24 stundir


24 stundir - 01.05.2008, Qupperneq 39

24 stundir - 01.05.2008, Qupperneq 39
Launafólk Meiri lífskjarajöfnuð Réttlátara samfélag Burt með okurvextina Tökum höndum saman og stöndum vörð um réttindi okkar og lífskjör, látum ekki misbjóða okkur.Verum ábyrg gagnvart sjálfum okkur, sniðgöngum óréttláta verðlagningu á vörum og þjónustu. Stöndum saman - verjum kjörin Kl. 12:30 Bæjarbíó opnar Kl. 13:00 Bíósýning Brot úr gömlum myndum frá Hafnarfirði frá árunum 1918 til 1986 Kl. 14.00 Kröfuganga frá Bæjarbíó Gengið verður upp Reykjavíkurveg, Arnarhraun, Sléttahraun og að Hraunseli við Flatahraun. Kl. 14:30 Hátíðarfundur í Hraunseli, Flatahrauni 3. Ávarp dagsins: Linda Baldursdóttir, varaformaður Hlífar Ræða: Garðar Hilmarsson, formaður Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar Skemmtiatriði: Tónlistarhjónin Eyþór Gunnarsson og Ellen Kristjáns- dóttir munu spila og syngja fyrir fundargesti Bíósýning - Bæjarbíó Stéttarfélögin í Hafnarfirði ásamt Hafnarfjarðarbæ munu bjóða uppá bíósýningu í Bæjarbíó fyrir kröfugöngu. 2008 Mikil gliðnun hefur orðið í íslensku þjóðfélagi á undan- förnum árum. Fæst almennt launafólk hefur fundið fyrir svokölluðu góðæri í launaumslaginu og fólk spyr hvort góðærið hafi ekki í raun bara verið góðæri sumra. Hinir ríku hafa orðið ríkari og sá hópur sem hefur minnst á milli handanna, hefur setið eftir. Það er óásættanlegt í samfélagi allsnægtanna. Öryrkjum og ellilífeyrisþegum, starfsfólki í hefðbundnum kvennastörfum og öðrum láglaunahópum, þeim hefur blætt. Það er komið að þessum hópum að fá leiðréttingar á sínum kjörum – og raunverulegar kjarabætur. Í febrúar voru undirritaðir nýir kjarasamningar á almennum vinnumarkaði. Meginstefið í þeim var að veita fólkinu á lægstu töxtunum, þeim sem ekki hafa notið launaskriðs í þenslu undanfarinna ára, hlutdeild í góðærinu. Það ríkti sátt um þessa samninga og þeir voru samþykktir af miklum meirihluta þeirra sem greiddu atkvæði. Blekið á þessum samningum var ekki þornað þegar hrunadansinn hófst og hringiða verðhækkana, vaxtahækkana og verðbólgu þurrkaði út stærstan hluta ávinningsins af samningunum. Það er grafalvarlegt, að á nokkrum vikum skuli forsendur þessara samninga vera brostnar. Verði ekki umtalsverður viðsnúningur, þá eru samningarnir fallnir um sjálfa sig. Eins og venjulega gerist við þessar aðstæður, ætlast atvinnu- rekendur og stjórnvöld til þess að launafólk axli eitt ábyrgðina og beri skaðann. Við þetta verður ekki unað og minnt er á að samningagerð hafnfirskra verkalýðsfélaga við ríki og sveitafélög er ólokið.Það eru óvenjulegar aðstæður í íslensku efnahagslífi um þessar mundir. Eftir alllangt hagvaxtarskeið og góðæri fyrirtækja, hefur orðið algjör viðsnúningur á nokkrum vikum. Græðgi og fyrirhyggjuleysi auðmanna virðist hafa kollsiglt þjóðarskútunni. Úrræðaleysi Seðlabanka og ríkisstjórnar virðist vera algjört og sem fyrr á launafólki og almenningi að blæða.Verðbólga er nú meiri en við höfum átt að venjast á undanförnum árum. Vextir eru í sögulegu hámarki. Krónan er eins og korktappi í stórsjó og verslanir og fyrirtæki hafa af mikilli hvatvísi hækkað verð á neysluvörum og eldsneyti. Á hverjum bitnar þetta? Ekki á stórfyrirtækjunum sem eiga eignir sínar og skuldir í útlöndum. Þetta bitnar, eins og alltaf, á hinum íslenska meðaljóni og smærri fyrirtækjum sem eiga allt sitt undir stöðugleika, lítilli verðbólgu og hagstæðum lánskjörum. Alþýðuheimilin í landinu bera herkostnaðinn og berjast nú í bökkum við að ná endum saman. Þegar minnst er á möguleikann á að taka upp annan gjaldmiðil á Íslandi, hefur því oft verið haldið fram að þá missum við stjórn á efnahagsmálunum. Atburðarás síðustu vikna sýnir, svo ekki verður um villst, að við höfum nánast enga stjórn á þróuninni og sá sveigjanleiki sem krónan hefur, er ekki eftirsóknarverður. Það er orðið löngu tímabært að kannaður verði sá möguleiki að taka upp annan gjaldmiðil. Íslenskur almenningur á það skilið og þarf á öruggum og stöðugum gjaldmiðli að halda, ekki síður en stórfyrirtæki og auðmenn. Undanfarið hefur orðið sífellt erfiðara fyrir venjulegt launafólk að eignast húsnæði. Húsnæðisverð hefur snarhækkað og vextir sömuleiðis. Bankarnir ruddu sér leið inn á húsnæðislánamarkaðinn, með miklu brambolti árið 2004, buðu niður vexti og allt að 100% lán. Afleiðingarnar blasa við. Mikilvægi húsnæðislánasjóðs í félagslegri eigu hlýtur að vera orðið öllum ljóst eftir þetta áhlaup bankanna. Staða fjölmargra fjölskyldna er mjög slæm vegna húsnæðisskuldbindinga og gjaldþrot blasir við mörgum, verði ekki gripið í taumana. Ríkisstjórnin þarf að grípa til aðgerða til þess að koma til móts við þetta fólk. Ríki og sveitarfélög þurfa ennfremur að grípa til aðgerða, til þess að gera þeim sem lökust hafa kjörin það mögulegt að komast í sómasamlegt húsnæði. Það er óþolandi að það skuli þekkjast í svokölluðu samfélagi allsnægtanna, að til séu fjölskyldur sem búa inni á ættingjum og vinum, í tjöldum eða bílum. Það er ekki sæmandi. Þessu fólki duga engar markaðslausnir.Það er víðar en í húsnæðismálunum sem misrétti viðgengst. Það þarf að taka lífeyrismálin til gagngerrar endurskoðunar. Í þeim málaflokki er það algerlega ófært að lífeyrir frá Tryggingastofnun skerðist ef lífeyrisþegi fær lífeyri annars staðar frá. Það er ótækt að refsa þeim lífeyrisþegum með skerðingum, sem hafa verið svo fyrirhyggjusamir að leggja á séreignareikning til efri ára. Jafna þarf lífeyrisréttindi launafólks og einnig verður að afnema lífeyrisforréttindi þingmanna og æðstu embættismanna þessa lands. Annað er virðingaleysi og dónaskapur við launafólk og framlag þess til þjóðarbúsins. Félögin leggja áherslu á:• að ríki og sveitafélög standi við stóru orðin og hækki verulega laun ummönnunarstétta og starfsfólks grunn- og leikskóla • að tekið verði á húsnæðisvanda láglaunafólks • að látið verði af okurvaxtastefnunni • að skattleysismörk fylgi lágmarkslaunum • að verðlagseftirlit verði gert skilvirkara • að lífeyrisréttindi verði jöfnuð • að grunnlífeyrir fylgi lágmarkslaunumReynslan sýnir að eina leiðin til þess að tryggja hag launafólks er samstaða. Saga íslensks þjóðfélags undanfarin 100 ár sýnir það, svo ekki verður um villst. Flest þau réttindi sem við lítum á sem sjálfsagðan hlut í dag, væru ekki til staðar nema fyrir baráttu verkalýðsfélaganna. Látum þær raddir ekki villa okkur sýn sem tala um að baráttunnar sé ekki lengur þörf. Þörfin er síst minni í dag en fyrir hundrað árum. Hin daglegu verkefni og tungutakið hafa ef til vill breyst, en grunngildin eru enn þau sömu. Að treysta og bæta hag heimilanna í landinu. Það gerum við ekki nema með því að standa saman.Þess vegna komum við saman í dag, þann 1. maí, á baráttudegi verkafólks. 1. MAÍ HAFNARFIRÐI Lúðrasveit Lúðrasveit Hafnarfjarðar mun leika í kröfugöngunni og í forsal Bæjarbíós fyrir sýningu. Hátíðarfundur - Hraunseli Boðið verður uppá söngatriði á fundinum í Hraunseli. Einnig verða kaffiveitingar að fundi loknum.

x

24 stundir

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: 24 stundir
https://timarit.is/publication/307

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.