Morgunblaðið - 20.04.2004, Side 25
LISTIR
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 20. APRÍL 2004 25
STYRKUR TIL
TÓNLISTARNÁMS
Minningarsjóður um Jean Pierre Jacquillat mun á þessu
ári veita tónlistarfólki styrk til framhaldsnáms erlendis
á næsta skólaári 2004-2005.
Veittur er styrkur að upphæð kr. 600 000.
Umsóknir, með upplýsingum um námsferil og
framtíðaráform, sendist fyrir 31. maí nk. til formanns
sjóðsins:
Arnar Jóhannssonar,
pósthólf 8620,
128 Reykjavík.
Umsóknum fylgi hljóðritanir, raddskrár frumsaminna
verka og/eða önnur gögn sem sýna hæfni umsækjenda.
Skógarhlíð 18, sími 595 1000.
www.heimsferdir.is
Nú getur þú tryggt þér síðustu sætin í sólina í maí á hreint ótrúlegum
kjörum og tryggt þér síðustu sætin til Benidorm, þessa vinsæla áfanga-
staðar. Sumarið er komið á Spáni og hér getur þú notið lífsins við frá-
bærar aðstæður og nýtur traustrar
þjónustu fararstjóra Heimsferða
allan tímann. Þú bókar ferðina og
3 dögum fyrir brottför færðu að
vita hvar þú gistir í fríinu.
Munið Mastercard
ferðaávísunina
Stökktu til
Benidorm
19. maí
frá kr. 29.995
Verð kr. 29.995
M.v. hjón með 2 börn, 2–11 ára, flug,
gisting, skattar. Staðgreiðsluverð, vikuferð.
19. maí. Ferðir til og frá flugvelli kr. 1.800.
Almennt verð kr. 31.500.
Verð kr. 39.950
M.v. 2 í íbúð/stúdíó, flug, gisting, skattar.
19. maí. Ferðir til og frá flugvelli kr. 1.800.
Almennt verð, kr. 41.950.
Val um 1 eða 2 vikur.
FJÓRIR hljóðfæraleikarar, sem
saman kalla sig Tímahrak, héldu
tónleika ásamt Lars Graugaard tón-
skáldi í Listaháskólanum á miðviku-
dagskvöldið. Segja má að nafn hóps-
ins hafi verið réttnefni því hópurinn
lenti í tímahraki á tónleikunum.
Fyrsta verkið, sem var spuni byggð-
ur á hugmyndum Graugaards,
teygðist óhóflega og var ákveðið að
spila ekkert meira eftir það. Þó hafði
verið ætlunin að flytja einnig aðra
tónsmíð eftir Graugaard sem nefnist
Rainmen, auk þess sem Tímahrak
hafði hugsað sér að leika eitthvað
eftir þá sjálfa „ef tími gæfist til“.
Verkið sem fékk að hljóma á tón-
leikunum bar nafnið Nomad.
Graugaard sat aftast á sviðinu vopn-
aður ferðatölvu, en hinir sátu sitt-
hvorum megin við hann. Það voru
Pétur Grétarsson (slagverk), Sig-
urður Halldórsson (selló), Matthías
Hemstock (slagverk) og Hilmar
Jensson (gítar).
Tónlistin lofaði góðu í upphafi.
Heyra mátti allskonar hljóð sem
voru dularfull og forneskjuleg og
var það töluvert heillandi. Þessi
framandi stemning fikraði sig upp í
kraftmikinn hápunkt þar sem þétt-
ur, ákveðinn og seiðandi taktur var
allsráðandi. Eftir það fór tónlistar-
mönnunum að fatast flugið, hið sama
tók við aftur og aftur í allt of langan
tíma og var það æ meira þreytandi
eftir því sem á leið. Vissulega mátti
heyra áhugaverða kafla inn á milli,
t.d. var angurvært gítarsóló yfir
hröðum og ástríðuþrungnum leik
hinna hljóðfæraleikaranna talsvert
mergjað, en flest annað var óttalega
klént. Það var eins og tónlistar-
mennirnir festust í hverri hugmynd
og spóluðu í sama farinu áður en
næsti kafli byrjaði. Eins og gefur að
skilja var heill klukkutími af slíku
tónlistarlegu ofáti, ef svo má að orði
komast, ekki beint skemmtilegur.
Svona síbylja er því miður allt of
algeng á raftónleikum, tónskáldin
detta niður á eitthvað sniðugt en
vita ekki hvernig þau eiga að vinna
úr því; í staðinn er það sama spilað í
sífellu þar til mann langar mest til
að standa upp og skipa flytjendun-
um að hætta þessum hávaða.
Breskur blástur
Í tónleikaskrá Lúðrasveitar
verkalýðsins, sem kom fram í Sel-
tjarnarneskirkju á laugardaginn,
mátti lesa eftirfarandi: „Líkt og
undanfarin ár eru vortónleikar
sveitarinnar helgaðir tilteknu landi.
Í þetta skipti varð Bretland fyrir
valinu, enda um auðugan garð að
gresja í þeirri miklu tónlistarhefð
sem þar er. Má segja að vandamálið
hafi ekki verið það að finna verk við
hæfi, heldur frekar reyna að tak-
marka hvaða verk skildi flytja.“
Í ljósi þessa er undarlegt að
Lúðrasveitin hafi valið útsetningu
eftir Percy Grainger, sem var Ástr-
ali (þó hann hafi átt breska forfeður)
og lagið hið írska „O, Danny Boy“.
Hins vegar var kærkomin tilbreyt-
ing að heyra eitthvað annað en Plán-
eturnar eftir Gustav Holst, en sveit-
in flutti Es-dúr og F-dúr svíturnar
eftir hann, auk þess sem hún sótti í
smiðju Bítlanna og lék jafnframt
hinn ódauðlega Colonel Bogey eftir
Alford og Pomp and Circumstance
eftir Elgar. Var efnisskráin því í
rauninni ekki illa samansett; hún var
a.m.k. fjölbreytt, ólíkt tónleikunum
sem fjallað var um hér fyrir ofan.
Leikur lúðrasveitarinnar er svo
önnur saga; þar var ekki allt sem
skyldi þó bendingar stjórnandans
Tryggva M. Baldvinssonar hafi ver-
ið nákvæmar og skýrar. Heildar-
hljómurinn var oft loðinn og óhreinn
og sumt, eins og Imagine eftir John
Lennon, var beinlínis vandræðalegt.
Ýmsir blásarar misstu líka stjórn á
sér í síðasta kafla fyrri svítu Holst;
þeir þrumuðu svo ógurlega að heild-
arsvipurinn bjagaðist og var útkom-
an eins og verið væri að þenja risa-
stóran lírukassa til hins ýtrasta.
Colonel Bogey var hins vegar al-
veg þokkalega spilaður og ýmislegt í
svítunum var ágætlega gert. Pomp
and Circumstance eftir Elgar var
hæfilega tignarlegt og aukalagið,
Ob-la-di, ob-la-da, var best. Hvað
annað varðar á tónleikunum þá
skipti tæknilega hliðin ekki öllu
máli; rétta stemningin var alltént til
staðar, leikur lúðrasveitarinnar var
a.m.k. líflegur og kraftmikill þó
hann væri ekki fullkominn. Enda
virtust hljóðfæraleikararnir
skemmta sér ágætlega og ég gat
ekki betur séð en að sumir áheyr-
endur gerðu það líka.
Tónlistarmenn í tímahraki
Jónas Sen
TÓNLIST
Listaháskólinn, Hrái salur
RAFTÓNLEIKAR
Lars Graugaard og Tímahrak (Pétur Grét-
arsson, Hilmar Jensson, Matthías Hem-
stock og Sigurður Halldórsson). Miðviku-
dagur 14. apríl.
Seltjarnarneskirkja
LÚÐRASVEITARTÓNLEIKAR
Lúðrasveit verkalýðsins undir stjórn
Tryggva M. Baldvinssonar. Tónlist eftir
Alford, Grainger, Holst, Bítlana og Elgar.
Laugardagur 17. apríl.
María Jónsdóttir söngkona hlaut nýverið styrkfrá The Associated Board of the RoyalSchools of Music í London til framhalds-náms við einhvern af konunglegu tónlist-
arháskólunum í Bretlandi. Styrkinn hlaut María í fram-
haldi af 8. stigs prófi með hæstu einkunn frá
Söngskólanum í Reykjavík. Áður hafa íslensku söngv-
ararnir Hulda Björk Garðarsdóttir og Loftur Erlingsson
hlotið styrkinn, en þau luku einnig framúrskarandi loka-
prófi frá Söngskólanum.
Það var prófdómari The Associated Board of the
Royal Schools of Music, ABRSM, Timothy Barratt, sem
dæmdi próf nemenda Söngskólans síðastliðið vor og
mælti hann með styrkveitingunni eftir að hafa hlustað á
söng Maríu og metið heildarárangur hennar á lokapróf-
inu. Hún hlaut framúrskarandi einkunn, var hæst þeirra
nemenda er luku prófi og hlaut verðlaunagrip Söngskól-
ans í framhaldi af því.
„Mér bauðst að sækja um þennan styrk í kjölfarið á
prófinu. Skilyrðið var að maður kæmist inn í einhvern
þeirra fjögurra skóla sem ABRSM eru með,“ segir
María, en þeir skólar eru Royal Academy of Music og
Royal College of Music í London, Royal Northern Coll-
ege of Music í Manchester og Royal Scottish Academy of
Music and Drama í Glasgow. „Ég komst inn í skólann í
Glasgow og gat þá sótt um styrkinn – og fékk hann.“
Eignaðist barn á sama tíma
María segist halda að tveir slíkir styrkir séu veittir á
ári, en í styrknum felst niðurfelling skólagjalda auk 3.000
punda uppihaldsstyrks í eitt ár, með möguleika á um-
sókn um framhald í annað ár. „Þetta kemur sér auðvitað
rosalega vel, eins og að vinna í lottói, því ég hefði auðvit-
að farið hvort sem er,“ segir María, sem stefnir á að taka
fjölskylduna með. „Okkur leist mjög vel á aðstæður þeg-
ar ég tók inntökuprófið, og mér leið eins og ég væri mjög
velkomin.“ Námið sem María ætlar í heitir post-
graduate diploma og er fornám að öðrum deildum skól-
ans, þar sem kennt er meðal annars tungumál, leiklist og
sviðsetning auk söngsins. „Ég stefni á að vera í alls fjög-
ur ár úti, og taka tvö ár í post-graduate námið, vegna
þess að mér býðst að sækja um styrkinn aftur að ári ef
ég held áfram í sama námi. Hins vegar reyni ég eflaust
að komast inn í óperudeildina við skólann meðan ég verð
í náminu.“
Hið vellukkaða 8. stigs próf tók María í lok meðgöngu
dóttur sinnar, sem fæddist í maí. „Ég átti að vera í prófi
á fimmtudegi, en fór þá upp á spítala því ég var komin
með einhverja verki. En ég var ekki byrjuð, svo ég dreif
mig í prófið á laugardeginum, og átti svo stelpuna á
mánudegi. Þannig að þetta var mjög tæpt, og mér var í
raun alveg sama hvernig mér gengi í prófinu – ég vildi
bara klára það. En kæruleysið hefur gefið mér einhvern
aukakraft,“ segir María um velgengni sína.
María Jónsdóttir er uppalin í Kópavogi og lauk stúd-
entsprófi frá MK 1997. Hún hóf nám við Söngskólann
haustið 1998 og hefur þar numið undir leiðsögn Val-
gerðar Jónu Gunnarsdóttur, en jafnframt sótt námskeið
hjá Martin Isepp, Mariu Therese, Kurt Widmer og Rob-
in Stapleton. Hún er félagi í Óperukórnum í Reykjavík
undir stjórn Garðars Cortes, hefur starfað með Nem-
endaóperu Söngskólans og komið fram sem einsöngvari
við ýmis tækifæri, nú síðast með Elínu Guðmundsdóttur
píanóleikara, en þær héldu einsöngstónleika sem var
samvinnuverkefni Söngskólans og Vetrarhátíðar í
Reykjavík.
María lýkur burtfararprófi í söng, ABRSMdip., frá
Söngskólanum í Reykjavík nú í vor og heldur einsöngs-
tónleika því tengda í maí.
Hlýtur styrk frá konunglegu tónlistarháskólunum
Kæruleysið
gaf mér
aukakraft
María Jónsdóttir ásamt dóttur sinni sem fæddist um
sama leyti og hún þreytti prófið í Söngskólanum.