Morgunblaðið - 27.08.2004, Qupperneq 35

Morgunblaðið - 27.08.2004, Qupperneq 35
MINNINGAR MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 27. ÁGÚST 2004 35 Ástkær dóttir okkar, systir og barnabarn, SIF MAGNÚSDÓTTIR, andaðist miðvikudaginn 25. ágúst sl. Jarðarförin verður auglýst síðar. Magnús Guðmann Magnússon, Gróa G. Haraldsdóttir, Pétur Björnsson, Georg Rúnar Ragnarsson, Una Guðrún Einarsdóttir, Friðrik Vestmann, Helgi Magnússon, Margrét Alda Magnúsdóttir, Bergljót Ásta Pétursdóttir, Gróa G. Björnsdóttir, Björn Pétursson, Bergljót Ólafsdóttir. Systir okkar, ARNBJÖRG KRISTJÁNSDÓTTIR frá Holti, lést á dvalarheimilinu Nausti á Þórshöfn miðvikudaginn 25. ágúst. Guðrún, Þórhalla, Guðbjörg og Hólmfríður. Aldrei hefði mig grunað að ég hefði þurft að kveðja góðan vin minn og tengdaföður svo skjótt. Maður sem lifði lífi sínu ávallt lifandi tekinn frá fjölskyldu og ástvinum allt of skjótt. Það var fyrir tæpum fimm árum sem ég kynntist Jóa og tók hann mig inn í fjölskyldu sína frá fyrsta degi. Ávallt fylgdist hann með framvindu flugnámsins fullur áhuga, og var alltaf tilbúinn að sýna stuðn- ing sinn hvort sem var í vilja eða verki. Það var mér því mikill heiður að hann skyldi hafa verið fyrstur til að fljúga með mér eftir að ég lauk einkaflugmannsprófi mínu, ásamt því að fljúga með mér í sumar í einni af mínum fyrstu flugferðum sem at- vinnuflugmaður. Þetta sumar sem brátt tekur enda bjuggum við Birgit með son okkar Tómas Tinna á heimili þeirra hjóna Jóa og Lillu, og var yndislegt að sjá hamingjuna sem skein úr augum hans í hvert sinn sem hann sá afa- strákinn sinn og þá gagnkvæmu hamingju úr augum Tómasar þegar Jói birtist ávallt brosandi. Við feðg- ar munum ávallt sakna þessara stunda. Eitt sinn var mér kennt að það væru til menn og svo væru til meiri menn. Það verður aldrei vafi um að Jói var meiri maður. Það er með miklum söknuði sem ég kveð góðan vin. Guðmundur. Elsku afi. Við litlu afastrákarnir þínir sitjum hérna eftir og skiljum ekki að við eigum ekki eftir að fara aftur með þér í bíltúr, þú eigir ekki eftir að tala við okkur aftur með þínu sérstaka tungumáli. „Kodd til af“ „ert far að sof“ og frasinn sem var svo eilífur: „Hann er ekki hann því hann kann ekki að tala.“ Þú varst heimsins besti afi, nennt- ir endalaust að vera með okkur að brasa. Minning þín lifir í okkur. Við vitum að þú verður fallegasti engill- inn á himninum og þú munt vaka yf- ir okkur. Ástarkveðja frá tveimur litlum afastrákum Gabríel og Tómas Tinni. Við elskuðum þig í gær, við elskum þig í dag, við elskum þig að eilífu. Fagri engill. þú ert stjarnan á himnum, þú ert ljósið í myrkrinu, þú ert höndin sem leiðir mig, þú ert birtan sem lýsir mér, þú ert brosið sem kætir mig, þú ert hjartað sem elskar mig, þú ert trúin sem styrkir mig, þú ert engillinn sem passar mig, þú ert mér allt. Þínir afastrákar, Ísak og Bóas. Kær mágur, Jóhann Halldórsson, kvaddi snöggt og óvænt að kvöldi miðvikudagsins 18. ágúst. Hann var þá við sjóbirtingsveiðar við Grenlæk í Landbroti með syni sínum og þriðja manni. Það var eftirlætisiðja hans að veiða, og Grenlækur var í augum hans yndisreitur í íslenskri náttúru þar sem hann átti veiðihús í félagi við aðra. Fregnin kom sem reiðarslag yfir aðstandendur því að Jóhann var vel á sig kominn, að við héldum, synti t.d. Guðlaugssundið í vetur eins og í fyrra, 6 km, tveir og hálfur tími, kröftugur þótt hann væri elsti þátttakandinn. Jóhann varð hluti af fjölskyldu okkar fyrir um hálfum fimmta ára- tug. Þau voru æðiung, hann og Lilla systir okkar, þegar ástir tókust með þeim, fyrir 1960. Okkur er í barns- minni ygglibrúnin á móður okkar þegar þessi tíðindi spurðust. Hún iðraðist fljótt þeirra orða sem þá féllu. Jóhann hafði flust ungur með for- eldrum sínum frá Fáskrúðsfirði, þau voru efnalítil og bjuggu fyrst í Páls- borg í Eyjum. Anna var kvenskör- ungur og Dóri ljúfmenni mikið. Þessi dugnaðarhjón rifu sig upp í Eyjum og áttu þar góða ævi. Engum gat dulist að ungi maðurinn, sonur þeirra, var glæsilegur á velli. Hann sýndi fljótt hve harðsækinn hann var. Um leið og skyldugu námi lauk byrjaði hann að vinna fyrir sér og fór fljótt á sjó. Þegar hann hafði ald- ur til eignaðist hann forláta drossíu, sennilega Chrysler 1947, sem hlaut að draga til sín unga kroppa. Drossí- ur voru fáar í Eyjum á þessum tíma, en þessi var svo flott að lögreglan fékk hana leigða þegar Svarta- María hennar bilaði. Jóhann varð ungur vélstjóri, m.a. á Andvara og Gylfa,en hóf svo út- gerð, fyrst 1966 með nokkrum út- vegsmönnum, en síðar, árið 1968, ákaflega farsælt samstarf við félaga sinn, Hörð Jónsson skipstjóra. Það varð þó snemma ljóst að hugur hans stefndi hærra. Hann dreif sig í stýri- mannaskóla Guðjóns Ármanns Eyj- ólfssonar í Eyjum og lauk tveggja ára námi með prýði 1972. Hann var ekki æfður við bóklestur og penna- stöng en gat reitt sig á öflugan stuðning konu sinnar, þá eins og æv- inlega. Eftir það varð hann skip- stjóri og löngum kenndur við bát sinn, „Jói á Andvara“. Hann hóf um 1980 eigin útgerð sem átti eftir að ganga vel. Þar munaði mestu um einstakan dugnað hans sjálfs og hörku. Það var alltaf eins og heilla- stjarna væri yfir honum og verkum hans. Ýmislegt var þó mótdrægt, og erfiðust hefur verið sú stund þegar Andvari, nýtt skip hans, sökk skyndilega út af Vík í Mýrdal 23. maí 1993, en mannbjörg varð þótt tæpt stæði. Jóhann var vinsæll og fengsæll skipstjóri og pláss hjá hon- um eftirsótt. Það hefur orðið mikil breyting í sjávarútvegi frá því að Jóhann hóf sjósókn fyrir hálfri öld. Um miðjan 6. áratug síðustu aldar var líf og fjör, athafnagleði og framfarahugur, og hátt í eitthundrað bátar gerðir út frá Eyjum. Síðan komu ýmsir erfiðleik- ar og loks kvótakerfi sem hlaut að vera þyrnir í augum manns eins og Jóhanns Halldórssonar. Það birti til þegar hann gat valið sóknarmark og barist þannig áfram, en það urðu honum mikil vonbrigði og fjárhags- tjón þegar það var afnumið. Hann kepptist við að auka hlut sinn en fékk ekki nóg. Hann leitaði því að lokum út úr kerfinu, í rækjuveiðar á fjarlægum miðum. Það hefur gengið vel þótt ýmsar dýfur hafi komið og mótlæti, t.d. yfirþyrmandi skrif- finnska, sem var eitur í beinum hans, og skilningsleysi stjórnvalda að honum fannst. Hann lá ekki á skoðunum sínum um það frekar en annað. Sjálfur var hann að mestu hættur sjómennsku þegar kallið kom en stjórnaði útgerðinni úr landi. Jóhann Halldórsson var á margan hátt undarlega saman settur maður. Hann var mótaður af gamla sam- félaginu, líkur móður sinni og móð- urömmu sem var forn í skapi. Við- horf hans, háttur og orðræður vöktu oft mikla kátínu vegna þess hve skökk þau voru á tísku samtímans. Hann var þó oft fyrstur manna til að tileinka sér nýja tækni og fékkst sjálfur við flókna útgerð á nútíma- vísu. Honum fannst að gengi manna í lífinu ætti að ráðast af dugnaði, samviskusemi og heiðarleika en ekki klækjabrögðum og gróðaleikni. Hann var hörkutól, kvartaði aldrei og fór helst aldrei til læknis, geig- laus og haggaðist aldrei, sama á hverju gekk. Hann vildi engan tepruskap, ekki heldur þegar hann skemmti sér. En í bland við þetta var svo hans blíða lund. Hann var hjálparhella síns fólks, raungóður, gjafmildur og þess nutu margir. Æskustöðvar hans, Fáskrúðsfjörð- ur, voru honum kærar og fólkið þar, og þangað fóru þau oft. Með árunum varð heimili þeirra „Lillu og Jóa“ á Höfðaveginum mið- punktur fjölskyldunnar og þar var komið saman ef eitthvað var um að vera. Hann var eins og stóri bróðir. Móðir okkar fékk fljótt á honum slíka elsku að hann virtist standa henni nær hjarta en við börn henn- ar, enda löngum eftirlátur við hana og hjálpsamur; hét á hana til heilla sér og lét hana njóta þess ríkulega. Nú saknar margur vinar í stað. Vinahópur þeirra er stór og tryggur og á góðar minningar úr sumarbú- staðnum, ferðalögum og jeppaferð- um.Við venslafólk Jóhanns, sem höf- um jafnan getað reitt okkur á traust hans og hjálpsemi, munum finna, er fram líða stundir, hvers við höfum misst. Hann verður okkur jafnan minnisstæður. Guð styrki systur okkar og börn þeirra Jóhanns, tengdabörn þeirra og ættfólk í mikilli sorg við skyndi- legt og óvænt fráfall hans og í sökn- uði þeirra eftir svo góðan eigin- mann, föður og tengdaföður, bróður og frænda. Og mikils missa afabörn- in en Jóhann var óvenjulega barn- góður, alltaf með þau í fanginu að knúsa þau og kyssa hverja lausa stund sem hann hafði. Það verður góð minning að ylja sér við. Við systkinin og mágafólk þökk- um góða og trausta samfylgd um langt skeið og drengskap hans við okkur allan þann tíma. Við kveðjum Jóhann Halldórsson klökkum huga og biðjum Guð að blessa minningu hans. Helgi Bernódusson. Fámáll, traustur, hlýr, góður fé- lagi og góður útgerðarmaður. Þann- ig vil ég muna Jóhann Halldórsson útgerðarmann, sem kvaddur er í dag hinstu kveðju. Hann var sjálfstæður maður sem markaði sína stefnu sjálfur. Hann var duglegur útgerð- armaður í tæp fjörutíu ár og vann sín verk vel alla tíð Eftir að ég tók við formennsku hjá Útvegsbænda- félagi Vestmannaeyja fyrir áratug, kom Jóhann oft til mín til skrafs og ráðagerða. Hann var jákvæður og hlýlegur maður, dugnaðarforkur sem skilur eftir sig góðar minningar. Þrívegis syntum við saman Guð- laugssund, síðast þann 12. mars sl. Þar, eins og í lífinu sjálfu, sýndi Jó- hann þrek, þol og kraft, sem ekki öll- um sem komnir eru yfir sextugt er gefið. Hann stakk sér til sunds óhik- að og ekkert kom honum úr jafn- vægi, enda var Jóhann gæddur þeim eiginleika að sjá alltaf fyrir hvert leið bæri hann, hvort sem það var í útgerðinni eða í ísköldum sjónum. Ljóð Davíðs Stefánssonar, „Höfð- ingi smiðjunnar“ geymir ljóðlínur sem minna mig á þennan sterka mann. Þótt ljóðið hafi vissulega ver- ið samið um járnsmið, felur það í sér setningar sem gætu eins hafa verið settar á blað til að lýsa persónu- einkennum Jóhanns Halldórssonar. Með því ljóði þakka ég Jóhanni fyrir góð kynni og sendi hlýjar samúðar- kveðjur til Lillu konu hans, barna, tengdabarna og barnabarna. Hann tignar þau lög sem lífið með logandi eldi reit. Hann lærði af styrkleika stálsins að standa við öll sín heit. Hann lærði verk sín að vanda og verða engum til meins. Þá væri þjóðinni borgið, ef þúsundir gerðu eins. Hvíldu í friði kæri vinur, Magnús Kristinsson formaður Útvegsbænda- félags Vestmannaeyja. Þetta er búinn að vera yndislegur ágústmánuður og hver dagurinn öðrum betri. Síst átti ég von á því að sjá allt svart einn sólardaginn, Jó- hann Halldórsson var allur. Mig langar í nokkrum orðum að minnast hans Jóa eða karlsins eins og við kölluðum hann gjarnan. Ég kynntist honum fyrir nokkrum árum þegar við Heimir unnum saman hjá Löndun ehf. Það var heppni að fá að slást í hópinn með þeim feðgum sem voru þeirrar náttúru að hafa yndi af veiði- ferðum og að ferðast um óbyggðir landsins. Við Jói áttum ágætlega skap saman enda minnti hann mig oft á pabba. Og þær urðu ófáar veiðiferðirnar okkar og ógleymanlegar. Þó aldurs- munur væri nokkur, áttum við ap- arnir oft í töluverðu basli að halda í við karlinn, sama hvort gengið var til rjúpna, felld voru hreindýr eða rennt var fyrir sjóbirting. Enn einu sinni vorum við þrír saman við veiðar þegar Jóhann var kallaður burt, austur við Grenlæk þar sem hann átti sér paradís. Eins og oft áður hafði aflast vel og Jói var aflakóngurinn. Um morguninn fékk hann góða gesti, þeir komu fljúgandi frá Reykjavík, flugu lágflug yfir veiðistaðinn, fengu í soðið, voru síð- an kvaddir vel og boðnir velkomnir aftur seinna í haust. Jói var sann- arlega vinur vina sinna. Það er huggun í harmi að Jóhann fékk að kveðja þennan heim á uppá- haldsveiðistaðnum sínum, þar sem veðrið er alltaf svona – bara ekkert veður, þar sem sjóbirtingurinn gengur síðla sumars og gæsirnar búa sig að hausti undir flug til fjar- lægra landa. Guð blessi minninguna um Jó- hann Halldórsson, hans verður lengi saknað. Lilla, Anna Dóra, Jóhanna, Birg- itt, Heimir vinur minn og Ásdís, við í Spóahöfða 16 vottum ykkur innilega samúð. Eiríkur Eiríksson. Kæri vinur. Sárt er vinar að sakna. Sorgin er djúp og hljóð. Minningar mætar vakna. Margar úr gleymsku rakna. Svo var þín samfylgd góð. Daprast hugur og hjarta. Húmskuggi féll á brá. Lifir þó ljósið bjarta, lýsir upp myrkrið svarta. Vinur þó félli frá. Góða minning að geyma gefur syrgjendum fró. Til þín munu þakkir streyma. Þér munum við ei gleyma. Sofðu í sælli ró. (Höfundur ók.) Elsku Lilla, fjölskylda og aðrir að- standendur, megi góður Guð gefa ykkur öllum styrk. Þökkum fyrir allt og allt. Þínir vinir: Emma, Kristján, Hrafnhildur, Garðar, Oddný, Halldór, Kristjana, Matthías, Ellý, Gísli, Arnþrúður og Gísli. Hann Jói er dáinn. Höggið kom snöggt og allt of fljótt. Hann kvaddi við eftirlætisána sína, Grenlæk, en þar hefur hann verið félagi okkar í Litla veiðifélaginu í um það bil 25 ár. Þar höfum við byggt okkur snoturt veiðihús, og vorum nýbúnir að stækka það. Á hverju vori fórum við félagarnir saman til að endurbæta og dytta að ýmsu við veiðisvæðið, þar sem fjölskyldur okkar og aðrir hafa átt góðar stundir. Jói á Andvara, eins og hann var jafnan kallaður, lagði fyrir sig veiði- mennsku, bæði sem atvinnu og áhugamál. Hann stundaði rjúpna- veiðar, hreindýraveiði, sjóstanga- veiði og svo sjóbirtingsveiði, en þar lágu leiðir okkar saman. Þessar samverustundir viljum við nú þakka, og vottum fjölskyldu hans okkar dýpstu samúð. Félagar Litla veiðifélagsins, Sveinn Jónsson, Bogi Sigurðsson, Sigurður Ingi Ingólfsson. Góður vinur er eins og sólin veitir manni birtu og yl. Þessar ljóðlínur eiga vel við þegar við minnumst vinar okkar Jóhanns Halldórssonar eða Jóa hennar Lillu vinkonu eins og hann var alltaf kall- aður á okkar heimili. Margs er að minnast eftir margra áratuga vináttu við þau hjón og börnin þeirra og í 40 ár höfum við ferðast saman um landið okkar ásamt börnum, barnabörnum, góð- um vinum og stundum bara fjögur. Hann Jói hafði sérstaka og góða nærveru og ljúft er að minnast sam- verustunda bæði í gleði og sorg þar sem hann var kletturinn og ógleym- anleg er barnsleg gleði hans þegar hann vann til verðlauna fyrir stærstu lúðuna á sjóstangaveiðimóti á Siglufirði og var í heilan dag að æfa sviðsframkomu fyrir verðlauna- afhendinguna. Já, margs er að minnast sem of langt yrði upp að telja og lúðan var bara 1,6 kg. En þetta var Jói, glett- inn og maður stemningarinnar og síðan var það útgerðarmaðurinn og skipstjórinn Jói á Andvara en þar fór fagmaður sem vissi nákvæmlega hvernig hlutirnir áttu að vera og hann hefði viljað sjá stærri afla. Nú þegar lífsharpa þessa góða vinar okkar er þögnuð og komið að kveðjustund viljum við þakka fyrir allar samverstundirnar okkar, allan fiskinn og hreindýrakjötið sem hann færði okkur og ekki síst fyrir að vera eins og hann var alltaf, klár í bátana. Í einkalífi sínu var Jói mikill gæfumaður og átti miklu barnaláni að fagna, Lilla og Jói voru yfirleitt nefnd í sama orðinu og umvöfðu börnin og fjölskyldur þeirra. Elsku Lilla, það er mikill harmur kveðinn að ykkur öllum og ekki síst Brynju systur hans sem sér á bak einkabróður sínum. Við færum ykk- ur öllum okkar innilegustu samúðar- kveðjur og biðjum góðan guð að vernda ykkur og styðja. Úlfhildur og Sigvaldi.  Fleiri minningargreinar um Jó- hann Halldórsson bíða birtingar og munu birtast í blaðinu næstu daga. Höfundar eru: Kári Hrafn Hrafn- kelsson, Árni Johnsen.

x

Morgunblaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.