Pressan - 28.06.1990, Side 16

Pressan - 28.06.1990, Side 16
Fimmtudagur 28. júní 1990 16 Einkaviðtal við Shirley Temple, frh. kyssa fólk (meira að segja þá sem voru ekki sériega huggulegir) og kvikmyndaverið skipulagði fríin þannig að þau yrðu sem mest auglýsing. En Shirley Temple lítur til þessara ára með ánægju. ,,Ég átti líklega bestu æsku sem nokkurt bandarískt barn gat átt. Ég elsk- aði þetta allt, vinnuna, myndirnar, fólkið í kvikmyndaverinu og skólann — þetta var dá- samlegt líf, líka erfiðu hlutarnir." Verð líka að segja frá því vandræðalega Erfiðið var óneitanlega talsvert. Myndirnar komu hver á fætur annarri og sem samnings- bundinn starfsmaður Fox-kvikmyndaversins þurfti Shirley að gera fleira en hún vildi. Til að halda ímyndinni um æsku og sakleysi mátti ekki sjást þegar hún missti tennur og hún varð alltaf að vera í stuttum pilsum; hún þurfti ung að vera brosandi gestgjafi þegar kvikmyndaverið fékk heimsóknir, hvort held- ur var frá forsetafrú Bandaríkjanna, öðrum kvikmyndastjórum, fulltrúum stjórnarinnar, sovéskum heimskautaförum eða japönskum sendiherrum. Svo var það endalaus barátta við senuþjófa, bæði við litla ,,statista“ eða frægar stjörnur. Shirley Temple hefur nýlega sent frá sér sjálfsævisögu sína þar sem hún fjallar um stjörnuárin og þar eru ótal smáatvik af þessu tagi rakin. „Ég var átta ár að skrifa þessa bók. Þegar maður skrifar sjálfsævisögu verður maður að taka allt með — líka það vandræða- lega.“ Hún rifjar hlæjandi upp nokkur slík atvik eins og þegar hún varð ástfangin af mótleik- ara sínum Joe McCres en mistókst að heilla hann, m.a. vegna þess að hún pissaði í ógáti á sig og missti síðan út úr sér tvær postulíns- tennur, sem voru límdar upp í góminn til að ekki sæist að hún væri farin að missa barna- tennurnar. Hvort tveggja tafði tökur. Fyrstu kynni hennar af kærasta á unglingsárunum voru heldur ekki gæfuleg. Hún hitti hann í samkvæmi þar sem boðið var upp á vín. Shirley hafði enga reynslu af víni, drakk of mikið og endaði ælandi úti í runna. Kærast- inn hélt um enni hennar á meðan hún ældi, bar hana svo út í bíl og ók henni heim. „Ég var að vona að menn sæju sjálfa sig í þessum sögum og það hjálpaði þeim að sætta sig við sjálfa sig. Þetta kemur fyrir alla og ef fólk sér sig í þessu þá hef ég a.m.k. áorkað einhverju," segir sendiherrann nú og brosir að ósigrum bernskunnar. Fór í vitlaust brúðkaup „Ég hef annars sérstaka hæfileika til að lenda í smávandræðum. Ég fór t.d. einu sinni í vitlaust brúðkaup og tók Charlie, manninn minn, með mér. Vinkona mín var að gifta sig einhverjum manni frá Oklahóma, sem ég hafði aldrei séð. Við ókum þangað og þegar við komum að kirkjunni var okkur vísað til sætis beint fyrir aftan fjölskyldu brúðgum- ans. Ég horfði á brúðgumann og fannst hann svona allt í lagi — ég hefði getað gert betur sjálf, en hann- var sem sagt í lagi. Ég þekkti engan í kirkjunni, ekki heldur brúðarmegin, og mér fannst það svolítið skrítið. Svo gengur brúðurin inn og þá þekkti ég hana ekki held- ur! Hún kom gangandi inn gólfið, bláókunn- ug manneskja og ég sá að ég var í vitlausu brúðkaupi. Ég fór að hlæja í hljóði og hló svo að tárin streymdu niður kinnarnar. Fjöl- skylda brúðgumans leit við og starði á þessa tárvotu konu og ein konan í fjölskyldunni sagði stundarhátt; „Þetta er örugglega sú sem hann sveik síðast." Við gátum ekki kom- ist út fyrr en brúðkaupið var búið og Charlie sagði við mig; „Hvernig gastu gert þetta?" En þetta er saga lífs míns — alls kyns mistök. Ég fór líka einu sinni í vitlausa jarðarför . ..“ Kynferðisleg áreitni hjá MGM Ósigrar og uppákomur bernskunnar voru samt ekki alltaf jafnsaklaus. Daginn sem Shirley var ráðin hjá Metro Goldwyn Mayer, þá tæplega tólf ára, var hún ein í herbergi með Arthur Reed, framleiðanda myndarinn- ar Galdramannsins í Oz. „Ég hef hérna svolít- ið fyrir þig," sagði hann, stóð upp og flassaði! Shirley hafði aldrei séð karlmann í þessu ástandi og fór að hlæja. Það bjargaði henni. Hláturinn varð til þess að Reed missti allan áhuga og rak hana út. „Ég var í raun ekki svo varnarlaus fyrst ég hafði kímnigáfu," segir Shirley nú, þegar hún lítur til baka. „Ég vissi það ekki þá, en það slær menn alveg út ef það er hlegið að þeim. Það skrítna var að á sama tíma og Reed var að reyna þetta var Louis B. Mayer, aðalframkvæmdastjórinn, að reyna við móður mína á skrifstofunni sinni. Við hlógum oft að þessu seinna, en þá var þetta ekkert grín. Við yfirgáfum öryggið hjá Fox þar sem ég hafði einkakofa, einkakennara og allt eftir Myndirnar komu hver á fætur annarri og sem samningsbundinn starfsmaður Fox- kvikmyndaversins þurfti Shirley að gera fleira en hún vildi. Til að halda ímyndinni um æsku og sakleysi mátti ekki sjást þegar hún missti tennur og hún varð allt- af að vera í stuttum pilsum; hún þurfti ung að vera brosandi gestgjafi þegar kvikmyndaverið fékk heimsóknir, hvort heldur var frá forsetafrú Bandaríkjanna, öðrum kvikmyndastjórum, fulltrúum stjórnarinnar, sovéskum heimskauta- flugmönnum eða japönskum sendiherr- um. (Myndirnar eru úr ævisögu Shirley Temple) því, — strax á fyrsta degi „úti í hinum stóra heimi“ gerist eiginlega allt það versta." Nauðgun í lest? En áreitnin átti eftir að verða verri. í sjálf- sævisögu sinni segir Shirley Temple frá því þegar hún var í lest ásamt fleiri leikurum á leið á upptökustað. Um kvöldið fylgdi einn þeirra henni inn í klefann hennar, henti henni á bekkinn og iagðist ofan á hana. „Guð minn góður, nú verður mér nauðgað," hugsaði hún. Það eru síðustu orð kaflans. „Þú færð ekki að vita neitt meira," segir hún ákveðin þegar þetta atvik berst í tal. „En þetta urðu stúlkur í kvikmyndaverinu að sætta sig við. Mér fannst að menn hefðu átt að koma betur fram við mig því að ég var stjarna, en þessu varð ég samt fyrir.“ Hún vill ekki viðurkenna að hún hafi verið alveg varnarlaus; „Ekki með svona kröftugt vinstra hné,“ segir hún og vitnar í hvernig hún rak það í karlmennskutákn þessa sama manns síðar þegar hann reyndi sama leik. „Annars held ég að þetta sé ekki sérkenni kvikmyndabransans. Þetta er til staðar á flestum vinnustöðum. Það nægir að stúlka sé lagleg — ja, hún þarf jafnvel ekki að vera sér- staklega lagleg — og þá eru alltaf einhverjir karlar sem vilja kynnast henni betur — og of vel.. Foreldrarnir eyddu öllum ágóðanum Þó að flestir þekki barnastjörnuna Shirley Temple vita færri af myndunum sem hún lék í eftir að krullurnar uxu úr henni. Tólf ára var hún ráðin hjá MGM-kvikmyndaverinu og fram til 1950 vann hún þar, hjá Selznic Inter- national Pictures og hjá 20th Century Fox. Meðal mótleikara hennar var Ronald Reagan í myndinni Hagen-stúlkan (That Hagen Girl) en aðrar myndir hennar þóttu betri, t.d. myndin Kathleen (MGM) og Síðan þú fórst (Since you went away — leikstýrt af David O. Selznic). ' En 1950, þegar Shirley Temple var 22ja ára, nýfráskilin og við það að gifta sig í annað sinn, ákvað hún að segja skilið við kvikmynd- irnar. Þá kom í Ijós að eigur hennar eftir tutt- ugu ára vinnu við kvikmyndir voru sáralitlar. Á nær ævilöngum ferli í kvikmyndum hafði hún unnið sér inn rúmlega fjórar milljónir bandaríkjadala. Pabbi hennar hafði sem fjárhaldsmaður séð um að fjárfesta og átti að auki að setja helming launa hennar síðsutu tíu árin á sér- stakan reikning. Á báðum sviðum brást hann og þegar upp var staðið komu 44 þúsund dal- ir í hlut Shirley. Það var allt sem var eftir af 4,1 milljón dala (jafnvirði rúmlega 240 millj- óna ísl. króna á núvirði). Afgangurinn hafði farið í eyðslu og fjárfestingarævintýri föður hennar. En hún vill ekki kannast við að hún hafi verið bitur. „Ég er þannig gerð að ef eitt- hvað slæmt hefur gerst og ég get ekkert gert til að breyta því þá horfi ég bara fram á veg- inn. Þegar hér var komið sögu hafði ég hvorki áhuga á peningum né frægð. Það sem skipti mig öllu máli var maðurinn minn, Charlie, og dóttir mín Susan.“ í sjálfsævisögu Shirley Temple Black má þó finna hispurslausar lýsingar á föður hennar og fjárfestingum hans sem auka ekki hróður hans í augum lesandans. Gægjuáráttu hans eru líka gerð góð skil og á einum stað kallar hún hann; „faðir minn þessi óþreytandi gluggagægir". „Já, en hann var svona,“ segir Shirley hlæjandi. „Hann gat laumast hljóð- laust um og maður varð ekkert var við hann. Þetta er í fjölskyldunni — ég get þetta líka! Og ef maður skrifar ævisögu þá verður mað- ur að segja satt og rétt frá. Þetta með pening- ana hafði engin áhrif á samband mitt við for- eldrana. Ég átti alveg einstaka móður, hún var alveg sérstök manneskja — og það var faðir minn líka,“ bætir hún við eftir smáhik. Gifti sig 17 ára Shirley Temple var aðeins 17 ára þegar hún giftist Jack Agar jr„ ungum liðsforingja sem var atvinnulaus eftir stríð. Hjónabandið gekk brösuglega frá byrjun. Hún hélt áfram að leika í kvikmyndum og vekja athygli og um- tal. Hann var bara maðurinn hennar og átti erfitt með að taka því. Seinni hjónabandsárin lagði hann fyrir sig kvikmyndaleik og þau léku saman í tveimur myndum (Apache-virk- ið, þar sem einn af meðleikurum var Henry Fonda, og Ævintýri í Baltimore) en 1949 var hjónabandið í rúst og þau skildu að borði og sæng. Shirley hélt dótturinni Susan. Tveimur mánuðum síðar hitti hún Charles Black og það var ást við fyrstu sýn. Næstu tiu mánuðina, eða þar til lögskilnaður fékkst, reyndu þau að halda sambandi sínu leyndu, en að því loknu giftu þau sig og fluttu til Washington, þar sem hann var kallaður til starfs á vegum hersins. Charlie Black gekk Susan í föðurstað og bráðlega bættust tvö önnur börn í hópinn, Charles Alden jr. og Lori Alden. Það liðu því nokkur ár þar til aftur fór að bera á Shirley Temple. í þetta sinn Shirley Temple Black og þá var það í opinberri þjónustu. Sneru við skiltum svo að skriðdrekarnir fóru í hring 1968 tók hún að sér vinnu á vegum repú- blikanaflokksins fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum og fór að auki til fimm landa fyrir flokkinn. í þeirri ferð kom hún við í Tékkóslóvakíu og ætlaði að hitta Dubcek for- esta. Erindið var að fá Tékkóslóvakíu til að ganga í alþjóðasamtök MS (styrktarfélag mænuskaddaðra) sem Shirley hafði starfað fyrir sem sjálfboðaliði í mörg ár. Þetta var á tímum „vorsins í Prag“ og því lauk meðan hún var þar. „Skriðdrekarnir komu inn í borgina þann 21. ágúst og þar sá ég hvernig þeir krömdu í bókstaflegum skilningi „vorið í Prag“. Allt unga fólkið sem hafði verið að leika á hljóð- færi á götuhornum breyttist í skæruliða á einni nóttu og gerði allt það sem það gat til að rugla hermennina. Það sneri öllum götu- skiltum svo að skriðdrekarnir óku hring eftir hring í miðbænum og það gekk um með skilti sem á stóð „hataðu skynsamlega", þ.e.a.s.: ekki láta drepa þig. Ég hitti nýlega konu sem var ung á þessum tíma og hún var ein af þeim sem klifruðu upp á skriðdrekana og settu blóm í byssukjaftinn. Þegar hún klifraði fram eftir byssunni fóru hermennirnir að snúa henni hring eftir hring til að reyna að hrista stúlkuna af, en hún hékk á og snerist með. Hún gerði sér enga grein fyrir því að hún gæti dáið á þessu, hún var sannfærð um að ef hún setti blóm í byssu- kjaftinn þá yrðu hermennirnir góðir — sem var auðvitað ekki rétt.“ Sendiherra í Prag Ári síðar varð Shirley Temple Black fulltrúi Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum og til 1972 leiddi hún nefnd Bandaríkjamanna í umhverfismálum. Síðan vann hún i umhverf- ismálaráði Hvíta hússins til 1974 þegar hún varð sendiherra Bandaríkjanna í Ghana. Þeg- ar hún sneri aftur 1976 varð hún siðameistari Bandaríkjastjórnar, fyrst kvenna til að gegna því starfi. Síðan tók hún við skóla sem undir- býr sendiherra sem sendir eru út í fyrsta sinn. „Ég var að undirbúa framhald af sjálfsævi- sögu minni þegar Bush forseti hringdi í mig þann 28. febrúar á síðasta ári og bauð mér stöðu sendiherra í Prag. Ég varð auðvitað að leggja bókina til hliðar og hingað kom ég í ág- úst 1989.“ Havel smyglað inn í sendiráðið „Það var mikill munur á Tékkóslóvakíu frá því 1968. Allir voru svo þöglir — fólk talaði ekki við mann og horfði aldrei beint í augu manni. Ég kom fljótlega á fundi með andófs- mönnum, eins og sendiherrar Badaríkjanna hér höfðu gert á undan mér. Þetta fólk lagði sig í mikla hættu við að koma hingað í sendi- ráðið. Það hefði getað lent í fangelsi eða misst vinnuna fyrir vikið. Vaclav Havel kom hingað í október. Honum var eiginlega smyglað inn. Bíll með gestum nam staðar fyrir framan hús- ið og inn kom Milos Forman (framleiðandi myndarinnar Amadeus) og margir listamenn með honum, í miðjum hópnum var Havel og ég var mjög glöð að sjá hann. Stuttu seinna var hann orðinn forseti og flestir þessir and- ófsmenn sem heimsóttu mig voru farnir að stjórna landinu." Kenndi barnabarninu steppdans Sendiherrann Temple Black er frægur gest- gjafi í Prag. Að sögn blaðamanns þar er allt óaðfinnanlegt í samkvæmum hennar og hún heldur mörg samkvæmi. „Hún býður rétta fólkinu og ekki svo mörgum að menn týnist. Hún gefur sér tíma til að tala við hvern og einn, sem er sérstakt," segir þessi blaðamað- ur. En Shirley Temple skemmtir gestum ekki lengur með steppdansi, eins og hún var svo fræg fyrir. „Ég var spurð að því fyrir stuttu hvort ég gæti ennþá dansað steppdans og ég sagði: „Ef þú skýtur á fæturna á mér, þá steppa ég!“ en í hreinskilni þá kann ég þetta ennþá en ég hef enga þörf fyrir það. Ég kenndi dótturdóttur minni, Teresu, nokkur einföld spor. Hún er annars mikil leikfimi- manneskja og æfir sund og dýfingar fimm sinnum í viku." Stolt ömmunnar er augljóst vegna þessarar efnilegu dótturdóttur sem er eina barnabarnið enn sem komið er. Laðast að fólki með mikla orku Shirley Temple Black sendiherra hefur ekki háskólanám að baki. Hennar undirbúningur fyrir lífið var m.a. heimur kvikmyndanna í tuttugu ár. En hún er ekki eini bandaríski stjórnmálamaðurinn með þá reynslu að baki. Meðleikari hennar, Ronald Reagan, varð for- seti Bandaríkjanna og annar þekktur leikari, Clint Eastwood, varð bæjarstjóri í Kaliforníu. „Ég held ekki að þetta hafi neitt með kvik- myndaleik að gera, hann er ekki betri undir- búningur en hvað annað. Ef fólk hefur leið- togahæfileika þá kemur það fram í hvaða starfsgrein sem er. Eftirleikurinn byggist síð- an á því að hafa áhuga á starfinu og vera á réttum stað á réttum tíma," segir Shirley og hlær. „Leiðtogar hafa oft mikla orku. Þannig er Ronald Reagan og þú hefur eflaust tekið eftir því á íslandi að Havel forseti hefur líka mikla orku. Hann kemur ótrúlega miklu í verk. Ég laðast alltaf sérstaklega að fólki sem hefur svona mikla orku,“ bætir Shirley Temple Black við, sem sjálf var sett í dansskóla þriggja ára gömul, vegna þess að hún bjó yfir svo miklum lífskrafti að nauðsynlegt þótti að beisla hann.

x

Pressan

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Pressan
https://timarit.is/publication/298

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.