Morgunblaðið - 16.11.2003, Blaðsíða 13

Morgunblaðið - 16.11.2003, Blaðsíða 13
Er það ekki spælandi? Löng þögn. „Nei, þetta er hans fag. Hann er búinn að lifa og hrærast í kvikmyndum og leikhúsi s.l. 15 ár Ég er best í að gagnrýna. Koma með aðra vinkla og spinna með honum.“ Ég spyr hvernig íslenskur kvikmynda- og leikhúsheimur komi henni fyrir sjónir. „Það sem slær mig mest er ójafnvægið. Á meðan hið opinbera ver milljarði króna árlega til leik- listarstarfsemi, sem er sjálfsagt og gott mál en dugir þó ekki til, fara litlar 200 milljónir í alla kvikmyndagerð í landinu! Ósamræmið er alveg ótrúlegt. Þetta er ekki sagt vegna þess að mér finnist milljarðurinn, sem fer í leiklistina, ofrausn; ég er aðeins að benda á hversu fjársvelt kvikmyndagerðin er.“ „Ríkið styrkir t.d. ferðaþjónustuna töluvert til landkynningar,“ segir Ingibjörg, „og ég er sannfærð um að íslensk kvikmyndagerð vegur mjög þungt í kynningu á landinu og við að kveikja áhuga fólks á landi og þjóð. Unga fólkið fær t.d. sína vitneskju meira og minna í gegnum sjónvarp og bíó og ég held að þetta sé í raun mjög ódýr landkynning. Umtal vek- ur oft meiri athygli heldur en auglýsingar.“ „Þeir peningar sem renna í kvikmyndasjóð koma margfalt til baka, en samt eru þeir skornir við nögl árum saman,“ heldur Lilja áfram. „Við eigum mikið af hæfileikafólki og margt fær engin tækifæri. Þetta er eitthvað sem mér finnst að ætti að breytast. Sama á við um stefnuna varðandi endurgreiðslu á sköttum kvikmyndaframleiðslu. Hún er hálfkák. Við eigum að gera þetta almennilega og í eitt skipti fyrir öll, eins og t.d. Írar og Kan- adamenn hafa gert og stórgrætt á. Við erum alltaf að taka hálf skref. Það er eins og marg- ir átti sig ekki á því, a.m.k. á borði frekar en í orði, hvað lista- og menningarstarfsemi skiptir miklu máli fyrir sjálfsmynd lítillar þjóðar. Og Íslendingar eru sérstakir; það er engin spurning.“ Fyrir utan kvikmynda- og leikhússtarfið fæst Lilja við veggmyndlistina þegar verk- efni berast og segir að þau mættu alveg vera fleiri. „Ég hef ekki aga til að fara niður á vinnustofu til að gera bara eitthvað.“ Þú málar ekki inná milli eða fæst við aðr- ar og umsvifaminni greinar myndlistar? „Nei, en ég þarf að finna mér eitthvað slíkt. Upphaflega ætlaði ég mér að verða list- málari,“ segir hún og bætir við sposk: „Ég ætlaði að verða Nína Tryggvadóttir. En svo breyttist það eftir að ég fór að læra og sökkva mér niður í þennan heim. Mig lang- aði til að læra arkítektúr líka og veggmynd- listin er í rauninni hið fullkomna millistig; hver veggmynd er órjúfanlegur partur af arkítektúr byggingar. Ég er þeirrar skoðun- ar að þegar vel tekst til með þennan sam- runa arkítektúrs og myndlistar sem vegg- myndir eru auðgi hann umhverfið verulega og bæti hreinlega nýrri vídd við. Því vona ég sannarlega að eftirspurnin fari að glæðast.“ Finnið þið fyrir því á ykkar athafna-svæðum að konur fái annars konareða neikvæðara viðmót og fyrir- greiðslu en karlar? „Ég veit að margar konur myndu svara svona spurningu játandi,“ segir Ingibjörg, „en þetta angrar mig ekki. Yfirleitt finn ég þetta ekki en ef ég geri það tvíeflist ég í ákveðni og festu. Ég held meira að segja það geti verið betra að vera kona.“ Af hverju segirðu það? „Ja, karlmenn eru vanari að eiga samskipti á þessum vettvangi við aðra karlmenn og hafa sínar reglur. Um þær reglur veit ég ekkert, nálgast málin sjálfsagt öðruvísi en þeir gera og mæti bara á mínum forsendum með mín erindi. Ég gæti trúað því að konur komi stundum ekki fram eins og þeim er eðlilegt. Við hugsum öðruvísi en karlmenn og karl- menn hugsa öðruvísi en konur; það er bara fínt. Konur eiga ekki að reyna að vera karlar - og öfugt.“ Lilja: „Í listgreinunum eru viðhorfin allt önnur. Þar er ekki spurt um kyn eða uppruna. En karlmenn eru búnir að merkja sér þetta horn viðskipta og valda. Þeim finnst frekar hjákátlegt þegar koma þangað einhverjar stelpur og vilja vera með.“ Er þetta þá næsti bær við: Haltu kjafti og vertu sæt? Lilja: „Ekki langt frá. Úr sömu sveit.“ Jafnrétti og misrétti til skiptis Þær eru sammála um að þær séu feministar þótt þær falli ekki undir allar löggiltar skil- greiningar. „En ég held að í uppeldinu sé mikilvægt að byggja bæði drengi og stúlkur upp með jafnréttisviðhorfum,“ segir Lilja. „Og ég er alveg sannfærð um að kvennabaráttan sem fór í gang með 68-byltingunni og brenndum brjóstahöldurum hefur ekki aðeins leitt til þess að konur krefjast jafnrar stöðu á við karla heldur að stúlkur skara almennt framúr í námi langt fram yfir drengi á öllum skólastigum, farnar að stinga þá af í stærðfræði og öðrum raungreinum sem þeir hafa hingað til átt og eru komnar í meirihluta í há- skólanámi. Þótt mér finnist reyndar varhugaverð þróun ef strákar dragast afturúr er pott- þétt að þetta er árangur af vakningu kvennabaráttunnar; hún hefur hvatt stelpur til dáða og styrkt sjálfsmynd þeirra. Við þurfum bara að koma í veg fyrir að strákarnir lendi í kreppunni sem stelpurnar voru í áður. Ég á tvo stráka, eins og þriggja ára, og tíu ára stelpu, og ég vil að þau njóti sín öll á sínum forsendum og eftir sínum verðleikum. Við eig- um að hlúa að báðum kynjum jafnt.“ Ingibjörg: „Og mikið gladdist ég fyrir hönd karla um daginn þegar fréttir bárust af því að getnaðarvarnarpilla fyrir þá væri á leiðinni. Það þýðir aukið jafnrétti. Konur hafa að mestu borið ábyrgð á þessum málum hingað til en nú geta karlar axlað sína ábyrgð.“ Finnst ykkur stundum örla á karlfyrirlitningu í feminískum umræðum? Lilja: „Já, ég er ekki frá því. Það birtist t.d. í því að konur voru hvattar til þess á ein- hverjum átaksdeginum að taka dætur sínar með í vinnuna - ekki synina. Þarna er kvenna- baráttan á villigötum; þetta er bara önnur tegund af misrétti.“ Hvaða veganesti fenguð þið í uppeldinu að þessu leyti? Þær hlæja báðar. „Ekkert. Við ólumst upp í hefðbundinni kynjaskiptingu,“ segir Ingi- björg. „Mamma var heima og pabbi vinnufíkill. Það var engin jafnréttisumræða á okkar heimili. En þó var skýrt að mamma réð sínu svæði og hann sínu. Hann gerði aldrei athugasemdir við mömmu um stjórnun hennar fyrirtækis, heimilisins, sem er mik- ilvægasta og erfiðasta stjórnunarstarf í heimi. En pabbi gaf þó frá sér þau skilaboð að við Lilja ættum að gera það sem við vild- um. Við fundum skýrt að hann hafði mikla trú á okkur sem einstaklingum.“ Áður en þið komuð í heiminn voru mættir tveir strákar, bræðurnir Sigurður Gísli og Jón. Var munur á því hvernig syn- irnir og dæturnar voru alin upp? „Eini munurinn sem ég fann,“ segir Ingibjörg, „var sá að það þurfti að passa betur uppá stelpurnar en strákana. Þegar ég var orðin unglingur og vildi fá að vera lengur úti á kvöldin, svo ég taki dæmi, þá giltu ekki sömu reglur. Jón er einu og hálfu ári eldri en ég, en það var ekki verið að vaka eftir honum á kvöldin.“ Voru unglingsárin eða gelgjuskeiðið ykkur erfið? „Nei, ekkert sérstaklega,“ svarar Ingi- björg. „Ég fór í að ryðja brautina fyrir okk- ur systurnar. Þegar hún svo fylgdi á eftir voru pabbi og mamma einfaldlega orðin þreytt. Þannig að Lilja fékk nú meira og fyrirhafnarminna frelsi en ég.“ Lilja: „Það var vegna þess hvað ég var auðsveip og góð.“ Ingibjörg: „Já, reyndar gat hún verið hljóðlátari.“ Þegar þær eru spurðar hvert hafi verið dýrmætasta veganestið frá uppeldinu nefn- ir Lilja fyrst reglufestu. „Þetta var heimili og þar giltu skýrar reglur. Það var matur klukk- an tólf á hádegi og klukkan sjö. Ég held að öll börn þurfi svona skýran ramma til að lifa í, fáar reglur og einfaldar.“ „Það var líka mikil væntumþykja sem hljómaði undir,“ bætir Ingibjörg við. Nú eruð þið báðar orðnar mæður. Hvernig haldið þið á þessum spöðum? Ingibjörg: „Mitt heimilishald og daglegt líf er gjörólíkt því sem við ólumst upp við. Ég er útivinnandi og ekki alltaf til staðar eins og mamma var. En samt gilda vissar lágmarks- reglur og ég reyni líka eftir fremsta megni að vera jafningi barna minna.“ „Ég er meira heimavið, enda með yngri börn. Og gamla reglufestan situr í mér. Ef Balt- asar er ekki kominn heim á vissum tíma get ég orðið ógeðslega fúl,“ segir Lilja glottandi. „Pabbi skilaði sér yfirleitt heim eina mínútu í sjö. Ég held að fólk velji sér gjarnan maka sem hefur sömu grunnþætti og móðirin eða faðirinn. Þótt Baltasar og pabbi virðist við fyrstu sýn ekki eiga margt sameiginlegt er vinnumanían í þeim báðum, framkvæmdagleð- in og ósérhlífnin.“ Ingibjörg: „Ekki síst erum við aldar upp við mikilvægi vinnunnar.“ Lilja: „Og þessa miklu fyrirferð vinnunnar, sem kannski hefur kennt okkur að það er ekki rétt að fórna öllu fyrir hana.“ Gerði faðir ykkar það? „Það er kannski svolítið sterkt til orða tekið en nokkuð til í því samt,“ svarar Lilja. „Við áttum t.d. hesta og hann langaði alltaf til að fara í hestaferðir uppá hálendið, sem við Balt- asar gerum á hverju sumri núna. En hann gaf sér aldrei tíma.“ INGIBJÖRG „ÞÓTT PÓLITÍKUSARNIR HAFI SKAPAÐ SKILYRÐI FYRIR ÞESSU VIÐSKIPTAFRELSI ERU ÞEIR ENN AÐ REYNA AÐ HAFA ÁHRIF Á HVERNIG MEÐ ÞAÐ ER FARIÐ OG HVERJIR FÁ AÐ NJÓTA ÞESS; ÞAÐ SKÝTUR SKÖKKU VIÐ.“ 16.11.2003 | 13 Á EIGIN FORSENDUM

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.