Morgunblaðið - 03.02.2004, Síða 34

Morgunblaðið - 03.02.2004, Síða 34
MINNINGAR 34 ÞRIÐJUDAGUR 3. FEBRÚAR 2004 MORGUNBLAÐIÐ ✝ Sigrún Jóhanns-dóttir fæddist á Arnarstapa á Mýrum 11. janúar 1933. Hún lést á Landspítala – háskólasjúkrahúsi við Hringbraut þriðjudaginn 20. jan- úar síðastliðinn. For- eldrar hennar voru hjónin Jóhann Jónat- ansson bóndi í Hjörs- ey á Mýrum (f. 1885, d. 1972) og Þórunn Sigurðardóttir (f. 1899, d. 1948). Al- bróðir Sigrúnar er Halldór Jóhannsson (f. 1934). Eftirlifandi sambýlismaður Sig- rúnar er Bjarni Dagbjartsson (f. 1937). Hinn 10. maí 1950 giftist Sigrún Sigurði Helga Jóhannssyni (f. 1930). Þau áttu saman þrjú börn, Þórunni Sigurðar- dóttur (f. 1951, d. 1994 ), Margréti Þyri Sigurðardóttur (f. 1955) og Jóhann Hauk Sigurðsson (f. 1957). Sigrún og Sig- urður skildu 1976. Sigrún vann til margra ára sem verslunarstjóri hjá Hagkaupum, fyrst í Lækjargötu og síðar í Kjörgarði. Hún þurfti að láta af störfum fyrir aldur fram sökum augn- sjúkdóms, en var virk í starfi Blindrafélagsins síðustu árin. Sigrún var síðast til heimilis á Vesturgötu 10 í Keflavík. Útför Sigrúnar verður gerð frá Fossvogskirkju í dag og hefst at- höfnin klukkan 15. Við Sigrún vorum saman í Kvennaskólanum í Reykjavík og síðan vinkonur alla ævi. Sigrún var óvenjulegum gáfum gædd. Ég man hversu auðvelt hún átti með að til- einka sér hvað sem var og hve fljót hún var að læra. Sigrún var svo trygg vinkona og hjálpfús með ein- dæmum. Bekkurinn okkar var mjög friðsæll, ég man að ensku- kennarinnn okkar sagði þegar hún kom inn í bekkinn eftir löngufrí- mínútur og það væri svo kyrrt inni hjá okkur, aginn var mikill í Kvennaskólanum. Við sátum á fremsta bekk: Stína, ég, Sigrún og Alla og ég reyndi að fela mig við hliðina á Sigrúnu í sögukennslu- tímum, sem skólastýran kenndi, svo hún tæki ekki sérstaklega eftir mér, jafnvel þótt mér fyndist ægi- lega gaman að læra sögu. Bekkj- arsysturnar voru flestar utan af landi en við vorum þrjár frá Reykjavik sem byrjuðum einu ári fyrr en þær, því það árið var 13 ára bekkur í barnaskóla lagður niður. Við höfðum níu tíma á viku í útsaum og fatasaum í Kvennó en samt fór það svo að kunnáttan var ekki mikil í þeim listum eftir að skóla lauk. Við stöllurnar í bekkn- um stofnuðum fljótt saumaklúbb og skemmtum okkur konunglega við sauma og prjónaskap heima hjá hver annarri, að ekki sé talað um deila út köku- og smákökuupp- skriftum, sérstaklega fyrir jólin. Við Sigrún hættum í Kvennó á undan bekkjarsystrum okkar, ég tók landspróf og Sigrún giftist og stofnaði heimili og eignaðist dótt- ur. Eftir að við vorum orðnar hús- mæður og mæður var Sigrún alltaf mín stoð og stytta með að skipu- leggja og hjálpa við að bjóða fólki heim, sérstaklega hvað skyldi framreiða. Á fyrstu hjónabands- árum mínum hringdi ég oft í Sig- rúnu og fékk ráðgjöf í að steikja kindahrygg og læri og brúna kart- öflur og sérstaklega að steikja hamborgarhrygg. Hún var alltaf jafnráðagóð og dugleg svo manni fannst að allt væri mögulegt. Eftir að Sigrún fluttist til Keflavíkur með seinni manni sínum og ég fluttist til Noregs sáumst við sjaldnar en héldum alltaf sam- bandinu og skrifuðumst á. Sigrún var verslunarstjóri í Hagkaup all- an sinn vinnualdur, fyrirlestra- haldari hjá AA og seinna ein af forvígismanneskjum Blindravina- félagsins þegar sjónin fór að gefa sig hjá henni. Það var alveg sama hvar hún var eða með hverjum; alls staðar var hún fremst í flokki. Megi góður Guð blessa Hauk, Möggu og barna- og barnabarna- börnin í sorg þeirra og gefa þeim styrk og blessa minningu Sigrúnar okkar. Þóra Benediktsson. Hún var partur af unglingsárum okkar vinanna. Ótal sinnum lá leið á Fornhagann til að heimsækja Hauk, vin okkar og son hennar. Hún var hlý í fasi og fylgdist af góðvild og lifandi áhuga með því sem við tókum okkur fyrir hendur. Við minnumst þess líka er við heimsóttum hana í verslun Hag- kaupa við Lækjargötu þar sem hún starfaði þegar það fyrirtæki var að komast á legg. Hún var ekki alltaf margmál en við fundum að henni þótti vænt um okkur, að hún treysti okkar og var sátt við vinahóp sonarins. Fæstir okkar sáu Sigrúnu oft eftir að við urðum fullorðnir. Ég hitti hana þó alloft eftir að hún hóf sambúð með Bjarna Dagbjartssyni en honum er ég tengdur fjöl- skylduböndum. Oftast leituðu sam- ræður okkar í svipaðan farveg, hvort heldur við vorum stödd í fjölskylduboði eða í sumarbústað austur í sveitum. Við töluðum um Hauk og Guðrúnu, Leó, Guðrúnu Birnu og það duldist ekki hversu fjölskyldan var henni kær og hversu stolt hún var af syninum og barnabörnunum. Svo spurði hún frétta af okkur vinunum, vildi vita hvernig okkur vegnaði, hve mörg börnin væru orðin og hvernig þeim farnaðist. Ég skynjaði að henni fannst hún eiga pínulítið í okkur, varð var við sömu væntumþykjuna eins og forðum daga á Fornhag- anum. Æskuvinir barnanna skipa oft sérstakan sess í hugum mæðra. Og móðir æskuvinar er á einhvern hátt nákomnari manni en margir aðrir sem maður þó hefur um- gengist meira. Við vottum Hauki, Möggu, Bjarna, fjölskyldum þeirra og öðr- um ástvinum samúð okkar. Gunnar Þór Bjarnason. Fyrir réttum 20 árum var tekinn upp sá háttur að hafa svokallað op- ið hús í salarkynnum Blindra- félagsins í Hamrahlíð 17. Rósa Guðmundsdóttir fyrrum formaður félasins var umsjónarmaður þar allt til dauðadags. Í opna húsið komu margir félagsmenn. Einkum þeir, sem aldurinn var farinn að færast yfir. Svo komu þeir, sem voru að missa sjón eða höfðu orðið fyrir skyndilegum sjónmissi. Fólk sótti stuðning hvað til annars og gat rætt ýmsa hluti, sem það átti sameiginlegt. Svo var það snemma árs 1987 að á Sjónstöð Íslands kom kona að nafni Sigrún Jó- hannsdóttir. Sigrúnu var farin að daprast sýn verulega og ákvað að leita sér hjálpar. Á Sjónstöðinni fékk hún margháttaðar upplýsing- ar og tæki, sem nýttust henni í daglegu lífi. Jafnframt var henni sagt frá starfsemi Blindrafélags- ins. Sigrún var ekkert að tvínóna við hlutina. Setti sig í samband við ráðgjafa félagsins og mætti í opið hús. Menn fundu að þar fór mann- eskja, sem geislaði af. Hún var leiftrandi skemmtileg og greind. Sigrún hafði einstakt lag á að laða fólk að sér og varð mikill vinur þeirra, sem komu í opið hús. Svo fór að Sigrún var beðin um að taka að sér umsjón með opnu húsi, sem var þá orðið tvisvar í viku. Hún vann mikið að félagsmálum Blindrafélagsins. Var óþreytandi við að hafa samband við fólk og hvetja það til dáða. Þegar Blindra- félagið setti á fót trúnaðarmanna- kerfi, en það byggist á því að þeir, sem hafa misst sjón eða eru orðnir mjög sjónskertir og eru trúnaðar- menn hafa samband við þá, sem svipað er ástatt fyrir og sjónmissir vofir yfir, þá var Sigrún beðin um að verða aðaltrúnaðarmaður Blindrafélagsins ásamt Ragnari R. Magnússyni. Hún virtist finna sig vel í þessu starfi, sem hún gegndi til dauðadags. Þeir, sem hún heim- sótti luku lofsorði á hana og þótti vænt um hana. Sigrún var orðvör og hallaði aldrei á nokkurn mann. Þó fann maður að í persónu henn- ar leyndist mjög ákveðin og vilja- sterk manneskja. Þá sat Sigrún í bókvalsnefnd Blindrabókasafns Íslands, en hún hafði yndi af bóklestri og naut hljóðbókanna. Um 27 ára skeið var vinnustaður minn á annarri hæð í húsi Blindra- félagsins. Þar var Blindrabóka- safnið til húsa. Þar voru einnig skrifstofur félagsins og Hljóðbóka- gerð félagsins, sem nú hefur verið lögð niður. Þar er hjarta hússins og þangað lá leið margra, sem komu við í húsinu. Mér þótti alltaf ferskur andblær leika um húsið, þegar Sigrún kom þar. Ekki gust- mikil, en menn vissu hver þar fór. Fyrir rúmu ári sagði hún Sigrún mér að hún væri eitthvað lítilfjör- leg. Hún væri með stöðugt kvef og beinverki og sér þætti hún ekki ganga heil til skógar. Og það dró að endalokunum. Hún fór á sjúkrahús í nóvember síðastliðnum og greindist með krabbamein í brisi. Allt var gert til þess að lina þjáningar hennar í lokin. En Sig- rún var með hugann hjá þeim mörgu, sem höfðu notið vináttu hennar og kærleika hjá Blindra- félaginu. Þriðjudaginn 20. janúar kom svo kallið. Sigrún fór til ann- ars heims, rétt orðin 71 árs gömul. Það er vandfyllt það skarð, sem orðið er við fráfall hennar Sigrún- ar. Harmur eiginmanns hennar og fjölskyldu er sár. Við, sem kynnt- umst henni hjá Blindrafélaginu, finnum að það vantar mikið, þegar Sigrún er farin. En við yljum okk- ur við ljúfar minningar um heil- steypta manneskju, sem lagði öll- um gott eitt til. Blessuð sé minningin um hana Sigrúnu Jó- hannsdóttur. Megi jákvætt lífsvið- horf og ljúflyndi hennar verða okkur öllum leiðarljós og til fyr- irmyndar. Gísli Helgason. „Öllu er afmörkuð stund, og sér- hver hlutur undir himninum hefur sinn tíma. Að fæðast hefir sinn tíma og að deyja hefir sinn tíma … “ (Prédikarinn 3:1.) Kallið kom án mikils fyrirvara. Þótt Sigrún hefði verið þróttminni um skeið, fór hún allra sinna ferða og það liðu einungis um níu vikur frá því að sjúkdómur hennar upp- götvaðist þar til hún andaðist. Og nú er enn einn hlekkurinn brost- inn úr tryggðar- og vináttukeðju okkar bekkjarsystranna sem kynntumst fyrst á haustdögum rétt fyrir miðja seinustu öld þegar rúmlega þrjátíu stúlkur völdust saman í 1. bekk A í Kvennaskól- anum í Reykjavík. Flestar voru úr Reykjavík, en nokkrar af lands- byggðinni og Sigrún var ein af þeim. Hún var frá Hjörsey á Mýr- um, bænum við hafið þar sem flóð og fjara geta skipt sköpum. Við vorum því að mörgu leyti með ólík- an bakgrunn og ekki vissum við fyrr en síðar að Sigrún var þá nýbúin að ganga í gegnum sáran móðurmissi. Kvennaskólabekkur- inn okkar hefur haldið vel hópinn. Síðustu áratugina höfum við hist á hverju vori og við höfum farið saman í eftirminnilegar ferðir til Hollands og Bolungarvíkur og heimsótt bekkjarsystur þar. Sigrún var ein af okkur tíu bekkjarsystrum sem stofnuðum saumaklúbb á skólaárunum og höf- um allar götur síðan haldið nánu sambandi, í blíðu og stríðu. Litlu hefur það breytt þótt þrjár okkar hafi lengst af búið í Bandaríkj- unum. Við fylgjumst hver með annarri, hittumst þegar kostur gefst og erum í sambandi á Net- inu. Ung að árum giftist Sigrún Sig- urði H. Jóhannssyni og eignuðust þau þrjú börn. Hún var orðin amma og langamma löngu áður en við hinar urðum þeirrar gæfu að- njótandi. Hún var myndarleg hús- móðir og góð heim að sækja. Börn- in og síðar barnabörnin voru hennar stolt og gleði. Sorgin var þyngri en orð fá lýst þegar Tóta, eldri dóttirin, varð bráðkvödd í blóma lífsins. Sigrún var dul að eðlisfari og bar harm sinn í hljóði. Hún lagði sig fram um að vera traustur bakhjarl og hlúa að þeim sem eftir lifðu. Sigrún var bráðgreind kona, hafði skýra og rökfasta hugsun, var kjarkmikil og áræðin og það var eitthvað í fari hennar sem ávann henni traust samferða- manna. Strax í fyrsta bekk Kvennaskólans fékk skólastýran, fröken Ragnheiður, hana til að að- stoða sig við að reikna út einkunn- ir nemenda. Og síðar á ævinni, þegar hún var komin út á vinnu- markaðinn eftir mörg ár heima, sá Pálmi kaupmaður í Hagkaupum í Lækjargötunni fljótt hvað í henni bjó og gerði hana að vaktformanni og síðan verslunarstjóra og gegndi hún því starfi á annasömu tímabili þegar verslunin flutti í Kjörgarð við Laugaveg og næstu árin þar á eftir. Á þeim vettvangi var Sigrún dugleg, fylgin sér, vel liðin og fé- lagslynd. Þá sat hún í stjórn VR í nokkur ár. Sigrún fylgdist alla tíð vel með landsmálaumræðunni, hafði lifandi áhuga á þjóðfélags- málum og misrétti kynjanna var henni þyrnir í augum. Um fimmtugt byrjaði ólæknandi augnsjúkdómir að há henni og að því kom að hún missti lessjónina sem olli því að hún var ekki lengur gjaldgeng á hinum almenna vinnu- markaði. Ekki þarf að fara mörg- um orðum um það hvílíkt áfall þetta var fyrir svo orkumikla og verkfúsa persónu. Lengi skal manninn reyna og í þessu mótlæti kom skýrt í ljós að- lögunarhæfni Sigrúnar og hennar miklu mannkostir. Hún tókst á við sjóndepruna af hugrekki og út- sjónarsemi. Máltækin segja að í bókum finni vitrir menn huggun í erfiðleikum lífsins og að góð bók sé eins og aldingarður. Sigrún hellti sér nú út í bóklestur/hlustun og Blindrabókasafnið varð henni ómetanlegt. Hún var bókmennta- lega sinnuð og naut þess að hafa tíma til að hlusta á hverja bókina eftir aðra. Hún varð víðlesin og beið með óþreyju eftir að fá bæk- ur, sem vakið höfðu áhuga hennar, lesnar á spólu. Áður fyrr las hún mikið af ljóðum. Steinn Steinarr og Laxness voru hennar eftirlæt- ishöfundar. Síðar, eftir að hún hóf störf fyrir Blindrafélagið, naut hún þess að kynna Blindrabókasafnið fyrir nýblindum. Lífsreynsla Sig- rúnar og lifandi áhugi á fólki kom að góðum notum í starfinu fyrir Blindrafélagið og hún sagði okkur frá fólki sem hún dáðist að og ald- ið var að árum en ungt í anda og lét sjóndepruna ekki skyggja á lífsgleðina. Seinustu tuttugu árin áttu þau Sigrún og sambýlismaður hennar, Bjarni Dagbjartsson, farsæla sam- leið. Þau höfðu búið sér gott heim- ili í Keflavík og sumarhúsið á Flúðum var sannkallaður sælureit- ur. Þau voru gestrisin og nutu þess að taka á móti afkomend- unum, fjölskyldu og vinum. Sigrún hafði snemma byrjað að sækja námskeið í Íslendingasögunum og árum saman sóttu þau Bjarni sér til gagns og gleði námskeið hjá Jóni Böðvarssyni og fóru með hon- um í margar fróðleiksferðir á sagnaslóðir bæði utanlands og inn- an. Nú að leiðarlokum kveðjum við, Saumaklúbburinn og bekkjarsyst- urnar allar, okkar góðu vinkonu með söknuði og þökkum dýrmæta vináttu og samfylgd í meira en hálfa öld. Við biðjum Guð að blessa minningu Sigrúnar Jó- hannsdóttur og sendum Bjarna, Margréti, Hauki og fjölskyldunni allri innilegar samúðarkveðjur. Hvíl í friði, kæra vinkona. Hér við skiljumst og hittast munum á feginsdegi fira; drottinn minn gefi dauðum ró, hinum líkn, er lifa. (Úr Sólarljóðum.) Bekkjarsystur. Kveðja frá Blindrafélaginu Kæra Sigrún. Í nóvember 1985 birtist þú sem sólargeisli í Blindrafélaginu og tókst okkur með trompi. Á félagsfundum geisl- aði frá þér áhugi á félaginu og því starfi sem hjá okkur er unnið og fórst þú þá fljótlega að sjá um Opna húsið hjá okkur og komu þar ljóslega fram þeir miklu mann- kostir sem þú bjóst svo ríkulega að en það var helst hlýjan og al- úðin í fari þínu sem naut sín hér og dró okkur í Opið hús til þín. Nú síðustu árin sem þú starfaðir með okkur sem annar af aðaltrún- aðarmönnum Blindrafélagsins eru mörgum okkar ógleymanleg. Þarna varstu rétt manneskja á réttum stað og nutu sín hér þeir hæfileikar þínir að hlusta og gefa góð ráð í hinum miklu og flóknu vandamálum hversdagsleikans. Það var okkur mikil harmafrétt, á haustdögum í fyrra, að heyra að þú værir lögst fárveik inn á spít- ala. Við lifðum í voninni um að þú myndir sigrast á sjúkdómnum. Um jólaleytið bárust svo þær ánægju- legu fréttir að hugsast gæti að þér tækist að sigrast á vágesti þeim er herjaði á líkama þinn og glödd- umst við hér að heyra það en því miður varð sú ekki raunin. Núna sitjum við og yljum okkur við ljúfu minningarnar um þig. Öll góðu ráðin sem þú gafst okkur. Öll huggunarorðin sem þú lést falla okkur í skaut. Og ekki gleymum við svo glatt öllum ánægjustund- unum okkar saman. Sé þér þökk fyrir það allt. Að lokum langar okkur að ávarpa ykkur vini og vandamenn Sigrúnar. Ykkar er harmurinn stór en einnig gleðin mikil yfir öll- um ánægjustundunum með Sig- rúnu. Við sendum ykkur öllum okkar innilegustu samúðarkveðjur um leið og við þökkum fyrir að hafa fengið að njóta Sigrúnar með ykkur. Sigurjón Einarsson, formaður. SIGRÚN JÓHANNSDÓTTIR Ástkær móðir okkar, stjúpmóðir, tengdamóðir, amma og langamma, HILDUR ÍSFOLD STEINGRÍMSDÓTTIR, Nesvegi 43, Reykjavík, lést á heimili sínu laugardaginn 31. janúar sl. Útför fer fram frá Fríkirkjunni föstudaginn 6. febrúar kl. 15.30. Steingrímur Viktorsson, Kristín Ólafsdóttir, Hilmar Kr. Viktorsson, Matthildur Ó. Þorláksdóttir, Victor Jacobsen, Þórhildur Jónsdóttir, barnabörn og barnabarnabörn.

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.