Morgunblaðið - 18.02.2005, Side 36
36 FÖSTUDAGUR 18. FEBRÚAR 2005 MORGUNBLAÐIÐ
MINNINGAR
✝ Signý Sveins-dóttir fæddist í
Hlíð í Skaftártungu
14. febrúar 1918.
Hún lést á Landspít-
alanum í Fossvogi
29. janúar síðastlið-
inn. Foreldrar henn-
ar voru Hildur Jóns-
dóttir ljósmóðir, f.
10. ágúst 1890, d. 13.
júlí 1981, og Sveinn
Jónsson bóndi, f. 5.
apríl 1880, d. 23.
desember 1959.
Signý var næstelst
sjö systkina en þau
eru: Sigríður Sóley, f. 26. maí
1913, d. 7. maí 2003, Jörundur, f.
2. september 1919, d. 29. sept-
ember 1968, Sigurður, f. 11. febr-
úar 1922, d. 4. september 1994,
Jón, f. 17. septem-
ber 1925, Einar
Sverrir Magnús, f.
27. desember 1928,
og Steinunn Guðný,
f. 17. maí 1931.
Árið 1942 giftist
Signý Gunnari
Gunnarssyni listmál-
ara, f. 28. maí 1914,
d. 13. maí 1977, syni
Franziscu Gunnars-
son og Gunnars
Gunnarssonar
skálds. Þau eignuð-
ust þrjú börn,
Franziscu, f. 9. júlí
1942, d. 3. mars 2004, Gunnar, f.
2. ágúst 1945, og Katrínu Selju, f.
25. ágúst 1949.
Útför Signýjar fór fram í kyrr-
þey að ósk hinnar látnu.
Vinkona mín, perlan hún Signý,
hefur kvatt. Signý var mágkona
tengdaföður míns heitins og kynnt-
umst við fyrir nær 30 árum. Þrátt
fyrir nokkurra áratuga aldursmun
bundumst við strax við fyrstu kynni
sérstökum böndum. Allt frá fyrstu
kynnum fannst mér Signý sérstakur
og skemmtilegur persónuleiki. Í
henni fann maður allt litrófið og allan
tilfinningaskalann. Hún var náttúru-
barn fram í fingurgóma, valkyrja,
kjarnorkukona og prakkari.
Signý hafði ríka réttlætiskennd og
hafði ákveðnar skoðanir á mönnum
og málefnum. Þegar henni var mis-
boðið lét hún engan eiga neitt inni hjá
sér, heldur kom skoðunum sínum
fram umbúðalaust á kjarnyrtu máli.
Oft sagði ég við hana að hún hlyti að
vera ættuð af Vestfjörðum, því Vest-
firðingar eru þekktir fyrir að vera
hressilegir í tali. Reyndar fór hún
margar ferðirnar til Ísafjarðar í
heimsókn til tengdaforeldra minna
og í berjaferðir inn í Djúp. Þar setti
hún niður tjald sitt og fór ekki suður
aftur fyrr en margir lítrar af berjum
höfðu verið tíndir. Er heim var komið
sultaði hún og saftaði auk þess að búa
til kindakæfu sem var sú bezta í
heimi. Þetta get ég fullyrt því Signý
gaf okkur fjölskyldunni sultur og
kæfu hvert haust.
Signý vann til margra ára á sjó
sem matselja á millilandaskipum.
Henni leið vel á sjónum og margar
sögur hefur hún sagt mér frá þessum
tíma í lífi sínu. Ein sagan fannst mér
lýsa Signýju meira en nokkuð annað.
Þannig var, að einn daginn gerði því-
líka brælu, að ekki var stætt í skip-
inu. Skipverjar drifu sig hver af öðr-
um í koju, en einn þeirra fór að
athuga um Signýju sem var að vinna í
eldhúsinu. Þegar þangað kom sér
hann hvar Signý hafði bundið reipi
um mittið á sér og fest það á góðan
stað, þannig að hún gæti klárað að
vaska upp, þrífa eldhúsáhöldin og
sótthreinsa allt eldhúsið. Eftir að allt
var orðið skínandi hreint leyfði hún
sér fyrst að slaka á.
Signý hefur sýnt mér, eiginmanni
mínum og sonum okkar fjórum alveg
ómetanlega ást og umhyggju í gegn-
um árin. Símtölin og hvatningarorðin
frá henni eru orðin óteljandi. Hún
hafði gaman af að segja mér prakk-
arasögur af manninum mínum, þegar
hann var lítill og var stundum í pöss-
un hjá henni. Hún spurði alltaf um
alla strákana mína og fylgdist með
þeim af áhuga. Allir hafa synir mínir
á einhverjum tíma staðið í þeirri
meiningu að Signý væri frænka
þeirra og spurt: „Hvernig er hún
Signý skyld okkur?“
Um miðjan janúar sl. áttum við
Signý langt og skemmtilegt símtal.
Eins og venjulega hlógum við og fífl-
uðumst eins og táningsstelpur ásamt
því að við sögðum fréttir hvor af ann-
arri. Hún hafði hringt til að kveðja
mig, þar sem ég þurfti að fara til út-
landa. Hún endurtók það sem bæði
hún og ég höfðum svo oft sagt áður:
„Kolla mín, það eru alveg ótrúlega
sterk bönd á milli okkar.“ Þessi orð
þykir mér vænt um og mun geyma
með mér. Áður en við kvöddumst
sagðist hún ætla að tala við mig, þeg-
ar ég kæmi heim aftur. Signý lést
daginn eftir heimkomu mína, hún
hafði lengi þráð hvíldina, líkaminn
þreyttur þó hugurinn væri síungur.
Falleg og sérstök perla hefur nú
verið þrædd upp á perlufesti minn-
inganna. Þar mun þessi fágæta perla
glitra á sinn einstaka hátt í formi
minninga sem munu ylja mér um
ókomna tíð.
Guð blessi minningu Signýjar
Sveinsdóttur.
Kolbrún Svavars-
og Ernudóttir.
Ég sit í stofunni á Laugarásveg-
inum og held fyrir nefið, orðin þreytt
á langri flensu. Amma mín matar mig
á hvítlauksvatni og klappar fyrir mér
í hvert sinn sem ég get borðað hvít-
lauksbita. Hún hefur tröllatrú á
lækningamætti náttúrunnar. Henni
finnst ég alveg sérstaklega dugleg og
engu líkara en að afrek mitt að klára
heilan bolla af hvítlauksvatni jafnist
á við heimsmet í hundrað metra
hlaupi. Þetta var fyrir tuttugu árum
síðan, en ég man þessa athöfn eins og
hún hafi gerst í gær. Í dag mæli ég
alltaf með hvítlauksvatni um leið og
ég heyri einhvern sjúga upp í nefið,
sannarlega töfralyf.
Amma mín gerði bestu kæfuna og
ennþá betri flatkökur. Kúmenklein-
urnar hennar voru engu líkar og ein-
faldlega undarlegt að bakarar bæj-
arins hafi ekki leitað til hennar til að
fá uppskriftina. Amma mín kenndi
mér líka að meta góðan íslenskan
mat eins og þorramat. Hún gerði
allra bestu og súrustu sviðasultu í
heimi.
Amma mín þekkti örugglega til
flestallra Íslendinga. Hún var líka
svo ófeimin og spjallaði við bókstaf-
lega alla sem á vegi hennar urðu.
Þegar ég var í menntaskóla kom
strákur til mín sem ég þekkti lítið og
hann spurði mig hvort amma mín
héti Signý. Hissa sagði ég já og
spurði hann hvernig hann vissi það.
Hann svaraði að bragði: „Við vorum
samferða í strætó.“ Það skipti hana
engu máli að hann væri mennta-
skólastrákur, sextíu árum yngri en
hún. Amma mín gat talað við alla.
Ég er svo þakklát fyrir að amma
mín fékk að kynnast dóttur minni og
enn þakklátari fyrir að hafa fengið að
upplifa gleðina hjá þeim báðum í
hvert skipti sem þær hittust. Nú síð-
ast um jólin var amma mín á fjórum
fótum að leika hest og dóttir mín sat
á baki hennar skellihlæjandi. Meira
að segja ég veigra mér við þessum
hestaleik þar sem mér finnst hann af-
ar óþægilegur fyrir hnén. En amma
mín var ekki lengi að skella sér í
hestahlutverkið á áttugasta og sjö-
unda aldursári.
Nú er amma mín lögð af stað í sína
hinstu ferð og verður án efa vel tekið
á móti henni á áfangastað.
Góða ferð, elsku amma.
Þín
Signý Gunnarsdóttir.
Amma Signý er dáin og ég á svo
erfitt með að trúa því, amma sem
alltaf hefur verið hjá mér og alltaf
verið til staðar. Ég get enn heyrt
gleðina í röddinni hennar þegar ég
kom í heimsókn og hún tók utan um
mig svo lítil og grönn og sagði: ,,Mik-
ið ertu orðin stór, fallega stúlkan
mín.“ Síðan dró hún mann inn í eld-
hús og færði manni veitingar sem
hún sjálf hafði útbúið. Þótt sjónin
væri orðin léleg átti hún alltaf heima-
bakaðar kleinur. Allir í fjölskyldunni
gátu borðað kleinur með spýtum
nema við systkinin, við fengum sér-
bakaðar kleinur. Hún vissi alltaf
hvað öllum líkaði og hafði alltaf
áhuga á öllu sem allir voru að gera.
Ég man það eins og í gær þegar ég
gisti hjá henni fimm ára gömul og
hún eldaði handa mér dýrindis kvöld-
mat, las fyrir mig nokkrar bækur,
sagði mér síðan sögur af pabba þegar
hann var lítill drengur. Daginn eftir
fórum við í sund, gengum um Laug-
ardalinn og fórum síðan heim því ég
var orðin svo þreytt en amma ekki.
Við enduðum á því að fara að baka
drullukökur úti í garði hjá henni.
Amma var alveg ótrúleg, einu sinni
vorum við systkinin stödd í Skorra-
dalnum með henni, ömmu Kötu,
Borgnýju og henni elsku frænku
minni Signýju. Við krakkarnir vorum
að reyna að klifra upp í tré sem þar
var, eitthvað gekk það brösótt svo við
gáfumst upp. Allt í einu heyrum við
kallað: „Hæ, hæ, sjáið þið ömmu
gömlu.“ Við litum við og sáum hana
ömmu okkar sem var elst okkar allra
búna að klifra hátt upp í tréð og kalla
til okkar. Það leika þetta ekki margir
eftir.
Það er gott að eiga fallegar og góð-
ar minningar um hana ömmu til að
ylja sér við núna þegar sorgin er svo
mikil. Hún sagði mér að gráta ekki
þegar hún færi heldur ætti ég að
hlæja og fara á ball. Þótt mér sé ekki
hlátur í huga á þessari stundu trúi ég
því að sá tími muni koma þar sem ég
mun gleðjast yfir góðum og
skemmtilegum minningum um
ömmu mína.
Ég vona að ömmu líði vel þar sem
hún er núna og ég vil biðja elskuleg-
an Guð um að varðveita hana og
gæta.
Ég mun ávallt elska þig.
Dýrleif Sveinsdóttir.
Systir mín, Signý (Ninna), var
næstelst sjö systkina og átti sín
bernsku– og æskuár á Þykkvabæj-
arklaustri í Álftaveri. Þar sem móðir
okkar var ljósmóðir báðum megin
Kúðafljóts þurfti hún oft að dvelja
vikum saman hjá sængurkonum fyr-
ir og eftir fæðingu og kom þá oft í
hlut Signýjar að annast húsmóður-
störfin á heimilinu. Signý var frá
barnsaldri mikil útivistarmanneskja
og naut þess að vinna öll útistörf, sér-
staklega við skepnuhirðingu og átti
auðvelt með að afla sér vináttu og
trausts bæði manna og málleysingja.
Jafnvel ljónstyggir hestar stóðu
kyrrir í haganum þegar lítil stelpa
nálgaðist þá og leyfðu henni að príla
á bak sér þótt fæturnir væru stuttir.
Á þessum árum var mikill fjöldi ungs
fólks í sveitinni og mikið félagslíf, oft
ferðuðust hópar ungs fólks um sveit-
ina á skautum á veturna og farið í
útreiðartúra á sumrin, þegar tóm
gafst til. Og ekki létu Signý og fé-
lagar sér fyrir brjósti brenna að fara
á hestum yfir Kúðafljót, eitt torfær-
asta jökulfljót landsins, til þessa að
fara á ball austur í Meðallandi og þar
var dansað fram undir morgun og
þegar heim kom var farið beint í
gegningarnar. Árið 1941 urðu þátta-
skil í lífi Signýjar, þegar réð hún sig
sem starfsstúlku að Skriðuklaustri,
þar sem Gunnar Gunnarsson rithöf-
undur og Franciska kona hans ráku
stórbú. Þar tókust ástir með henni og
Gunnari listmálara, syni skáldsins,
og giftust þau árið 1942. Árið 1948
fluttu Signý og Gunnar í hús sem þau
höfðu byggt í Mosfellssveit, sem
hlaut nafnið Ás. Við hjónin og börn
okkar nutum þar margra gleði-
stunda, húsrými var ekki mikið en
hjartarými þeirra beggja var bæði
stórt og gott, og það fundu börnin
best. Árið 1961 leysti Signý af sem
hjálparkokkur á einu frystiskipa
Jökla h.f. og þá strax heillaðist hún af
hafinu og siglingum, og eftir það
starfaði hún við matreiðslu og oft
sem bryti á millilandaskipum, fyrst á
skipum Jökla, svo hjá Hafskip og síð-
ast hjá Eimskip meðan starfskraftar
entust. Hún eignaðist þarna marga
góða vini, hún var listakokkur og
einnig velmetin af útgerðarstjórn
þar sem hún var hagsýn og fram-
reiddi góðan mat fyrir lítið verð.
Signý keypti íbúð að Laugarásvegi
7 í Reykjavík og flutti þangað árið
1978, þar sem hún bjó til dauðadags
lengst af í sambýli við son sinn Gunn-
ar. Það var sama hvar Signý fór, allt-
af safnaði hún að sér góðum vinum,
og þannig var það á Laugarásveg-
inum. Vinir hennar sem ráku fyrir-
tæki í nágrenninu vildu allt fyrir
hana gera og sama gilti um nágrann-
ana, unga sem aldna. Hún fór gang-
andi í Sundlaugarnar daglega meðan
kraftar entust og í gönguferðir þó að
sjónin væri orðin mjög döpur. Hún
ræktaði fögur blómabeð meðfram
húsinu og sáust þau út um gluggana
og báru vitni um ást og umhyggju.
Það er trú okkar að við vistaskiptin
hafi orðið kærir endurfundir. Við eft-
irlifandi systkini, makar og afkom-
endur allir, þökkum Signýju fyrir líf
hennar og samveru og biðjum góðan
guð að blessa og hugga afkomendur
hennar.
Einar S.M. Sveinsson.
Það er skrítið að hugsa um það að
amma Signý eigi aldrei eftir að
hringja í mig og spyrja hvernig mér
gangi í handboltanum. Það var svo
gaman að tala við hana í símann því
hún hafði alltaf svo mikinn áhuga á
því sem ég var að gera hvort sem það
var handbolti eða annað, hvernig mér
gengi í skólanum og margt fleira.
Þegar ég kom í heimsókn til henn-
ar hló hún alltaf af gleði yfir því að ég
væri komin. Hún tók utan um mig,
lagði síðan hendurnar utan um höf-
uðið mitt og horfði lengi framan í mig
og sagði síðan: „Váá þú hefur stækk-
að og ert alltaf jafn falleg, elsku
stelpan mín.“ Maður settist við eld-
húsborðið hennar og hún bar í mann
kleinur með spýtum (kúmeni),
smurði brauð, skar það niður og mat-
aði mann síðan því hún hafði svo
miklar áhyggjur af því að ég borðaði
ekki nóg. Amma var farin að sjá mjög
illa, næstum því alveg blind, en áður
en það gerðist bauð hún okkur pabba
stundum í mat þar sem við fengum
saltkjöt, saltfisk eða það sem var
best, kjötsúpuna hennar.
En nú er hún amma mín dáin og ég
fæ aldrei aftur bestu kjötsúpu í heimi
og ég fæ heldur aldrei aftur að heyra
röddina hennar og að sjá rauðu
vinnulúnu hendurnar hennar. Ég á
eftir að sakna hennar svo mikið og
þótt ég gráti get ég glaðst yfir góðum
og fallegum minningum um ömmu
mína.
Elsku Guð, viltu passa og varð-
veita hana ömmu mína á himnum og
ég hlakka til að hitta hana aftur á
himnum.
Elsku amma mín,
þú hefur alltaf stutt mig,
þú hefur alltaf hlustað á mig,
þú hefur alltaf glaðst með mér,
þú hefur alltaf verið til staðar fyrir mig.
Elsku amma mín.
Ég mun alltaf elska þig,
ég mun alltaf minnast þín,
ég mun alltaf hugsa til þín af kærleika,
ég mun alltaf vera stolt af því að bera nafn-
ið þitt.
Þitt barnabarnabarn
Signý Sveinsdóttir.
Nú er látin Signý föðursystir mín.
Henni fannst tími til kominn og hefur
farið á æðri veg með gleði. Hún var
ákveðin kona og ekki nein lognmolla í
kringum hana og fylgdi sínu eftir.
Það var ævintýri sem alltaf lifir í
minningunni er við systkinin dvöld-
um að Ási 1960 í tæpan mánuð þegar
foreldrar okkar fóru í siglingu. Signý
ætlaði nú aldeilis ekki að láta þessa
horgemlinga fara frá sér án þess að
þeir fengju einhverja hollustu. Hver
morgunn byrjaði á því að setja í okk-
ur heilhveitigraut sem gerði ekki
mikla lukku, en með ómældu magni
af rúsínum fór hann niður, enda voru
engin grið gefin. Það var alltaf gam-
an að koma að Ási, húsið sérstakt og
hinn danski stíll á húsgögnum og
búnaði nýstárlegur. Gaman var að
kíkja inn á vinnustofuna hjá Gunnari
heitnum og sjá málverkin og upplifa
það hvernig list verður til. Þetta var
ríki Signýjar og ætíð ljúft að sækja
hana heim. Í byrjun sjötta áratug-
arins fór Signý í siglingu með
Drangajökli, átti að vera húsmæðra-
orlof og afslöppun. Þegar nokkuð var
liðið á túrinn gat Signý ekki lengur
setið auðum höndum, fór í það að
þrífa íbúðir skipsins frá brú og niður
úr og þegar hún kom heim var búið
að munstra hana sem messagutta og
þar með hóf hún sína sjómennsku
sem stóð út starfsævina. Lengst var
hún kokkur á Vatnajökli, en hann
lagðist að einn skipa í Sundahöfninni
nýbyggðri lengi og oft var hjólað
þangað niður eftir og litið um borð til
Signýjar og ætíð var tekið vel á móti
manni. Eins man ég þegar við tvíbur-
arnir fórum í siglingu með foreldrum
okkar á Drangajökli 1964, en þá var
Signý frænka þar messagutti. Þetta
var ævintýrasigling og víða farið á
hafnir Eystrasalts. Strákana sína um
borð tók hún að sér eins og móðir og
enda guldu þeir henni það með
tryggð og vináttu. Signý gat verið
ólíkindatól og vel man ég það þegar
upphófst uppi á þilfari vatnsslagur
og var Signý einn ötulasti þátttak-
andinn í honum, þó svo að hún væri
ráðsett kona. Sæl veri minning góðr-
ar frænku og sanns félaga.
Óskar Einarsson.
Þrátt fyrir að amma hafi reynt að
undirbúa sína nánustu fyrir þessa
stund í mörg ár þá tók ég væntingum
hennar um sitt eigið andlát alltaf með
miklum fyrirvara. Að vísu hefðu erfið
veikindi hennar síðustu árin átt að
gefa fyrirheit um að hún gæti farið að
kveðja okkur en í mínum huga var
hún orðin nánast ódauðleg. Alveg frá
því að ég man eftir mér hef ég haft þá
trú að hún myndi stýra okkur öllum
áfram í lífinu þar til yfir lyki. Hún var
kletturinn í hafinu sem ekkert hagg-
aði og sem við héldum öll dauðahaldi
í þegar á okkur braut í stormi og
stórsjó.
Ég sé það nú sem fullorðinn maður
að styrkur og umhyggja ömmu og
kærleiki móður minnar hafa gefið
mér bernskuminningar fullar af gleði
og hamingju þrátt fyrir að við hefð-
um þurft að ganga í gegnum tímabil
er lituðust af erfiðleikum og sorg.
Þær sáu til þess að okkur systkinin
skorti ekkert, hvorki af veraldlegum
né andlegum gæðum og veittu okkur
arfleifð er einkenndist af samstöðu
og umhyggju.
Fyrir mér er amma ennþá óhagg-
anleg stoð í lífi okkar líkt og jarðveg-
urinn sem við stöndum á og hafið
sem umlykur okkur og ég trúi því
staðfastlega að eins og með allt ann-
að í hennar lífi þá hafi hún sjálf tekið
ákvörðun um að nú væri rétti tíminn
til að kveðja okkar í hinsta sinn. Hún
hafði á örfáum árum misst bæði dótt-
ur sína og barnabarn en sá ólýsanlegi
harmur sem af því hlaust hafði dreg-
ið mikið úr eldmóði hennar og lífs-
vilja. En þrátt fyrir sorg og söknuð
þá brotnaði hún ekki heldur stóð
upprétt og reyndi með öllum sínum
mætti að styðja við sína nánustu og
hjálpa þeim að lifa við ævarandi
söknuð.
Í mínum huga er til lítill heimur
þar sem náttúran skartar sinni feg-
urstu mynd með ævarandi sólskini
og hlýju. Í þessum litla heimi er lítill
bær þar sem hamingja og gleði ráða
ríkjum. Þar stendur amma núna í
eldhúsinu og bakar kleinur og flat-
brauð og talar við kisur, hunda og
ótal önnur dýr sem raða sér í kring-
um hana með eftirvæntingu og
hlusta af mikilli athygli. Við eldhús-
borðið sitja afi, frænka og Signý syst-
ir við listsköpun og lestur og horfa
brosandi á hvert annað fullkomlega
hamingjusöm og glöð yfir því að hús-
móðirin sé komin heim í litla bæinn
þeirra.
Örlygur Ólafsson
og fjölskylda.
Blessi þig blómjörð
blessi þig útsær
blessi þig heiður himinn.
Elski þig alheimur
eilífð þig geymi
signi þig sjálfur Guð.
(Jóh. úr Kötlum.)
SIGNÝ
SVEINSDÓTTIR