Frjáls þjóð


Frjáls þjóð - 14.12.1957, Blaðsíða 19

Frjáls þjóð - 14.12.1957, Blaðsíða 19
JOLIN 1957 FRJÁLS ÞJÓÐ 19 inum og hljóp upp hlíðina, en ferðamaðurinn steig af baki og kallaði. Þegar Jón svaraði ekki köllum hans, hugðist bóndi elta flóttamanninn, en leit um öxl í nær hverju spori til þess að huga að hestinum, svo Jón bar undan. Að lokum kallaði síðhempumaður eim einu sinni til Jóns og sagðist þekkja hann, en gafst að því búnu upp við eltingaleikinn. Guðbrand- ur vildi síðar segja söguna á ann- an veg. Hann taldi sig hafa mætt manninum við syðri dysina á Hjarðarfellsvegi og ekki þekkt hann né neitt skipt sér af honum, er hann vék af veginum, þegar svo sem „hálf lóðarlengd" var á milli þeirra. Jón hélt ferð sinni áfram með sama hætti, gekk hverja nótt svo langt sem myrkrið entist, en lá í leynum um daga. Níunda daginn var hann kominn inn í Hauka- dal. Þar hvíldist hann og hafðist ýmist við í klettum eða í fjárhús- um frá Krossi. Þar hafði hann fyrst tal af fólki eftir strokið frá Melabúð. Varð fyrst á vegi hans kona frá Hömrum, en síðan hitti hann bóndann þar, Jón Bjarnason djöflabana. Ekki talaði hann margt við þau, en bað þó Jón bónda um mat, og gaf hann honum þá mjólkursopa í aski. Fremur virtist honum fólk á Hömrum hliðra sér hjá að hafa mikið saman við hann að sælda, og ekki fékk hann gist- ingu, þótt hann bæði um hana. Var hann enn á sveimi í dalnum nokkra daga, og virðist sem hon- um hafa óað við því að fara á heiðarnar í annað sinn. Söguna af heimsókn Jóns Franz sagði Jón á Hömrum þó á þann veg, að maður hefði komið á glugga hjá sér, er fólk var í svefni, og stúlka farið til dyra. Maðurinn hefði beðið um eitthvað að drekka, og lét bóndi stúlkuna færa honum blöndulegil. Síðan hefði stúlkan komið inn aftur og sagt, að gesturinn beiddist gist- ingar, en Jón sagðist hafa úthýst honum sökum þess, að baðstofu- byggingu var ekki lokið, svo að allt fólk varð að hírast þar í loftkytru. ★ ÓTTINA eftir gistinguna í fjár- húsunum á Krossi flúði Jón Franz upp í gil í fjallinu af ótta við lestamenn, sem lágu frammi á dalnum. Þar sat hann næsta dag. Um kvöldið hélt hann niður dalinn. Skammt fyrir utan Mjóa- ból hitti hann Brynjólf bónda Bjarnason, sem sagðist vera að leita að kindum. Urðu þeir sam- ferða, og spurði Brynjólfur Jón, hvað hann héti, hvaðan hann væri og hvert hann ætlaði. Jón lézt heita Guðmundur, eiga heima úti í plássum og ætla þangað, en vera á leið norðan úr Vesturhópi. Bar Brynjólfur þá í tal mann, sem strokið hefði af Snæfellsnesi og spurði Jón, hvort hann hefði frétt til hans fyrir norðan. Því neitaði Jón. „Og ekki séð neinn mann á ferð neins staðar?“ spurði Brynj- ólfur. Hann neitaði því líka. Má af þessum orðaskiptum geta þess til, að Brynjólf hafi grunað, hver þarna var á rangli. Jón skildi síðan við Brynjólf og hélt út dalinn, en týndi þá vettl- ingum sínum og fleira af því, sem hann bar. Sneri hann við til þess að leita þess og hélt heim að Mjóabóli og spurði Brynjólf hvort hann hefði fundið vettlingana. Brynjólfur kvað nei við því. Sagði Jón honum þá satt um það, hver hann var og bað hann ásjár. Brynj ólfur svaraði því til, að hann gæti tekið hann fastan, en kvaðst þó ekki vilja gera það, og skyldi Jón hafa sig sem skjótast brott. Jón bað hann þó að selja sér mat og tók af hálsi sér klút og fékk hon- um sem greiðslu. Fékk hann svo matinn, en Brynjólfur hét honum því að segja um ferðir hans, án þess að ætlast til gjalds fyrir. Brynjólfur vildi þó að sjálfsögðu ekki kannast við þetta. Hann sagði, að gesturinn hefði nefnt sig Guðmund Sigurðsson frá Keflavík, og því hefði hann trúað og aldrei vitað, að það væri ósatt. Að öðru leyti bar þeim Jóni sam- an. Maturinn, sem Brynjólfur seldi flóttamanninum fyrir háls- klút hans, var einn sviðakjammi, hálft blóðmörsiður og fjórir kinda- fætur. Þegar Jón Franz fór brott frá Mjóabóli, lagði hann leið sína norð ur á Haukadalsskarð, en hélt þar út af veginum suður fyrir Trölla- kirkju og átti þar næsturgistingu. Hefur hann þá verið orðinn úrkula vonar um hjálp í byggð. Þegar Jón kom upp á skarðið, sá hann tvo hesta og folaldshryssu á hæð á hægri hönd sunnan Tröllakirkju. Þessa hesta tók hann traustataki og reið þeim austur heiðar, unz hann kom í helli þann, sem Borgfirðingar tóku hann í síð- ar um haustið. Sennilegt er, að komið hafi ver- ið undir októberlok, er hann komst í hellinn. Ekki vissi Jon, hver hestana átti, en hugði þá annað tveggja, úr Hrútafirði eða Borgarfirði, og þó frekar norðan yfir. En þeir voru eign Jóns Jóns- sonar á Melum. ★ ELLIR sá, sem Jón Franz tók sér bólfestu í, er í norðurjaðri Hallmundarhrauns, skammt suður af Reykjavatni. Fyrir hellisopið er haglega hlaðinn veggur úr hraun- grýti, þakinn grámosa, en inni rúmbálkur, eldstó, leifar lyngs og fjalldrapa og mikið af beinum hrossa og kinda. Það var álit gam- alla Borgfirðinga, að þarna hafi verið útilegumannabæli, áður en Jón Franz kom í hellinn, og hon- um hefði verið vísað á staðinn af gagnkunnugum manni. Ekkert slíkt kemur þó fram í þeim gögnum, sem eru til. Jón þóttist hafa rekizt á þetta skýli þarna í hraunjaðr- inum. Engum vafa er undir orpið, að útilegumenn hafa verið í hellinum á undan Jóni Franz, því að Krist- leifur á Stóra-Kroppi segist sjálf- ur hafa talið þar sjö hauskúpur af hrossum, en svo mörg hross komst Jón alls ekki með þangað, og auk þess séð þar mikið af kindabein- um. En Jón stal engri kind, svo að vitað sé. Heimildir um veru Jóns í hell- inum eru rýrar, en góðar frásagn- ir eru til um handtöku hans. Er þar fyrst að geta frumprófs þess, sem Pétur sýslumaður Ottesen í Síðumúla lét fara fram, ættarsagna þeirra, sem Kristleifur á Stóra- Kroppi hefur skráð, og sagna Gísla Konráðssonar og Daníels á Fróða- stöðum. Frásögn Kristleifs er rækilegust. En eitt er það, sem hann segir frá, sem hvergi kemur fram í máls- skjölum. Það er stuldur á folalds- hryssu úr hesthúsi í Fljótstungu um haustið. Átti slóðin að hafa veriið rakin fram á heiðar og hræ- ið af folaldinu, sem gefizt hafði upp í ófærð, að hafa fundizt þar hálsskorið. Nú er næsta ótrúlegt, að sögn þessi hafi myndazt í Hvít- ársíðunni, ef enginn fótur væri fyr- ir henni, og sýnist þá líklegast, að Fljótstungubóndi, sem var með í aðförinni að Jóni, hafi þaggað þetta niður. Einkennilegt er þó, að Daníel á Fróðastöðum getur alls ekki um þetta. ★ ATTA vikur voru liðnar frá því, að Jón Franz strauk úr Mela- búð við Hellna, er hann var hand- tekinn við Reykjavatn 29. nóvem- ber. Fannst þá hjá honum mikið af sundurlimuðu hrossaketi, en auk þess hefur hann lifað af veiði í vatninu. Pott, eldstál, pál, reku, öxi, hamar, hníf, prjóna, nálar, kamb, greiðu og tvær bókaskrudd- ur hafði hann hjá sér í hellinum, auk nokkurs fatnaðar og fanga- járnanna, en annað ekki, nema það, sem hann leitaðist við að búa til af þeim efnum, sem til féllu í útilegunni. Kemur þetta allt fram í réttarprófinu í Síðumúla. Kristleifur á Stóra-Kroppi segir svo um aðdragandann að hand- tökunni, að gerð hafi verið eftir- leit í Geitland þetta haust. Er leit- armenn voru staddir í Torfabæli, sáu þeir mann á reið, kynlegan í háttum. Hleypti hann undan þeim og hvarf þeim sýnum, án þess að þeir gætu skipt við hann orðum. Seint í nóvembermánuði þetta sama haust fóru tveir synir Jak- obs Snorrasonar á Húsafelli, Guð- mundur um tvítugt og Þorleifur fjórtán ára, til silungsveiða á Arn- arvatnsheiði. Gistu þeir í skála við Reykjavatn og sáu að morgni slóð eftir mann í snjófölinu og fundu veiðivök í vatninu. Þessi spor lágu suður í hraunið, og er þeir höfðu rakið slóðina um stund, þóttust þeir kenna reykjarþef af viði. Af- réðu þeir að snúa heim og segja tiðindin. Um þetta sama leyti á folaldshryssan að hafa horfið úr hesthúsi í Fljótstungu. Jón Auðunsson á Þorvaldsstöð- um var um þessar mundir hrepp- stjóri í Hvítársíðu. Brá hann við, er honum bárust tíðindin af Arn- arvatnsheiði, og safnaði liði. Gerði hann útilegumanninum aðför við sjötta mann, og voru meðal þeirra förunauta Guðmundur Jakobsson á Húsafelli, sem vísa skyldi á bæli útilegumannsins, Einar bóndi Þór- álfsson i Kalmanstungu, raumur mikill, og Guðni Jónsson, bónda- son frá Fljótstungu. Komst Jón síðla kvölds með flokk sinn í skál- ann við Reykjavatn og beið þar dagsbirtu. Að morgni tóku þeir að leita útilegumannsins og komu þar brátt, er hrosshá var breidd fyrir hellismunna. Kölluðu þeir þá inn og báðu þá út að ganga, er inni væru. Því var engu svarað, en ófýsilegt þótti að ráðast til inn- göngu um þröngan hellismunna. Þá segir Kristleifur, að Einar í Kalmanstungu, sem var manna rómsterkastur, hafi brýnt raustina og kallað: „Fyrst enginn vill koma til dyra, þá skulum við fara sex inn, en aðrir sex séu á verði úti fyrir.“ Nokkur töf varð þó á því, að inn væri ráðizt, unz Guðni í Fljóts- tungu varð til þess, og fylgdu hin- ir honum eftir. Fyrst urðu þeir einskis manns varir í hellinum, en svo heyrðu þeir kvik nokkurt niðri í afkima. Skipuðu þeir þeim, sem þar væri, að gefa sig fram — ella hlæðu þeir stórgrýti fyrir munnann og létu hann deyja þar drottni sínum. Kom þá fram mað- ur með sax í hendi, en var skjótt afvopnaður. Þetta var Jón Franz. I helli sínum hafði hann aðeins hrossakjöt sér til bjargar, og á grjótbálki, sem hann hafði að hvílu, var kvistur og mosi og tvær hrosshúðir. Til eldiviðar hafði hann dregið að sér allmikið af fjalldrapa og víði. Skjólur hafði hann gert sér úr höfuðleðrum hrossanna, saumað fyrir götin, fest tágahring í strjúpann og gert á handfang úr viðitágum. Borgfirðingar komu til byggða með fangann á þriðja degi, og var hann þá fenginn í hendur Pétri sýslumanni Ottesen í Síðumúla. ★ TN ANÍEL á Fróðastöðum segir svo ” frá, að Jón hafi verið tekinn af veiðimönnum úr Hvítársíðu í byrjun jólaföstu í helli suður und- an Reykjavatni og hafi hann þar lifað af tómu hrossakjöti stolnu. Pétur sýslumaður hafi sent hann Stefáni amtmanni á Hvítárvöllum, en þangað hafi honum verið komið vestur í hendur Sigurðar Guð- laugssonar sýslumanns. Loks er svo frásögn Gísla Kon- ráðssonar. Hann segir, að menn, sem fóru að veiði á Arnarvatns- heiði á jólaföstunni, hafi heyrt söng, og bar röddina að austan. Var sálmur sunginn: „Hallelúja, heyr þú hin sæla“. Hafi veiðimenn þá sent til byggða eftir liðsauka og kannað síðan hraunið, unz þeir sáu mann, sem sótti vatn í höfuð- leðrum af hrossum og saumað fyrir augu og kjafta. Þar hafi Jón Franz verið gripinn. Réttarskjölin frá Síðumúla stað- festa, að rétt er frá sagt hjá Kristleifi, að veiðimenn urðu úti- legumannsins varir, en siðan fór Jón á Þorvaldsstöðum við sjötta mann og handtók hann í fylgsni sínu. Vel getur þó verið, að saga Gísla Konráðssonar um sönginn hafi við eitthvað að styðjast, því að Grallarann hafði Jón að minnsta kosti meðferðis, er Hrútfirðingar handtóku hann. Samkvæmt Grall- aranum skyldi syngja í kirkjum annan dag hvítasunnu: „Hallelúja, heyr þú hin sæla, blessaða, dýrð- arfulla þrenning, faðir, sonur og heilagur andi, miskunna þú oss, hallelúja." ★ jfvEGAR Jón var kominn vestur, hófst nýr málarekstur, sem ekki aðeins beindist gegn honum, heldur og báðum hreppstjórunum, sem hann strauk frá. Varð það Jóni í Melabúð til sýknunar, að járnin, sem hann hafði verið lát- inn fá á nafna sinn, töldust ekki í góðu lagi, lásarnir bilaðir og járnboltarnir af sér gengnir. Olaf- ur Sveinsson varð verr úti, því að hann var dæmdur til þess að greiða 34 ríkisdali og 88 skildinga upp í kostnað, sem hlauzt af fyrra stroki Jóns. Mál Jóns drógust hins vegar svo á langinn, að Sigurður sýslumaður sætti fyrir það ávítum. Gerði hann sér til varnar skrá um það, hvað hann hefði aðhafzt sérhvern dag, svo mánuðum skipti, sjálfsagt til þess að sýna, hve annríkt hann átti. Héraðsdómur var loks kveðinn að nýju upp yfir Jóni sumarið 1815. Var hann þó dæmdur til þess að kaghýðast, brennimerkjast á enni og erfiða ævilangt í járnum í Kaupmannahafnarkastala. Eigend- um hesta þeirra, sem hann hafði stolið, voru dæmdar miklar bætur, og loks úrskurðaði sýslumaður sjálfum sér 114 ríkisdali og 92 skildinga í ómakslaun. Jón Auð- unsson og förunautar hans fengu 17 ríkisdali og 48 skildinga fyrir handtökrfna. Þennan dóm staðfesti yfirréttur seint um haustið 1815. Nærri má geta, að Jón hefur verið í ströngu varðhaldi þessi misseri. Hefur þótt svo mikil byrði að gæta hans, að hann var hafður á heimilum hreppstjóranna á Snæ- fellsnesi, tíma og tíma í senn. Þær vistir hafa varla verið neitt sæld- arbrauð eftir það, sem á undan var gengið. ★ JÓN Franz hefur væntanlega ekki verið sendur á Brimarhólm fyrr en vorið eða sumarið 1816, og hefur hann verið í haldi hátt á annað ár frá því, er hann var handtekinn í seinna skiptið. Ef til vill hefur það verið honum léttir að komast að lokum í festinguna. Og nú mætti ætla, að hann væri með öllu úr sögunni. En svo var ekki. Jón Franz kom aftur til ís- lands og lifði hér alllanga ævi. Gísli Konráðsson segir, að hann hafi komið sér vel ytra og komið heim eftir nær tuttugu vetur. Hafi hann fengið þriggja vætta styrk á ári frá Neshreppi ytri, en annars lifað á gjöfum og vorvinnu við kálgarða. Daníel á Fróðastöðum telur, að hann hafi verið náðaður eftir 28 ár og verið sendur til landsins með Ólafsvíkurskipi um haust, „lítt klæddur og illa verkaður, en vann þó fyrst fyrir sér og þótti afbragð að slétta tún. Var þó sagð- ur til sveitar á Neshrepp utan Ennis, en lítið mun hann þaðan hafa að.“ Kristleifur á Stóra-Kroppi segir: „Eftir tuttugu ára þrælkun var hann náðaður. Var hann þá svo af sér genginn, að hann fór á sína sveit. Þar sáu hann Hvítsíðingar, sem fóru í skreiðarferðir vestur undir Jökul. Var þeim þá enn í fersku minni sagan um útilegu hans í Hallmundarhrauni og var því forvitni á að sjá vesalinginn". ★ RÉTT er, að Jón Franz var náð- aður árið 1839 í sambandi við krýningu Kristjáns konungs VIII. þá seint um haustið. Ingiríður Bjarnadóttir, kona hans, hafði flutzt á Fellsströnd og gerzt þar vinnukona, meðan mál Jóns voru á döfinni. Til hennar fór hann nokkru eftir heimkomuna. Voru þau þar einkum að Hellu, Stóra- Galtardal og Galtardalskoti, stund- um í kofa út af fyrir sig. Ekki voru þau alltaf saman, en aldrei munu þau hafa slitið samvistir að fullu. 1850 var Jón kominn á Nes- hrepp, en var eigi að síður um kyrrt á Fellsströnd til dauða- dags. Hann dó úr ellilasleika, að því er segir í kirkjubókinni, { Galtardalskoti, húsmaður á Nes- hrepps fátækraframfæri, 24. maí 1859, 73 ára gamall. Ingiríður lifði lengur. Eftir dauða Jóns hraktist hún út í Nes- þing, og þar andaðist hún 8. apríl 1864, 93 ára gömul. Hvorugt þeirra átti niðja, svo að kunnugt sé. /

x

Frjáls þjóð

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Frjáls þjóð
https://timarit.is/publication/311

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.