Morgunblaðið - 20.04.2004, Page 4
FRÉTTIR
4 ÞRIÐJUDAGUR 20. APRÍL 2004 MORGUNBLAÐIÐ
ÞAÐ gekk mikið á hjá þeim Sigfúsi
Unnarssyni og Hjördísi Ingu Páls-
dóttur á sunnudaginn. Dagurinn
byrjaði með því að Hjördís Inga fór
að fá hríðir en hún var komin tæpa
níu mánuði á leið og var farið að
bíða eftir öðru barni þeirra. Sigfús
var aftur á móti önnum kafinn við
þrifnað um borð í togaranum
Snorra Sturlusyni VE þar sem
hann lá rétt fyrir utan Heimaey en
til stóð að landa úr honum í Eyjum í
gærmorgun.
Þegar leið á daginn og hríðarnar
fóru að koma með styttra millibili
var ljóst að líklega myndi Sigfús
missa af fæðingunni ef hann kæm-
ist ekki fljótlega í land. Brugðið var
á það ráð að setja tuðru frá borði á
Snorra með Sigfús innanborðs og
tvo félaga hans, þá Jóhannes Stein-
grímsson netamann og Friðrik
Ingason bátsmann en þeir ætluðu
að koma verðandi pabbanum í land.
„Við vorum búnir að vera að
þrífa ansi lengi þegar það er kallað
í mig og mér sagt að ég sé á leið í
land. Ég skelli mér í sturtu og geri
mig kláran og rétt fyrir fimm vor-
um við komnir um borð í tuðruna,“
sagði Sigfús þegar hann rifjaði upp
þessa miklu svaðilför.
„Það má segja að það hafi allt
farið úrskeiðis sem gat farið úr-
skeiðis. Það var ekki öryggislína og
það vantaði svokallaðan lúgu-
mann.“ Sá aðili sér um samskipti á
milli skipstjórans og kranamanns-
ins. „Við fórum of snemma af stað,
vorum ekki komnir með leyfi til að
fara og svo hrekkur tuðrann ekki í
gírinn.“
Hélt áfram að slaka
Þegar það gerist reyna þeir að
koma skilaboðum til kranamanns-
ins en einhver misskilningur varð
þar á milli og hélt hann áfram að
slaka þeim í sjóinn. Um leið og
tuðrann lenti í sjónum þá var ljóst
að illa færi enda höfðu þeir ekki
vélaraflið til að koma sér frá togar-
anum. „Tuðran valt yfir okkur og
við enduðum í sjónum og á auga-
bragði að okkur fannst var skipið
komið óraveg frá okkur með tuðr-
una ennþá hangandi við skips-
krokkinn og þeir náðu henni aftur
um borð en því miður ekki okkur,“
sagði Sigfús og hélt áfram.
„Við vorum því þrír þarna í sjón-
um og eina sem við gátum gert var
að reyna að halda okkur saman og
halda þannig á okkur hita.“ Þeir
voru allir í flotgöllum en Sigfús þó
verst klæddur af þeim þar sem
hann var í svokölluðum vinnuflot-
galla en hann heldur ekki eins vel
vatni. „Það er alstaðar sjóstreymi í
gegnum gallann en þeir ná að loka
flotgallanum hjá sér og líkamshit-
inn á þeim hitar upp þann sjó sem
er í gallanum þeirra.“
Sigfús var orðinn mjög kaldur
þegar hann náðist loks um borð í
Báruna, tuðru í eigu þeirra Guð-
jóns Pálssonar og Péturs Stein-
grímssonar lögreglumanns í Eyj-
um.
Beið á útsýnispallinum
Á meðan á þessu stóð beið Hjör-
dís Inga í rólegheitunum á útsýn-
ispallinum á nýja hrauninu eftir að
sjá tuðruna nálgast land. „Við sáum
ekki hvað var að gerast en vorum
farin að spá í út af hverju þetta
tæki svona rosalega langan tíma.
Það var ekki fyrr en lögreglubíllinn
kom upp á útsýnispall sem við gerð-
um okkur grein fyrir að eitthvað
hafði komið fyrir. Á sama tíma
sjáum við björgunarbátinn sigla á
miklum hraða út úr innsigling-
unni,“ sagði Hjördís Inga sem fór
strax af stað niður á bryggju þar
sem hún beið komu eiginmannsins.
Báran var ekki lengi að ná þeim
um borð og koma þeim til Eyja.
„Mér varð rosalega létt þegar ég sá
björgunarbátinn enda gat ég ekki
orðið talað fyrir skjálfta,“ sagði
Sigfús en líkamshiti hans var kom-
inn niður í 34° þegar komið var
með hann á Heilbrigðisstofnun
Vestmannaeyja. Sigfús var allan
tímann með meðvitund en segist
aldrei hafa orðið eins kalt á ævinni.
Á bryggjunni beið Hjördís ásamt
móður sinni og systur og fylgdu
þær honum upp á spítala. „Ég var
nú eiginlega að koma í land til að
fylgja henni upp á spítala en ekki
öfugt,“ sagði Sigfús. „En þannig
endaði það víst.“
Þegar upp á sjúkrahús var komið
var strax hafist handa við að hlúa
að Sigfúsi og reyna að ná líkamshit-
anum upp.
„Það var blásara beint að honum,
hann var með hitapoka út um allt á
sér, allir ofnar voru á fullu og svo
var hann með hitaslöngu í æð,“
sagði Hjördís Inga sem sat við hlið
Sigfúsar á sjúkrahúsinu en þá var
ekki enn búið að leggja hana inn.
„Mér var orðið svo heitt að ég
var farin úr peysunni og búin að
hringja í mömmu og biðja hana um
að koma með ís handa mér,“ sagði
hún og Sigfús bætti við: „Hún var
að kafna en ég að krókna.“ Sigfús
var þó ekki lengi að hrista þetta af
sér og rúmum þremur tímum eftir
að hann kom upp á sjúkrahús var
hann útskrifaður.
Fæðingin gekk
mjög vel
Stoppið var stutt á heimili þeirra
því tæpri klukkustund síðar voru
þau komin aftur upp eftir, en núna
út af fæðingunni. „Fæðingin gekk
mjög vel og sex mínútur fyrir eitt
um nóttina fæddi ég drenginn.
Þetta gekk svo fljótt fyrir sig að
mamma missti af fæðingunni en
hún skrapp fram í tvær mínútur og
þegar hún kom aftur var þetta allt
yfirstaðið. Ég þurfti bara að remb-
ast einu sinni og þá var þetta kom-
ið,“ sagði Hjördís Inga og Sigfús
náði fæðingunni eftir allt saman
þótt vissulega hafi heimferðin verið
erfiðari en hann áætlaði.
„Hún var að
kafna en ég
að krókna“
Morgunblaðið/Sigurgeir
Sigfús Unnarsson, eldri sonurinn Anton Máni, Hjördís Inga Pálsdóttir og nýfæddur sonur þeirra komin heim.
Á átta klukkustundum gerðist ótrúlega
margt hjá ungu pari í Eyjum. Fyrst var hon-
um bjargað úr sjávarháska og síðan fylgdist
hann með fæðingu sonar þeirra. Saman fóru
þau öll heim af sjúkrahúsinu fyrir hádegi í
gærmorgun. Þar hitti Sigursveinn Þórð-
arson fréttaritari ungu fjölskylduna í gær.
HÉRAÐSDÓMUR Norður-
lands eystra hefur dæmt karl-
mann á þrítugsaldri í 150 þús-
und króna sekt fyrir að hafa
undir höndum vopn af ýmsu
tagi og fyrir að hafa í fórum sín-
um 2,52 grömm af hassi.
Ákærði hefur áður sætt refs-
ingum fyrir brot á hegningar-
lögum og fíkniefnalöggjöf.
Þrisvar afskipti
Lögregla hafði þrisvar af-
skipti af ákærða á síðasta ári
vegna brots á vopnalögum. Í
eitt skiptið var hann með á
dvalarstað sínum haglabyssu,
loftskammbyssu, byssusting og
nokkra hnífa. Í annað skipti var
hann með loftriffil sem hann
átti en hafði ekki skotvopna-
leyfi fyrir, með sér í áætlunar-
bíl, og í þriðja skiptið var mað-
urinn með vasahníf með 8 cm
löngu blaði inni á bar á Akur-
eyri.
Málið dæmdi Freyr Ófeigs-
son dómstjóri. Sækjandi var
Eyþór Þorbergsson sýslu-
fulltrúi.
Sekt fyr-
ir brot
á vopna-
lögum
EKKERT hefur þokast í samkomu-
lagsátt í kjaraviðræðum Félags
grunnskólakennara og samninga-
nefndar launanefndar sveitarfélaga
að undanförnu. Kjarasamningur
grunnskólans rann út um seinustu
mánaðamót.
Finnbogi Sigurðsson, formaður
FG, segir þolinmæði kennara nán-
ast að þrotum komna vegna þess að
ekkert hafi miðað í viðræðunum.
Samningafundur var haldinn hjá
ríkissáttasemjara í gær og er næsti
fundur boðaður á föstudag. Á
morgun mun launanefnd sveitarfé-
laga fara yfir stöðuna og er næsti
viðræðufundur svo boðaður á föstu-
daginn.
Finnbogi segir að ekki sé enn
farið að ræða hugsanlegar aðgerðir
í hópi kennara til að þrýsta á um
gerð samninga en næstkomandi
mánudag verði farið yfir stöðu deil-
unnar og hvað gera beri í framhald-
inu á fundi stjórnar samninga-
nefndar og formanna svæðafélaga í
FG.
„Það gerist nákvæmlega ekki
neitt. Menn hittast, rabba eitthvað
saman en pappírar ganga lítið sem
ekkert á milli manna og annað er í
sama dúr,“ segir hann.
Þolinmæði kenn-
ara er að bresta
ÞRÍR sakborningar, sem sæta
ákæru ríkissaksóknara fyrir inn-
flutning á alls 27 kílóum af kanna-
bisefnum til landsins, neituðu allir
sök við þingfestingu málsins í Hér-
aðsdómi Reykjavíkur í gær. Tveir
sakborninganna eru íslenskir og
einn þýskur. Í ákæru eru talin til
ellefu skipti sem ákærðu stóðu að
innflutningi kannabisefna og er þess
krafist að þeir verði dæmdir til refs-
ingar. Einn sakborninganna hlaut í
Hæstarétti í október 2003 5 ára
fangelsi fyrir stórfellt fíkniefna-
smygl hingað til lands í tengslum
við mál sem kennt var við „Operat-
ion Germanía“ á rannsóknastigi og
teygði anga sína um Evrópu. Með-
ákærði frá Þýskalandi hlaut þá í
Héraðsdómi Reykjavíkur í júní 2003
tveggja og hálfs árs fangelsi fyrir
aðild sína.
Aðalmeðferð nýja málsins hefst
fyrir héraðsdómi 24. júní.
Neita aðild að stór-
felldu fíkniefnasmygli