NT


NT - 26.06.1985, Síða 8

NT - 26.06.1985, Síða 8
Miðvikudagur 26. júní 1985 8 Birna Bjömsdóttir Fædd 2. febrúar 1936. Dáin 15. júní 1985. Ei þó upp hún fæddist í öðlinga höllum, látasnilld lipur var henni sem lofðunga frúvum. Kurteisin kom að innan, sú kurteisin sanna, siðdekri öllu æðri, aföðrum sem lærist. (B. Th.) Þetta finnst mér lýsing á Birnu frænku minni sem nú er horfin héðan. Sjúkdómsstrfði hennar er lokið. Eftir að ég sá hana síðast á Landspítalan- um rænulausa, hvarf von mín, um að henni batnaði, og ég vissi alveg hvaða orð mundu hljóma í eyrum mér þegar hringt var 15. þ.m. og ég þekkti rödd Heimis^ Margar á ég minningar um Birnu og allar góðar. Hún fæddist á Akureyri 2. febrúar 1936, yngst af þremur dætrum hjónanna Sigríðar Guðmundsdóttur og Björns Þórðar- sonar á Oddagötu 5. Móðir hennar og ég vorum systradætur, og ávallt vin- átta með frændsemi milli okkar, eins og best getur verið. Foreldrar Siggu ' frænku voru Guðríður Hannibals- dóttir frá Tungu, Dalamynni, Naut- eyrarhreppi, og Guðmundur Steins- son frá Osi, Bolungarvík. Foreldrar Björns voru Guðrún Björnsdóttir frá Syðra-Garðshorni og Þórður Jónsson, bóndi að Skáldalæk, Svarf- aðardal. Fyrsta minning mín um Birnu er frá sumrinu 1937. Þá kom ég að Syðri-Varðgjá til Siggu frænku, sem var þar með dæturnar yfir sumarið, Björn kom þangað um helgar. Birna var þá hálfs annars árs, yndislegt og skemmtilegt barn. Ég man hvað við hlógum að henni með stóran gítar í fanginu, sjálf var hún þá ekki stór. Síðar eru bæði minningar frá Sval- barði og heiman frá Akureyri. Sigga beið með fallega hópinn sinn á enda- stöð rútubílsins, eða flugvélarinnar til að taka á móti mér þegar mín var von og gaman var að hitta þau öll hress og kát. Tíu ára gömul varð Birna skáti, hún var hrifin af skátahreyfingunni, og ég held að hún hafi verið sannur skáti. Að lokinni skólagöngu á Akur- eyri, kom hún hingað suður og var við nám í Húsmæðraskóla Reykjavíkur veturinn 1955-1956. Á mynd sem Birna gáf mér og tekin var af henni á „peysufatadegi skólans“, sé ég hversu falleg hún var. Námsárangur hennar var líka með ágætum. Næstu tvo vetur, 1957-1959, er hún svo við nám í Handavinnudeild Kennaraskólans. Þaðan útskrifast hún 1959 með ágæt- um. Það voru fallegar handavinnu- sýningarnar hjá báðum þessum skólum. Þetta sama sumar (1959) þann 29. ágúst, tekur Birna frænka stóra heilla- skrefið og giftist unnusta sínum, Heimi Hannessyni, lögfræðingi. For- eldrar hans voru skólastjórahjónin Sólveig Einarsdóttir og Hannes Magnússon, sem var líka rithöfundur, jafnframt skólastjóri Barnaskóla Ak- ureyrar. Þó Birna léti heimili og barnauppeldi hafa forgang vann hún við kennslu af og til og þá við sinn skólann hvern vetur, alls við fjóra skóla (Vogaskólann, Fóstruskólann, Kvennaskólann og Fossvogsskól- annj.Heimili Heimis og Birnu er dásamlegt. Þau eignuðust þrjú börn: Hannes, sem lauk námi í stjórnmála- fræði sl. vetur vestur í Kaliforníu, kom heim um áramót og er nú blaða- maður hjá DV; Sigríði, sem stundar nám í hjúkrunarfræði við Háskóla íslands, og Magnús, sem varð stúdent í vor frá MS. Öll bera börnin foreldr- unum fagurt vitni. Fyrir átta og hálfu ári dró ský fyrir sólu hjá blessaðri Birnu minni, er hún veiktist hastarlega og varð að gangast undir heilauppskurð að rannsókn lok- inni, sem tókst vel. Hún náði svo góðri heilsu að ekki var hægt að sjá eða finna mun á henni. Hún sá um heimili sitt, tók þátt í félagsmálum (Kvennad. Eyfirðingafélagsins) og ferðaðist með manni sínum um mik- inn hluta jarðarinnar. Það var gaman að sjá hvað Birna var hamingjusöm og hvað marga hún gat glatt og gert hamingjusama í kringum sig, bæði heima á heimilinu og á hátíðisdögum Eyfirðingafélagsins. Ég á margar bjartar minningar frá öllum þeim árum sem liðin eru frá því Birna og Heimir stofnuðu heimili og hef mikið að þakka. Einnig fyrir boð á hátíðir Eyfirðingafélagsins. Síðastliðið haust veiktist hún svo aftur, og varð aftur að gangast undir uppskurð. Síðan hefur hún verið meira og minna veik. Öll fjölskyldan stóð með henni í baráttunni og hún fann það. Það var ekki auðvelt fyrir þau, blessuð börnin hennar, að vita hana meðvitundarlausa þegar þau voru í prófum í vor, en þau stóðust prófin þrátt fyrir allt. Hún fékk að taka þátt í uppeldi þess yngsta fram til tvítugs og það fannst henni mikil náð. Nú hefur hún verið kölluð til starfa annarstaðar. Svo lífsins braut er breið til banakífsins og dauðinn eins er leið aftur til lífsins. (A.J.) Guð blessi frænku mína og launi henni vináttu hennar og tryggð. Þið, ástvinir hennar, vitið að ég tek þátt í sorg ykkar. Sigriður Valdemarsdóttir. t Næsta haust verða 30 ár liðin frá því að 40 stúlkur komu saman í Húsmæðraskóla Reykjavíkur við Sól- vallagötu til að hefja þar nám. Stúlkur þessar komu hver úr sinni áttinni víðs vegar af landinu og voru að sjálfsögðu af öllum manngerðum, en áttu það sameiginlegt að vera ungarogfullar afbjartsýni álífið. Ein þessara stúlkna var Birna Björnsdótt- ir frá Akureyri og kom hún til Reykja- víkur ásamt unnusta sínu, Heimi Hannessyni, sem var kominn til að hefja lögfræðinám við Háskóla íslands. Það kom strax í ljós að Birna var af þeirri manngerðinni sem allir báru traust til og virtu, auk þess sem hún var einstaklega vandvirk og góð- ur nemandi. í heimavistarskóla þar sem fólk kynnist mjög náið og upp geta komi vandamál sem þarf að leysa, koma kostir og gallar þess fljótt í ljós og þá er ómetanlegt að kynnast fólki sem aldrei á í illdeilum við nokkurn og sem hægt er að leita til í vanda. Þannig var Birna þótt hún kynni einnig manna best að meta glaðværð og glens. Einn vetur er ekki langur tími. Má því kallast einstakt hvað margar skólasystranna hafa haldið góðu sambandi og hist reglulega og það er ekki hvað síst Birnu að þakka, því hún lét sig aldrei vanta og voru þessir fundir okkar árlegir viðburðir. Síðast hittumst við fyrsta vetrardag sl. Eng- an óraði þá fyrir að það yrði í síðasta skiptið sem hún væri með okkur, þó að hún væri nýstaðin upp úr stórri skurðaðgerð. Nú er sú fyrsta úr hópnum horfin okkur. Við vottum Heimi og börnunum, föður hennar og systrum innilega samúð og biðjum guð að gefa þeim styrk. Skólasystur. t Því hvað er ástar og hróðrar dís og hvað er engill úr paradís hjá góðri og göfugri móður? (Matthías Jochumsson) Þessar ljóðlínur séra Matthíasar komu upp í huga mér, er ég spurði lát frú Birnu Björnsdóttur. Hún var sannarlega góð og kærleiksrík móðir. Það mun hafa verið árið 1965 að átta ungir og blankir júristar komu saman að frumkvæði Knúts Bruun og ákváðu að ráðast í það að reisa sér og sínum þak yfir höfuðið. Og þegar stórir hlutir eiga að ske á vitanlega að hefjast handa með viðhöfn. Það var gert með því að fara í Naustið. Reyndar fengu konurnar ekki að vera með, enda var staða þeirra í þjóðfé- laginu þá enn einhlít, sú að vera heima og gæta bús og barna. Og það varð hið göfuga hlutskipti frú Birnu Björnsdóttur alla æfi að gegna hús- móðurstörfum. Það merkilega og vandasama lífsstarf rækti hún af stakri prýði. Um það get ég glöggt borið, því að ég kynntist náið hennar hús- haldi, þar eð hún var ein af eiginkon- um hinna átta ungu júrista, er lögðu upp í húsbyggingarævintýrið árið 1965. Já mikið voru þær fagrar þessar liljur vallarins, er gengu glaðar til bústarfa að Háaleitisbraut 115 á morgni lífsins 1965. Eftir að inn var flutt fór ekki hjá því, að fjölskyldurn- ar kynntust giska náið, enda nábýlið mikið, allir við sama stigauppgang. Börnin léku sér saman og urðu vinir. í þessu litla samfélagi skapaðist samúð, samhjálp og vinátta, er haldist hefur æ síðan. Og börnunum fjölgaði. Já þetta voru sannarlega yndisleg ár og ógleymanleg. Frú Birna Björns- dóttir átti ekki lítinn hlut í mótun þessa góða sambýlis, eins vel og hún var af Guði gerð. Og börnin mín sögðu með andagt og aðdáun: „Birna á alltaf kökur.“ 1 augum barna er kökubakstur ávallt hámark hinna húsmóðurlegu dyggða. En Birna kunni fleira en að baka kökur, því að hún var einstaklega vel verki farin. Fumlaust og af festu gekk hún að hverju starfi og skilaði öllu með ágætum, sama hvað hún tók sér fyrir hendur. Það þurfti enginn að ganga í verkin hennar frú Birnu Björnsdótt- ur. Að þessu leyti minnti hún mig um margt á sína merku frænku, frú Friðr- ikku Júlíusdóttur, frá Syðra-Garðs- horni í Svarfaðardal. Ég hafði oftar en einu sinni orð á því við hana og þótti henni að vonum vænt um að heyra. í framgöngu allri var Birna einstak- lega fáguð og prúð. Hún var fríð kona ásýndum og fönguleg, rúmlega með- almanneskja á hæð og samsvaraði sér vel. Mér fannst ævinlega bjart yfir henni og hreint í kringum hana. Það stafaði af innræti hennar. Vandaðri manneskju til orðs og æðis en frú Birnu Björnsdóttur hefi ég ekki kynnst. Aldrei heyrði ég hana mæla styggðaryrði og ekki lagði hún illt til nokkurs manns. Var hún þó enginn skapleysingi og víst gat þykknað í henni, en fágun hennar, innri ögun og meðfædd kurteisi leyfðu enga lág- kúru. Hún var í mínum augum fædd „lady". Ég dáði hana og virti eins og allir, sem kynntust þessari vönduðu konu. Þannig var þessi kona að allri gerð í sinni hljóðlátu, orðvöru tign. En frú Birna Björnsdóttir var ekki einasta góð móðir og mikil húsfreyja, hún var einnig ástrík eiginkona, er stóð dyggilega við hlið manns síns, Heimis Hannessonar, í blíðu og stríðu og veitti menningarlegu heimili þeirra forystu af reisn og myndar- skap. Af heimili þeirra hjóna eigum við Sólveig og börnin margar ánægju- legar minningar, sem nú er vert að þakka af heilum hug. Á þeim tíma, sem Heimir Hannesson var í fyrir- svari fyrir íslenskum ferðamálum þurfti hann víða að ferðast erlendis og var þá frú Birna oftast við hlið hans, enda voru þau hjón einstaklega samhent um alla hluti og það svo mjög, að kæmi manni annað í hug, varð manni hugsað til hans. í hugan- um var það alltaf Birna og Heimir. Og nú hefur sláttumaðurinn slyngi enn á ný brugðið sínum markvissa ljá og fellt fyrstu liljuna á velli hinna vonglöðu húsbyggjenda frá árinu 1965. Er þar með lokið lífi, sem var göfugt, fagurt og hreint. Vini mínum, Heimi Hannessyni, og börnum sendum við hjónin og börn okkar innilegar samúðarkveðj- ur. Megi minningin um vammlausa manneskju verða þeim huggun harmi gegn. Guð blessi minningu frú Birnu Björnsdóttur. Magnús Thoroddsen. Hörður Gunnars- son kennari Fæddur 13. janúar 1915. Dáinn 26. maí 1985. Hann Hörður er látinn, rétt sjötug- ur að aldri. Ég hafði ekkert heyrt um hann í langan tíma. Taldi þó nokkurn veginn víst, að hann væri ekki á landinu. Það reyndist og vera rétt ályktað hjá mér. Hann var erlendis hálfa ævina eða meir, mest vestan- hafs, og þar lést hann 26. maí s.l. Líkamsleifar hans voru fluttar heim og hann jarðsettur í kyrrþey hér. Systkini hans fjögur sáu um jarðarför- ina, þau Páll fyrrum skólastjóri á Akureyri, Árni fyrrum bóndi í Þver- árdal, Ingibjörg húsfreyja á Akureyri og Örn kennari í Reykjavík. Hörður var fæddur á Krónustöðum í Eyjafirði hinn 13. janúar 1915. Voru foreldrar hans Gunnar Árnason bóndi þar og ísgerður Pálsdóttir kona hans. Þau tluttust vestur að Þverárdal í Bólstaðarhreppi, er Hörður var á barnsaldri, svo og flest önnur systkini hans. Hann ólst upp í Þverárdal, allt þar til hann hóf skólanám rétt eftir ferminguna. Hörður leitaði sér snemma menntunar. Hann stundaði nám í lýðskóladeild á Hólum í Hjalta- dal og síðar í Kennaraskóla íslands. Lauk kennaraprófi rétt tvítugur þar. Þremur árum síðar stundaði hann nám í Askov í Danmörku, en þar hafa margir íslendingar dvalist við nám fyrr og síðar. Enda menntastofn- un góð, jafnvel á heimsmælikvarða. Þarna nam Hörður einnig smíðar, en hann var mjög handlaginn og stund- aði smíðar mjög um ævina. Vestur um haf fór Hörður á stríðsárunum og dvaldist þar við nám og störf þar til langt var Iiðið á sjöunda áratuginn. Hann kom þá upp, en staðnæmdist lítt. Hann hélt til okkar gamla sam- bandslands, Danmerkur. Þar hitti ég hann oft, er ég dvaldi við kennslu í Ballerup veturinn 1973-74. Hörður var félagslyndur og sótti mjög Jóns- hús Sigurðssonar. Þar sá ég hann oft. í Jónshúsi liggja frammi íslensk blöð jafnan og er ekki nema eðlilegt að íslendingar á Hafnarslóð fýsi að renna augum yfir þau. Hörður stund- aði tafl og spil í Jónshúsi, en herbergi í kjallara þar er notað til þeirra hluta. Hann sótti samkomur íslendinga þarna. Er mér einkar minnisstætt, er hann var á svokölluðu Þorláksblóti í Munkakjallaranum í Norðurgötu ásamt mörgum öðrum íslendingum. Hann var hrókur alls fagnaðar þarna og kunni vel að blanda geði við fólk. Sat Hörður við hlið mína og danskrar sambýliskonu minnarþarna. Eitt sinn brá hann sér með lestinni út í Ballerup með okkur og er þess gott að minnast. í Höfn stundaði Hörður smíðar, þeg- ar þetta var. Því miður missti hann þá vinnuna, vegna þess að fyrirtækið sem hann starfaði hjá, varð gjald- þrota. Var það vitanlega mjög slæmt fyrir vin minn. En hann var ekki á því að 'gefast upp, og vinnu mun hann hafa höndlað á ný, eftir nokkra leit í þá átt. Hann var reglumaður um sína daga, eins og það er oftast skilgreint. En þrátt fyrir það, var nú svo, að honum var fé lítt fast við hendur. Frá Danmörku kom hann heim til gamla Fróns og lagði stund á nám og vinnu. Kenndi um skeið, en hélt fljótlega til Vesturheims og dvaldist nokkur síð- ustu æviárin í New Y ork. Þar andaðist hann eftir nokkra vanheilsu 26. maí s.l. Þegar litið er yfir ævibraut Harðar Gunnarssonar sést, að hann hefur lítt stöðvast við ákveðin verkefni. Hann kvæntist vestra amerískri konu og eignaðist með henni nokkur börn. Þau skildu síðar. Var hún lengi sjúkl- ingur. Þetta mun hafa orðið Herði vini mínum þung reynsla. Hörður aflaði sér allmikillar skóla- menntunar, bæði hér heima og þó öllu meir vestra. Málamaður var hann góður, sér í lagi voru tök hans á enskri tungu örugg. Hann þýddi nokkrar bækur út því máli. Einkum fyrir börn og unglinga. Mun Kibba kiðlingur vera þessara bóka þekktust. Ágæt barnabók og hefur verið gefin oft út. Hörður var góður íslensku- maður, og þess vegna tókst honum að þýða erlend rit sómasamlega á móð- urmál sitt. Kunningi minn einn hafði orð á því við mig, eftir að hann frétti lát Harðar, hvort ég ætlaði ekki að skrifa eitthvað eftir hann, jafn ötull eftir- mælamaður og ég væri. Ég gaf honum lítið út á það í fyrstu. Væri kannski rétt að láta það eiga sig? Gæti ég eitthvað sagt um hann, eftir tiltölu- lega stutt kynni? En verkefnið sótti æ fastar á, og ég settist við ritvélina og setti þessar línur á pappírinn, sem þú, lesari góður, rennir augum yfir meðan þú drekkur morgunkaffið þitt. Ég gat einfaldlega ekki stillt mig um að minnast manns, sem mér varð eftir- minnilegur. Býst ég við, að svo muni hafa verið um marga fleiri en þann sem þetta ritar. Nefnd hafa verið fjögur systkini Harðar sáluga. Auk hans eru nú látin: Birgir, er fórst af slysförum á besta aldri, og Baldur, garðyrkju- maður í Hveragerði um langt árabil. Systkinin frá Þverárdal urðu því alls sjö að tölu, sex synir og ein dóttir. Vestanhafs tók sér Hörður sér nafnið Harry, og skrifaði sig þannig eftir það. En í hugum ættmenna og annarra er þekktu hann hér heima, var hann alltaf hinn sami Hörður Gunnarsson frá Þverárdal. Fari hann í friði, friður Guðs blessi hann ævinlega. Með samúðarkveðjum til ætt- menna. A.B.S.

x

NT

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: NT
https://timarit.is/publication/305

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.