Tíminn Sunnudagsblað - 25.09.1966, Side 12

Tíminn Sunnudagsblað - 25.09.1966, Side 12
Guðmundur Jósafatsson fra Brandsstöðum: AFDRIF JÓNS AUSTMANNS Fyrri hluti ísJenzk öræfi hafa verið þjóðinni hvort tveggja: Bjargráð, sem hún fann í hinum margvíslegu nytjum, er þangað voru sóttar, þótt margt af þeim sé nú litið smáum augum í skinl þeirra allsnægta, sem nú varpa ljóma sínum á þjóðlíf vort, og jafnframt heimur ævintýra og fegurðar, lokk- andi og dulúðugur. En þau hafa líka stundum bruggað börnum hennar banaráð. Þá reyndust hinir löngu fjallvegir ofjarlar þeim, er á þá lögðu, enda var þá oftast við hina miskunnarlausu grimmd hinna ís- Ienzku öræfaveðra að etja. En séu þessar aðstæður fullmetnar, virðist furða, hve sjaldgæft það var, að slík- ar sorgarsögur gerðust. Sýnir það ljóst, að til þessara ferða var oftast stofnað svo, að hvort tveggja væri fyrir hendi: Sú forsjá, er að baki heimanbúnaðarins stóð, sem dugði þeim til verndar, er förina fóru, og jafnframt sá dugur, sem til þess þurfti, að ijúka förinni .heill, þótt til beggja skauta brygði um veður- farið. En harmsögurnar gerðust líka, oft ast ömurlegar, þótt löngum væri ósagður lokaþáttur þeirra, er þar börðust til úrslita. Þó var hann sagð ur — sagður af þeim, er svo nærri stóðu, að sagan snerti þá og umhverfi þeirra. Mun þá ekki hafa verið dæma fátt, að imyndunaraflið grlpi til sinna ráða, þegar þjóðtrú, frásagn- arlist og sköpunarhæfni þeirra, .er með söguna fóru, settu sinn svip á söguna af atburðinum. Hún barst svo milli kynslóðanna undir hinni sí vakandi endurskoðun þeirra, er frá sögðu í hvert sinn. Ein slík harmsaga, sem á þó á margan hátt sína sérstöðu í vitund þjóðarinnar, er saga þeirra Reynistað arbræðra. Það má að nokkru marka, hver ítök hún hefur átt í hugum samtíðarmannanna, að enn í dag á hún svo djúpstæð ítök í hug þjóðar- innar, að engin hliðstæðra sagna mun eiga slík. Eru þær umræður, sem hún hefur vakið nú um skeið í blöðum og útvarpi óljúgfróðasta vitnið. Sagan á líka sína sérstöðu um margt. Þar fórust fimm menn og meðal þeirra óharðnaður unglingur, sem þjóðarsál in tregar á sinn hátt í sögnum sínum og sögum. Með þeim fórust 171 kind og fjórtán hestar. Af komust 29 kindur, tvö hross og einn rakki. Þótt einkennilegt kunni að virð- ast, setur þessi björgun enn í dag sinn óhugnaðarsvip á helreið þeirra. Hún sýnir, hve skammt var milli björgunar og bana þeirra, er þar áttu hlut að. En það er þekkt úr fleiri slíkum sögum. Líklegt er, að lokaþættir þeirrar sögu hafi þó orkað mest á hugi þeirra, er næst sátu þeim atburðum. Það virðist auðskilið, hversu ægilegt það reiðarslag var þeim, sem um sárast áttu að binda þar, þegar heim var komið með llkkistur þeirra bræðra tómar, eftir að fregnin um, að þeir væru fundnir, hafði borizt foreldrum þeirra. Málaferlin út af líkahvarfinu sýna ólguna, sem að baki stóð. Hversu ífurleg hún varð, má sjá af því, að fyrsta héraðsþingið í málinu, sem haldið var á Stóru-Seylu 27. septem ber 1781, var stefnt tuttugu og þrem vitnum, til að vitna undir eið og fali- málssektir, sjón, heyrn, sögn og áþrefianlegu allt hvað þau vita um lík tveggja sona klausturshaldarans og þeirra fylgdarmanna í Kjalhrauni á þessu sumri með víðara, sem stefn- an fyrir réttinum upplesin og upp- skrifuð framar útvísar." Auk þessara tuttugu og þriggja vitna, komu og fram á þinginu skrá settir vitnisburðir tveggja, er fjar- staddir voru, og er annar þeirra stað festur með áskrift tveggja manna, Vitnin, sem fram komu, eru því tuttugu og sjö, þegar allt er talið. Við þetta bætast svo átta þingvitna, svo að nokkurs hefur þótt við þurfa um fullar upplýsingar og sannanir. Þá var sett héraðsþing á Sauðá 10. janúar 1783. Þangað var stefnt þrett án vitnum og enn sem fyrr að við- stöddum átta þingvitnum. Þar voru og lagðir fram skrásettir vitnisburð ir þriggja manna. Eru þá enn ótalin tvö héraðsþing í málinu, bæði á Stóru Seylu vorið 1783, að vísu annað á manntalsþingi. Líklegt er, að mann- talsþingið, sem haldið var 28. maí, hafi orðið þeim, er það sátu, minnis- stætt. Það var lokasennan í héraði í máli Jóns Egilssonar á Reykjum, sem mjög var hafður fyrir sökum um líkahvarfið. Á þinginu var fenginn maður frá Mógilsá á Kjalarnesi, Páll að nafni, launsonur Halldórs annála ritara á Stóru-Seylu, Þorbergssönar. Páll var talinn fjölkunnugur. Skvldi hann villa svo um fyrir Jóni Egils- syni, að hann játaði sök sína. Um þetta segir Gísli Konráðsson: „Þar var og Páll hinn fjölkunni, er ætlað var, og gekk rangsælis um þinghúsið um daginn. Ætluðu menn, að óhugn- aður mundi þar á milli, og þóttust menn ei vita, hvor drjúgari mundi verða, er báðir voru haldnir marg- fróðir." Sést á þessu, hve mikils hefur þótt við þurfa að sanna sök Jóns, fyrst Ieitað er á vit fordæðu og fjölkynng- is um aðstoð, þegar önnur úrræði voru þrotin. Ekki er ólrúlegt, að nokkurs óhugnaðar hafi gætt inni í þingsalnum, þegar vitað var, að Páll rölti rangsælis um þinghúsið, meðan þingstörfum var sinnt. Það vald átti fjölkynngin þá enn í þjóðtrúnni, að þvi hafa fáir trúað, að Páll hafi þul- ið bænir sínar á þessum hringferð- um. Annað mundi honum þá tíltæk- ara, þótt það kæmi til lítils. Það er mjög erfitt að gera sér fulla grein fyrir þvi, hversu gífurleg sú ólga hefur orðið, sem svo fjölmenn- 828 T í M I N N — SUNNUÐAGSBLAÐ

x

Tíminn Sunnudagsblað

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Tíminn Sunnudagsblað
https://timarit.is/publication/301

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.