Pressan - 31.08.1989, Blaðsíða 16

Pressan - 31.08.1989, Blaðsíða 16
16 Fimmtudagur 31. ágúst 1989 sjúkdómar og fólk VESEN AÐ í gamla daga, þegar amma á Eini- melnum var lítil, var farið með blæðingar eins og mannsmorð, en það var byrjað að hvísla um svona hluti, þegar mamma var ung. (Þá sögðust stelpurnar vera „forfallað- ar” eða „með mánaðarstandið”... Pempíugangurinn, maður!!!) Núna er þetta sko hins vegar ekkert mál. Það eru meira að segja oft dömu- bindaauglýsingar í sjónvarpinu! Það er voða misjafnt hvenær stelpur byrja á túr. Amma byrjaði þegar hún var fjórtán, mamma var þrettán, en ég var bara ellefu ára. Þetta er soldið dæmigert, vegna þess að stelpur eru víst alltaf að byrja fyrr og fyrr. (Ég sá það í bók, sem ég las til að kynna mér allt um blæðingar áður en ég færi að skrifa um þær, svo þetta er ekkert bull.) Það er nú ekki alveg á hreinu af hverju stelpur byrja svona ungar, en vísindamenn halda að það sé út af velmegun og þannig. Ríkar stelpur fá nefnilega blæðingar miklu fyrr en þær, sem búa í fátæku löndun- um. 18 lítrar og 440 skipti Ef einhver kona myndi aldrei eignast krakka færi hún 440 sinn- um á túr. (Mamma las það í enskri líkamsfræðibók.) Ég fatta það nú ekki alveg, því það er ógeðslega misjafnt hvað þessi blessaði tíða- hringur er langur. Sumar konur fá blæðingar á 19 daga fresti, takk fyrir kærlega, en hjá þeim heppn- ustu geta liðið 30 til 40 dagar á milli. Og stelpur, sem fara í ógeðs- lega stranga megrun, hætta gjör- samlega. En þær geta dáið, svo það er ekkert sniðugt. í líkamsfræðinni stendur líka að konur missi 40 millilítra af blóði í hvert skipti sem þær fara á túr. Sam- kvæmt vasatölvunni hans pabba missir maður (þ.e.a.s. kona!) næstum 18 blóðlítra á ævinni. Það er ekk- ert smáræði og þess vegna verða konur að vera rosa duglegar að borða rúsínur og blóðmðr og lif- ur og allt mögulegt svoleiðis, sem getur aukið við blóðið í manni. í gamla daga, löngu áður en amma á Einimelnum fæddist, vissi fólk ferlega lítið um blæðingar af því að vísindamenn voru ekki enn orðnir til. Þá voru sko alls konar vit- leysishugmyndir í gangi. Fólk hélt t.d. að blæðingar þýddu að legið í konum væri að grenja út af því að þær væru ekki óléttar! Glætan, maður... Svo héldu menn líka (að- allega kallarnir, held ég) aö konur væru eitthvað ofsa óhreinar á sál- inni á meðan þær væru á túr. En núna erum við með það alveg á hreinu hvað gerist, þegar konur fá blæðingar. Það er búið að skoða þetta allt saman með gegnumlýs- ingartækjum og smásjám og þann- ig- Alls konar möguleikar Ég nenni ekki að fara út í þetta með eggin og það, en stelpur þurfa helst að vita hvernig þær eiga að bregðast við þessu veseni einu sinni í mánuði. Það er nefnilega um ým- islegt að velja. í gamla daga voru bara til dömubindi (ég fer sko ekki út í ógeðið fyrir tíma dömubind- anna til að engum verði óglatt) og þau voru ekki einu sinni með lím- rönd, svo konurnar urðu að festa þau með „sikkrisnælum” (eins og amma á Einimelnum kallar öryggis- nælur). Núna eru til sjúkiega margar tegundir af svona bindum, bæði þykk og þunn og mismunandi í lag- inu. Sum eru þar að auki með ilmi, sem mér finnst eiginlega alveg út i Hróa hött. Síðan eru það tapparnir. Þeir eru líka misjafnlega stórir. Það er voða gott að nota þá þykkustu fyrstu tvo dagana, en svo litla tappa eftir það. (Síðasta daginn er æðislega sniðugt að nota þunnt dömubindi til vonar og vara.) Mér finnst best að nota tappa, sem eru í löngu pappahylki. Ég barasta skil ekki hvernig hægt er að koma litlu títlunum fyrir, án þess að hafa hólkinn til að ýta þeim með... (Rólegan æsing, ég ætla ekkert nánar út í þessa sálma, svo það er óþarfi að kúgast.) Sjúkleg skapvonska Sumar konur verða alveg ofsa lasnar, þegar þær fá blæðingar. Þessu fylgir nefnilega ferleg maga- pína svona alneðst í maganum. Maður verður helst að liggja saman- krepptur til að lifa þetta af, en það er náttúrulega upplagt að taka verkja- töflur, þegar túrpínan er mjög slæm. Það er soldið misjafnt hvað konur finna mikið til. Ég finn sko aldrei fyrir þessu, en mamma verð- ur æöislega „sloj” og leggst í rúmið og allt. Mamma verður líka hryllilega skapvond og leiðinleg í svona viku á undan. Á slíkum tímabilum gerir enginn neitt rétt á heimilinu — nema hún. Hún skammar kannski pabba fyrir að spyrja hvað sé í mat- inn og segir að hann geti bara sjálfur séð um að kokka. En næsta dag skammar hún hann fyrir að spyrja ekki hvað sé i matinn og segir að hann sýni engan áhuga á því, sem hún er að gleðja magann í honum með. Við Addi bróðir reynum að láta lítið á okkur bera, þegar mamma er á þessu stigi, og fáum oft að gista á Einimelnum hjá ömmu. Og það er svaka duló hvað pabbi þarf alltaf að vinna geðveikislega mikla eftir- vinnu rétt áður en mamma fer á túr. En hún getur sjálfri sér um kennt. Ég las í blaði að konur, sem yrðu svona, ættu að taka B6-vítamín og stunda líkamsrækt, en mamma henti í mig Mogganum fyrir að minnast á þetta. Eg valdi líklega vit- lausa viku til að fræða hana um fyr- irtíðakvilla... Aftur og nýbúin! Það besta við blæðingarnar er að þær hætta, þegar maður er svona 44 tíl 57 ára. Ég er strax farin að hlakka til. En sumar konur fá þá svitaköst, rauða flekki á hálsinn og verða voða viðkvæmar og klökkar. Það er samt ekkert mál, því læknar eiga alveg meiriháttar plástra við þessu. Konurnar líma þá bara á sig og allt verður í lagi, nema eitt: Þær byrja aftur á túr! pressupenni HREIÐURGERÐ Þegar ég var beðin í tilefni afmæl- isins að hafa pennaskipti við kollega mína á Pressunni og sagt um leið að skrifa t.d. eitthvað á alvarlegu nót- unum var ég ekki lengi að komast að því hvað ég vildi skrifa um. Bless- uð húsnæðismálin. Alvarlegra mál liggur varla á fólki í dag sem vill fara að huga að hreiðurgerð fyrir sig og sína. Eg skal segja ykkur hvaða strá, hálmstrá og önnur strá svona fugl eins og ég með einn unga hef fund- ið. Ég vil ítreka að þetta er grafalvar- legt mál. Torf og grjót Jæja, mér býðst að kaupa jarðar- skika á Snæfellsnesi á 50.000-kall, en þau skilyrði fylgja að ég, líkt og aðrir sem kaupa land þarna á sama stað, verð að byggja úr náttúruleg- um efnum; torfi, mold, við og grjóti. Sömuleiðis verður byggingin að hafa þannig form að hún falli sem best að umhverfinu, til dæmis kúlu- hússlag. Þetta væri kannski ailt í lagi ef það væri lögð góð hraðbraut á milli Snæfellsness og höfuðstaðar- ins. Svo er bygging kúluhúss annar spennandi möguleiki. Ég eyddi heil- um dag í gönguferð inni í Morsárdal í Skaftafelli í sumar að hugleiða kúluhússhreiður og ímynda mér hvernig ég gæti innréttað það: Ar- inn í fjólubláum Rudolf Steiner-lit, hvítkalkaðir veggir, tvö svefnher- bergi uppi, eldhús og stofa niðri, sér- dallar fyrir lífrænan úrgang, plast, batterí... Morguninn eftir kúlu- hússhugleiðsluna frétti ég að aðal- kúluhússkallinn okkar, hann Einar, hefði komið í heimsókn til okkar landvarða um kvöldið og setið inni í stofu, en þá var ég steinsofnuð í herbergi mínu við hliðina. Tilviljun? Alls ekki, en þótt náttúruhugleiðsla sé mögnuð missti ég af honum í þetta skiptið. Ætli kúluhúsið bíði ekki betri tíma. Svo er hægt að sækja um hjá Verkó og fá uppörvandi svör til- baka: „Alls bárust 1.129 umsóknir um þessar íbúðir, en aðeins var unnt að ráðstafa 301 íbúð og þér eruð einn af þeim 828 umsækjendum, sem ekki var unnt að sinna í þetta skipti." En hvað með Búseta? I dag eru þar á fjórða þúsund félagar á skrá og fjörutíu og sex búnir að fá íbúð frá því Búseti hóf starfsemi. Þú borgar bara félagsgjöld í nokkur ár og kannski verða þeir þá farnir að byggja að nýju. í dag hefur Búseti fjóra byggingarstaði í sigtinu, en þetta strandar allt á flóknum lána- reglum. Semsagt; nokkur þúsund fé- lagsmenn en engar íbúðir er verið að byggja í augnablikinu. Bara nokkurra ára bið þar til línur skýr- ast. Gott fyrirkomulag fyrir þá sem hafa nógan tíma. Innan við milljón Þeir sem eru svo „heppnir" að hafa lánsrétt geta líka sótt um hjá Byggingarsjóði ríkisins í gegnum Húsnæðismálastofnun. Verðtryggð lán með 3,5% ársvöxtum. Gaman, gaman. Svo verður ennþá meira gaman þegar nýja húsbréfakerfið fer í gang. Þá þarf ekki að bíða! Að endingu má ekki gleyma enn einum valkosti í hreiðurgerð. Húsvagni! Starfsmaður í félagsmáiaráði í ónefndum bæ gaf einum sem var í örvæntingu sinni að leita þar ásjár þetta ráð og sagði að húsvagnar væru ekki vitlaust úrræði. „Kosta bara innan við milljón.” En enginn þarf að standa einn í hreiðurgerðinni. Ættingjarnir eru aliir af vilja gerðir. Mamma mín spurði mig ofurljúft og nærri því ísmeygilega um daginn: Hefur þér ekkert dottið í hug að ná þér í mann? Og sonur minn, þessi elska, bauðst einn morguninn, eftir að ég var nýstigin úr sturtunni, til að kaupa handa mér tippi. Fannst ég sárlega vanta eitt stykki! Reyndar vissi hann Kári minn ekki alveg hvernig hann ætlaði að redda því svo hann bætti við eftir svolítið hik: — „Á morgun!” Kannski er það bara þetta líffæri sem mig vantar. Þá væri ég líklega komin í villu einhvers staðar og sæti núna í heitum nudd- potti með nýhristan heilsudrykk. Og þó. Ég held að það sé kominn tími á æðruleysisbænina: „Guð, gefðu mér styrk til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt, kjark til að breyta því sem ég get breytt og vit til að greina þar á milli."

x

Pressan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Pressan
https://timarit.is/publication/298

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.