu að skip- in myndu halda áfram að landa heima, en það stóð ekki lengi,“ sagði Erlingur en hann nefndi að fólk velti því nú fyrir sér hversu lengi eigendur myndu halda úti vinnslu á staðnum. „Dollarinn er lágur og þeir fá lítið fyrir afurðirnar; þetta fyrirtæki er ekki fé- lagsmálastofnun, það er sú hugsun sem nú er ríkjandi. Það er alltaf þannig að þegar illa gengur draga menn saman seglin eða breyta starfseminni, fólkið virðist ekki lengur skipta máli, peningarnir ráða öllu,“ sagði Erlingur. Hótel Norðurljós er opið allt árið og sagði Erlingur að mikils samdráttar hefði gætt í rekstrinum þegar skipin hættu að landa á staðnum. „Það var mikil blóðtaka fyrir okkur þegar skipin hættu að koma, við fengum tölu- verð umsvif í kringum þau. Það komu hér ýmsir þjónustuhópar í tengslum við skipin.“ Erlingur sagði að til væru á staðnum menn sem ættu kvóta, en flestir veiddu aðeins hluta hans og leigðu hann að öðru leyti frá sér. Ekkert væri unnið heima, öllu ekið burtu til vinnslu annar staðar. Hann sagði að svipuð staða hefði komið upp í Grímsey, en augu manna opnast og í kjölfarið hefðu útgerð- armenn farið að veiða og verka sinn fisk heima. „Ef heimamenn hér vilja gera eitt- hvað sjálfir, þá verða þeir sem halda um fjör- egg byggðarlagsins að íhuga alvarlega að leggja eitthvað í púkkið. Því miður er staðan samt bara þannig að það er hagkvæmara að leigja frá sér kvótann eða selja aflann annað. En vissulega gætu menn hér heima komið með gott innlegg. Það þýðir ekkert að bíða eftir að aðrir komi okkur til bjargar ef við leggjum ekki eitthvað á móti sjálf. Ég vildi sjá að bæjarbúar fengju að njóta þess kvóta sem til er hér á staðnum,“ sagði Erlingur. Hann gerði ráð fyrir að nokkur fækkun íbúa yrði í haust á Raufarhöfn. Fyrst og fremst yrðu það erlendu verkamennirnir sem hyrfu á braut, en heimamenn væru bundnir yfir eignum sínum og gætu síður farið. Gerði hann ráð fyrir að íbúarnir yrðu um 200 áður en langt um liði, en þeir eru nú tæplega 300 talsins. Erlingur sagði að umræða um Rauf- arhöfn væri afar neikvæð og hún hefði áhrif á sálarlíf fólksins. „Fjölmiðlar sjá bara dökku hliðarnar. Þetta er stöðugt áreiti sem við megum búa við og að mínu mati hefur sveit- arfélagið farið halloka í umræðunni. Ég er aðkomumaður hér og sé margt sem betur má fara, en þessi ofsi í fjölmiðlaumræðunni fer í taugarnar á mér, það er sífellt hamrað á vondu fréttunum og mér finnst með ólík- indum hvað menn geta gert sér yrkisefni úr litlu.“ sagði Erlingur. Hugsar sér til hreyfings Eva Guðrún Gunnarsdóttir er tvítug, fædd og uppalin á Raufarhöfn og byrjaði að vinna í frystihúsinu strax eftir að grunnskóla lauk. Hún fór burt um tíma í framhaldsskóla en kom aftur heim og starfar í frystihúsinu. „Þetta er í einu orði sagt hrikalegt,“ sagði hún. Þar sem farið yrði eftir starfsaldri við endurráðningar bjóst hún ekki við að fá vinnu eftir sumarlokun. „Ætli maður hugsi sér ekki til hreyfings, fari burt, til Akureyrar eða Reykjavíkur, það er lítið annað í stöð- unni,“ sagði hún og gerði allt eins ráð fyrir að hefja nám að nýju. „Mér líkar vel hér heima og myndi gjarnan vilja búa hérna áfram, en það er svo stutt síðan þetta kom upp að ég veit ekki hvað ég geri í haust. Maður er rétt að byrja að átta sig á stöð- unni,“ sagði Eva Guðrún. Hún starfar einnig í sjoppunni á staðnum og sagði að umræðan snérist að mestu um uppsagnirnar. „Pólverj- arnir eru mjög slegnir yfir þessu, þeir eru náttúrulega margir í mikilli óvissu um sína framtíð og gera flestir ráð fyrir að verða ekki endurráðnir,“ sagði hún. Sjálf á hún ekki eign á staðnum og kvaðst af þeim sökum ekki eins illa sett og margir í þeirri stöðu. „Það er ekki auðvelt að hlaupa frá húsinu sínu og eiga ekki annars staðar athvarf, þetta er mik- ið áfall fyrir þá sem eiga fasteignir hérna. Það eru eiginlega allir í sjokki yfir þessu og margir sjá ekki annan kost en fara þó það sé sárt.“ Það svartasta sem við höfum séð Feðgarnir Jóhannes Björnsson og Einar Jóhannesson voru að taka saman grásleppu- netin niður við höfn, vertíðin búin. Gekk að vísu þokkalega, en var heldur stutt, að sögn Jóhannesar. „Ég bjóst nú allt eins við þessu og þá jafnvel að þeir myndu leggja þessa starfsemi alveg niður,“ sagði Jóhannes. „Ég hef enga trú á því að svona félög hafi að reka sjávarútvegsfyrirtæki á öllum smástöðum. Þetta er ekki glæst framtíð,“ sagði hann og gerði ráð fyrir að ekki liði á löngu þar til loðnubræðslunni yrði lokað líka. Bærinn hefði byggst upp í kringum það sem hafið gæfi og menn hefðu ekki að neinu öðru að hverfa nú þegar illa áraði. Einar sagði að fólksflótti hefði verið viðvarandi síðustu ár, en íbúarnir hefðu verið um 400 talsins fyrir 5 árum og nú stefndi í að þeim myndi enn fækka í kjölfar uppsagnanna. „Þetta verður erfiðast fyrir fólk sem situr uppi með eignir hérna, það fer verst út úr þessu. Fólk sem hefur búið hér og starfað lengi horfir upp á verðlausar eignir, það má allt eins henda þeim,“ sagði Einar. „Þetta gerir marga nánast að öreigum,“ sagði Jóhannes. Hann hefði viljað að farið hefði verið hægar í sakirnar, „því það er vitað mál að þetta drepur þorpið.“ Hann sagði stjórn- málamenn skammsýna, þróunin hefði verið með þeim hætti í sjávarútvegi að hægt hefði verið að sjá þetta fyrir. „Menn hefðu átt að hugsa fyrir því fyrr að bjóða upp á eitthvað annað í staðinn, en menn vita ekki enn hvað það ætti helst að vera,“ sagði Jóhannes. Þeir feðgar sögðu ástandið nú það svartasta sem þeir hefðu séð og sögðu að erfitt yrði hjá þeim sem eftir yrðu. „Þjónustan minnkar smám saman þar til lítið sem ekkert verður eftir,“ sagði Einar. Uppsagnir allra starfsmanna Jökuls á Raufarhöfn reiðarslag fyrir byggðarlagið „Ætli maður verði ekki að flytja burtu,“ sagði Eva Guðrún Gunnarsdóttir sem vinnur líka í sjoppunni á staðnum. Morgunblaðið/Margrét Þóra Fermingarbræðurnir Jón Sigurðsson og Helgi Hólmsteinsson segja vandann að einhverju leyti fólginn í því að sveitarfélagið seldi frá sér kvótann og eyddi peningum í annað. Erlingur Thoroddsen hótelstjóri segir heimamenn verða að standa saman í þeim þrengingum sem framundan eru. Sárt að sjá á eftir ævistarfinu Feðgarnir Jóhannes Björnsson, til vinstri, og Einar Jóhannesson taka saman grásleppunetin á Raufarhöfn eftir vertíðina. maggath@mbl.is Íbúar á Raufarhöfn eru slegnir yfir uppsögnum um 50 starfsmanna Jökuls og telja að mörgum verði nauðugur sá kostur að yfirgefa verðlausar eignir sínar og leita fyrir sér með atvinnu annars staðar. Margrét Þóra Þórsdóttir var á Raufarhöfn í gær og spjallaði við fólk á förnum vegi. Margir spáðu því að flótti brysti á enn á ný í haust en það gerði þeim sem eftir væru enn erfiðara fyrir. BYGGÐASTOFNUN mun veita Rauf- arhafnarbúum alla þá aðstoð sem henni er unnt, að sögn Jóns Sigurðssonar, formanns stjórnar stofnunarinnar, vegna uppsagna og fækkunar starfs- fólks hjá Jökli ehf., eins og fram hefur komið. Jón Sigurðsson segir að ef sveit- arstjórn eða atvinnuþróunarfélag svæð- isins leiti eftir aðstoð Byggðastofnunar verði hún veitt. Hann segir að fyrsta skrefið yrði þá að fela þróunarsviði stofnunarinnar að taka út ástandið og koma með tillögur til úrbóta. Byggðastofnun geti síðan tekið þátt í fjármögnun aðgerða með öðrum, eftir þeim reglum sem hún starfi eftir, til dæmis með því að veita lán eða leggja fram hlutafé á móti öðrum aðilum. Byggðastofnun mun aðstoða

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.