Morgunblaðið - 30.05.2003, Blaðsíða 28

Morgunblaðið - 30.05.2003, Blaðsíða 28
MINNINGAR 28 FÖSTUDAGUR 30. MAÍ 2003 MORGUNBLAÐIÐ ✝ Gunnlaugur Sig-valdason fæddist á Grund á Langanesi 23. október 1938. Hann lést á heimili sínu í Reykjavík 22. maí síðastliðinn. For- eldrar hans eru hjón- in Sigvaldi Sigurðs- son og Þorbjörg Gunnlaugsdóttir. Gunnlaugur var ann- ar í röð fjögurra systkina hjónanna á Grund, en þau eru: Sigurður, býr í Kópa- vogi, Aðalbjörg, býr á Akureyri, og Þorbjörg, býr í Kópavogi. Gunnlaugur ólst upp á Grund og gekk í barnaskóla á Langanesi, fór síðan í héraðsskólann á Laugum árið 1955 og lauk þar námi 1958. Var síðan kennari á Langanesi 1958 til 1959. Framhaldið varð Samvinnuskólinn á Bifröst haustið 1959 og lauk hann námi þar vorið 1961. Að námi loknu réðst hann til starfa hjá Kaupfélagi Langnes- inga á Þórshöfn 1961 og starfaði þar til 1965. Það ár flutti hann til Reykjavíkur og tók til starfa hjá hagdeild SÍS og starfaði þar til 1966. Bókari og gjaldkeri dagblaðsins Tímans árið 1967. Árið 1968 fluttist Gunnlaugur til London og starf- aði sem bókari á skrifstofu SÍS þar til ársins 1971. En það ár flutti Gunnlaugur aftur heim til Reykjavíkur og tók við sama starfi á Tímanum og var þar til ársins 1979, en það ár réðst hann til starfa hjá endurskoðunarstofunni Þema og starfaði þar til ársloka árið 2000. Þar með lauk starfsferli Gunnlaugs vegna mikilla veikinda. Gunnlaugur kvæntist aldrei og átti hann ekki börn. Útför Gunnlaugs verður gerð frá Kópavogskirkju í dag og hefst athöfnin kukkan 15. Ekki óraði mig fyrir því að það yrði of seint að heimsækja frænda á morg- un. Morgundagurinn með frænda kemur aldrei aftur. Það skarð verður heldur aldrei brúað sem myndast við fráfall frænda, hann var mér svo sterkur persónuleiki og svo gott til hans að leita. Við áttum margar og oft langar samverustundir, hann var sannur vinur við sína og var gott af honum að þiggja. Hann gaf án skil- yrða og þáði án skilyrða. Ég bjó stundum hjá frænda lengri sem skemmri tíma og eru það mér ógleymanlegar stundir. Eftir veikindi hans fékk hann ekki heilsu aftur til að starfa lengur svo okkur gáfust fleiri stundir til að vera saman, stundum kom ég við hjá honum á leiðinni heim úr vinnu, bara til að drekka með hon- um kaffi. Frændi var mikið náttúrubarn, ferðaðist mikið um landið og tók mik- ið af myndum af landslaginu, fór líka í gönguferðir með ferðahópum, langar sem stuttar. Frændi ferðaðist líka mikið erlendis og var vel kunnugur þeim stöðum sem hann kom á, lagði vel á minnið og tók myndir. Þó að frændi byggi mikið einn var hann aldrei einfari. Hann átti kannski ekki mjög stóran vinahóp, en mjög þéttan og sterkan. Þessi síðastliðin þrjú ár voru frænda stundum erfið vegna veikind- anna. Hann ræddi við mig stundum um dauðann, hvort kallið kæmi nú eða síðar. Sjálfur var hann viss um að kallið kæmi ekki nú í vor, hann var orðinn svo hress síðustu tvær til þrjár vikurnar, en kallið kom honum og öðrum að óvörum 22. maí er frændi varð bráðkvaddur á heimili sínu. Hann sagði mér það einu sinni að þegar kallið kæmi óskaði hann þess að fá að fara eins og væri slökkt á ljósaperu. Við þessari ósk hans var orðið. Við sem eftir stöndum og sökn- um hans erum þess fullviss að hann ætlaði sér að gera eitthvað á morgun; morgundaginn sem kom aldrei. Að lokum vil ég votta systkinum og öllu venslafólki frænda samúð mína og fá að sameinast þeim í sorginni yfir fráfalli frænda. Síðasta versið úr ljóðinu Lauga- maður kvaddur, eftir Þorbjörn Krist- insson, verður mín kveðja til frænda með þökk fyrir allt. Minning um löngu liðna daga lifir í huga mér. Þótt heimurinn væri helmingi stærri skyldi hugur minn fylgja þér. Ég finn þegar okkur fundum lýkur verða fátækleg orðin mín. Fólgin í nokkrum fallandi tárum verður fegurst kveðja til þín. Jóhann Lárusson. Gunnlaugi kynntist ég fyrst haust- ið 1956 í Héraðsskólanum á Laugum í Reykjadal og urðum við þá fljótt góð- ir vinir. Gunnlaugur var hlédrægur maður og tók ekki þátt í bekkjarslag þeim, er algengur var um tíma. Hins vegar var hann hraustur vel og fáir stóðu honum á sporði í svokölluðum kefladrætti, hvar menn spyrntu sam- an fótum og tókust á um kefli. Haust- ið 1959 hófum við saman nám í Sam- vinnuskólanum á Bifröst í Borgarfirði og „gömlu“ Laugamennirnir sátu jafnan saman í kennslustundum. Gerðum við þá oft okkur til dundurs að yrkja vísur hvor til annars um lífið og tilveruna, en Gunnlaugur var ágætur hagyrðingur. Allt frá Bifrast- arárunum höfum við haft stöðugt samband, bæði símleiðis og með heimsóknum hvor til annars. Oft var þá tekið í spil með sameiginlegum vinum og kunningjum. Á síðastliðnu hausti kom Gunnlaugur norður og bauð okkur hjónum til kvöldverðar ásamt fleirum. Var hann þá ánægður með lífið og tilveruna, virtist vera bú- inn að ná sér nokkuð vel eftir erfið veikindi. Þetta reyndist þó okkar síð- asta sameiginlega kvöldmáltíð. Gunnlaugur var maður útivistar og margar helgar gekk hann um fjöll og firnindi, ýmist einn eða í fylgd með öðrum. Æskustöðvarnar sótti hann heim að minnsta kosti einu sinni á ári, stundum oftar, Langanesið var hon- um kært. Þá var hann foreldrum sín- um sérstök stoð og stytta á þeirra elli- árum. Í útskriftarferðinn frá Bifröst árið 1961 var förinni heitið til Akureyrar. Komumst við þó ekki lengra en til Sauðárkróks, þar sem Hörgárdalur- inn var ófær. Fórum við Gunnlaugur með Esjunni til Akureyrar, en hinir héldu ferðinni áfram til suðurs. Meiri- hluti bekkjarins hefur haldið nánu sambandi gegnum tíðina, hefur m.a. hist árlega eina helgi allt frá árinu 1991. Mætti Gunnlaugur í allar þess- ar ferðir utan eina, var þá veikur. Var þetta Gunnlaugi eins og okkur öllum í bekknum mikils virði, í þessum ferð- um virðast bekkjarsystkinin leitast við að vera hvert við annað eins og var á Bifröst fyrir margt löngu síðan, menn yngjast ósjálfrátt um mörg ár. Verður Gunnlaugs sárt saknað í næstu ferð. Um leið og við hjónin kveðjum traustan og góðan vin sendum við að- standendum hans samúðarkveðjur. Guð blessi minningu Gunnlaugs og ykkur öll. Birgir Marinósson. Það er undarleg tilfinning að frétta andlát Gunnlaugs Sigvaldasonar frá Grund á Langanesi og dálítið erfitt að sætta sig fyllilega við þá niðurstöðu. Hér er áður mikið hraustmenni fallið frá sem hafði að vísu átt nýlega í erf- iðum veikindum. Eftir læknisaðgerð- ir var Gunnlaugur kominn til furðan- legrar heilsu og það var von hans fjölmörgu vina og kunningja að hans biðu síðan mörg góð ár. En hér er önnur staða komin upp sem ekki verður breytt og veldur söknuði og depurð hjá þeim sem þessar línur skrifar. Leiðir okkar Gunnlaugs lágu fyrst saman á Bifröst í Borgarfirði þar sem við sátum á skólabekk endur fyrir löngu, báðir fremur fúsir til náms. Hafði Gunnlaugur lokið fyrri náms- vetrinum á Bifröst þegar ég kom í skólann. Gunnlaugur var sérstæður maður og vann sér hvarvetna traust og virðingu. Hann var vel greindur og framkoman einkenndist af einlægni og spaugsemi – oft blandað þungri al- vöru. Hann var fyrirmyndar náms- maður og skólanum til sóma í einu og öllu. Bekkurinn hans hefur að öðrum ólöstuðum haldið ótrúlega vel saman félagslega allt fram á þennan dag og jafnan farið árlega í sameiginlega skemmtiferð innanlands eða erlendis. Þessi samheldni er vissulega eftir- tektarverð og byggist á því vinarþeli GUNNLAUGUR SIGVALDASON ✝ Jónína Heiðarfæddist í Garðbæ í landi Stóru-Vatns- leysu á Vatnsleysu- strönd 18. apríl 1901. Hún lést á Elliheim- ilinu Grund 23. maí síðastliðinn. Foreldr- ar hennar voru Sig- urjón Jónsson, d. 1967, Jónssonar frá Ási við Hafnarfjörð og Sigríðar Ásgríms- dóttur og Guðrún Filippusdóttir, d. 1923, Eyjólfssonar frá Ægissíðu á Rang- árvöllum og Guðrúnar Jónsdótt- ur. Systir Jónu var Guðrún Ingi- björg hjúkrunarkona, f. 31. ágúst 1903, d. 21. apríl 1988. Jóna giftist Salómon Heiðar, organista og tónskáldi, árið 1929. Börn þeirra eru: 1) Guðrún ljós- móðir, gift Theophil Douay, verk- fræðingi; synir þeirra eru Helgi Sylvan sálfræðingur, kvæntur Brendu tónlistarkennara, og Gylfi, sálfræðingur, þeir eru báð- ir búsettir í Washington-ríki. 2) Helgi, augnlæknir, kvæntur Dru- sillu Kurz hjúkrunarfræðingi; dætur þeirra eru Lisa kennari, gift Eric Wearner matreiðslu- meistara, og Kristín læknir, gift Tim Hunter iðjuþjálfa. Garðbær var lítið býli í landi Stóru-Vatnsleysu á Vatnsleysu- strönd og þar ólst Jóna upp, ásamt systur sinni. Faðir þeirra stundaði jöfnum höndum búskap og sjóróðra eins og aðrir, sem bjuggu í litlu býlunum á Ströndinni. Árið 1920 fluttist fjöl- skyldan til Hafnar- fjarðar, þegar Garð- bær var rifinn og fluttur að Hjalla- braut og endur- byggður þar. Dvölin þar stóð ekki lengi, því 1923 lést móðir Jónu og við það leystist heimilið upp. Jóna var listfeng hannyrðakona og annáluð fyrir smekkvísi og vand- virkni, lærði fatasaum á yngri ár- um og starfaði við þá iðn bæði hér heima og vestanhafs þar sem hún hafði sína föstu viðskiptavini um árabil. Salómon lést árið 1957 og tveimur árum síðar fór Jóna til Guðrúnar dóttur sinnar í Kanada, bjó þar næstu árin og flutti síðan með fjölskyldunni til Bandaríkj- anna þar sem Helgi sonur hennar býr. Hún ferðaðist víða með börn- um sínum og barnabörnum og bjó ýmist á heimili Helga eða Guð- rúnar en afréð að flytja til Íslands árið 1989, þá áttatíu og átta ára gömul. Hún bjó á Dvalarheimilinu Felli fyrsta áratuginn en flutti á Dvalarheimilið Grund þegar heilsan kallaði á meiri þjónustu. Útför Jónu verður gerð frá Að- ventkirkjunni í dag og hefst at- höfnin klukkan 15. Móðir mín og vinur, Jóna Heið- ar, sofnaði með frið í hjarta föstu- daginn 23. maí og vaknaði ekki aft- ur. Hún hafði óskað þess að fá að kveðja lífið með þessum hætti þeg- ar hennar tími kæmi og var þannig bænheyrð. Hundrað og tveggja ára vegferð konu sem var um margt óvenjuleg er lokið og komið að skilnaðar- stund. Tregi og heit þakklætis- kennd fyllir hugann og ljúfar minn- ingar um samverustundir og einstæða vináttu streyma fram hver af annarri, bæði frá æskuár- um á Íslandi og fullorðinsárum í Bandaríkjunum. Hún var kærleiks- rík og umhyggjusöm móðir en líka skemmtileg kona með skoðanir á hlutunum. Hvar sem hún var stödd í heiminum og hvernig sem allt veltist var hún alltaf hún sjálf; vel- viljuð, glaðsinna, mannblendin og atorkusöm en jafnframt óvenjulega sjálfstæð og glögg á aðalatriði. Þessi lyndiseinkunn birtist í við- brögðum hennar og viðhorfum strax á barnsaldri og lífið efldi hana og styrkti. Hún var flugnæm og námfús og þráði mjög að kom- ast í langskólanám á æskuárum sínum en átti þess ekki kost. Þegar hún leit um öxl á efri árum sá hún eftir því einu að hafa ekki sótt það fastar að fara í skóla og leitað stuðnings þar sem hún átti vísa vináttu og traust. Sagði, að á sama hátt og það væri gagnslaust að láta hluti sem maður réði engu um vefj- ast fyrir sér, ætti aldrei að hika eða hopa frammi fyrir því sem varðaði alla framtíð manns. Hún leit alltaf á menntun sem eftirsókn- arverð gæði og var sjálf stöðugt að viða að sér þekkingu og fróðleik- .Var jafnan með bók innan seil- ingar og las sér bæði til gagns og ánægju dag hvern. Þegar ég kem á Vatnsleysu- strönd þar sem hún fæddist og ólst upp í upphafi síðustu aldar reyni ég stundum að hverfa í huganum til bernskuára hennar og sjá hana fyrir mér í leik og starfi þó að ég viti með sjálfum mér að hvorki ég eða annað nútímafólk hefur skilyrði til að skilja lífsbaráttu þeirra sem uxu úr grasi þegar lífsþægindi sem við tökum ekki einu sinni eftir, eins og rafmagn og vatn úr krana, voru óþekkt fyrirbæri. Foreldrar hennar voru sívinnandi og bæði eftirsótt í vinnu þegar hana var að hafa. Fað- ir hennar var laghentur og róm- aður fyrir vandvirkni og móðir hennar sömuleiðis, en hún þótti einnig listfeng, úrræðagóð og lag- inn í mannlegum samskiptum. Börn þurftu að leggja sitt af mörk- um til heimilisins eins og aðrir um leið og þau gátu orðið að liði og mun móðir mín hafa verið ósér- hlífin og vinnufús, en þá þegar kunnað því betur að ráða sínum ráðum sjálf. Hún naut ástríkis á heimili sínu og leiðsagnar móður sinnar sem hún dáði mjög, átti góða systur og kynntist á mótunaárum sínum vönduðu fólki sem hvatti hana til dáða og lét hana finna hvað það mat mikils vinnusemi hennar og glaðlyndi. Þetta efldi enn frekar með henni sjálfsöryggi og skap- festu og hún bjó að þessu atlæti alla ævi. Hún fór ung að vinna fyrir sér og kom sér alls staðar vel, flutti til Reykjavíkur og lærði fatasaum og hafði af því atvinnu lengst af. Þeg- ar hún kynntist föður mínum, Sal- ómon Heiðar, sem var skrifstofu- stjóri hjá Ellingsen og jafnframt organisti og tónskáld, hófst nýr og bjartur kafli í lífi beggja. Þau gengu í hjónaband og stofnuðu heimili sem frá fyrstu tíð var opið bæði vinum og vandalausum. Þegar þau höfðu verið gift í fjögur ár gengu þau í söfnuð Sjöunda- dags Aðventista og voru alla ævi einlæg og heilsteypt í trú sinni. Safnaðar- lífið varð mikilvægur þáttur í lífi þeirra, jafnvel mætti líkja því við rafmagn sem veitti krafti í allt ann- að. Ég veit að lífsmáti þeirra og viðhorf var mörgu ungu fólki hvatning og uppörvun. Þau voru ákaflega samrýnd og samhent um alla hluti, bæði voru ljóðelsk og bókhneigð og hrifust mjög af skáld- skap og góðri tónlist. Faðir minn var félagi í Karlakór Reykjavíkur og formaður kórsins um tíma. Hann hafði góða söngrödd og oft var sest við hljóðfærið í stofunni heima, ekki síst þegar gesti bar að garði, og sungið af hjartans lyst. Allir tóku undir og glöddust saman. Foreldrar mínir voru félagslynd og gestrisin með afbrigðum. Heimilis- vinum var tekið fagnandi ekki síst af okkur Rúnu. Sjálfur fór ég helst ekki úr húsi ef von var á gestum og þótti óvíða jafn skemmtilegt og heima hjá mér. Við systkinin ólumst þannig upp við öryggi og mikla hlýju. Daglegt líf var friðsælt og nærandi og ein- kenndist af ást og virðingu foreldra minna hvort í annars garð og gagn- vart okkur Rúnu systur minni. Slíkt veganesti út í lífið verður seint fullþakkað. Það var mikið högg fyrir okkur öll þegar faðir minn lést árið 1957. Móðir mín var þá fimmtíu og sex ára gömul og við Rúna um það bil að fljúga úr hreiðrinu. Ég fór í framhaldsnám í tónlist og síðar læknanám í Bandaríkjunum, kynntist konu minni, Drusillu Kurz og settist að vestanhafs. Rúna syst- ir mín giftist Theo Douay árið 1958 og fluttist með honum til Kanada. Árið eftir fór móðir mín þangað í heimsókn sem átti að standa fáeina mánuði en hún ílentist og bjó vest- anhafs næstu þrjátíu árin. Lengst af hjá Rúnu og Theo en einnig hjá okkur Drusillu. Hún tók virkan þátt í starfi Íslendingafélagsins meðan þau bjuggu í Kanada, var eftirsótt saumakona og eignaðist þarna ævivini. Fólk af íslenskum ættum sóttist eftir félagskap henn- ar, ekki síst það sem aldrei hafði komið til landsins og þyrsti hvers kyns fróðleik um menn, málefni og sögu þjóðarinnar. Það kom ekki að tómum kof- anum hjá móður minni sem bjó yfir miklum þjóðlegum fróðleik, kunni heila ljóðabálka eftir þjóðskáldin utan að, var alin upp við rímur og býsna sleip í þeim. Henni þótti gaman að kynnast þessu fólki og finna hvað hún var mikils metin á eigin forsendum og þess utan var henni beinlínis eðlislægt að fræða og segja frá. Ætla mætti að hún hefði haft löngun til að verða kenn- ari, en spurð að því hundrað ára gömul hvað hún myndi leggja fyrir sig ef hún væri ung í dag, sagði þessi bókelska kona eftir nokkra umhugsun: „Líklega myndi ég leggja fyrir mig viðskipti, ég hef alltaf verið hneigð fyrir slíkt.“ Um leið og hún ræktaði eigin vinahóp og viðskiptavini í Kanada breiddi hún sig yfir fjölskyldu sína, ekki síst barnabörnin sem elskuðu hana og dáðu frá fyrstu stundu. Hún las fyrir þau, sagði þeim sögur og og var félagi þeirra og vinur. Hún kenndi þeim að tengja saman hugvit og handverk og sjálfri féll henni aldrei verk úr hendi. Lopa- peysurnar sem hún prjónaði meðan hún var vestanhafs skipta hundr- uðum. Þessi ár voru á margan hátt skemmtileg og viðburðarík. Móðir mín hafði lifandi áhuga á umhverfi sínu og var skemmtilegur og at- hugull ferðafélagi á ferðum okkar um Bandaríkin. Hún var til dæmis með okkur á Indíánasvæðum í Oklahoma, í Minnesota þar sem ég gegndi læknisstörfum og fór með okkur til Hawaii. Eitt vantaði þó alltaf í Vestur- heimi. Það var Ísland. Íslensk tunga á töluð á hverju götuhorni og samvistir við fólk með svipaða æskureynslu í brjóstinu og hún sjálf. Hún var Íslendingur af lífi og sál og henni var full alvara þegar JÓNA HEIÐAR

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.